Fara í efni

Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd 2013-2022

138. fundur 15. apríl 2021 kl. 15:00 í stjórnsýsluhúsinu Innrimel 3
Nefndarmenn
  • Daníel A. Ottesen formaður
  • Guðjón Jónasson varaformaður
  • Ása Hólmarsdóttir ritari
  • Helgi Magnússon aðalmaður
  • Jóhanna Harðardóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Jökull Helgason embættismaður
Fundargerð ritaði: Jökull Helgason Starfsmaður Skipulags- og umhverfisfulltrúa
Dagskrá

1.Skotfélag Akraness - endurnýjun starfsleyfis fyrir skotæfingasvæði við Akrafjall

1909040

Heilbrigðiseftirlit Vesturlands hefur auglýst drög að starfsleyfi fyrir skotæfingasvæði Skotfélags Akraness sem staðsett er norðanvert við rætur Akrafjalls.
Umsóknin er skv. lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og skv. henni er sótt um starfsleyfi fyrir æfingasvæði skotfélagsins þar sem er rekstur skotíþróttavalla- og æfingasvæðis ólympískra íþróttagreina en starfsemin hófst árið 1995.

Landspilda sem skotæfingasvæðið er á er úr landi Óss í Hvalfjarðarsveit en í eigu Akraneskaupsstaðar.
Á Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2008 til 2020 er landsvæðið skilgreint sem „opið svæði til sérstakra nota“ og merkt sem O33 á uppdrætti, en í greinargerð aðalskipulagsins er svæðinu lýst sem "skotfimisvæði úr landi Óss".
Í nágrenni við svæðið eru gönguleiðir upp á Akrafjall, skógræktarsvæði með útivistarstígum og reiðvegur.
Hvalfjarðarsveit lét gera hávaðamælingar á svæðinu í byrjun árs 2019 en í skýrslunni kemur fram að hávaði frá starfseminni sé óverulegur.

Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd fjallaði síðast um endurnýjun tímabundins starfsleyfis á 105. fundi sínum þann 01.10.2019. Eftirfarandi bókun var gerð:
"Nefndin gerir ekki athugasemd við útgáfu starfsleyfis fyrir æfingasvæði skotfélags Akranes til 10. september 2020. USN nefnd áréttar við Akraneskaupsstað að vinnu við deiliskipulag fyrir svæðið verði lokið eigi síðar en september 2020."

Síðasta gildandi starfsleyfi fyrir svæðið var svo endurnýjað til eins árs í september 2019. Í greinargerð með drögum að starfsleyfinu, sem kynnt var Hvalfjarðarsveit og Akraneskaupstað, var tíunduð ástæða þess að starfsleyfið væri tímabundið og var ástæðan sú að ekki væri búið að vinna deiliskipulag fyrir svæðið.

Heilbrigðisnefnd hefur beðið eftir að landeigandi deiliskipuleggði svæðið frá því umsókn barst en af því hefur ekki orðið. Starfsleyfisumsóknin hefur verið til umræðu á nokkrum fundum Heilbrigðisnefndar Vesturlands síðasta árið og að lokum var samþykkt á fundi nefndarinnar þann 10. febrúar s.l. að auglýsa drög að leyfi sem gilda á í 4 ár.

Starfsleyfisskilyrði fyrir skotfæfingasvæði ber að auglýsa í minnst 4 vikur og skulu athugasemdir berast á eftirlit@hev.is fyrir 23. apríl 2021.

Með erindinu fylgdu drög starfsleyfisins ásamt greinargerð með umsókn Skotfélags Akraness. Nánari upplýsingar er einnig að finna á vefsvæðinu www.hev.is.

Starfsemin er í samræmi við gildandi aðalskipulag Hvalfjarðarsveitar 2008-2020 og áfram er gert ráð fyrir þessari landnotkun við endurskoðun aðalskipulagsins sem nú stendur yfir. Sveitarfélagið hefur ítrekað óskað eftir við landeiganda, að gert verði deiliskipulag fyrir svæðið, en þær óskir hafa ekki borið árangur.
Nefndin ítrekar að hafist verði strax handa við gerð deiliskipulags fyrir skotæfingasvæðið þar sem fjallað verði m.a. um skotstefnu þar sem gætt verður að öryggi fólks og búfénaðar í næsta nágrenni. Í starfsleyfi komi skýrt fram hver opnunartími skotsvæðisins sé, ákvæði um hljóðvist s.s. um notkun hljóðdeyfa ofl., sem og að tekið verði tillit til þeirra ábendinga sem borist hafa Hvalfjarðarsveit, frá íbúum í næsta nágrenni við skotæfingasvæðið.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd leggst ekki gegn útgáfu tímabundins starfsleyfis fyrir skotæfingasvæðið, til 2 ára í stað 4 ára, en ítrekar fyrri kröfu sína um að lokið verði við gerð deiliskipulags fyrir svæðið.
AH tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.

