Fara í efni
Hafnarfjall
2 NE 9 m/s
Akrafjall
4 NNE 11 m/s
Þyrill
3 E 9 m/s

Félagsstarf aldraðra

Félagsstarf aldraðra

Félagsstarf eldri borgara og öryrkja fyrir 67 ára og eldri er starfrækt að Kirkjubraut 40 á Akranesi. Félagsstarfið er ætlað fyrir íbúa Akraneskaupstaðar og Hvalfjarðarsveitar og er það opið alla virka daga frá kl. 13:00-16:00. Vikan skiptist þannig að á mánudögum, miðvikudögum og fimmtudögum er starfsemin ætluð eldri borgurum og þriðjudagarnir ætlaðir öryrkjum. 

Starfinu er ætlað að fyrirbyggja félagslega einangrun og koma til móts við áhugasvið, færni og þekkingu þátttakenda á hverjum tíma í ýmis konar listsköpun og verkefnum sem oft eru árstíðabundin. Félagsstarf aldraða hefur það markmið að stuðla að samskiptum og veita félagsskap. 

Umsjón með félagsstarfinu hefur Laufey Jónsdóttir verkefnisstjóri heimaþjónustu og gefur hún nánari upplýsingar bæði í tölvupósti á netfangiðlaufey.jonsdottir@akranes.isog í síma 433 1000. 

Félag eldri borgara á Akranesi og nágrenni - FEBAN 

Tilgangur félagsins er að gæta hagsmuna og réttinda eldra fólks á Akranesi og nágrenni og vinna að málefnum aldraðra í landinu. 

Félagið var stofnað 5. febrúar 1989 á Hótel Akranesi. Til stofnfundarins var boðað af undirbúningsnefnd sem félagsmálaráð Akraneskaupstaðar skipaði.

Í nefndinni voru: Herdís Ólafsdóttir, Lilja Ingimarsdóttir og Sveinn Guðmundsson. Valdimar Indriðason var fundarstjóri og Auður Sæmundsdóttir var fundarritari.

Húsfyllir var á stofnfundinum og 200 manns skráðu sig í félagið. Fyrsti formaður félagsins var kjörinn Magnús Kristjánsson.

Starfsemi félagsins hefur undið upp á sig á þessum rúmlega 24 árum sem það hefur starfað og núna eru 645 skráðir félagar.

Til að gerast félagi þarf viðkomandi að vera orðinn 60 ára. Öllum sem verða 60 ára á árinu er sent kynningarbréf um starfsemi félagsins og því fylgir umsóknareyðublað, síðasta fréttabréf og sú dagskrá sem unnið er eftir á þeirri stundu.

Í stjórn og varastjórn eru 10 manns og formaður er Ingimar Magnússon. Með stjórninni starfa 8 nefndir sem sinna hver um sig sérstökum verkefnum eins og nöfn þeirra bera með sér.

Nefndirnar eru: húsnefnd, ferða- og skemmtinefnd, kórnefnd, íþróttanefnd, menningar- og fræðslunefnd, laganefnd, lífeyris- og trygginganefnd og samstarfsnefnd við Akraneskaupstað. Það eru 50 manns sem sitja í stjórn og nefndum félagsins.

Félag eldri borgara á Akranesi og nágrenni er aðili að Landssambandi eldari borgara, skammstafað LEB.

Eldri borgara félögin eiga hvert á sínu svæði að reyna að vinna á móti félagslegri einangrun. Landssamband eldri borgara berst fyrir félögin við ríkisvaldið og mestur er bardaginn við Heilbrigðisráðuneytið.

Félagið hefur aðsetur að Kirkjubraut 40 á 3.hæð. Nánari upplýsingar um starfsemi félagisins gefur Ingimar Magnússon formaður í síma 431 2000.