Fara í efni

Deiliskipulag

Deiliskipulag er nánari útfærsla á aðalskipulagi fyrir afmarkað svæði eða reit.

  • Í deiliskipulagi er kveðið á um byggðamynstur, húsagerðir, landmótun, starfsemi, lóðarmörk ofl.
  • Deiliskipulag á við í þéttbýli og dreifbýli, fyrir stór og smá hverfi, gatnamannvirki, hafnarmannvirki, útivistarsvæði, hljóðmanir, snjóflóðavarnargarða ofl.
  • Í deiliskipulagi eru skipulagsskilmálar fyrir útgáfu byggingar- og framkvæmdaleyfa.
  • Í upphafi vinnu að gerð deiliskipulagstillögu skal sveitarstjórn taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu, leita umsagnar um skipulagslýsinguna og kynna hana almenningi.  

Sveitarstjórn ber ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags. Deiliskiplag er nánari útfærsla á stefnu og ákvæðum aðalskipulags og skal ná til afmarkaðs svæðis sem myndar heildstæða einingu. Í deiliskipulagi koma fram skipulagsskilmálar fyrir uppbyggingu og framkvæmdir, svo sem um þéttleika byggðar, húsagerðir, lóðastærðir, lóðamörk, staðsetningu húsa á lóðum, bílastæði og landmótun.

Í upphafi deiliskipulagsvinnu skal sveitarstjórn taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu þar sem fram koma áherslur sveitarstjórnar við deiliskipulagsgerðina og upplýsingar um skipulagsforsendur, fyrirhugað skipulagsferli, kynningu og samráð. Leita skal umsagnar um lýsinguna hjá Skipulagsstofnun og umsagnaraðilum og kynna hana almenningi.

Landeigandi eða framkvæmdaraðili getur óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað. Með samþykkt slíkrar tillögu gerir sveitarstjórn deiliskipulagið að sínu og ber ábyrgð á framfylgd þess.

Á Skipulagsstofnun eru varðveitt eintök af öllum deiliskipulagsáætlunum sem stofnunin hefur fengið til varðveislu frá sveitarfélögunum. Þessar skipulagsáætlanir eru aðgengilegar í Skipulagsvefsjá á heimasíðu stofnunarinnar. Með tímanum verður hægt að nálgast í Skipulagsvefsjánni allar skipulagsáætlanir sem hafa öðlast gildi frá 1997 og í einstaka tilfelli deiliskipulag fyrir þann tíma. Nánari upplýsingar um einstaka deiliskipulagsáætlanir veitir viðkomandi sveitarfélag.

Nánari upplýsingar má nálgast með eftirfarandi krækjum:
Skipulagslög nr. 123/2010
Skipulagsreglugerð nr. 90/2013
Lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021

Á Skipulagsvefsjá Skipulagsstofnunar er hægt að skoða gildandi aðal- og deiliskipulag á landinu öllu út frá staðsetningu á korti eða með því að slá inn leitarorð efst í hægra horni. Hægt er að leita eftir heimilsfangi, örnefni eða sveitarfélagi.
Allar upplýsingar um Hvalfjarðarsveit má finna á vefsjá Skipulagsstofnunar.

 

Skipulagsvefsjá