Fara í efni

Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd 2013-2022

158. fundur 20. apríl 2022 kl. 15:00 - 16:20 í stjórnsýsluhúsinu Innrimel 3
Nefndarmenn
  • Daníel A. Ottesen formaður
  • Guðjón Jónasson varaformaður
  • Ása Hólmarsdóttir ritari
  • Helgi Magnússon aðalmaður
  • Ragna Ívarsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Jökull Helgason embættismaður
  • Arnheiður Hjörleifsdóttir embættismaður
Fundargerð ritaði: Jökull Helgason Starfsmaður skipulagsfulltrúa
Dagskrá

1.Framkvæmdaleyfi - lagning ljósleiðara.

2204031

Umsókn dags. 12.04.2022 frá félagi sumarbústaðaeigenda Fornastekks, í landi Bjarteyjarsands, Hvalfjarðarsveit.
Sótt er um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu ljósleiðara, lögn verður hnitsett með gps, samhliða framkvæmda og verður þeim gögnum skilað til sveitarfélagsins að verki loknu. Framkvæmdaraðili er SH leiðarinn ehf.
Með erindinu fylgdi yfirlitsuppdráttur af lagnaleið.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja framkvæmdaleyfið, með fyrirvara um samþykki landeiganda og um leyfi fyrir tengingu við ljósleiðarakerfi sveitarfélagsins.

2.Leirá - tillaga að deiliskipulagi - Réttarhaga I og II

2204032

Tillaga að deiliskipulagi fyrir smábýlabyggð í Réttarhaga í Landi Leirár.
Með erindinu fylgdi uppdráttur dags. 28.03.2002.
Deiliskipulagið er innan landbúnaðarsvæðis fyrir smábýlabyggð B4, í landi Leirár, skv. gildandi aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2008-2020. Skipulagssvæðið er um 2,73 ha að stærð og er norðan við Leirársveitarveg. Innan skipulagssvæðisins eru skilgreindar tvær landbúnaðarlóðir, Réttarhagi 1 og 2 sem eru 1,0 og 1,1 ha að stærð og eru leigulóðir í landi Leirár, landeignanúmer L133774. Í vestri afmarkast skipulagssvæðið af ánni Leirá, í austri að lóð gamla Heiðarskóla, Skólastíg 3, í suðri og norðri af landbúnaðarlandi. Aðkoma að lóðunum verður um nýjan veg sem nefnist Réttarhagi og tengist Skólastíg. Nýr aðkomuvegur verður um 300 m langur.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd samþykkir deiliskipulagstillöguna með áorðnum breytingum og leggjur til við sveitarstjórn að samþykkja að auglýsa deiliskipulagstillöguna samkvæmt 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br.

3.Aðalskipulag-endurskoðun-2020-2032

1901286

Erindi dags. 08.04.2022 frá Skipulagsstofnun.
Skipulagsstofnun hefur lokið yfirferð sinni á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 og heimilar auglýsingu aðalskipulagstillögunnar þegar tekið hefur verið tillit til þeirra atriða sem stofnunin gerir athugasemdir/ábendingar við.

Taka þarf tillit til eftirtaldra atriða:

Landbúnaðarsvæði
Í kafla 2.4.1 er sett fram stefna um landbúnað og eru skilgreindar þrjár tegundir landbúnaðarsvæða, L1, L2 og L3, sem hafa mismunandi skilmála sem settir eru fram í töflu 7.
Á sveitarfélagsuppdrætti er að finna auðkenni L1, L2 og L3 en landnotkunin/flákarnir þurfa að vera afmarkaðir með skýrari hætti þannig að ekki leiki vafi á hvar t.d. stefna um landbúnaðarsvæði L1 gildir, þ.e. afmörkun með sambærilegum hætti og gert er á skýringaruppdrætti sem sýnir L1, L2 og L3.

Grundartangi
Á Grundartanga er gert ráð fyrir umfangsmikilli atvinnustarfsemi sem fellur undir landnotkun athafnasvæða, iðnaðarsvæða og hafnarsvæða.
Afmörkun landnotkunar, m.a. hafnarsvæðis, er breytt og í tillögunni þarf að gera grein fyrir í hverju þær breytingar felast m.a. umfangi nýrra landfyllinga.
Þar sem flæðigryfjur hafa verið nýttar til landfyllinga ætti að koma fram hvaða takmarkanir gilda um uppbyggingu á þeim.
Þá getur verið tilefni til að setja frekari skipulagsákvæði um yfirbragð svæðisins, litaval, lýsingu, fyrirkomulag bílastæða svo dæmi séu tekin.
Í umhverfismati þarf að fjalla um samlegðaráhrif uppbyggingar á Grundartanga.

