Fara í efni

Sveitarstjórn

271. fundur 11. september 2018 kl. 15:13 - 15:41 í stjórnsýsluhúsinu Innrimel 3
Nefndarmenn
 • Björgvin Helgason oddviti
 • Daníel Ottesen varaoddviti
 • Guðjón Jónasson vararitari
 • Ragna Ívarsdóttir aðalmaður
 • Helga Harðardóttir aðalmaður
 • Helgi Magnússon 1. varamaður
 • Sunneva Hlín Skúladóttir 1. varamaður
Starfsmenn
 • Linda Björk Pálsdóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Linda Björk Pálsdóttir sveitarstjóri
Dagskrá
Björgvin Helgason, oddviti, bauð fundarmenn velkomna og setti fund skv. fyrirliggjandi dagskrá.

Brynja Þorbjörnsdóttir og Atli Viðar Halldórsson boðuðu forföll.

1.Sveitarstjórn - 270

1808005F

Fundargerðin framlögð.

2.Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd - 90

1808008F

DO fór yfir helstu atriði fundarins.
 • Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd - 90 USN nefnd leggur til við sveitarstjórn að hafna erindi bréfritara miðað við gefnar forsendur.
  Í skipulagslögum nr. 123/2010 2. gr segir: " frístundabyggð: svæði fyrir frístundahús, þ.e byggð sem ekki er ætluð til fastrar búsetu."
  Þar að auki er erindið ekki í samræmi við þá stefnu sem USN nefnd hefur sett sér í skipulagsmálum.
  Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu: "Sveitarstjórn samþykkir tillögu nefndarinnar um að hafna erindinu." Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 5 atkvæðum, RÍ og SHS voru á móti.
 • Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd - 90 USN nefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja erindið. Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu: "Sveitarstjórn samþykkir tillögu nefndarinnar um að heimila niðurrif á tollskýli mhl. 02 og 03, svæðið verður malbikað að framkvæmd lokinni." Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
 • Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd - 90 Umhverfisfulltrúi lagði fram drög að umsögn.
  USN nefnd samþykkir að vísa umsögninni til afgreiðslu í sveitarstjórn.
  Bókun fundar Efni: Stækkun kjúklingabús að Hurðarbaki, Hvalfjarðarsveit í allt að 192.000 eldisrými - umsögn Hvalfjarðarsveitar um frummatsskýrslu:

  Með bréfi Skipulagsstofnunar dags. 16. júlí 2018 var sveitarfélaginu Hvalfjarðarsveit send Frummatsskýrsla EFLU Verkfræðistofu, f.h. Matfugls ehf., vegna fyrirhugaðrar stækkunar á kjúklingabúi Matfugls að Hurðarbaki í Hvalfjarðarsveit. Í bréfinu var óskað eftir umsögn sveitarfélagsins (í samræmi við 10 gr. laga nr. 106/2000 og 24. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum) um skýrsluna sem og að Hvalfjarðarsveit gerði grein fyrir þeim leyfum sem framkvæmdin er háð og eru á starfssviði sveitarfélagsins.
  Hvalfjarðarsveit vill benda á að um gríðarlega framleiðsluaukningu er að ræða og því sé mikilvægt að gæta fyllstu varúðar vegna aukinnar sýkingar- og mengunarhættu sem stærra bú hafi eðli málsins skv. í för með sér frá því sem nú er. Þá telur Hvalfjarðarsveit nauðsynlegt að deiliskipulag það sem í gildi er á jörðinni Hurðarbaki, og sem er frá árinu 1999, verði endurskoðað en í bréfi frá Skipulagsstofnun til sveitarfélagsins dags. 5. mars 2018 kemur fram að stofnunin telji deiliskipulagið ,,gamalt og ófullkomið" og ,,eðlilegt að það verði unnið að nýju, m.a. með hliðsjón af breyttum reglugerðarákvæðum og til að bæta við nauðsynlegum forsendum leyfisveitinga." Tekur sveitarfélagið undir þessar ábendingar í bréfi stofnunarinnar og gerir þær að sínum.
  Í frummatsskýrslunni segir m.a. að,,framkvæmdin sé að öðru leyti í samræmi við það byggingarmagn sem leyft er í gildandi deiliskipulagi svæðisins og önnur ákvæði og því telur framkvæmdaaðili ekki vera þörf á endurskoðun deiliskipulags vegna þess." Með vísan til þess sem fram kemur hér að framan leggur Hvalfjarðarsveit áherslu á að deiliskipulagið verði endurskoðað með tilliti til aukinnar framleiðsluaukningar og breyttra byggingaráforma þar sem núverandi deiliskipulag sé ekki fullnægjandi hvað þessi atriði varðar.

