Fara í efni

Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd 2013-2022

152. fundur 19. janúar 2022 kl. 15:00 - 18:00 í stjórnsýsluhúsinu Innrimel 3
Nefndarmenn
  • Daníel A. Ottesen formaður
  • Guðjón Jónasson varaformaður
  • Ása Hólmarsdóttir ritari
  • Helgi Magnússon aðalmaður
  • Ragna Ívarsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Jökull Helgason embættismaður
Fundargerð ritaði: Ása Hólmarsdóttir
Dagskrá

1.Matfugl að Hurðarbaki - Matsáætlun-Starfsleyfi.

2201012

Erindi frá Umhverfisstofnun þar sem vakin er athygli á því að stofnunin hefur auglýst tillögu að starfsleyfi fyrir Matfugl ehf, Hurðarbaki. Frestur til að skila inn athugasemdumn var til 15. janúar 2022 en sveitarfélagið hefur sótt um frest.
Um er að ræða stækkun á eldisheimild Matfugls ehf., en núverandi fjöldi eldisrýma er 80.000 fuglar. Tillagan gerir ráð fyrir eldisrými fyrir 136.000 fugla, og að uppfylltum skilyrðum frekari stækkun í eldisrými fyrir 192.000 fugla.
Framkvæmdin fór í mat á umhverfisáhrifum og birti Skipulagsstofnun álit vegna þessa þann 14. ágúst 2019. Í áliti Skipulagsstofnunar kemur fram að stofnunin telji að neikvæðustu áhrif vegna stækkaðs kjúklingabús verði vegna ólyktar frá eldishúsum og að áhrif á loftgæði á nærliggjandi bæjum vestan við Hurðarbak verði talsvert neikvæð. Vegna óvissu um hversu mikil óþægindi nágrannar Hurðabaks muni upplifa í kjölfar stækkunarinnar lagði Skipulagsstofnun til að ekki yrði ráðist í fulla stækkun í 192.000 fuglastæði í einum áfanga, heldur yrði heimiluð stækkun, bundin við smærri áfanga. Að teknu tilliti til m.a. álits Skipulagsstofnunar, leggur Umhverfisstofnun því til að fyrsti áfangi stækkunar verði 136.000 fuglastæði. Að loknum tveggja ára reynslutíma af rekstri eldishúsanna og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, er snúa að losun lyktarvaldandi ammoníaks (NH3), verði heimilt að hefja rekstur í viðbótareldishúsum að fengnu samþykki Umhverfisstofnunar og heildareldisrými verði þá fyrir allt að 192.000 fugla.

Veiðifélag Laxár óskaði eftir því við Hafrannsóknastofnun hvort stofnunin hefði einhverjar athugasemdir við útgáfu starfsleyfisins vegna hugsanlegra áhrifa starfseminnar á lífríki Laxár í Leirársveit. Niðurstaða Hafrannsóknarstofnunar var sú að mæla þurfi ástand vatnasvæðis Laxár við Hurðabak, svo sem styrk uppleystra næringarefna og vöktun þess, til þess að hægt sé að staðfesta að núverandi starfsemi (og þar með aukin starfsemi) valdi ekki of miklu álagi á ána. Núverandi mælingar séu ekki nægilega margar og ekki nægilega árstíðabundnar.

Fyrir liggja athugasemdir frá eigendum Vestra-Miðfells og Hlíðar, sem leggjast gegn fyrirhugaðri stækkun kjúklingabúsins sbr. bréf dags. 14.01.2022.
Fyrir liggja athugasemdir frá eigendum Brekkubæjar í landi Vestra-Miðfells, sem leggjast gegn fyrirhugaðri stækkun sbr. bréf dags. 12.01.2022.
Umhverfis,-skipulags- og náttúruverndarnefnd ítrekar fyrri afstöðu sína um að uppfæra þurfi gildandi deiliskipulag svæðisins.
Nefndin tekur undir ábendingar frá Hafrannsóknarstofnun um vöktun á lífríki Laxár. Einnig að ávallt verði notuð besta fáanlega tækni vegna útblásturs frá eldishúsunum til að sporna við því að lyktarmengun berist yfir nálæga byggð. Nefndin vill einnig benda á að hauggeymslur séu þannig úr garði gerðar að búpeningur og vargfuglar komist ekki í þær.