Athafnasvæði
Á Narfabakki AT12, neðan hringvegar og á móts við frístundabyggð að Narfastöðum, er gert ráð fyrir skemmu/tölvuveri og minniháttar orkuframleiðslu með lágum vindmyllum.
Gera þarf grein fyrir því hvað átt er við með lágum vindmyllum.
Bent er á að í almennum ákvæðum um iðnaðarsvæði segir að heimilt sé að reisa stakar vindmyllur, allt að 35 m háar.
Einnig þarf að hafa til hliðsjónar skýringarkort sem sýnir takmarkandi svæði og svæði sem taka þurfi tilliti til þegar ákvarðanir um vindorkunýtingu verða skoðaðar.
Setja þarf stefnu um umfang eða stærð tölvuvers/gagnavers á Narfabakka og í Kalastaðakoti AT14.
Nokkur athafnasvæði sem eru skilgreind < 3 ha. Að mati Skipulagsstofnunar að ætti betur við að skilgreina hámarksstærð 3 ha ef ekki er unnt að marka skýrari stefnu um stærð svæðanna.

Umhverfismat skipulagstillögu
Mælt er með að upphafi kafla 8 í umhverfismatsskýrslu verði í stuttu máli skýrt frá því hvernig umhverfismatið er byggt upp og hvaða þættir í stefnunni eða einstök markmið eru líkleg til að hafa verulega áhrif.
Í kafla 8.4.1 er lagt mat á áhrif stefnu aðalskipulagsins á loftslagsmál sem tengist m.a. nýtingu glatvarma og framleiðslu rafeldsneytis á Grundartanga og bindingu kolefnis með endurheimt votlendis og skógrækt.
Í köflum 8.4.2-8.4.5 er lagt mat á áhrif af þeirri stefnu að skilgreina hverfisvernd á strandsvæði, stefnu um landbúnaðarsvæði, þróun þéttbýlis og nýtt efnistökusvæði.
Í umhverfismatinu þarf einnig að fjalla um stækkun hafnarsvæðis á Grundartanga og samlegðaráhrif stefnu um uppbyggingu á Grundartanga, ný athafnasvæði í dreifbýli og starfsemi á þeim og nýja 220 kV háspennulínu Holtavörðuheiðarlínu eins og bent var á í umsögn stofnunarinnar um vinnslutillögu aðalskipulags.

Í umhverfismatsskýrslu er búið að taka út alla umfjöllun um Vesturlandsveg án skýringa.
Að mati Skipulagsstofnunar er tilefni til að upplýsa um breytingar sem gerðar eru á umhverfismatinu og stefnunni í skipulagsferlinu, m.a. um að fallið hafi verið frá nýjum tengivegi við Vesturlandsveg.
Þetta gæti komið fram í inngangi umhverfismatsskýrslu.

Í töflu 15 umhverfismatsskýrslu á bls. 71 segir að það sé samræmi í landnotkun milli aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar og Skorradalshrepps.
Að mati Skipulagsstofnunar þarf að skoða betur samræmi við aðalskipulag Skorradalshrepps sbr. umsögn sveitarfélagsins um vinnslutillögu m.a. varðandi gönguleiðir.
Í sömu töflu segir að settir séu skilmálar um gólfkóta á flóðasvæðum.
Þessa skilmála eða lágmarksgólfkóta vantar í skipulagstillöguna.

Önnur atriði sem þarf að lagfæra
Tilefni er til að yfirfara efnistökusvæði E1, E36 og E27 með hliðsjón af stærð svæðanna, efnismagni og afmörkun þeirra á sveitarfélagsuppdrætti.
Það getur einnig átt við um fleiri efnistökusvæði þar sem stærð, efnismagn og afmörkun á uppdrætti virðist ekki fara saman.
Lagfæra þarf orðalag á bls. 43 í forsendu- og umhverfismatsskýrslu um vegi í náttúru Íslands þar sem segir að skrá yfir vegi sé stafræn og krefjist ekki breytingar á aðalskipulagi ef einhverra breyting er þörf. Tilkynna skuli Vegagerðinni um breytingar á skránni að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar.
Bent er á að í reglugerð um vegi í náttúru Íslands nr. 260/2018 segir að sveitarfélög gera tillögu að skrá innan marka sinna samhliða gerð aðalskipulag.
Skráin hlýtur samþykkt samhliða afgreiðslu aðalskipulags eða breytinga á aðalskipulagi, sbr. 32. og 36. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010.
Það gildir einnig um breytingar á vegaskánni. Þá er einnig kveðið um samráð við gerð skrárinnar sem felur í sér fleiri samráðsaðila en Umhverfisstofnun.