2.Starfsleyfi - Reykjabúið ehf, Fögrubrekku í Hvalfjarðarsveit.

2103138

Heilbrigðiseftirlit Vesturlands hefur auglýst drög að starfsleyfi fyrir rekstur kjúklingabúsins Fögrubrekku í Hvalfjarðarsveit.

Leyfið sem fyrirhugað er til tveggja ára, er fyrir alifuglabú og er gefið út skv. lögum um hollustuhætti og mengungarvarnir nr. 7/1998, ákvæðum reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnareftirlit og ákvæðum reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína. Starfsleyfið mun einnig byggja á samræmdum starfsleyfsiskilyrðum sem gefin hafa verið út af Umhverfisstofnun.

Að Fögrubrekku í Hvalfjarðarsveit hefur verið rekið alifuglabú frá árinu 1985. Síðasta gilda starfsleyfi rann út í árslok árið 2015.

Í aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2008-2020 er lóð Ísfugls skilgrind sem samfélagsþjónustusvæði en í drögum að nýju aðalskipulagi sem er í vinnslu, hefur landnotkun lóðarinnar verið breytt í landbúnaðarland en nýja aðalskipulagið hefur ekki tekið gildi en vonir standa til að það verði auglýst og kynnt síðar á þessu ári.

Heilbrigðisnefnd Vesturlands gaf út starfsleyfi fyrir allt að 11.000 fugla búi þann 15. nóvember 2002 sem gilti til fjögurra ára. Árið 2003 sótti þáverandi rekstraraðili um stækkun á búinu í allt að 24.000 fugla.

Samkvæmt umsókn nú eru alls 27.000 stæði fyrir kjúkling.
Magn kjúklingaáburðar sem fellur til er metið um 170 tonn á ári og verður hann notaður á tún og við endurræktun þeirra.
Með umsókn fylgdu samningar um notkun á áburði og kort af því landi sem notað verður til áburðardreifingar.

Starfsleyfisskilyrði fyrir starfsemina ber að auglýsa í minnst 4 vikur og skulu athugasemdir vegna starfsleyfisins berast á eftirlit@hev.is fyrir 16. april 2021.
Með erindinu fylgdu drög starfsleyfisins. Nánari upplýsingar er einnig að finna á vefsvæðinu www.hev.is.

Skv. gildandi aðalskipulagi er landið skilgreint sem samfélagsþjónustusvæði.
Við endurskoðun aðalskipulagsins er gert ráð fyrir að landnotkunin breytist í landbúnaðarsvæði sbr. landnotkunarflokkur 3.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd gefur jákvæða umsögn með veitingu starfsleyfis til tveggja ára, fyrir rekstur kjúklingabúsins Fögrubrekku í Hvalfjarðarsveit.
AH tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.

3.Deiliskipulagsbreyting - Fornistekkur 37 í landi Bjarteyjarsands.

2103145

Forsaga málsins er sú að sótt var um leyfi fyrir minniháttar breytingu á deiliskipulagi er varðar lóðina Fornastekk nr. 37 en í breytingunni fólst að byggja geymslu 50 m2 að stærð auk þess sem mænishæð yrði 6,0 m.
Stærð núverandi sumarhúss sem fyrir er á lóðinni er 89,2 m2.
Með erindinu fylgdi uppdráttur frá Ingvari Jónssyni hjá Arkitek.

Skv. gildandi deiliskipulagi er á hverjum byggingarreit heimilt að reisa eitt frístundahús allt að 120 m2, eitt gestahús allt að 20 m2 og einn geymsluskúr/gróðurhús allt að 10 m2. Sé gestahús sambyggt frístundahúsi má samanlögð stærð húsanna vera 140 m2.
Mænishæð gestahúsa má mest vera 4,0 m og geymsluskúrs 3,5 m, mælt frá lægsta punkti lóðar við húsvegg.

Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd fjallaði áður um erindið á 115. fundi sínum þann 07.04.2020 en skv. erindinu þá, var óskað eftir minniháttar breytingu á deiliskipulagi. Eftirfarandi bókun var gerð hjá Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd:
"Nefndin telur að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi enda er um verulegar breytingar að ræða. Nefndin felur Skipulags- og umhverfisfulltrúa að vinna málið áfram."

Með erindi dags. 13.04.2021 hefur mænishæð hússins verið breytt og er nú 4,0 m.
Húsið verður grafið í brekku en hæðarmunur er í lóðinni, einnig verða tré gróðursett kringum húsið.
Óskað er eftir að nefndin fjalli um málið að nýju eftir að húsið hefur verið lækkað um 2,0 m.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd hafnar erindinu um óverulega breytingu á deiliskipulagi svæðisins, á grundvelli ákvæða í deiliskipulagi.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

4.Deiliskipulagsbreyting-Vestri Leirárgarðar.

2102006

Erindi dags. 02.02.2021 frá Jees arkitektum f.h. landeiganda. Um er að ræða breytingu á gildandi deiliskipulagi dags. 12.04.2011 fyrir Vestri-Leirárgarða í Hvalfjarðarsveit. Deiliskipulagið gerir ráð fyrir stækkun byggingarmagns og byggingarreita fyrir einbýlishús, hesthús og fjárhús, er það gert til að hafa aukið svigrúm fyrir staðsetningu mannvirkja og /eða stækkun þeirra. Felld er út kvöð um gegnumakstur, felldur út byggingarreitur austast á reitnum fyrir allt að 300 m2 íbúðarhús á tveimur hæðum (íbúðarhús 1), felld út lóð og byggingarreitur fyrir allt að 2000 m2 reiðhöll. Byggingarmagn núverandi íbúðarhúss/bílskúrs nyrst á svæðinu, aukið úr 300 m2 í 400 m2. Byggingarmagn núverandi hesthúss/hlöðu/véla- og verkfærageymslu aukið úr 500 í 700 m2. Byggingarmagn núverandi einbýlishúss/bílskúrs austast á svæðinu, aukið úr 200 í 400 m2.
Eindið var áður tekið fyrir á 131. fundi umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefndar þann 16.02.2021. Í kjölfar þess fundar óskaði skipulagsfulltrúi eftir minnisblaði/leiðbeiningum frá lögmanni sveitarfélagsins og barst minnisblaðið þann 11.04.2021.
Minnisblað lögmanns sveitarfélagsins lagt fram.
Umræður um málið.
Samþykkt að fela formanni umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefndar og skipulags- og umhverfisfulltrúa að funda með landeigendum á svæðinu og vinna áfram að málinu.

5.Ósk um breytingu á notkun á skipulagi fyrir Skólastíg 3

1910061

Forsaga málsins er erindi frá Lögvernd fyrir hönd Latona Asset Management ehf, sem tekið var fyrir á fundi sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar þann 12.11.2019 þar sem óskað var eftir breytingu á landnotkun Skólastígs 3.

Á síðasta fundi umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefndar (137. fundur) sem haldinn var þann 25.03.2021, var fjallað um erindi eigenda Skólastígs 3 en á fundinn mætti einnig Andri B. Arnþórsson lögmaður hjá Lögvernd og kynnti hugmyndir eigenda varðandi framtíðaráform Skólastígs 3.
Í kjölfar fundarins þann 25.03.2021 sendi Andri lögmaður sveitarfélaginu nýtt erindi dags. 30.03.2021 f.h. Latona Asset Management ehf þar sem óskað er eftir breytingu á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar vegna Skólastígs nr. 3.

Skv. núgildandi aðalskipulagi er svæðið skilgreint sem þjónustustofnun og í samræmi við það var upphaflega gert ráð fyrir að LAM myndi opna alþjóðlega þróunar-, vísinda-, menntunar- og menningarmiðstöð fyrir þá sem hafa áhuga á tölvutækni og tölvuleikjum.
Ósk um breytt skipulag byggir á því, að allt frá því LAM keypti Skólastíg 3, hefur félagið ekki getað hagnýtt húsnæðið og landsvæðið í kringum það eins og lagt var upp með í upphafi. Hefur félagið þar af leiðandi ekki haft neinar tekjur af húsnæðinu en þurft að standa undir töluverðum kostnaði við rekstur þess. Því leita forsvarsmenn LAM til sveitarfélagsins í þeirri viðleitni að breyta aðalskipulagi fasteignarinnar þannig að notkun nái einnig til verslunar og þjónustu. Með því nær félagið að aðlaga húsnæðið og sækja um leyfi til þess að bjóða upp á gistingu fyrir ferðamenn.
Ef sveitarfélagið sér sér ekki fært að breyta notkun á landi í verslun og þjónustu er óskað eftir að aðilar vinni saman að útfærslu sem rýmkar notkunarmöguleika fasteignarinnar með það að marki að LAM selji eignina til þriðja aðila sem getur hagnýtt eignina.
Erindinu vísað til áframhaldandi vinnu við endurskoðun aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar.