2.Sameiginleg svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs 2021-2032.

2109025

Erindi dags. 30. nóvember 2021 frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga er varðar uppfærslu svæðisáætlana vegna lagabreytinga.
Á fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var 26. nóvember 2021 var fjallað um þær breytingar sem framundan eru í úrgangsmálum í kjölfar nýlegra lagabreytinga. Stjórnin áréttaði að mikilvægt væri fyrir sveitarfélögin að hefja nú þegar undirbúning fyrir gildistöku lagabreytinganna og uppfæra svæðisáætlanir um meðhöndlun úrgangs með hliðsjón af þeim og nýlega samþykktri stefnu um meðhöndlun úrgangs. Öll útboð sem framundan eru, er varða söfnun og aðra meðhöndlun úrgangs, þurfa að taka tillit til umræddra lagabreytinga.

Málið var lagt fram til kynningar á 149. fundi nefndarinnar þann 08.12.2021.
Á 342. fundi sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar þann 14.12.2021 var erindið tekið fyrir og vísað til USN-nefndar.

Forsaga málsins er sú að í samræmi við ákvæði 6. greinar laga nr. 55/2003 og samkomulag frá 15. maí 2009 hefur samstarfsvettvangur SORPU bs, Sorpurðunar Vesturlands hf., Sorpstöðvar Suðurlands bs og Kölku, sorpeyðingarstöðvar sf. unnið tillögu að nýrri svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á starfssvæði samlaganna fjögurra fyrir tímabilið 2022 -2033.

Tillagan hefur á vinnslustigi verið kynnt á vettvangi aðildarsveitarfélaganna og hlotið meðferð í samræmi við ákvæði laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana sbr. lög nr. 111/2021.

Í samræmi við framangreind ákvæði laga nr. 55/2003 er tillagan nú send til allra þeirra sveitarfélaga sem aðild eiga að áætluninni til formlegrar staðfestingar.
Óskað er eftir staðfestingu sveitarstjórnar fyrir 26. febrúar 2022.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd gerir ekki athugasemd við tillöguna og leggur til við sveitarstjórn að samþykkja hana formlega.

3.Varnaræfingin Norður víkingur 2022.

2111038

Erindi frá Utanríkisráðuneyti.
Á 342. fundi sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar var málið tekið fyrir og samþykkt að vísa erindinu til kynningar í USN-nefnd.

Varnaræfingin NV2022 fer fram nú í fyrsta sinn síðan árið 2011 en fyrir þann tíma hafði hún verið haldin reglulega síðan 1982. Æfingin er tvíhliða varnaræfing Íslands og Bandaríkjanna, grundvölluð á ákvæðum varnarsamningsins frá 1951 með síðari breytingum, viðaukum, samkomulagi og yfirlýsingum landanna beggja. Öðrum aðildarríkum NATO og samstarfsríkjum er boðin þátttaka en á þessu stigi er ekki ljóst hvort eða hve umfangsmikil þátttaka þeirra verður.
Æfingin fer fram dagana 2.-14. apríl 2022.
Einn helsti hápunktur æfingarinnar er æfing landtöku landgönguliða bandaríska sjóhersins af sjó. Eftir gaumgæfilegar athuganir hefur niðurstaðan orðið sú að heppilegasti staðurinn sé Miðsandur í Hvalfirði, fjaran milli hvalstöðvarinnar og gömlu olíubryggjunnar. Olíudreifing, sem eigandi landsins hefur gefið leyfi fyrir sitt leiti til að nota fjöruna sem landtökuæfingastað. Þá hefur Hvalur hf. einnig gefið leyfi fyrir því að starfsmannaaðstaða fyrirtæksins í gömlu hermannabröggunum verði einnig nýtt ef þörf verður á því.
Landtökudagarnir verða á tímabilinu 8.-12. apríl en einungis dagpart einhvern þessara daga. Æfingin fer þannig fram að móðurskip sjóhersins mun liggja við stjóra utanlega í firðinum en frá því munu svo sigla landtökuprammar og svifnökkvar með liðsaflann sem telja mun 200-400 manns. Liðsaflinn mun dvelja í fjörunni dagpart. Hugsanlega mun hluti hans leggja í göngu meðfram þjóðveginum. Ekki er fyrirséð neitt umhverfisrask samfara þessu utan þess að koma þarf fyrir færanlegum salernum í nágrenni við fjöruna. Helstu óþægindin fyrir almenning sem hugsanlega hljótast af þessum viðburði eru tímabundnar takmarkanir á umferð um Hvalfjarðarveg frá Botnsdal að afleggjara upp í Skorradal. Landhelgisgæslan mun verða með varðskip í firðinum til að stýra þar umferð og gæta öryggis auk þess sem lögreglan í Borgaresi, frá Reykjavík og Ríkislögreglustjóri munu annast löggæslu og öryggisgæslu á svæðinu.