  Í kafla 4 í frummatsskýrslunni er skýrt frá fyrir umfangi og áherslum mats fyrirhugaðrar framkvæmdar á umhverfi jarðarinnar Hurðarbaks. Vegna þess sem fram kemur þar gerir sveitarfélagið eftirfarandi athugasemdir:
  a.
  Um vatn og vatnsgæði.

  Um áhrif á lífríki og grunn- og yfirborðsvatn
  Um Svínadal liggur Laxá í Leirársveit sem er góð og gjöful veiðiá en um leið viðkvæmur viðtaki þegar kemur að mögulegri spillingu vatnsgæða. Í skýrslunni kemur fram hvaða bújarðir munu taka við áburði til dreifingar og rennur Laxá með landamerkjum tveggja þeirra, þ.e. Hurðarbaks og Eyrar. Hvalfjarðarsveit telur að afar brýnt sé að meta sérstaklega áhrif aukinnar dreifingar hænsnaskíts á þessum jörðum á vatnsgæði m.t.t. til lífríkis árinnar. Þá bendir sveitarfélagið jafnframt á að Laxá rennur í Grunnafjörð sem er á svokölluðu Ramsarsvæði.

  Grunnafjörður var friðlýstur árið 1994 og er svæðið friðland en þar eru víðáttumiklar leirur með mjög auðugu fuglalífi. Árið 1996 var svæði samþykkt sem Ramsar-svæði og er það því undir vernd samkvæmt Ramsar-samningnum um votlendi sem hefur alþjóðlegt gildi. Grunnafjörður er eitt þeirra þriggja svæða á Íslandi sem hafa verið tilkynnt á skrá samningsins sem kveður m.a. á um að aðildarríki skuli styrkja vernd votlendis og votlendisfugla með stofnun friðlanda. Aðildarríki samningsins eru hvött til þess að samþætta umhverfissjónarmið er tengjast votlendi og sömuleiðis að undirbúnings- og ákvörðunarferli þeim tengt skuli vera greinilegt og sýnilegt. Vegna samningsins hefur verið samþykkt ályktun þar sem aðildarlönd eru m.a. hvött til þess að styrkja viðleitni sína til þess að allar framkvæmdir, áætlanir, verkefni og stefnur sem geta haft áhrif á vistfræðilega eiginleika votlenda á Ramsar-skránni verði háð ítarlegu mati á áhrifum. Sveitarfélagið telur skv. þessu að skylt sé að gera grein fyrir mögulegum áhrifum stækkunar búsins að Hurðarbaki á lífríki Grunnafjarðar í frummatsskýrslunni. Engin umfjöllun er í skýrslunni um möguleg áhrif framkvæmdarinnar á lífríki Grunnafjarðar né með hvaða hætti hún samræmist skuldbindingum íslenska ríkisins að sjá til þess að hann njóti verndar.