6.Höfn 2, frístundabyggð ósk um breytingu á aðal- og deiliskipulagi.

2104008

Ósk um breytingu á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar er varðar Höfn 2.
Nánar tiltekið er óskað eftir að í aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar verði tiltekið frístundasvæði skilgreint sem atvinnu- og þjónustusvæði. Innan þessa svæðis megi veita leyfi til útleigu frístundahúsa með tilskildu rekstrarleyfi. Annar atvinnurekstur verði þó ekki leyfður innan þessa svæðis.

Í deiliskipulagi fyrir frístundabyggð í landi Hafnar II verði svæði á vesturjaðri byggðarinnar skilgreindur sem atvinnu- og þjónustusvæði. Svæðið afmarkast af Melskarðalæk að austanverðu, ströndinni og lóðinni Hraukum að vestanverðu. Með erindinu fylgdi mynd þar sem sjá má hvaða reit um ræðir og drög að afmörkun hans.

Umrætt svæði stendur í jaðri frístundabyggðarinnar í landi Hafnar II. Þar hafa aðeins þrjú hús verið byggð (Hafnarskógar 73, 75 og 81), en skipulag gerir ráð fyrir fleiri lóðum á svæðinu. Umsóknaraðilar hafa þegar gengið frá leigusamningi um eina aðra lóð (Hafnarskóga 69). Svæðið er vel afmarkað af Melskarðslæk, ströndinni og vestri mörkum þess. Svæðið stendur auk þess í um 400 metra fjarlægð frá næstu bústöðum sem byggðir hafa verið innan sumarhúsabyggðarinnar svo þessi skipulagsbreyting ætti ekki að hafa teljandi áhrif eða draga úr gæðum á upplifun þeirra sem þar hafa þegar byggt bústaði.
Umsækjendur hafa leigt út frístundahús sitt í Hafnarskógum 73 frá árinu 2015 með fullu rekstrarleyfi. Reksturinn í Hafnarskógi hefur gengið vel og hnökralaust og í góðu sambýli við aðra íbúa á svæðinu og náttúru.
Meðfylgjandi sem fylgiskjöl með þessu erindi eru yfirlýsingar frá lóðareigendum og lóðarhöfum að Hafnarskógum 75 og 81 sem setja sig ekki á móti þessari breytingu.
Erindinu vísað til áframhaldandi vinnu við endurskoðun aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar.

7.Vinmælingarmastur á Brekkukambi

2012037

Fyrir hönd landeiganda Brekku er óskað eftir leyfi sveitarfélagsins til að reisa vindmælingarmastur á Brekkukambi.
Mastrið verður um 83,6 m á hæð og staðsett ca. á miðjum Brekkukambi en nánari staðsetning með gps hnitum, verður kynnt sveitarfélaginu á seinni stigum verkefnisins. Ætlunin er að mastrið muni standa í ca. 2 ár.
Mastrið mun standa á steyptri undirstöðu og fest með stögum í allt að 50 m radíus frá mastri.
Í vinnslu er frumathugun vegna mats á umhverfisáhrifum sem unnin er af verkfræðistofu og verður sú vinna kynnt sveitarfélagiinu og Skipulagsstofnun á síðari stigum.
Á 129. fundi umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefndar þann 17.12.2020 var málið áður tekið fyrir og var afgreiðslu málsins frestað og óskaði nefndin eftir frekari gögnum. Bárust þau gögn í febrúar 2021.

Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd óskar eftir að niðurstaða vegna mats á umhverfisáhrifum liggi fyrir áður en nefndin getur fjallað um erindið.

8.Kúludalsá - Umsókn um framkvæmdaleyfi vegna skógræktar.