Óskað er samstafs við sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar, byggingarfulltrúa og skipulags- og umhverfisfulltrúa. Þá verður haft samráð við Heilbrigðiseftirlit Vesturlands og Umhverfisstofnun eftir því sem þörf krefur.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd gerir fyrir sitt leyti ekki athugasemd við varnaræfinguna, en hvetur til að haft verið samráð við landeigendur á hverjum stað vegna skipulags og undirbúnings. Skipulags- og umhverfisfulltrúa falið að vera tengiliður við verkefnið.

4.Holtavörðuheiðarlína 1

2012054

Skýrsla um valkostagreiningu Holtavörðuheiðarlínu 1.
Frestur til að skila athugasemdum var til 17. janúar 2021, en sveitarfélagið hefur óskað eftir lengri fresti.

Landsnet hefur áform um lagningu Holtavörðuheiðarlínu 1, sem yrði 220 kV loftlína milli Klafastaða í Hvalfirði að nýju tengivirki á Holtavörðuheiði, alls um 90 km langa leið. Línan er á framkvæmdaáætlun Kerfisáætlunar Landsnets 2020-2029 og áætlað að framkvæmdir hefjist árið 2024. Unnið er að mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og liður í því er að setja fram tillögur um raunhæfa valkosti línunnar, sem lagðir verði fram til umhverfimats. Landsnet hefur í samráði við verkefnaráð Holtavörðuheiðarlínu 1, landeigendur og almenning leitað eftir hugmyndum og ábendingum um línuleiðir. Markmiðið er að vinnan leiði að lokum til skynsamlegrar niðurstöðu um aðalvalkost línunnar. Niðurstaða valkostagreiningar er að alls sjö valkostir Holtavörðuheiðarlínu 1 eru taldir geta náð markmiðum framkvæmdarinnar á fullnægjandi hátt. Greiningin leggur jafnframt grunn að mati á því hvar á línuleiðinni mestur ávinningur er af því að samnýta möstur eða leggja nærliggjandi línur í jörð.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd álítur að línuleið Holtavörðuheiðarlínu 1 verði best fyrir komið meðfram núverandi lagnaleið Vatnshamralínu. En verði Bjarnarholtsleið fyrir valinu að þá verði strengur lagður í jörðu.
Í tillögu að aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 er fjallað um Holtavörðuheiðarlínu 1, m.a. í forsendum skipulagstillögunnar, sem er undirstaðan fyrir ákvarðanatöku um landnotkun og þróun byggðar í Hvalfjarðarsveit.

5.Starfsumhverfi skipulagsfulltrúa í sveitarfélögum - Skýrsla.

2201027

Kynning á skýrslu frá RFK-ráðgjöf fyrir Skipulagsstofnun.
Lagt fram til kynningar.

6.Umferðaröryggisáætlun.

2201028

Kynning frá VSÓ Ráðgjöf ehf.
Með bréfi dags. 11.01.2022 vill fyrirtækið kynna fyrir sveitarfélaginu nýja nálgun sem notast hefur verið við til að gera umferðaröryggisáætlanir meira lifandi og sýnilegar m.a. með því að setja niðurstöður í vefsjá í stað pappírsforms.
Megin markmið með gerð umferðaröryggisáætlana er að fækka umferðarslysum og efla umferðaröryggi í vegakerfinu, og sem getur nýst vel við forgangsröðun fjármuna við áætlanagerð.
VSÓ Ráðgjöf mælir með því fyrir Hvalfjarðarsveit að vinna að gerð umferðaröryggisáætlunar, áður en breikkun Vesturlandsvegar hefst, en með því verður hægt að sýna fram á bætt umferðaröryggi í sveitarfélaginu vegna framkvæmdanna.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd óskar eftir kynningu fyrirtækisins á sambærilegum verkefnum úr öðrum sveitarfélögum og felur skipulags- og umhverfisfulltrúa að óska eftir því.