Í kafla 2.3.4 er sett fram stefna um stakar framkvæmdir sem gildir almennt m.a. á landbúnaðarlandi, óbyggðum svæðum og skógræktar- og landgræðslusvæðum eins og segir í tillögunni.
Talin er upp sú starfsemi/uppbygging sem geti talist minniháttar og samrýmst framangreindri landnotkun.
Taka þarf út úr almennu skilmálunum að heimilt sé að byggja á stakstæðum lóðum/spildum til fastrar búsetu eða frístunda enda getur uppbygging íbúðarhúsa eða frístundahúsa ekki samræmst stefnu um óbyggð svæði auk þess sem stefna um uppbyggingu íbúðar- og frístundahúsa á landbúnaðarsvæðum kemur fram í kaflanum um landbúnaðarsvæði.
Lagfæra þarf mælikvarða í upplýsingadálki á þéttbýlisuppdrætti, sem á að vera 1:10.000 en ekki 1:50.000

Breytt sveitarfélagamörk
Í kafla 1.2 í greinargerð kemur fram að sveitarfélagamörkum séu breytt þar sem hluti jarðarinnar Ósland/Kirkjutunga verði færð yfir til Akraneskaupsstaðar.
Gert er ráð fyrir breyttum sveitarfélagamörkum í aðalskipulaginu en þau hafa ekki verið staðfest sbr. 3. mgr. 4. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 en í greininni segir að ráðherra geti breytt mörkum sveitarfélaga í tengslum við sameiningu þeirra eða til staðfestingar á samkomulagi milli sveitarfélaga.
Verði aðalskipulagstillagan auglýst áður en staðfesting innviðaráðherra liggur fyrir samkvæmt ofangreindu ákvæði verður sveitarfélagið að setja fyrirvara um að ráðherra sé ekki búinn að staðfesta samkomulag sveitarfélagafélaganna sem varðar breytt sveitarfélagamörk.
Fyrirvarinn þarf að koma fram á skipulagsuppdrátt og í greinargerð aðalskipulagstillögunnar.
Ákvörðun ráðherra um breytt sveitarfélagamörk þarf að liggja fyrir áður en Skipulagsstofnun staðfestir aðalskipulagið, sbr. 3. mgr. 32. gr. skipulagslaga, en þegar breytt sveitarfélagamörk hafa tekið gildi er jafnframt hægt að fjarlægja fyrirvarann.
Sveitarfélagið Hvalfjarðarsveit getur einnig beðið með að taka ákvörðun um sveitarfélagamörkin í aðalskipulagstillögunni. Þegar ákvörðun ráðherra liggur fyrir getur sveitarfélagið síðar meir breytt aðalskipulaginu.

Stafrænt aðalskipulag
Yfirfara þarf og samræma stefnu um landnotkun og framsetningu á uppdrætti.
Á sveitarfélagsuppdrætti vantar t.d. auðkenni (bókstaf og númer) fyrir landnotkun við Efra-Skarð þ.e. frístundabyggð, skógræktar- og landgræðslusvæði og verslunar- og þjónustusvæði.
Á skipulagsuppdráttunum vantar auðkenni (bókstaf og númer) fyrir línutákn eins og vegi, göngu- og hjólastíga og veitur m.a. grann- og fjarsvæði vatnsverndar.
Bent er á að tilbúin gildi fyrir fitjutegundina línur, t.d. raflínur og aðrar veitur, er að finna í gagnalýsingu fyrir stafrænt aðalskipulag og er mælt er með því að nýta þau tákn bæði á útprentuðum uppdráttum og í starfrænni framsetningu.
Bent er á að nota eingöngu hlaupandi númer fyrir frístundabyggðina í stað þess að hafa F19a, b og c, svo dæmi sé tekið.
Skila þarf aðalskipulagsgögnum á stafrænu formi þegar sveitarfélagið leggur fram samþykkt aðalskipulag til staðfestingar hjá Skipulagsstofnun.
Einnig þarf að skila inn skrá yfir flokkun landbúnaðarlands.