2009006

Umsókn dags. 02.09.2020 um framkvæmdaleyfi fyrir skógrækt í landi Kúludalsár.
Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti á fundi sínum þann 13.10.2020 að grenndarkynna framkvæmdarleyfið með vísan í 44. gr skipulagslaga 123/2010 fyrir landeigendum innan Kúludalsár, Innra- Hólms, Kirkjubóls og Grafar. Frestur til að skila athugasemdum var til 20.11.2020. Með grenndarkynningu voru drög að yfirlitsmynd af skógræktarsvæði, unnið af Valdimar Reynissyni skógræktarráðgjafa.
Ein athugasemd barst með bréfi dags. 19.11.2020 þar sem gerðar eru athugasemdir við landamerki milli Kirkjubóls og Kúludalsár, jafnframt mótmælir bréfritari að fyrirhugað skógræktarsvæði liggi svo nærri eign viðkomandi.
Einnig var leitað umsagnar hjá Minjastofnun Íslands sem gaf jákvæða umsögn, og hjá Vegagerðinni sem gaf umsögn með ábendingum.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd felst ekki á athugasemdir bréfritara um staðsetningu landamerkja milli Kirkjubóls og Kúludalsár og telur að viðkomandi sé ekki aðili máls vegna landamerkjanna. Nefndin tekur ekki undir sjónarmið bréfritara varðandi mótmæli vegna nálægðar fyrirhugaðrar skógræktar við eign viðkomandi.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd samþykkir fyrir sitt leyti veitingu framkvæmdaleyfis fyrir skógrækt í landi Kúludalsár að teknu tilliti til umsagnar Vegagerðarinnar.
Endanlegri afgreiðslu málsins vísað til sveitarstjórnar.

9.Ásfell landamerki milli Akranes og Hvalfjarðarsveitar.

2003025

Erindi dags. janúar 2021.
Skv. erindinu er talið að hnit í þinglýstum gögnum vegna landamerkja Ásfells og Akraneskaupstaðar séu röng, en hinsvegar sé ekki um að ræða ágreining um legu landamerkjanna og talið að þinglýst gögn staðfesti rétt landamerki. Með öðrum orðum að lega landamerkjalínunnar sé rétt í þinglýstum gögnum en hnit séu ekki rétt.
Óskað er eftir afstöðu sveitarfélagsins til réttra landamerkja.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd gerir fyrir sitt leyti ekki athugasemd við landamerki Ásfells.
Lagt er til við sveitarstjórn að staðfesta landamerkin.

10.Galtarvík-malarnáma.

2104017

Erindi dags. 06.03.2021 frá eiganda Galtarvíkur.
Vegna vinnu við aðalskipulag Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 vilja eigendur Galtarvíkur tilkynna áframhaldandi lokun malarnámu á jörðinni en malarnámunni var lokað árið 2008 og fylgir með erindinu þinglýst samkomulag vegna málsins.
Lagt fram til kynningar.

11.Umsögn um tillögu að breytingu á aðalskipulagi Kjósarhrepps 2017-2029.

2104012

Erindi frá Kjósarhreppi.
Óskað er umsagnar í samræmi við 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Um er að ræða tillögu að breytingu á aðalskipulagi Kjósarhrepps 2017-2029 sem sveitarstjórn Kjósarhrepps samþykkti á fundi sínum þann 7. apríl sl.

Í breytingunni felst að breyta landnotkun á hluta landbúnaðarsvæðis í landi Eyrarkots, í verslunar- og þjónustusvæði, frístundabyggð og íbúðarbyggð. Enn fremur að auka við skilgreiningu opins svæðis (OP6).
Eyrarkot afmarkast af Eyri sunnan- og austanverðu, Útskálahamri að vestanverðu og Hvalfjarðareyri að norðanverðu.

Með erindinu fylgdi aðalskipulagsuppdráttur frá Landlínum dags. 19.03.2021.

Skipulagstillagan mun liggja frammi hjá Skipulagsstofnun og verður til sýnis í anddyri hreppsskrifstofu Kjósarhrepps í Ásgarði frá og með fimmtudeginum 8. apríl 2021 til og með 31. maí 2021 og verður auk þess aðgengileg á heimasíðu Kjósarhrepps, kjos.is.
Þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn frestur til mánudagsins 31. maí n.k. til að gera athugasemdir við skipulagstillöguna. Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast á skrifstofu Kjósarhrepps að Ásgarði Kjós, 276 Mosfellsbæ, eða í tölvupósti á netfangið skipulag@kjos.is
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd gerir fyrir sitt leyti ekki athugasemd við framlagða tillögu.