7.Aðalskipulag Akraness 2021-2033- vinnslutillaga

2112026

Erindi dags. 14.12.2021 frá Akraneskaupstað.
Vinnslutillaga á aðalskipulagi Akraness 2021-2033.
Undanfarin ár hefur verið unnið að endurskoðun aðalskipulags Akraness 2005-2017. Drög að endurskoðuðu aðalskipulagi eru nú lögð fram til kynningar í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Frestur til að skila inn athugasemdum var til 30. desember 2021.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd gerir engar athugasemdir við fyrirliggjandi drög að endurskoðuðu Aðalskipulagi Akraness 2021-2033.

8.Drög að húsnæðisáætlun Hvalfjarðarsveitar

2201029

Drög að húsnæðisáætlun Hvalfjarðarsveitar.
Lagt fram til kynningar.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd gerir ekki athugasemdir við tillöguna.

9.Fagrabrekka - skipting lóðar.

1910074

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti á fundi sínum þann 12.11.2019 samruna og stækkun lóðar Fögrubrekku L174355 og Sólvalla 3 L194793. Samkvæmt samþykktinni átti að stofna lóðir úr Fögrubrekkulandi sem renna áttu saman við lóð Sólvalla 3 annars vegar og Fögrubrekku hinsvegar.
Meðfylgjandi eru uppdrættir.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd gerir ekki athugasemd við uppdrættina og felur skipulags- og umhverfisfulltrúa að afla undirritunar aðliggjandi lóðarhafa vegna málsins.

10.Hlíðarbær, lóðarblöð

2201003

Drög að lóðarblöðum fyrir lóðir í Hlíðarbæ.
Lagt fram til kynningar.
Umhverfis,- skipulags og náttúruverndarnefnd samþykkir framlögð lóðarblöð fyrir lóðir í landi Hlíðarbæjar og vísar til afgreiðslu í sveitarstjórn.

11.Hafnarfjall 2. Tillaga að breytingu á deiliskipulagi

2112022

Runólfur Sigurðsson f.h. Tourist Online ehf, sækir um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðar Hafnarfjalls 2.
Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir nýjum byggingarreit fyrir 6 smáhýsi (gistihús).
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd samþykkir tillöguna með fyrirvara um lagfæringu á skipulagstillögu í samræmi við umræður á fundinum.
Samþykkt að auglýsa breytingu á deiliskipulagi samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

12.Leirá - lýsingartillaga að deiliskipulagi - Réttarhagi I og II

2111023

Tillaga að lýsingu deiliskipulagstillögu fyrir Réttarhaga I og II, sem er smábýlabyggð úr landi Leirár, hefur verið auglýst skv. 40. grein skipulagslaga nr. 123/2010.
Umsagnir umsagnaraðila/lögaðila liggja nú fyrir en frestur til að skila inn ábendingum var til 14. janúar 2022.
Leitað var umsagna til Vegagerðarinnar, Veðurstofu Íslands, Umhverfisstofnunar, Samgöngustofu, Minjastofnunar Íslands, Heilbrigðiseftirlits Vesturlands og bárust umsagnir frá öllum aðilum.
Minjastofnun Íslands, Umhverfisstofnun og Samgöngustofa gera ekki ábendingu við lýsingartillöguna.
Veðurstofan gerir eftirfarandi ábendingu: Seinni hluti kaflans Veðurfar og náttúruvá hljóði svo: Hætta af völdum jarðskjálfta er lítil á skipulagssvæðinu. Algengustu vindáttir eru austlægar, úr norðnorðaustri til austsuðausturs.
Heilbrigðiseftirlit Vesturlands gerir m.a. eftirfarandi ábendingu: Geta um hvernig neysluvatn er fengið og hvernig fráveitumál verða leyst og tiltaka fjarlægð frá Leirá.
Almenningi hefur verið gefinn kostur á að kynna sér tillöguna og koma með ábendingar skv. ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010. Engar ábendingar komu frá almenningi en leitað var umsagna 5 umsagnaraðila/lögaðila og liggja fyrir svör frá þeim.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd hefur lagt mat á framkomnar ábendingar og eftir atvikum brugðist við þeim/tekið tillit til þeirra.
Skipulags- og umhverfisfulltrúa falið að leita umsagnar Veiðifélags Leirár og Hafrannsóknarstofnunar.
Skipulags- og umhverfisfulltrúa falið að senda landeiganda og skipulagshöfundi umræddar ábendingar umsagnaraðila til áframhaldandi vinnslu vegna vinnu við deiliskipulag.

