Fara í efni

Um sveitarfélagið

Hvalfjarðarsveit er öflugt sveitarfélag  með góða innviði og grunnþjónustu.  Samfélagið er fjölskylduvænt með fjölbreyttu atvinnulífi, menningu, stórbrotinni náttúru og landslagi.  Nægt lóðaframboð er til staðar, bæði í þéttbýliskjörnum og á iðnaðarsvæðinu á Grundartanga auk þess sem sumarhúsalóðir og aðrar lóðir í dreifbýli eru til staðar.  Hvalfjarðarsveit býður alla velkomna í sveitarfélagið, þar sem lífið er ljúft.   

Sveitarfélagið
Hvalfjarðarsveit varð til 1. júní 2006 með sameiningu fjögurra hreppa, oft kallaðir „hrepparnir sunnan Skarðsheiðar“.  Þetta voru Hvalfjarðarstrandarhreppur, Skilmannahreppur, Leirár- og Melahreppur og Innri-Akraneshreppur.  
Íbúar 1. janúar 2023 voru 765.  Þéttbýliskjarnar eru þrír, Melahverfi, Hlíðarbær og Krossland, þar er Melahverfi fjölmennast með 126 íbúa.  Að auki er fjöldi frístundasvæða í sveitarfélaginu og eru frístundahús um 560.

Stjórnsýslan
Í sveitarstjórnarkosningum 2022 voru óbundnar kosningar (persónukjör).  Í sveitarstjórn kjörtímabilið 2022-2026 sitja Andrea Ýr Arnarsdóttir, oddviti, Helga Harðardóttir, varaoddviti, Helgi Pétur Ottesen, ritari, Elín Ósk Gunnarsdóttir, vararitari, Birkir Snær Guðlaugsson, Inga María Sigurðardóttir og Ómar Örn Kristófersson.  Sveitarstjóri er Linda Björk Pálsdóttir.  Í sveitarfélaginu eru starfandi fimm fastanefndir auk ungmennaráðs og fjölda annara samstarfsnefnda og stjórna.  Stjórnsýsluhúsið er staðsett að Innrimel 3 í Melahverfi, þar starfa ellefu manns í tíu stöðugildum.  Í húsinu er Heilbrigðiseftirlit Vesturlands jafnframt staðsett.

Skólarnir
Leik- og grunnskóli Hvalfjarðarsveitar er starfræktur á tveimur stöðum í sveitarfélaginu með samtals um 130 börn.  Leikskólinn Skýjaborg í Melahverfi er tveggja deilda leikskóli með 40 börn og byggir starfið á kenningum John Dewey um að læra af reynslunni þar sem börnin eru virkir þátttakendur í skipulagningu og framkvæmd leikskólastarfsins.  Grunnskólinn Heiðarskóli við Leirá með um 90 nemendur í 1.-10. bekk starfar eftir leiðum Uppbyggingarstefnunnar; Uppeldi til ábyrgðar þar sem mikið er lagt upp úr sjálfsaga og ábyrgð einstaklings á eigin hegðun og námi.  Við skólann, sem er vel tækjum búinn, er þróunarverkefni um að nota spjaldtölvur í námi og leik auk þess sem áhersla er á að auka ábyrgð barna á eigin námi með fjölbreytni í kennsluháttum og þemanámi.
Við Leik- og grunnskóla Hvalfjarðarsveitar starfa um 40 starfsmenn.  Markviss læsiskennsla, að rækta læsi í víðum skilningi, hefst við upphaf leikskólagöngu og heldur áfram alla skólagönguna í tengslum við allt skólastarf og allar námsgreinar/námsþætti.  Skólinn er Grænfánaskóli með áherslu á umhverfismennt og útinám.  Gildi skólans eru vellíðan, virðing, metnaður og samvinna en þau eru rauður þráður í gegnum skólanámskrána.  Í Heiðarskóla er rekin Frístund, lengd viðvera, að loknu skólastarfi.