12.Hreinsunarátak 2021.

2103144

Í viðhengi er verklag um hreinsunarátak í Hvalfjarðarsveit sem samþykkt var af sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar þann 10. mars 2020.
Skv. verklaginu er upphaf hreinsunarátaks í þéttbýli um mánaðarmótin maí/júní ár hvert og verða gámar í boði í tvær vikur samfellt og verða þeir staðsettir í Melahverfi, Hlíðarbæ og Krosslandi.
Tímabil hreinsunarátaks í dreifbýli er frá 1. júní til 31. ágúst ár hvert og geta íbúar í dreifbýli pantað samtals 2 gáma í 2 sólarhringa.
Tímabil hreinsunarátaks í frístundabyggðum er frá 1. júní til 31. ágúst ár hvert og eru gámarnir í boði í 11 daga samfellt innan tímabilsins.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd felur skipulags- og umhverfisfulltrúa að undirbúa og auglýsa hreinsunarátak 2021 í Hvalfjarðarsveit.
Hreinsunarátak í þéttbýli verður á tímabilinu 14. maí til og með 1. júní og verða gámar staðsettir í Melahverfi, Hlíðarbæ og Krosslandi.
Frá 1. júní - 31. ágúst gefst íbúum í dreifbýli kostur á að fá tvær gerðir af gámum, timburgám, járna- og dekkjagám og /eða gróðurúrgangsgám senda heim í tvo sólarhringa.

13.Rotþróarhreinsun 2021

2103147

Fyrirkomulag rotþróarheinsunar árið 2021 verður með svipuðu sniði og undanfarin ár en þó verður sú breyting að Hreinsitækni ehf, mun sinna verkefninu frá og með vorinu 2021, því fyrirtækið hefur fest kaup á öllu hlutafé Stífluþjónustu Suðurlands ehf, en sveitarfélagið er með samning við Stífluþjónustuna um verkið og gildir sá samningur til ársloka 2024.
Eins og fyrri ár er sveitarfélaginu skipt upp í 3 hreinsunarsvæði og er hvert svæði hreinsað einu sinni á þriggja ára fresti.
Í viðhengi er kort þar sem má sjá svæðisskiptinguna, svæði 1 sem er blátt, svæði 2 sem er grænt og svæði 3 sem er rautt.
Á árinu 2021 verður svæði 2 / græna svæðið hreinsað.

Hyggst verktakinn hefjast handa við hreinsun rotþróa upp úr miðjum apríl og er áætlað að verkinu verði lokið seinni partinn í maí 2021.

Húseigendur/lóðarhafar eru hvattir til að hafa gott aðgengi að rotþróm til að auðvelda verktaka vinnu við hreinsunarstarfið.
Lagt fram til kynningar.

14.Ársfundur Umhverfisstofnunar 2021.

2103139

Fundarboð sent frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga með ósk um að berist til fulltrúa náttúruverndarnefndar sveitarfélagsins og starfsfólks umhverfis- og skipulagsmála.

Ársfundur Umhverfisstofnunar, náttúruverndarnefnda sveitarfélaga og forstöðumanna náttúrustofa verður að þessu sinni í formi þriggja rafrænna funda sem haldnir verða dagana 8., 15. og 28. apríl n.k. kl. 9:00-10:30.
Boðið verður upp á opna fundi með fjölbreyttum erindum sem varða náttúruvernd og umhverfismál í starfsemi sveitarfélaga.
Fundirnir eru samstarfsverkefni Umhverfisstofnunar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og náttúrustofa.
Nánari upplýsingar má finna á slóðinni: https://ust.is/nattura/upplysingar-fyrir-sveitarfelog/arsfundir-natturuverndarnefnda/2021/
Lagt fram til kynningar.

15.Nýtingarleyfi á jarðhita á Hrafnabjörgum.

2102078

Umsókn um nýtingarleyfi á jarðhita á Hrafnabjörgum í Hvalfjarðarsveit sem sveitarfélagið fékk til umsagnar í febrúar sl., hefur verið samþykkt og leyfi verið veitt sbr. tilkynningu frá Orkustofnun dags. 12.04.2021.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið.

Efni síðunnar