13.Vindorkugarður í landi Brekku - forsamráð

2201026

Erindi dags. 10.01.2021 frá Skipulagsstofnun.
Fyrirtækið Zephyr Iceland ehf. áformar að reisa allt að 50 MW vindorkugarð í landi Brekku í Hvalfjarðarsveit og hefur fengið EFLU verkfræðistofu til ráðgjafar við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar. Skv. 8. gr. nýrra laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana er gert ráð fyrir að Skipulagsstofnun geti staðið fyrir forsamráðsfundi að eigin frumkvæði en einnig geti framkvæmdaraðili eða leyfisveitandi haft frumkvæði að slíkum fundi. Zephyr og EFLA hafa nú óskað eftir formlegum forsamráðsfundi með Skipulagsstofnun og leyfisveitendum. Markmið forsamráðs er að stuðla að samræmdu og skilvirku ferli umhverfismats, skipulags og leyfisveitinga vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar auk þess að greiða fyrir miðlun upplýsinga á milli framkvæmdaraðila, stjórnvalda og almennings og stuðla að gæðum rannsókna og gagna. Gert er ráð fyrir að Skipulagsstofnun haldi utan um forsamráðið.
Skipulagsstofnun fer þess á leit að Hvalfjarðarsveit eigi fulltrúa á slíkum forsamráðsfundi.
Fyrsti fundur er fyrirhugaður föstudaginn 21. janúar næstkomandi.
Lagt fram til kynningar.
Fulltrúar í umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd munu taka þátt boðuðum forsamráðsfundi með Skipulagsstofnun vegna málsins.

14.Kolefnisföngun, Carbfix og tilraunaborhola

2201019

Erindi dags. 06.01.2021 frá Elkem Ísland ehf.
Elkem Ísland hefur hafið samstarf með Aker Carbon Capture (föngun CO2) og Carbfix (niðurdælingu á CO2).
Í því sambandi þarf fyrirtækið að átta sig á því hve raunhæf þessi útfærsla er á Grundartanga.
Vegna málsins var haldinn fundur með sveitarfélaginu og fleiri aðilum, til að ræða mögulegar staðsetningar tilraunaholu á Grundartangasvæðinu en niðurstaða slíkrar tilraunaborholu, gefur vísbendingar um staðsetningu mögulegrar vinnsluborholu í framtíðinni líkt og eru á Hellisheiði.
Carbfix mun sækja um framkvæmdarleyfi fyrir eina tilraunaborholu á næstu vikum til að kanna áræðanleika á jarðlögum á svæðinu.
Fundurinn var haldinn 11. janúar sl., m.a. til að ræða um mögulegar sviðsmyndir í framtíðinni.
Lagt fram til kynningar.

15.Hávarsstaðir 2 - Stækkun landeignar

2201021

Erindi frá Julio Cesar Gutierrez um stækkun lóðar úr landi Hávarsstaða.
Ný lóð tæplega 4,2 ha að stærð óskast stofnuð úr landi Hávarsstaða og mun hún sameinast lóð Hávarsstaða 2 og verður sú lóð rúmlega 4,7 ha að stærð eftir samruna lóðanna.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd samþykkir stofnun lóðarinnar.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar.

16.Stiklur 1 - skipting lóðar

2201006

Erindi dags. 21.12.2021 frá Runólfi Sigurðssyni hjá Al-hönnun ehf, f.h. Xenía ehf, um skiptingu lóðar.

Sótt er um stofnun lóðar úr upprunalandinu Stiklur 1, landeignanúmer 178286. Ný landeign heitir Stiklur 2 og munu engin mannvirki fylgja henni úr upprunalandinu.
Stiklur 1 verða tæplega 3.153 m2 að stærð.
Stiklur 2 verða rúmlega 2.849 m2 að stærð.
Með erindinu fylgdi undirritað samþykki landeiganda.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd samþykkir erindið með þeim áskilnaði að gengið verði frá kvöð um aðgengi og umferð þar sem við á, einnig kvöð um aðgengi að neysluvatni.