  Í umfjöllun í skýrslunni um grunn- og yfirborðsvatn á bls. 51 er vísað til þess að núgildandi starfsleyfi framkvæmdaraðila leggi sérstaklega á herðar hans skyldu til að halda uppi vöktunarmælingum til að kanna hvort að starfsemi búsins hafi áhrif á köfnunarefnisbúskap í Laxá í Leirársveit og að slíkar mælingar skil fara fram að vori og hausti. Í skýrslunni kemur hins vegar fram að framkvæmdaraðili hafi ekki framkvæmt slíkar mælingar heldur ,,notið góðs" af mælingum sem framkvæmdar séu í ánni vegna árlegrar umhverfisvöktunar iðnaðarsvæðisins á Grundartanga sem EFLA verkfræðistofa sinnir. Þá segir jafnframt: ,,Þar er reyndar köfnunarefni ekki mælt, en m.a. leiðni vatnsins, sem gefur vísbendingar um magn uppleystra jóna." Framkvæmdaraðili hefur s.s. ekki uppfyllt skilyrði starfsleyfis síns hvað varðar það að mæla köfnunarefni í ánni.

  Sveitarfélagið hefur undir höndum athugasemdir Veiðifélags Laxár í Leirársveit við frummatsskýrsluna sem send var Skipulagsstofnun með bréfi dags. 30. ágúst sl. Með umsögninni fylgdi álit Hafrannsóknarstofnunar á hugsanlegum áhrifum stækkunar búsins að Hurðarbaki á lífríki Laxár. Hafrannsóknarstofnun gerir í áliti sínu athugasemdir við að efnagreiningarskýrslur frá MATÍS, sem vitnað er til í skýrslunni sem rökstuðnings vegna umfjöllunar um vatns og vatnsvernd, finnist ekki. Þá segir í álitinu neðarlega á bls. 2: ,,Að mati Hafrannsóknarstofnunar er talið nauðsynlegt að vakta næringarefnainnihald og blaðgrænu,m bæði á áhrifasvæði þar sem áburður af túnum getur borist í Laxá, og síðan ofan svæðisins þar sem áhrifa af dreifingu hænsnaskíts gætir ekki. Á bls 51 í frummatsskýrslu kemur fram að skv. ákvæðum í fylgiskjali með starfsleyfi beri framkvæmdaraðila að láta vakta Laxá reglulega. Þar kemur fram að Matfugl hafi notið góðs af vöktun iðnaðarsvæðisins á Grundartanga. Umhverfisvöktun iðnaðarsvæðisins á Grundartanga mælir hins vegar ekki næringarefni, bara leiðni, Cl, SO4 og F. Það verður að láta mæla næringarefnin til að gera fullyrt um hvort áhrifa af starfseminni gætir eður ei. [...]" Samkvæmt mati Hafrannsóknarstofnunar liggja því ekki fyrir fullnægjandi rannsóknir um það hvort að ástand vatns í Laxá sé með þeim hætti sem haldið er fram í frummatsskýrslunni.

  Þá vísar sveitarfélagið til áðurnefndrar umsagnar Veiðifélagsins og tekur undir það sem fram kemur í henni, sérstaklega atriði nr. 1, 2, 4, 5, 6, 7, 10, 12, 14, 16 og 17.

  Með vísan til allra framangreindra atriða gerir Hvalfjarðarsveit þá kröfu að ítarlegt mat verði lagt á það í frummatsskýrslunni hvort að stækkun kjúklingabús, sem hafi í för með sér meira en tvöföldun núverandi framleiðslugetu og þar með mikla aukningu hænsnaskíts sem dreift sé á tún m.a. við Laxá, hafi áhrif á vatnsgæði viðkvæms vistkerfis í Laxá sem og í Grunnafirði. Sú umfjöllun sem sé í frummatsskýrslunni í núverandi mynd sé allsendis ófullnægjandi.