Gerð vegaskrár og samráð
Skipulagstillögunni fylgir skýringaruppdráttur sem sýnir vegi í náttúru Íslands, aðra en þjóðvegi, sbr. 32. gr. laga um náttúruvernd og reglugerð um vegi í náttúru Íslands.
Hins vegar vantar yfirlit eða lista yfir þessa vegi þar sem tiltekið er hvort umferð um vegina sé takmörkuð við ákveðna tegunda ökutækja, tilgang umferðar eða árstíð svo dæmi séu tekin.
Minnt er á að hafa þarf samráð um gerð vegaskrárinnar við Umhverfisstofnun, Vegagerðina, Landmælingar Íslands, náttúru- og umhverfisverndarsamtök, Samtök ferðaþjónustunnar o.fl., sbr. 32. gr. laga um náttúruvernd og 2. gr. ofangreindrar reglugerðar.
Í forsendu- og umhverfisskýrslu kemur fram að samráð við gerð skrárinnar hafi verið samþætt við samráð vegna vinnslu tillögunnar.
Fyrir liggur umsögn Landmælingar Íslands með ábendingum sem varða vegi í náttúru Íslands en í umsögnum Umhverfisstofnunar eða Vegagerðarinnar er engin afstaða tekin til flokkunar veganna. Nauðsynlegt er að eiga samráð við ofangreinda aðila og aðra hagsmunaaðila um vegaskrána áður en aðalskipulagið og vegaskráin eru endanlega samþykkt og senda þarf Vegagerðinni tillögu að stafrænni skrá til rýni til að tryggja gæði gagna.
Bent er á leiðbeiningar á vef Skipulagsstofnunar um gerð vegaskrár og högun og skil á gögnum. Ennfremur er þar að finna forsnið fyrir skráningu gagna um vegi í náttúru Íslands.
Skila þarf vegaskránni til Skipulagsstofnunar í sér skrá á stafrænu formi með endanlegu aðalskipulagi, samhliða afgreiðslu aðalskipulagsins til staðfestingar.
Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti aðalskipulagstillöguna til auglýsingar skv. 31. gr. skipulagslaga á fundi sínum þann 8. mars 2022 að undangenginni athugun Skipulagsstofnunar í samræmi við 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagsstofnun var send tillagan til athugunar þann 10. mars 2022.
Skipulagsstofnun skilaði yfirferð sinni í bréfi dagsettu 8. apríl 2022 og hefur sveitarfélagið brugðist við þeim.
Helstu breytingar sem gerðar voru á aðalskipulagstillögunni, í kjölfar athugunar Skipulagsstofnunar, eru m.a. listaðar upp í greinargerðarhefti aðalskipulagstillögunnar, í 4 kafla um skipulagsferli, einnig í forsendum umhverfismatsskýrslu.

Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd leggur til við sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar að auglýsa aðalskipulagstillöguna samkvæmt 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br.

4.Stækkun framleiðsluplans við núverndi framleiðsluhús

2204004

Sótt er um stækkun framleiðsluplans við núverandi framleiðsluhús.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir stækkun framleiðsluplans.

5.Skólastígur 3 - Stofnun lóðar

2204014

Sótt er um að lóðinni Skólastíg 3, landeignanúmer 221409, verði skipt upp og ný lóð gerð utan um gamla skólahús Heiðarskóla.
Stærð nýrrar lóðar er um 50 x 67 m eða um 3.350 m2.
Með erindinu fylgdi eyðublað F-550 frá Þjóðskrá, "umsókn um skráningu nýrra landeigna í fasteignaskrá".
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja stofnun lóðarinnar.

6.Umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir uppsetningu skiltis við Hvalfjarðarveg í Hvalfirði

2204035

Erindi dags. 08.02.2022.
Menningar- og markaðsdnefnd Hvaljarðarsveitar óskar eftir framkvæmdaleyfi fyrir uppsetningu upplýsingaskiltis á útskoti/áningastað við Hvalfjarðarveg (47-11).
Skiltið verður staðsett á landi í eigu Hvals hf, Miðsandur Kampur, landeignanúmer L133503.
Skiltið er 1,77m x 1,55m að stærð. Hönnuður á skiltinnu er Hvíta húsið - auglýsingastofa. Á upplýsingarskiltinu verður texti um hvalstöðina, hernámsárin og álögin á Litla sand.
Fyrir liggur samþykki Hvals hf. sem landeiganda og Vegagerðarinnar sem veghaldara, fyrir uppsetningu og staðsetningu skiltisins.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd beinir því til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar að samþykkja framkvæmdaleyfið.

