Fara í efni

Fjárhagsáætlun Hvalfjarðarsveitar 2024-2027

Fjárhagsáætlun Hvalfjarðarsveitar fyrir árið 2024 ásamt þriggja ára áætlun 2025-2027 var samþykkt á fundi sveitarstjórnar þann 22. nóvember sl.

Um er að ræða áætlun til næstu fjögurra sem endurspeglar markmið fyrri ára, að hlúa að áframhaldandi góðri þjónustu við íbúa, eðlilegu viðhaldi eigna og uppbyggingu til framtíðarþarfa samfélagsins.

Við áætlunargerðina er, líkt og áður, lögð áhersla á að tekjuáætlun sé varfærin, útgjaldaáætlun raunsæ og að ekki sé gengist undir skuldbindingar sem raskað geti forsendum í rekstri og afkomu sveitarfélagsins til lengri tíma.

Forsendur fjárhagsáætlunar:

Í áætluninni er stuðst við upplýsingar frá Hag- og upplýsingasviði Sambands íslenskra sveitarfélaga og útsvarsáætlun þeirra auk Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands vegna þróunar verðlags fyrir komandi ár. Aðrar forsendur sem sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar horfir til eru útkomuspá yfirstandandi árs og átta mánaða árshlutauppgjör ársins.

Launaáætlun hefur verið unnin út frá raunforsendum á öllum deildum og hafa forstöðumenn yfirfarið áætlanirnar. Kjarasamningar eru allir lausir á næsta ári og er óvissa um launabreytingar komandi árs en reynt hefur verið að nálgast þær út frá reynslu fyrri ára og eins og áður hefur verið gert ráð fyrir tilfallandi veikindum en engum langtímaveikindum.

Almenn nefndarlaun eru í flestum tilfellum áætluð 11 mánuði ársins, þ.e. ekki er gert ráð fyrir fundum á sumarleyfistíma, í júlí.

Útsvar:

Álagningarhlutfall útsvars árið 2024 verður óbreytt frá fyrra ári eða 13,91%.
Stuðst er við staðgreiðsluáætlun Sambands íslenskra sveitarfélaga við áætlun útsvarstekna.

Jöfnunarsjóðsframlag:

Framlag úr Jöfnunarsjóði vegna málefna fatlaðra er áætlað skv. upplýsingum frá sjóðnum.

Fasteignaskattur og lóðarleiga:

Álagningarhlutföll fasteignaskatts árið 2024 verða óbreytt frá fyrra ári en þau eru eftirfarandi:

A-flokkur 0,36%
B-flokkur 1,32%
C-flokkur 1,65%

Lóðarleiga verður einnig óbreytt eða 1,0%.

Fasteignagjöld og aðrar gjaldskrár:

Í upphafi þessa árs tóku gildi ný lög í úrgangsmálum á Íslandi sem leiddu til mikilla breytinga í málaflokknum en breytingarnar voru og eru umfangsmiklar, m.a. ríkari kröfur um flokkun úrgangs. Í bígerð er ný gjaldskrá í samræmi við lögin og borgað þegar hent er kerfið en stefnt er að því að ný gjaldskrá taki gildi 1. janúar nk. og verði innleidd árið 2024 samhliða útboði úrgangshirðu í sveitarfélaginu þar sem samningur við núverandi verktaka rennur út á komandi ári. Niðurstaða útboðsins mun að lokum hafa áhrif á endurskoðun gjaldskrár úrgangshirðu þar sem þjónustugjöld sem þessi eiga að standa undir raunkostnaði við málaflokkinn.

Aðrar gjaldskrár sveitarfélagsins eru vísitölubundnar og hækka skv. því um komandi áramót.

Rekstur:

Rýnt hefur verið vel í reksturinn og forstöðumenn, í samstarfi við viðkomandi fagnefndir, farið vel yfir alla kostnaðarliði m.t.t. raunþróunar þeirra auk þess sem einskiptisliðir yfirstandandi árs voru teknir út og nýir liðir settir inn fyrir komandi ár.