  Um neysluvatn
  Í frummatsskýrslunni er því haldið fram að nóg sé af neysluvatni í sveitinni og að stækkun kjúklingabúsins muni ekki skapa vandamál í því sambandi. Sveitarfélagið gerir athugasemd við þessa fullyrðingu þar sem staðan í neysluvatnsmálum þess sé alls ekki góð. Þar er takmarkað magn af neysluvatni. Því séu líkur á því að aukin vatnsnotkun að Hurðarbaki eftir stækkun býlisins, en skv. skýrslunni muni meðal vatnsnotkun þrefaldast eða fara úr 11 þús ltr./sólarhring í 33 þús ltr./sólarhring, muni valda vandræðum með neysluvatn í sveitarfélaginu. Sama ástand sé á Grundartangasvæðinu og annars staðar innan sveitarfélagsins og því sé ekki hægt að reiða sig á það að þaðan geti búið fengið allt það vatn sem það þurfi til rekstrarins til ókominna ára. Grundartangasvæðið sé iðnaðarsvæði í stöðugri uppbyggingu og vatnsþörf fyrirtækja þar, hvort sem hún er vegna nýrra verksmiðja á svæðinu eða breytinga hjá þeim sem þar eru þegar með rekstur, kunni að breytast sem geti leitt til þess að ekki verði nægilegt vatn aukreitis til að veita nægilegu vatni til rekstraraðila.

  Sveitarfélagið bendir vegna þessa atriðis jafnframt á að í frummatsskýrslu sé vísað til munnlegs samnings við Veitur ohf. vegna vatnsveitu frá Grundartanga. Vegna þessa bendir sveitarfélagið á að vatnsveita á Grundartangasvæðinu sé í höndum Vatnsveitufélags Hvalfjarðarsveitar sf. og því geti tæpast verið um samning við Veitur að ræða í tengslum við þetta. Þá geti munnlegur samningur um neysluvatn varla talist traust undirstaða undir jafn vatnsfrekan rekstur og þann sem rekstraraðili hefur með höndum að Hurðarbaki.

  Í frummatsskýrslunni er vísað til þess að vatnsból sé í brekkurótum Miðfellsmúla eða um 150 metra frá fyrirhuguðum alifuglahúsum. Í skýrslunni kemur hins vegar ekkert fram um það hversu stórt umrætt vatnsból og því sé alls óvíst hvort að það ból geti fullnægt vatnsþörf búsins. Þá hafi ekki verið lagt neitt mat á það af hálfu framkvæmdaraðila hvort og þá hversu flókið sé að nýta umrætt vatnsból.

  Með vísan til framangreindra atriða telur sveitarfélagið að gera verði mun ítarlegri grein fyrir atriðum er varða neysluvatn í frummatsskýrslunni en nú er gert.

  b.
  Önnur atriði

  Samgöngur
  Sveitarfélagið bendir á að með stóraukinni framleiðslu muni flutningsþörf til og frá búinu stóraukast og því akstur stórra aksturstækja. Sveitarfélagið telur að vegakerfið í kringum Hurðarbaki sé ekki hannað fyrir mikla þungaflutninga og telur því nauðsynlegt að gerð sé grein fyrir því í frummatsskýrslunni hvernig standa eigi að slíkum flutningum og þá hvort þeir muni auka mengun í sveitarfélaginu.

  Dreifing hænsnaskíts
  Óskað er eftir greinargerð um það í frummatsskýrslu um það hvernig haldið verði utan um það af hálfu rekstraraðila hvert magn áburðar er sem dreift verður í sveitarfélaginu og hvert hann fer. Í eftirlitsskýrslu Umhverfisstofnunar vegna heimsóknar að Hurðarbaki kemur fram að rekstraraðili hafi talað um það við eftirlitsmenn að erfitt væri að halda til haga upplýsingum um það á hvaða jarðir dreifing á skít fari fram. Sveitarfélagið telur nauðsynlegt að rekstraraðili geti upplýst hvernig staðið verði að dreifingu á skít, þ.á m. því magni sem fari á hverja jörð.

