Fara í efni

Sveitarstjórn

215. fundur 08. mars 2016 kl. 16:00 - 18:00 í stjórnsýsluhúsinu Innrimel 3
Nefndarmenn
 • Björgvin Helgason oddviti
 • Arnheiður Hjörleifsdóttir varaoddviti
 • Jónella Sigurjónsdóttir vararitari
 • Ása Helgadóttir aðalmaður
 • Stefán Ármannsson aðalmaður
 • Daníel Ottesen aðalmaður
 • Ólafur Ingi Jóhannesson 1. varamaður
Fundargerð ritaði: Skúli Þórðarson sveitarstjóri
Dagskrá
Björgvin Helgason, oddviti setti fundinn og bauð sveitarstjórnarmenn velkomna til fundar og síðan var gengið til áður boðaðrar dagskrár.

Hjördís Stefánsdóttir boðaði forföll.

Oddviti leitaði afbrigða um að bæta tveimur málum á dagskrá fundarins, erindi Björns Páls Fálka Valssonar og Ómars Marteinssonar og greinargerð Hauks Jóhannessonar, jarðfræðings og var það samþykkt með 7 atkvæðum.

1.Sveitarstjórn - 214

1602002F

Fundargerð framlögð.

2.Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd - 64

1602003F

AH fór yfir og skýrði einstök atriði fundargerðarinnar.
 • Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd - 64 USN nefnd leggur til við sveitarstjórn að veitt verði framkvæmdaleyfi samkvæmt 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
  "Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir að veita umrætt framkvæmdaleyfi skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010."
  Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
 • Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd - 64 USN nefnd leggur til við sveitarstjórn að hafna erindi Valz ehf. um að deiliskipuleggja hluta af Glammastaðalandi milli þjóðvegar og Þórisstaðavatns eins og fram kemur tillögu félagsins. Tillaga að deiliskipulagi gerir ráð fyrir tveggja hæða byggingu og útihúsum. USN nefnd hafnar byggingum svo nærri Þórisstaðavatni og telur rétt að ekki verði byggt nær vatninu en 100 metra til að þrengja ekki frekar að vatninu, tryggja aðgengi að veiðivatni og vernda lífríki þess. Nefndin telur það í samræmi við stefnu aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar þar sem segir að svæði meðfram ám og vötnum séu óbyggð mannvirkjum öðrum en göngu- og veiðivegum. Svæðin skulu nýtt til útivistar og stangveiði. Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
  "Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir að hafna erindi Valz ehf. um að deiliskipuleggja hluta af Glammastaðalandi milli þjóðvegar og Þórisstaðavatns eins og fram kemur í tillögu félagsins. Tillaga félagsins að deiliskipulagi gerir ráð fyrir tveggja hæða byggingu og útihúsum. Sveitarstjórn hafnar byggingum svo nærri Þórisstaðavatni og vill að ekki verði byggt nær vatninu en 100 metra, til að þrengja ekki frekar að vatninu, tryggja aðgengi að veiðivatni og vernda lífríki þess. Sveitarstjórn telur afgreiðsluna í samræmi við stefnu Aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar 2008-2020 þar sem segir að svæði meðfram ám og vötnum séu óbyggð mannvirkjum öðrum en göngu- og veiðivegum. Svæðin skulu nýtt til útivistar og stangveiði."
  Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
 • Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd - 64 Þann 13. mars sl. óskuðu eigendur lands og lóða í skipulagðri frístundabyggð sunnan þjóðvegar í landi Beitistaða eftir að breyta skilgreindri frístundabyggð í íbúðabyggð. Svæðið liggur milli þjóðvegar 1 og Grunnafjarðar sem er friðlýstur og samþykktur sem Ramsar svæði. Vegna legu landsins leitaði USN nefnd umsagna Vegagerðar og Umhverfisstofnunar um þessa fram komnu beiðni. Hvorug stofnunin leggst gegn breytingunni en Umhverfisstofnun bendir á að fráveita sé skv. reglugerð nr. 798/1999 en í grein 7.2 segir að skólp skuli hreinsað með ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa ef viðtaki er viðkvæmur eða nýtur sérstakrar verndar. Stofnunin telur í þessu sambandi æskilegt að settir verði safntankar frekar en rotþrær við húsin á svæðinu verði þau heilsárshús og allri seyru ekið í burt svo ekki sé hætta á að mengun berist í Grunnafjörð. Nefndin telur sig hafa aflað þeirra gagn sem þarf til að taka upplýsta ákvörðun um málið. Umrædd beiðni kallar á breytingu á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar og að mati nefndarinnar er um stefnumarkandi ákvörðun að ræða sem breytir áherslum aðalskipulags varðandi þróun þéttbýlis í Hvalfjarðarsveit. Standi hugur sveitarstjórnar til þess, leggur USN nefnd til að fundað sé með bréfriturum og þeim gerð grein fyrir hvað slík breyting hefur í för með sér. Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
  "Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir að hafna erindinu þar sem erindið er ekki í samræmi ákvæði Aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar 2008-2020."
  Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 5 atkvæðum.
  AH og ÓIJ sátu hjá við afgreiðslu erindisins.
 • Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd - 64 Lagt fram og kynnt. USN nefnd gerir ekki athugasemdir við breytingar skipulagsins sbr. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
  "Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir að gera ekki athugasemd við breytingar skipulagsins sbr. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
  Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
 • Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd - 64 USN nefnd leggur til við sveitarstjórn að heimila óverulega breytingu á deiliskipulagi Melahverfis sbr. 2.mgr. 43. gr. skipulagslaga er varðar fjölda hæða húsa í skipulaginu þannig að húseigendur megi byggja allt að 2ja hæða byggingar. Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
  "Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir óverulega breytingu á deiliskipulagi Melahverfis sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga er varðar fjölda hæða húsa í skipulaginu. Skipulags- og umhverfisfulltrúa falið að fylgja málinu eftir."
  Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
 • Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd - 64 Byggingarleyfisumsókninni er synjað þar sem umsóknin samræmist ekki aðalskipulagi sveitarfélagsins. Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
  "Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar synjar umsókninni þar sem umsóknin samræmist ekki Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2008-2020."
  Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