Íþróttamiðstöðin Heiðarborg er staðsett við Heiðarskóla en þar er íþróttasalur, líkamsræktartæki og sundlaug.  Heiðarborg er opin fyrir almenning að undanskildu sumrinu þegar sundlaugin að Hlöðum er opin. 

Á sumrin er rekinn vinnuskóli fyrir ungmenni í sveitarfélaginu en markmið með rekstri vinnuskólans er að veita unglingum í sveitarfélaginu sumarvinnu og kenna þeim að vinna og bera virðingu fyrir umhverfinu og náttúrunni. 

Hvalfjarðarsveit tekur þátt í rekstri Tónlistarskólans á Akranesi og geta nemendur úr sveitarfélaginu sótt tónlistarnám þar auk þess sem kennsla fer einnig að einhverju leiti fram í Heiðarskóla fyrir þá nemendur sem þar eru.  Hlutverk Tónlistarskólans er að stuðla að öflugu tónlistarlífi, vinna að aukinni hæfni, þekkingu og þroska einstaklinga auk þess sem áhersla er lögð á að skólinn þjóni öllum þeim sem eftir tónlistarnámi sækjast, án tillits til aldurs, og skólanum ber jafnframt að taka tillit til margbreytilegra áhugasviða nemenda, getu þeirra og þroska. 

Framhaldsskólar á svæðinu eru tveir, Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi og Menntaskóli Borgarfjarðar í Borgarnesi.  Báðir skólar bjóða upp á fjölbreytt nám til starfsréttinda og stúdentsprófs og í FVA er einnig fjölbreytt starfsnám.           

Menningin (og mannlífið)
Í Hvalfjarðarsveit er góð þjónusta við aldraða og öflugt félagsstarf fer fram með skipulögðum hætti tvisvar sinnum í viku frá september fram í maí þar sem áhersla er lögð á fjölbreytni auk fastra liða s.s. þorrablóts og vorferðar auk sundleikfimi tvisvar  í viku í Heiðarborg yfir vetrartímann.  Hvalfjarðarsveit á 10% eignarhlut í Höfða, hjúkrunar- og dvalarheimili, sem staðsett er á Akranesi. 

Félagsheimili í eigu sveitarfélagsins eru tvö, Miðgarður og  Hlaðir.  Miðgarður er leigður út til almennings auk þess sem ýmis félagasamtök og hópar, s.s. kórar, kvenfélög og ungmennafélög fá afnot af því.  Félagsheimilið að Hlöðum er í langtímaleigu en þar er rekið Hernámssetrið sem er vandað safn minja og minninga um einstaka og merkilega sögu hernámsáranna 1940 til 1945.  Að Hlöðum er á sumrin rekið tjaldsvæði og sundlaug. 

Sveitarfélagið heldur árlega Hvalfjarðardaga þar sem ýmsir viðburðir og skemmtanir fara fram víðsvegar um sveitina.  Hvalfjarðarsveit á merka sögu að baki og margir kunnir einstaklingar úr Íslandssögunni koma við í sveitarfélaginu, s.s. Jón Hreggviðsson á Rein og Arnes Pálsson útilegumaður auk þess sem Harðar saga og Hólmverja gerist í Hvalfirði en hún er varðveitt í skinnhandriti.      

Umhverfið
Náttúru- og útivistarperlur, fjölbreytt landslag og fjölda áhugaverðra staða er víða að finna í Hvalfjarðarsveit, bæði sem tengjast sagnfræði og atvinnusögu auk kunnra staða og kennileita sem skáld og rithöfundar hafa fundið stað í verkum sínum enda náttúrufegurðin allmikil víðsvegar. 