  Sveitarfélagið bendir jafnframt á að ekki sé í frummatsskýrslunni gerð grein fyrir því hvernig staðið sé að dreifingu þess skíts sem ekið sé til bænda á þeim nágrannajörðum sem við slíku taka. Telur sveitarfélagið að upplýsa þurfi hvort og þá hvernig skíturinn sé geymdur hjá þeim aðilum, við hvaða aðstæður o.s.frv. ef honum er ekki dreift strax á viðkomandi tún. Þar sem því er lýst í frummatsskýrslunni að skít sé safnað í hauggeymslu að Hurðarbaki í 3 mánuði að sumarlagi og 4,5 mánuð að vetrarlagi, áður en heimilt er að dreifa honum skv. reglugerð um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri sbr. og starfsleyfisskilyrði 2.10. í rekstrarleyfi rekstraraðila, telur sveitarfélagið augljóst að mikið magn af skít fari út í einu þegar heimilt er að dreifa að loknum framangreindum tímabilum. Sé skít ekið til umræddra bænda án þess að honum sé dreift strax þurfa að liggja fyrir upplýsingar um hugsanleg umhverfisáhrif þess að þeir geymi skítinn við ófullnægjandi aðstæður.

  Fráveita
  Í kaflanum ,,Samantekt" undir ,,Fráveita" er því lýst að nýir settankar verði byggðir við nýju húsin án þess að gerð sé grein fyrir því hvort þeir rúmist innan byggingarreita deiliskipulagsins.
  Hvalfjarðarsveit fer fram á að gerð verið betri grein fyrir stærðargráðu og frágangi þessa þáttar framkvæmdarinnar og hvort frárennsli frá settönkum sé tekið með í inn í útreikninga í skýrslunni hvað varðar heildarmagn áburðar sem dreift er í sveitarfélaginu.

  Lykt
  Sveitarfélagið telur að umfjöllun um lyktarmengun sé ófullnægjandi í skýrslunni. Það kunni vera rétt sem fram kemur í skýrslunni þess efnis að ekki hafi verið kvartað til Heilbrigðiseftirlits Vesturlands vegna lyktar frá býlinu en það sé engu að síður þannig að lykt frá Hurðarbaki valdi nú þegar óþægindum og ama bæði á meðal nágranna og veiðimanna sem veiða í Laxá í Leirársveit. Hefur óánægja með lyktarmengunina verið nokkur þrátt fyrir að skíturinn sé geymdur og honum dreift þurrum til að draga úr lykt o.fl. Telur sveitarfélagið augljóst að stóraukið magn skíts, bæði í hauggeymslu að Hurðarbaki og á þeim túnum sem skítnum er dreift á, muni leiða til stóraukinnar lyktarmengunar. Fyrir utan það hve slíkt er leiðigjarnt getur svoleiðis nokkuð haft í för með sér minni áhuga veiðimanna til að kaupa veiðileyfi í Laxá og minni áhuga ferðamanna á að kaupa sér gistingu að Hlíð.

  Sveitarfélagið telur að ekki sé því hægt að halda því fram eins og gert er í skýrslunni að áhrif framkvæmdarinnar á lyktarmengun verði óveruleg og telur um leið að ekki sé gerð nægileg grein fyrir þeim áhrifum sem aukin lyktarmengun kunni að hafa á svæðinu. Telur sveitarfélagið að umfjöllun um þetta atriði sé ekki fullnægjandi í skýrslunni.

  Umhverfisstefna Hvalfjarðarsveitar
  Samkvæmt umhverfisstefnu Hvalfjarðarsveitar, sem sveitarstjórn samþykkti þann 10. apríl sl., hefur sveitarstjórn ákveðið að lýsa því yfir að ekki verði gert ráð fyrir frekara þauleldi í sveitarfélaginu og að þessi stefna muni m.a. endurspeglast í afgreiðslu aðal- og deiliskipulagstillagna, umfjöllun um starfsleyfistillögur o.s.frv. Með þauleldi er hér átt við starfsemi sem fellur undir tölulið 6.6 í 1. viðauka reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, þ.e. stöðvar þar sem þauleldi alifugla eða svína fer fram með fleiri en 40.000 stæði fyrir alifugla, 2.000 stæði fyrir alisvín (yfir 30 kg), eða 750 stæði fyrir gyltur.