3.Breytingar á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2008-2020.

1308017

Kosning stýrihóps, tillögur: Daníel Ottesen, Guðjón Jónasson og Arnheiður Hjörleifsdóttir.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar staðfestir tillögu USN-nefndar um skipan fulltrúa í stýrihópinn."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

4.36. fundur menningar- og atvinnuþróunarnefndar.

1603008

Fundargerð framlögð.

5.Ársreikningur 2015.

1602036

Síðari umræða.
Oddviti lagði Ársreikning Hvalfjarðarsveitar 2015 fram til síðari umræðu og
afgreiðslu í sveitarstjórn ásamt eftirfarandi bókun:

"Rekstrartap ársins 2015 nam 10,1 millj. kr. Tekjur ársins námu 669,6
millj. kr. og voru um 21 millj. kr. hærri en áætlun gerði ráð fyrir.
Rekstrargjöld námu 681,1 millj. kr. og hækkuðu um 36 millj. kr. frá árinu
2014. Til fræðslumála, sem er langstærsti málaflokkurinn, var varið 407,6
millj. kr. sem er 64,4 % af skatttekjum. Veltufé frá rekstri nam 48,8 millj.
kr. og veltufjárhlutfall var 1,34. Heildarfjárfesting ársins nam 16,1 millj. kr.
og handbært fé í árslok var 69,2 millj. kr.
Megin niðurstaða efnahagsreiknings er að fastafjármunir nema 2.258
millj. kr. og eignir samtals 2.371 millj. kr. Skuldir og skuldbindingar nema
samtals 319 millj. kr. Eigið fé sveitarfélagsins var í árslok 2.052 millj. kr."

Reikningurinn borinn undir atkvæði og var hann samþykktur með 7
atkvæðum.

Að lokinni afgreiðslu undirrituðu sveitarstjórnarmenn framlagðan
ársreikning.

Þá lagði oddviti fram eftirfarandi tillögu:
Í tengslum við afgreiðslu ársreiknings 2015 samþykkir sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar að fela sveitarstjóra og oddvita að leita eftir samningum við ráðgjafa til að skoða tiltekin atriði í rekstri sveitarfélagsins."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

6.Afturvirkni kjarasamnings.

1603007

Erindi frá Verkalýðsfélagi Akraness.
Afgreiðslu erindisins frestað.

7.Aðalfundarboð Spalar.

1603009

Fundurinn verður haldinn þriðjudaginn 15. mars 2016, kl. 11 á Gamla Kaupfélaginu.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir að Stefán G. Ármannsson verði fulltrúi sveitarfélagsins á fundinum og Daníel A. Ottesen til vara."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

8.Áskorun Ragnheiðar Þorgrímsdóttur til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

1512004

Erindi frá Ragnheiði dagsett 4. mars 2016.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar felur skipulags- og umhverfisfulltrúa að svara erindinu."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

9.Tillaga um eignarhald á Krosslandi.

1603011

Erindi frá Birni Páli Fálka Valssyni og Ómari Marteinssyni.
Erindi framlagt.

10.Boðun XXX. landsþings sambandsins 8. apríl 2016.

1603004

Dagskrá landsþings 2016, aðalfundur Lánasjóðs sveitarfélaga ohf., og skrá um kjörna fulltrúa 2016 liggur fyrir .
Bréf lagt fram til kynningar.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir að Skúli Þórðarson, sveitarstjóri verði fulltrúi sveitarfélagsins á aðalfundi Lánasjóðs sveitarfélaga."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

11.Ársreikningur 2015 og greinargerð hafnarstjóra vegna ársreikningsins.

1603006

Frá Faxaflóahöfnum sf.
Ársreikningur ásamt greinargerð hafnarstjóra lagður fram til kynningar.

12.Ályktanir aðalfundar Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð 2016.

1603010

Frá Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð.
Ályktanir lagðar fram til kynningar.

13.Greinargerð vegna hitastigulsboranna 2015 í landi Eyrar, Kambhóls og Grafar.

1603012

Frá Jarðfræðistofu Hauks Jóhannessonar.
Greinargerð lögð fram til kynningar.
Samþykkt að vísa greinargerðinni til skoðunar og umfjöllunar í veitunefnd.

14.836. fundur stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

1603005

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

15.Hljóðupptaka.

1603013

Fundi slitið - kl. 18:00.

Efni síðunnar