Viðhald:

Árið 2024 er gert ráð fyrir 45,2mkr. til viðhalds eigna, hæsta fjárhæðin er til Heiðarskóla eða 8,9mkr., til Skýjaborgar eru áætlaðar 5,5mkr., til Heiðarborgar 3,4mkr., til Miðgarðs og Stjórnsýsluhúss eru áætlaðar 3,2mkr. á hvora eign, til Sundlaugarinnar á Hlöðum 2,3mkr. og lægri fjárhæðir til annarra eigna en eins og áður er þess gætt að vel sé hlúð að öllum eignum í takt við þarfir hverju sinni.

Fjárfesting/framkvæmdir:

Á næsta ári eru samtals 613mkr. áætlaðar til fjárfestinga. Áætlað er að hefja framkvæmdir við byggingu nýs íþróttahúss sem því miður tókst ekki að byrja á þessu ári líkt og fyrri áætlun ráðgerði og er það stærsta einstaka fjárfesting komandi árs með 510mkr. Gert er ráð fyrir 45mkr. nettó til áframhaldandi gatnagerðar í Melahverfi, 3. áfanga, til undirbúningsvinnu að byggingu nýs leikskóla eru áætlaðar 25mkr., til áframhaldandi göngu- og reiðhjólastígagerðar 18mkr., til vatnsveitu Hlíðarbæ eru 3mkr. og 2mkr. til opins svæðis í Krosslandi ásamt 10mkr. framlagi til fjárfestinga Vatnsveitufélags Hvalfjarðarsveitar. Árið 2025 er gert ráð fyrir 866mkr. til fjárfestinga, árið 2026 eru 623mkr. og árið 2027 eru 608mkr.

Á næstu fjórum árum eru því ráðgerðir rúmir 2,7 milljarðar til framkvæmda í Hvalfjarðarsveit, rúmur 1,7 milljarður til byggingu nýs íþróttahúss, tæpar 600mkr. til hönnunar og framkvæmda við nýjan leikskóla, tæpar 200mkr. nettó til áframhaldandi gatnagerðar og 72mkr. til göngu- og reiðhjólastígagerðar, samtals 20mkr. til opins svæðis í Krosslandi og 3mkr. til vatnsveitu í Hlíðarbæ. Að auki er 85mkr. hlutdeild til Vatnsveitufélags Hvalfjarðarsveitar ásamt 25mkr. hlutdeild í kaupum dælubíls slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar.

Lántaka:

Ekki er gert ráð fyrir lántöku í áætluninni.

Niðurstaða fjárhagsáætlunar 2024:

 • Heildartekjur samstæðu A og B hluta á árinu 2024 eru áætlaðar 1.478,6mkr. Heildargjöld eru áætluð 1.388,6mkr. Þar af eru launagjöld 687,3mkr., annar rekstrarkostnaður 639,4mkr. og afskriftir 61,9mkr.
 • Heildartekjur í A-hluta eru áætlaðar 1.466,7mkr. og heildarútgjöld eru áætluð 1.386mkr. Þar af eru laun og launatengd gjöld 687,3mkr., annar rekstrarkostnaður 642mkr. og afskriftir 56,7mkr.
 • Fjármunatekjur A og B hluta eru áætlaðar 81,9mkr. og í A hluta eru þær áætlaðar 91,2mkr.
 • Rekstrarafgangur A og B hluta er áætlaður tæpar 173,2mkr. og í A-hluta tæpar 173,1mkr.
 • Skuldir og skuldbindingar A og B hluta í árslok 2024 eru áætlaðar 175mkr. og 190,2mkr. í A-hluta.
 • Eigið fé A og B hluta er áætlað 4.751,6mkr. og A hluta 4.730,8mkr.
 • Veltufé frá rekstri árið 2024 í A og B hluta er áætlað 233,8mkr. en 223,1mkr. ef einungis er litið til A hluta.
 • Fjárfesting í A og B hluta er áætluð 613mkr. árið 2024.
 • Afborganir langtímalána eru engar og ekki er gert ráð fyrir að taka ný langtímalán á áætlunartímabilinu.
 • Áætlað er að í árslok 2024 verði handbært fé um 1.767,4mkr.