  Sveitarfélagið telur því að það væri ekki í samræmi við umhverfisstefnu Hvalfjarðarsveitar að leyfi verði gefið fyrir þauleldisbúi þar sem yrðu allt að 192.000 stæði.

  Skipulag
  Þegar unnið var að núgildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins var ákveðið að hafa ákveðin gildi að leiðarljósi við þá vinnu. Í greinargerð aðalskipulagsins er vísað til þeirra gilda í svokölluðu leiðarljósi skipulagsins en þar segir m.a. sveitarfélagið skuli leggja áherslu á að umgengni og nýting lands sé til fyrirmyndar og dregið verði úr mengun og neikvæðum umhverfisáhrifum. Með vísan til þessa telur Hvalfjarðarsveit að það sé ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag að leggja viðkvæm og vernduð vistkerfi að veði með því að leyfa meira en tvöföldun framleiðslugetu. Sveitarfélagið telur það því ekki allskostar rétt sem fram kemur í frummatsskýrslunni að fyrirhugaðar framkvæmdir séu í samræmi við gildandi aðalskipulag.

  c.
  Leyfismál
  Að lokum fylgja hér upplýsingar um þau leyfi sem framkvæmdin er háð og eru á starfssviði Hvalfjarðarsveitar:

  *Sækja þarf um framkvæmdarleyfi til Hvalfjarðarsveitar.

  *Sækja þarf um byggingarleyfi til Hvalfjarðarsveitar.

  Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu: "Sveitarstjórn samþykkir umsögnina." Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
 • Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd - 90 USN nefnd getur ekki orðið við erindi bréfritara þar sem beiðnin samræmist ekki gildandi skipulagi.
  Í gildandi skipulagi er umrædd lóð skipulögð fyrir fráveitumannvirki en ekki íbúðarhús þar sem lóðin stendur of nálægt sjó, er utan gatnakerfis og samræmist ekki götumynd svæðisins.

  USN nefnd leggur til við sveitarstjórn að hafna erindinu.  Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu: "Sveitarstjórn samþykkir tillögu nefndarinnar um að hafna erindinu, í deiliskipulagi svæðisins er gert ráð fyrir fráveitumannvirkjum á umræddri lóð. Auk þess er viðkomandi lóð utan gatnakerfis og samræmist ekki götumynd svæðisins. " Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
 • Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd - 90 USN nefnd gerir ekki athugasemd við breytingu á svæðiskipulagi á höfuðborgarsvæðinu 2040 - Vaxtarmörk Álfsnes

  USN nefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja erindið.
  Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu: "Sveitarstjórn samþykkir tillögu nefndarinnar um afgreiðslu á erindinu og gerir ekki athugasemdir við skipulagsbreytinguna." Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
 • Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd - 90 USN nefnd gerir ekki athugasemd við breytingu Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030, iðnaðarsvæði fyrir efnisvinnslu við Álfsnesvík.

  USN nefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja erindið.
  Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu: "Sveitarstjórn samþykkir tillögu nefndarinnar um afgreiðslu á erindinu og gerir ekki athugasemdir við skipulagsbreytinguna." Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

3.Fjölskyldu- og frístundanefnd - 2

1808007F

HH fór yfir helstu atriði fundarins.
 • Fjölskyldu- og frístundanefnd - 2 Jafnréttisáætlun Hvalfjarðarsveitar

  Nefndin yfirfór jafnréttisáætlun Hvalfjarðarsveitar og gerði lítilsháttar breytingar. Í jafnréttisáætlun kemur fram endurskoðunarákvæði og ber nefndinni að fara yfir jafnréttisáætlunina í upphafi hvers kjörtímabils og eigi síðar en ári frá kjördegi.
  Nefndin hefur eftirlitsskyldu að gegna gagnvart stjórnsýslunni þess efnis að hlutfall kynjanna sé sem jafnast við skipun í ráð, nefndir og stjórnir.

