Fara í efni

Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd 2013-2022

137. fundur 25. mars 2021 kl. 15:00 - 19:00 í stjórnsýsluhúsinu Innrimel 3
Nefndarmenn
  • Daníel A. Ottesen formaður
  • Guðjón Jónasson varaformaður
  • Ása Hólmarsdóttir ritari
  • Ragna Ívarsdóttir aðalmaður
  • Brynja Þorbjörnsdóttir varamaður
Starfsmenn
  • Jökull Helgason embættismaður
Fundargerð ritaði: Ása Hólmarsdóttir
Dagskrá
Helgi Magnússon boðaði forföll.

1.Ósk um breytingu á notkun á skipulagi fyrir Skólastíg 3

1910061

Erindi frá Andra B. Arnþórssyni lögmanni fh. eigenda, en hann mun mæta á fundinn og fara yfir tillögur eigenda.

Forsaga málsins er erindi frá Lögvernd fyrir hönd Latona Asset Management ehf, sem tekið var fyrir á fundi sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar þann 12.11.2019 þar sem óskað var eftir breytingu á landnotkun Skólastígs 3.
Á fundinn kom Andri B. Arnþórsson lögmaður og kynnti hugmyndir eigenda varðandi framtíðaráform Skólastígs nr. 3.
Umhverfis-, skipulags - og náttúruverndarnefnd þakkar Andra fyrir umræðurnar og málið verður áfram í vinnslu nefndarinnar.

2.Flutningur á riðusmituðum úrgangi.

2103133

Óhapp við flutning.
Eins og fram hefur komið á heimasíðu Matvælastofnunar varð óhapp þann 18. mars sl. við flutning á riðusmituðum úrgangi sem flytja átti til brennslu.
Varð atvikið þegar hleri á gámi gaf sig með þeim afleiðingum að blóðvökvi heltist niður og lak úr farminum og uppgötvaðist atvikið þegar komið var að Hvalfjarðargöngum.
Í ljósi þessa atviks kemur Þorsteinn Narfason, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Vesturlands á fundinn og kynnir þær aðgerðir sem Matvælastofnun og Heilbrigðiseftirlit Vesturlands hafa gripið til vegna atviksins.
Á fundinn kom Þorsteinn Narfason framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Vesturlands og kynnti þær aðgerðir sem gripið hefur verið til vegna málsins.
Umhverfis-, skipulags - og náttúruverndarnefnd þakkar Þorsteini fyrir komuna og fyrir umræður um málið.

3.Dagur umhverfisins 2021.

2103081

Erindi frá Umhverfisnefnd Heiðarskóla.
Skv. erindinu stendur til að gera Degi umhverfisins hátt undir höfði þann 23. apríl n.k., en umhverfisnefnd skólans samþykkti á fundi sínum fyrir stuttu að þetta árið yrði unnið að hreinsun strandlengju.
Fyrir nokkrum árum var nefndin í samvinnu við sveitarfélagið um sams konar verkefni, voru þá gengnar fjörur í Grunnafirði, frá Laxárbökkum og í átt að Álfholtsskógi og frá Fellsöxl í átt að Álfholtsskógi.
Á þeim tíma sá sveitarfélagið um að afla leyfis landeigenda fyrir umferð um svæðið og einnig sá sveitarfélagið um að fjarlægja rusl sem safnaðist.
Nú hyggst Umhverfisnefndin ganga sömu fjörur og áður og óskar nefndin samskonar samstarfs við sveitarfélagið og áður.
Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd samþykkir að eiga samstarf við Umhverfisnefnd Heiðarskóla um verkefnið eins og lýst er í erindinu.

4.Framkvæmdaleyfi Grundartangi-flæðigryfja svæði merkt G.

2103080

Elkem Ísland ehf sækir um framkvæmdaleyfi fyrir losun efnis í flæðigryfju á Grundartanga með erindi dags. 4. mars 2021.
Er framkvæmdaleyfið ætlað til losunar á efni sem ekki nýtist í framleiðsluferli Elkem, í flæðigryfju skv. gr. 2.19 í gildandi starfsleyfi fyrirtækisins.
Um er að ræða 3.900 m2 svæði merkt G á yfirlitsmynd sem fylgdi með erindinu, en svæðið er innan landfyllingar Faxaflóahafna skv. deiliskipulagi fyrir svæðið og er samtengt losunarsvæði Norðuráls, merkt H á yfirlitsmynd. Áætlanir gera ráð fyrir að losunarsvæðið endist út árið 2023.
Í samræmi við reglugerð nr. 772/2012, um framkvæmdaleyfi,fylgja eftirtalin gögn með umsókn þessari:
1. Yfirlitsmynd af flæðigryfjunum.
2. Deiliskipulagsuppdráttur í mælikvarða 1:2000, sem sýnir flæðigryfjuna, svæði Elkem og Norðuráls og afstöðu þeirra á hafnarsvæðinu.
3. Fyrirspurn um matsskyldu frá því í janúar 2020, þar sem framkvæmd losunar í flæðigryfjurnar er lýst.
4. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdar, dags. 15. apríl 2020.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd leggur til að framkvæmdaleyfi verði veitt til Elkem fyrir losun efnis í flæðigryfju á Gundartanga skv. því fyrirkomulagi sem lýst er umsókn dags. 4. mars 2021.
Framkvæmdaleyfið gildir þar til afmarkað svæði Elkem í flæðigryfju skv. deiliskipulagi er full nýtt sem áætlað er að verði í árslok árið 2023.
Gerð verði árleg áfangaúttekt af hálfu sveitarfélagsins, þar sem þess verði gætt að framkvæmd sé í samræmi við umsókn framkvæmdaleyfis og hjálagðra gagna hennar.
Kostnaður við framkvæmdaleyfi og áfangaúttektir sveitarfélagsins eru skv. gjaldskrá sveitarfélagsins.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar.

