Fara í efni

Yfirlýsing sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar vegna beiðni Akraneskaupstaðar um færslu sveitarfélagamarka

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar vill í upphafi árétta að samstarf milli sveitarfélagana er alveg óskylt mál við færslu sveitarfélagamarka og því ekki rétt að blanda þessum tveimur ólíku málum saman.

Færsla sveitarfélagamarka er óafturkræf aðgerð og stefnumarkandi til framtíðar og skal ákvörðun um slíkt byggð á hagsmunum sveitarfélagsins. Þegar hins vegar er talað um samstarf er verið að ræða um hvort og hvernig leysa megi t.d. ákveðin lögbundin verkefni eða önnur verkefni með sameiginlegan ávinning beggja sveitarfélaga að leiðarljósi. Stundum getur verið hagkvæmara að reka eða standa að ákveðnum verkefnum í samstarfi sveitarfélaga og hafa þessi tvö sveitarfélög borið gæfu til að eiga í þess háttar samstarfi s.s. í rekstri slökkviliðs, dvalarheimilis, byggðasafns og tónlistarskóla um langa hríð. Það samstarf hefur verið farsælt og standa vonir Hvalfjarðarsveitar til þess að svo verði áfram um ókomna tíð og ekki muni bera skugga á það til framtíðar.

Sveitarfélögin hafa einnig átt í samstarfi sem ekki hefur verið framhaldið líkt og í félags- og íþróttamálum, félagsstarfi aldraðra og félagsþjónustu þar sem aðstæður breytast, hagsmunir eru endurskoðaðir og breytingar gerðar án þess að það leiði til breytinga á öðrum samningum enda eðlilegt að líta á hvert verkefni fyrir sig sem einstakt og ótengt í þessu samhengi þar sem umhverfi sveitarfélaga er síbreytilegt og kallar á aðlögun og breytingar samhliða aðstæðum hverju sinni. Samstarf sveitarfélaga er jafnframt alveg óháð stærð þeirra þyki hagkvæmni af samstarfinu og má þar vísa til samstarfs sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu í ýmsum verkefnum.

Í frétt vegna málsins kemur m.a. fram að Akraneskaupstaður hafi „tekið að sér“ ýmsa þjónustu fyrir Hvalfjarðarsveit. Hvalfjarðarsveit lítur þannig á að sveitarfélögin eigi í samstarfi um ýmsa þjónustu auk þess að reka aðra þjónustu sameiginlega. Samningar um slíka þjónustu eru nokkrir, ekki einn sameiginlegur samningur um öll verkefni heldur sérstakur samningur fyrir hvert og eitt þeirra. Sveitarfélögin eiga og reka saman Dvalarheimilið Höfða og Byggðasafnið í Görðum þar sem eignarhlutur Hvalfjarðarsveitar er 10% í báðum tilfellum en sérstakar skipulagsskrár eru til fyrir hvorutveggja. Sveitarfélögin bera því kostnað, hvort sem um er að ræða rekstur eða fjárfestingu, í hlutfalli við eignarhlut. Samstarfssamningar eru síðan milli sveitarfélaganna vegna slökkviliðs og tónlistarskóla. Samningur sveitarfélaganna um rekstur slökkviliðs byggir á að árlegum kostnaði við rekstur og fjárfestingu er skipt í hlutfalli við brunabótamat fasteigna í hvoru sveitarfélagi m.v. 31. desember ár hvert. Tónlistarskólasamningurinn er byggður á reiknilíkani þar sem nettó kostnaði er deilt milli sveitarfélaganna eftir vegnu meðaltali nemendafjölda hvors sveitarfélags auk þess sem reiknilíkanið telur mið af öðrum stærðum s.s. tegund tónlistarnáms, kennslustað o.s.frv. Sveitarfélögin eiga því í samstarfi í ofangreindum málaflokkum og verkefnum á mismunandi vegu, annars vegar með sameiginlegu eignarhaldi og hins vegar með samstarfssamningum, að ógleymdu sameiginlegu atvinnusvæði á Grundartanga.

Hvalfjarðarsveit hefur í endurskoðuðu aðalskipulagi lagt fram stefnumörkun til framtíðar um uppbyggingu sveitarfélagsins þar sem horft er til Melahverfis sem þess þéttbýliskjarna sem einblínt verður á og framtíðaruppbygging er fyrirhuguð, á landi sem er í eigu sveitarfélagsins. Í Melahverfi verður jafnframt byggður nýr leikskóli og nýlegur grunnskóli er við Leirá þar sem bygging nýs íþróttahúss mun hefjast á árinu. Land í einkaeigu er að jafnaði ekki skipulagt nema að frumkvæði og beiðni eiganda þess þó sveitarfélagið fari með og hafi skipulagsvaldið en í því felst samþykkt eða synjun á þeirri beiðni sem lögð er fram af eiganda, engum öðrum. Vinna við endurskoðun aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar, sem nýverið var samþykkt af sveitarstjórn, hefur staðið yfir undanfarin ár og á þeim tíma hefur beiðni um breytta landnotkun Akrakots ekki verið send til umfjöllunar hjá Hvalfjarðarsveit.

Akraneskaupstaður hefði vel mátt leita svara við beiðni um færslu sveitarfélagamarka áður en gengið var til samninga við eigendur Akrakots um kaupin og lagt var út í kostnað og vinnu vegna málsins. Þess má geta að Hvalfjarðarsveit fékk málið til umfjöllunar í lok október, en ljóst er að Akraneskaupsstaður hefur hins vegar haft það í sínum höndum í marga mánuði þar á undan, að minnsta kosti.

Frá því málið kom til Hvalfjarðarsveitar hefur mikil vinna og tími verið lagður í skoðun þess, m.a. haldnir tveir fundir með fulltrúum Akraneskaupstaðar, málin lögð til umfjöllunar í nefndum, leitað eftir álitum lögmanna og verðmöt fengin. Ákvarðanataka um færslu sveitarfélagamarka er ekki léttvæg ákvörðun. Sveitarstjórn hafnar því alfarið að hafa kastað til hendinni við umfjöllun og ákvarðanatöku málsins.