  Nefndin felur félagsmálastjóra að afla gagna fyrir næsta fund þar sem nefndinni verður kunngert kynjahlutföll í skipun fyrrgreindra hlutverka.

  Nefndinni ber að viðhalda jafnréttisstefnu Hvalfjarðarsveitar sem samþykkt var í sveitarstjórn þann 15. desember 2015 og mun sú vinna fara fram á næsta fundi.

  Fjölskyldu- og frístundanefnd vísar breyttri jafnréttisáætlun til sveitarstjórnar til afgreiðslu.
  Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu: "Sveitarstjórn samþykkir breytingar nefndarinnar á Jafnréttisáætlun Hvalfjarðarsveitar." Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
 • Fjölskyldu- og frístundanefnd - 2 Reglur um íþróttastyrki

  Nefndin yfirfór íþróttastyrki Hvalfjarðarsveitar sem samþykktir voru í sveitarstjórn þann 28. nóvember 2017.

  Fjölskyldu- og frístundanefnd gerir breytingartillögu að eftirfarandi:
  Íþróttastyrkir munu framvegis heita íþrótta- og tómstundastyrkir Hvalfjarðarsveitar.

  Í 1. gr. er lagt til að tómstundaávísanir hækki úr 40.000 kr. á almanaksári í 60.000 kr. Lagt er einnig til að íþróttastyrkir til æfinga-og keppnisferða erlendis í 2. og 3. gr. hækki hvort um sig í 30.000 kr. á almanaksári.

  Einnig voru aðrar minniháttar breytingar gerðar á regluverki íþrótta- og tómstundastyrkja.

  Fjölskyldu- og frístundanefnd vísar tillögu sinni að breyttu fyrirkomulagi íþrótta- og tómstundastyrkja til sveitarstjórnar til afgreiðslu.
  Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu: "Sveitarstjórn samþykkir tillögu nefndarinnar um lagfæringar á reglum íþrótta- og tómstundastyrktarsjóðs. Jafnframt samþykkir sveitarstjórn tillögur nefndarinnar um hækkun tómstundastyrks úr 40.000 kr. á almanaksári í 60.000 kr. og hækkun íþróttastyrks til æfinga- og keppnisferða erlendis hækki í 30.000 kr. á almanaksári. Hækkanir þessar taki þegar gildi." Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
 • Fjölskyldu- og frístundanefnd - 2 Íþróttastarf barna og ungmenna í Hvalfjarðarsveit hjá aðildarfélögum ÍA.

  Samkvæmt nýútgefnum æfingatöflum nokkura aðildarfélaga Íþróttabandalags Akraneskaupsstaðar þá kom í ljós að æfingatímar barna á virkum dögum í nokkrum aldursflokkum byrja klukkan 14:00. Breyting á þessum æfingatímum eða þessi ákvörðun er þess valdandi að börn í Hvalfjarðarsveit á vissu aldursbili geta ekki lagt áframhaldandi stund á sínar íþóttagreinar en skólarútan kemur á Akranes klukkan 15:00.

  Nefndin telur mjög mikilvægt að börn á þessum aldri njóti íþróttastarfs til heilsueflingar, félagslegrar styrkingar og hefur allt íþróttastarf forvarnargildi.

  Fjölskyldu - og frístundanefnd vísar málinu til skoðunar hjá sveitarstjóra og félagsmála- og frístundafulltrúa.
  Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu: "Sveitarstjórn tekur undir með nefndinni um mikilvægi þess að börn njóti íþróttastarfs til heilsueflingar, félagslegrar styrkingar og að allt íþróttastarf hafi forvarnargildi. Staða sveitarfélagsins í þessu máli er hins vegar sú að það hefur ekki beina aðkomu að málinu en sveitarstjórn er tilbúin og mun skoða möguleika þess að vinna að breytingum þannig að svo megi verða. Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