17.Bjarkarás 11 - Grenndarkynning - byggingarleyfi

2109006

Erindi dags. 03.01.2022 frá Tryggva Þ. Aðalsteinssyni varðandi fyrirhugaða byggingu á lóðinni sem er skemma/frístundaaðstaða.
Málið var síðast á dagskrá 149. fundar USN-nefndar dags. 08.12.2021, en þá hafnaði nefndin erindinu á grundvelli athugasemda sem komu við hæð byggingarinnar auk þess sem mannvirkið samræmdist ekki gildandi deiliskipulagi á svæðinu.
Breytt tillaga barst þann 03.01.2022 þar sem vegghæð hefur verið lækkuð um 20 cm, rishalla þaks hefur verið breytt þannig að mænir hefur lækkað um 20 cm og einnig hefur byggingin verið lækkuð í landinu um 20 cm. Hæð hússins er því 6,5 m frá gólfplötu.
Heildar lækkun miðað við fyrri tillögu er því 60 cm (en 40 cm miðað við gólfplötu), einnig hefur skjólmön verið hækkuð lítillega ásamt því að trjágróður hefur verið aukinn á uppdrætti.
Fram kemur í erindinu að tilgangur byggingarinnar sé ekki að stunda atvinnustarfsemi enda sé það ekki heimilt samkvæmt deiliskipulagi, heldur sé um að ræða geymsluhúsnæði sem sé ætlað sem tómstundaaðstaða.
Áætlað er að byggja íbúðarhús í framhaldi af byggingu skemmunnar.

Í gildandi aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2008-2020 sem tók gildi árið 2010, er deiliskipulagssvæðið skilgreint sem íbúðarsvæði Í1 og skv. því er heimilt að reisa 11 einbýlishús á einni hæð á svæðinu.
Í skipulagsskilmálum segir að gæta skuli samræmis í hönnun og gerð húsnæðis hvað útlit og frágang varðar.
Hámarks nýtingarhlutfall skal vera 0,1 eða 10 % af stærð lóðar.
Hámarkshæð mannvirkja á svæðinu skal vera 6 m.
Innan lóðar nr. 11 eru friðaðar fornminjar. Umhverfis ystu mörk fornminja er 15 m friðhelgað svæði sem ekki má raska.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd hafnar erindinu á grundvelli þess að umrædd bygging er ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar.

18.Höfn II. br. deiliskipulags fristundarbyggðar lóð nr. 81

2112016

Erindi dags. 07.12.2021 frá Landlínum ehf. fh. lóðarhafa Hafnarskógs 81.
Óskað er eftir breytingu á deiliskipulagi er varðar lóð nr 81.
Breytingin tekur til færslu á lóð nr. 81 ásamt stækkun og færslu byggingarreits og breytingu mænisstefnu lóðar, lóðin færð til suðvesturs. Stærð lóðar óbreytt. Mænisstefnu breytt til samræmis við núverandi hús á lóðinni.
Í greinargerð er gerð breyting í kaflanum "Húsagerð/Byggingarleyfi" er varðar hámarksheildarstærð húsa og þakhalla, en ástæða breytinganna er sú að núverandi frístundahús og geymsla voru ekki innan byggingarreits og því þurfti að stækka hann.
Í breytingunni felst einnig að hámarks heildarstærð húsa samanlagt, aukist um 20 m2, verði 130 m2 í stað 110 m2 skv. gildandi deiliskipulagi. Auk þess sé þakhalla breytt úr 14-45 gráðum í 0-45 gráður.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd frestar afgreiðslu málsins, skipulag- og umhverfisfulltrúa falið að vinna málið áfram.

19.Sólvellir 3, stofnun lóða.

2102152

Málið var síðast á dagskrá umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefndar þann 08.12.2021 og var þá bókað að breyta ætti upprunalandinu Sólvöllum 3 í Sólvelli 6. Sólvellir 4,5 og 6 breyttust að sama skapi í Sólvelli 3, 4 og 5.
Meðfylgjandi eru uppfærðir uppdrættir.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd gerir ekki athugasemd við uppdrættina.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 18:00.

Efni síðunnar