Hvalfjörðurinn skartar mörgum fallegum gönguleiðum eins og í Botnsdal og Brynjudal, upp að fossinum Glym í Botnsá, hæsta fossi landsins með fallhæðina 198 metrar, en ganga að fossinum tekur á bilinu 3-4 klukkustundir.  Síldarmannagötur er vinsæl gönguleið úr Hvalfirði yfir í Skorradal. Fjallið Þyrill þar sem fundist hafa sjaldgæfir geislasteinar er austarlega í Hvalfirði, nærri Hvalstöðinni.  Akrafjall og Hafnarfjall eru í Hvalfjarðarsveit en þar eru vinsælar gönguleiðir. 

Á Hvalfjarðarströndinni er mikið um æðavarp og krækling en vinsælt er að tína hann þá mánuði sem óhætt er. 

Atvinnulífið
Í Hvalfjarðarsveit eru landbúnaður, iðnaður og ferðaþjónusta helstu atvinnugreinarnar.  Margskonar landbúnaðarstarfsemi er í sveitarfélaginu, kúa- og sauðfjárbú eru allmörg og hrossarækt víða stunduð ásamt rekstri eins svínauppeldisbús og tveggja kjúklingabúa.

Ferðaþjónusta er víðsvegar um sveitarfélagið, hótel eru rekin á Glym í Hvalfirði, Laxárbakka við Leirá og undir Hafnarfjalli.  Á Bjarteyjarsandi má fá leiðsögn um búið, veitingar og gistingu.  Hernámssetrið er einstök upplifun í Hvalfirði og yfir laxveiðitímann er veiðihúsið við Leirá þéttsetið.  Sumarbúðir eru reknar af KFUM og KFUK bæði í Ölver og Vatnaskógi, á Hvítanesi er boðið upp á sveitanámskeið fyrir börn á sumrin en allir þessir staðir njóta mikilla vinsælda ár hvert. 

Á Grundartanga er öflugt atvinnusvæði með fjölþætta starfsemi og þar er ein stærsta höfn landsins, Grundartangahöfn.  Fyrirtækjum á svæðinu fer fjölgandi en þau eru nú um 20 talsins og starfsmenn um 1.100 auk þess sem áætla má að nærri sami fjöldi hafi atvinnu af þjónustu sem tengist starfseminni með óbeinum hætti.  Svæðið, sem er eitt best vaktaða iðnaðarsvæði í heimi, leggur m.a. áherslu á uppbyggingu fyrirtækja sem stuðla að framhaldsvinnslu þeirra afurða sem falla til á Grundartanga, starfsemi sem byggir á endurnýtanlegri orku og veldur lágmarks umhverfisáhrifum og nýtingu úrgangs og afgangsorku sem til fellur á svæðinu.   

Norðurál er stærsta fyrirtækið á Grundartanga en þar starfa tæplega 600 manns, fyrirtækið er eftirsóttur vinnustaður með fjölbreytt störf, bæði meira og minna sérhæfð.  Norðurál fyrirhugar enn frekari uppbyggingu á svæðinu.  Elkem, járnblendiverksmiðjan á Grundartanga er með rúmlega 200 manns í vinnu en þar er framleitt hágæða málmblendi og áhersla lögð á að mæta kröfum viðskiptavina.  GT tækni sinnir margskonar þjónustu og framleiðslu en þar vinna um 80 manns, gámaflutningafyrirtækið Klafi ehf., fóðurverksmiðja Líflands, Vélsmiðjurnar Héðinn og Hamar eru á svæðinu svo eitthvað sé nefnt af þeim fjölda fyrirtækja sem þar eru og sinna margvíslegum og mikilvægum verkefnum.

Hvalstöðin í Hvalfirði, hvalskurðar- og vinnslustöð í Hvalfirði, var reist árið 1948 og þó hvalveiðar legðust af í tvo áratugi var Hvalstöðinni og öllum húsakosti henni viðkomandi, m.a. bryggju og bröggum frá stríðsárunum, vel við haldið af Kristjáni Loftssyni og fjölskyldu.  Um er að ræða mikilvægar og heillegar minjar um atvinnusögu Hvalfjarðar en þarna störfuðu þegar mest var um 100 manns.