7.Loftslagsdagurinn 2022.

2204030

Erindi frá Umhverfisstofnun.

Umhverfisstofnun stendur fyrir Loftslagsdeginum ásamt samstarfsstofnunum. Á deginum koma saman margir af fremstu sérfræðingum þjóðarinnar í loftslagsmálum og útskýra umræðuna á mannamáli. Á dagskrá verða yfir tuttugu spennandi erindi frá Umhverfisstofnun, Veðurstofunni, Orkustofnun, Hagstofunni, Landgræðslunni, Háskóla Íslands og fleiri aðilum.

Meðal annars verður fjallað um:
Losun Ísland
Neysludrifna losun
Innra kolefnisverð
Náttúrumiðaðar lausnir og aðlögun
Orkuskipti

Loftslagsdagurinn 2022 er hugsaður fyrir almenning, stjórnvöld, fjölmiðla, vísindasamfélagið, nemendur og öll áhugasöm um loftslagsmál og fer fram í Hörpu og í beinu streymi þann 3. maí 2022. Skráning á loftslagsdagurinn.is
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd hvetur íbúa og starfsfólk sveitarfélagsins til að kynna sér fjölbreytta dagskrá og taka þátt í Loftslagsdeginum.
Lagt fram.

8.Styrktarsjóður EBÍ 2022.

2203059

Erindi frá Eignarhaldsfélagi Brunabótafélagi Íslands ásamt bréfi til kynningar á Styrktarsjóði EBÍ, en tilgangur sjóðsins er að styrkja með fjárframlögum sérstakar athuganir eða rannsóknir á ýmsum þróunarþáttum í atvinnulífi, samgöngum, fræðslu- og menningarmálum í þágu byggðarlaganna í aðildarsveitarfélögunum.
Erindið er sent öllum aðildarsveitarfélögum EBÍ.
Umsóknir skulu vera vegna sérstakra framfaraverkefna á vegum sveitarfélaganna en ekki vegna almennra rekstrarverkefna þeirra.
Í bréfinu kemur fram að til úthlutunar séu 5 milljónir króna og að umsóknarfrestur í styrktarsjóðinn sé til loka apríl 2022 og allar nánari upplýsingar séu einnig á heimasíðu félagsins www.brunabot.is.
Lagt fram.

9.Plokk á Íslandi

2204021

Stóri Plokkdagurinn verður haldinn um allt land 24. apríl nk. Rúmlega sjöþúsund og fjögurhundruð manns tilheyra samfélaginu "Plokk á Íslandi" á facebook og þar má greinilega sjá að almenningur er kominn á fullt í að plokka bæði í sínu nær og fjær umhverfi. Eftir þennan hvellmikla vetur er plast og rusl að koma undan snjó nánast um allt og áríðandi að þetta plast náist úr umhverfinu áður en það hverfur endanlega á haf út eða grefst í náttúruna í kringum okkur. Plokk á Íslandi hvetur fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök og einstaklinga að láta plokkið sig varða og taka þátt. Hvetjum fólk til þátttöku bæði heima í hverfi eða við næstu stóru umferðarmannvirki allt eftir tíma og getu.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd hvetur íbúa sveitarfélagsins til að taka þátt í verkefninu og felur umhverfisfulltrúa að vekja athygli á Stóra Plokkdeginum á heimasíðu sveitarfélagsins.
Lagt fram.

10.Hertar sóttvarnarreglur vegna hættu á fuglaflensu

2204020

Nýlega upplýsti Matvælastofnun að í gildi séu hertar sóttvarnarreglur fyrir alifugla og aðra fugla í haldi vegna hættu á fuglaflensu sem gæti borist til landsins með komu farfugla nú í vor.
Í því samhengi biður Matvælastofnun um að fá tilkynningar til sín um fund á veikum eða dauðum villtum fuglum nema augljóst sé að þeir hafa drepist af slysförum. Það er mikilvægt fyrir Matvælastofnun að fá sem flestar tilkynningar um veika eða dauða villta fugla.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 16:20.

Efni síðunnar