4.Menningar- og markaðsnefnd - 2

1808002F

Fundargerð nefndarinnar framlögð.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu: "Sveitarstjórn vill þakka öllum þeim sem komu að framkvæmd og skipulagningu Hvalfjarðardaga sem haldnir voru helgina 24.-26. ágúst sl. og gerðu þá að veruleika. Framkvæmd slíkrar hátíðar er ekki sjálfgefin og byggist á óeigingjörnu og góðu samstarfi margra aðila. Þeir fjölmörgu styrktaraðilar Hvalfjarðardaga eiga líka þakkir skyldar fyrir sín framlög. Sérstaklega vill sveitarstjórn þakka Ásu Líndal Hinriksdóttur félagsmála- og frístundafulltrúa fyrir góða vinnu við skipulagningu og utanumhald." Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

5.Eigendur að landi Ásfells - beiðni um breytingu á skráningu lands.

1809003

Ósk um breytingu á skráningu lands úr þéttbýli í dreifbýli.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu: "Sveitarstjórn samþykkir að vísa erindinu til USN nefndar til skoðunar." Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

6.Neðstiás 11- Rekstrarleyfi

1809002

Erindi frá Sýslumanninum á Vesturlandi dags. 16.08.2018. Gestur B. Gestsson sækir um rekstrarleyfi til þess að reka gististað í flokki II,frístundahús.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Framlagt er erindi frá Sýslumanninum á Vesturlandi dags. 16.08. 2018. Beiðni um umsögn vegna framkominnar umsóknar um rekstrarleyfi til þess að reka gististað í flokki II í frístundahúsi að Neðstaás 11 í landi Kambshóls, sbr. skilgreining gistiflokka í lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Þar sem umrædd húseign er innan skilgreinds frístundahúsasvæðis skv. gildandi aðalskipulagi þá telur sveitarstjórn að hinn umbeðni rekstur gististaðar í flokki II muni ekki samræmast gildandi skipulagi á svæðinu. Vegna þessara annmarka getur sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar ekki veitt jákvæða umsögn um umsóknina, sbr. 10. gr. laganna." Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

7.Tillaga um viðauka við fjárhagsáætlun 2018 nr. 13

1809008

Tillaga um viðauka við fjárhagsáætlun 2018 nr. 13 vegna kostnaðar við áfyllingu slökkvitækja á heimilum í Hvalfjarðarsveit.
Tillaga um viðauka við fjárhagsáætlun 2018 nr. 13 vegna kostnaðar við áfyllingu slökkvitækja á heimilum í Hvalfjarðarsveit.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir fjárheimild vegna endurnýjunar á áfyllingu á slökkvitækjum á heimilum í Hvalfjarðarsveit. Um er að ræða áfyllingu á einu tæki pr. íbúðarhúsnæði þar sem íbúi er með skráð lögheimili, íbúar skulu koma tækjunum sjálfir á auglýstan stað. Framkvæmd og umsjón með verkinu er í höndum byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar.
Viðauki nr. 13 við fjárhagsáætlun 2018 lagður fram vegna framangreinds. Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir viðbótarfjárheimild á deild 07024, samtals kr. 900.000, er skiptist á bókhaldslykla sbr. framlagðan viðauka. Útgjöldum verði mætt af óvissum útgjöldum, deild 21085 og lykli 5971."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Til máls tók RÍ.

8.Skýrsla starfshóps um aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldishegðun í íþrótta-og æskulýðsstarfi.

1809006

Skýrsla frá starfshópi Mennta- og menningarmálaráðherra um aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldishegðun í íþrótta- og æskulýðsstarfi.
Skýrsla starfshóps um aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldishegðun í íþrótta- og æskulýðsstarfi framlögð.
Sveitarstjórn samþykkir að vísa skýrslunni til umfjöllunar í fræðslunefnd og fjölskyldu- og frístundanefnd.

9.862. fundur stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

1809005

862.fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga
Fundargerðin framlögð.

Fundi slitið - kl. 15:41.

Efni síðunnar