Forsendur fjárhagsáætlunar fyrir árin 2025 – 2027:
Tekjur og gjöld:
Grunnforsenda fyrir fjárhagsáætlun 2025-2027 er áætlun um fjárheimildir fyrir árið 2024 að teknu tilliti til framtíðarfjárfestinga, s.s. byggingu og rekstri nýs íþróttahúss og leikskóla. Áætlunin tekur mið af kostnaðarverðlagi ársins 2024. Kostnaðarliðir aðrir en laun breytast í takt við spá um breytingu neysluverðsvísitölu.
Útsvarstekjur breytast á milli ára í takt við launavísitölu eins og hún er áætluð í Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands auk spár um íbúaþróun.
Gert er ráð fyrir að launakostnaður breytist í takt við spá um þróun launavísitölu í Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands.


Helstu lykiltölur úr rekstri og efnahag árin 2025-2027, samantekið A og B hluti:

 • Rekstrarafkoma á tímabilinu verður jákvæð öll árin á bilinu 165,6-239mkr. eða uppsafnað á tímabilinu 627,6mkr.
 • Veltufé frá rekstri verður á bilinu 265,8-296,5mkr. á ári eða á bilinu 15,6-19% af rekstrartekjum, hæst 19% árið 2025 og lægst 15,6% árið 2027.
 • Veltufjárhlutfall er áætlað 7,22 árið 2025, 5,24 árið 2026 og 3,36 árið 2027.

Skuldahlutfall er áætlað 11,8% árið 2024 og að það verði komið niður í 11,3% árið 2027.

Lokaorð:

Fjárhagsáætlun Hvalfjarðarsveitar 2024-2027 er keimlík þeim er lagðar hafa verið fram undanfarin ár og ber merki um áframhaldandi vöxt og uppbyggingu samfélagsins í Hvalfjarðarsveit. Íbúum heldur áfram að fjölga og hús rísa við nýjar götur í þéttbýliskjörnum, bæði Melahverfi og Krosslandi, sem og í dreifbýli og er afar ánægjulegt að bæði sé byggt í dreifbýli og þéttbýli. Það er ekki útlit fyrir annað en að uppbygging undanfarinna ára muni halda áfram þó vissulega setji þjóðfélagsástandið merki sitt á stöðuna sem stendur en vonandi rætist úr fyrr en seinna öllum til heilla.

Það eru viss forréttindi á tímum sem þessum að geta áfram hlúð að góðri þjónustu við íbúa, að unnt sé að sinna viðhaldi eigna sem skyldi og að hægt sé að fara í stórar framkvæmdir s.s. byggingu nýs íþróttahúss og leikskóla án fyrirhugaðrar lántöku og skuldsetningar sveitarfélagsins. Það er þó þannig að lykiltölur og viðmið munu sannarlega breytast og lækka í einhverjum tilfellum á komandi árum og því mikilvægt sem aldrei fyrr að huga vel að rekstrinum og fara vel með fjármuni.

Sveitarstjóri færir starfsfólki á skrifstofu Hvalfjarðarsveitar, forstöðumönnum öllum sem og sveitarstjórn þakklæti fyrir þeirra mikilvæga framlag, aðkomu og vinnu við gerð fjárhagsáætlunarinnar.

Hvalfjarðarsveit 22. nóvember 2023
Linda Björk Pálsdóttir, sveitarstjóri

Fjárhagsáætlun Hvalfjarðarsveitar 2024-2027 má sjá hér