Fara í efni

Ársreikningur Hvalfjarðarsveitar 2023

Á 395. fundi sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar þann 27. mars sl. var ársreikningur Hvalfjarðarsveitar fyrir árið 2023 samþykktur, sjá HÉR.

Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt ársreikningi A og B hluta var jákvæð um 513,7mkr. Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu 2023 námu rúmum 1.429,8mkr. samkvæmt rekstrarreikningi fyrir A og B hluta en þar af námu rekstrartekjur A hluta rúmum 1.413mkr.

Rekstrargjöld A og B hluta árið 2023 voru alls 1.176,8mkr. Veltufé frá rekstri var 39,6% og veltufjárhlutfall 17,35%.

Heildareignir sveitarfélagsins í árslok 2023 voru 4.523,2mkr. og heildarskuldir námu 119,1mkr. og er þar einungis um skammtímaskuldir að ræða, engar langtímaskuldir.

Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2023 nam 4.404,1mkr. samkvæmt efnahagsreikningi og eiginfjárhlutfall var 97%.

Eitt af fjárhagslegum viðmiðum sveitarfélaga skv. sveitarstjórnarlögum er skuldaviðmið. Það er áfram jákvætt, fer úr 99,23% í 124,14% árið 2023 en veltufé er áfram umtalsvert hærra en skuldir. Rekstrarjöfnuður sveitarfélagsins síðustu þrjú ár (samanlögð rekstrarafkoma á þriggja ára tímabili) er 1.014,7mkr.

Rekstarniðurstaða ársins 2023 var rúmum 266mkr. jákvæðari en áætlun ársins gerði ráð fyrir og helgast það af hærri rekstrar- og fjármagnstekjum sem og lægri rekstrarkostnaðar en áætlað var. Bæði útsvar og framlög Jöfnunarsjóðs voru hærri vegna breytinga tengdum fjármögnun á þjónustu við fatlað fólk, þ.e. útsvarsprósenta var hækkuð á móti lækkun tekjuskattsprósentu ríkisins. Fjármagnstekjur voru hærri einkum vegna áframhaldandi hækkandi vaxtaumhverfis og þar með betri ávöxtun innstæðu auk þess sem ekki var gengið eins mikið á handbært fé líkt og ráðgert hafði verið þar sem bygging nýs íþróttahúss fór ekki af stað sl. vor eins og áætlanir stóðu til og því hærri vaxtaberandi innstæða til staðar. Almennt voru einstaka málaflokkar og deildir innan áætlunar ársins 2023.

Handbært fé sveitarfélagsins eykst um tæpar 412mkr. milli áranna 2022 og 2023, er rúmur 1,9 milljarður þann 31. desember 2023 og er styrkur af því til framtíðar innviðauppbyggingar s.s. byggingu nýs íþróttahúss, leikskóla og gatnagerðar og styrkir þá vegferð sveitarfélagsins að framkvæma án lántöku.

Heildarfjárfestingar sveitarfélagsins árið 2023 námu 89,9mkr., þ.a. til útivistarsvæðis í Melahverfi 46mkr., til hönnunar nýs íþróttahúss við Heiðarborg 6,7mkr., til hitaveituframkvæmda 14,5mkr og til göngustígagerðar 22,1mkr. auk 600þús.kr. til  skólamannvirkja.

Linda Björk Pálsdóttir
sveitarstjóri