5.Vindmyllur á Grjóthálsi-ósk um umsögn skipulags- og matslýsingar, breyting á aðalskipulagi Borgarbyggðar.

2103089

Ósk um umsögn um breytingu á aðalskipulagi Borgarbyggðar er varðar skipulagslýsingu sbr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti á 210. fundi sínum þann 11. febrúar 2021, skipulags- og matslýsingu fyrir aðalskipulagsbreytingu í landi Hafþórsstaða og Sigmundarstaða í Borgarbyggð.
Í breytingunni er gert ráð fyrir að skilgreina iðnaðarsvæði á Grjóthálsi í landi Hafþórsstaða og Sigmundarstaða þar sem fyrirhugað er að virkja vindorku. Nánar tiltekið á svæði sem liggur til suðvesturs úr Holtavörðuheiði.

Skipulags- og matslýsingin var auglýst í Skessuhorni og Fréttablaðinu 10. mars 2021 en einnig liggur lýsingin fyrir til kynningar í Ráðhúsi Borgarbyggðar ásamt sýnileikakortum og ásýndarmyndum.
Auglýsingin og fylgiskjölin eru einnig aðgengileg á heimasíðu Borgarbyggðar www.borgarbyggd.is.
Óskað er umsagnar skv. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Með erindinu fylgdi bréf skipulagsfulltrúa Borgarbyggðar dags. 9. mars 2021 ásamt skipulags- og matslýsingu frá janúar 2021.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd gerir fyrir sitt leyti ekki athugasemd við fyrirhugaða breytingu á gildandi aðalskipulagi Borgarbyggðar þar sem gert er ráð fyrir að skilgreina iðnaðarsvæði á Grjóthálsi skv. skipulags- og matslýsingu frá því í janúar 2021.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar.

6.Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsáætlun vegna efnistöku í landi Skorholts í Hvalfjarðarsveit

2011019

Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsáætlun vegna efnistöku í landi Skorholts í Hvalfjarðarsveit sem kynnt var sveitarfélaginu með tölvupósti dags. 8. mars 2021.
Þann 20. október 2021 barst Skipulagsstofnun tillaga BM-Vallár að matsáætlun vegna fyrirhugaðrar efnistöku í Skorholtsnámu í Hvalfjarðarsveit.
Náman er tilgreind í aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2008-2020 og er áætlað að tekið verði um 500-800 þúsund m³ af efni úr námunni á 4,8 ha svæði. Efnistaka hefur verið stunduð í Skorholtsnámu allt frá árinu 1954 og búið er að vinna um 455 þúsund m³ af efni úr námunni.
Fyrirhuguð framkvæmd miðar að því að vinna allt að 2,5 milljón m³ af efni úr námunni til viðbótar á næstu 30-40 árum.
Fyrirhugað efnistökusvæði er áætlað um 12,5 ha að stærð og er gert ráð fyrir að vinna um 18 metra niður.
Skipulagsstofnun leitaði umsagna Hvalfjarðarsveitar, Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Samgöngustofu, Umhverfisstofnunar og Vegagerðarinnar, vegna málsins.
Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar kemur fram að stofnunin fallist á tillögur framkvæmdaraðila að mátsáætlun með 5 tilgreindum athugasemdum.
Rétt er að vekja athygli á að þann 3. febrúar sl. birtist í Fréttablaðinu auglýsing um drög að tillögu að matsáætlun vegna efnistöku úr Bakka- og Skorholtsnámu á vegum Hólaskarðs ehf, sem er annað mál en hér er til umfjöllunar.
Lagt fram til kynningar.

7.Umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir skógrækt í landi Kúludalsár.

2009006

Sótt er um framkvæmdaleyfi fyrir skógrækt.
Forsaga málsins er erindi frá landeiganda dags. 2. september 2020, þar sem óskað er framkvæmdaleyfis vegna skógræktaráforma á jörðinni Kúludalsá í Hvalfjarðarsveit.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd samþykkir að fela skipulags- og umhverfisfulltrúa að vinna áfram að málinu.

8.Stóri-Lambhagi 3 - L133658 - Breyting á notkun - Mhl.04 05

2011054

Fyrir liggur niðurstaða vegna grenndarkynningar vegna byggingarleyfisumsóknar, Stóra-Lambhaga 3 þar sem óskað var eftir að breyta notkun á matshluta 04 úr fjárhúsi í hesthús og matshluta 05 úr hlöðu í frístundahús og vélageymslu.
Erindið var grenndarkynnt fyrir aðliggjandi lóðarhöfum (11 aðilar) samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Frestur til að skila inn athugasemdum var til 23. febrúar 2021.
Svör bárust frá 5 aðilum, engar athugasemdir komu fram.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd leggur til við sveitarstjórn að heimila byggingarfulltrúa að veita byggingarleyfi á grundvelli grenndarkynningarinnar.

9.Asparskógar 6 í Svarfhólsskógi - Viðbygging

2101104

Fyrir liggur niðurstaða vegna grenndarkynningar vegna byggingarleyfisumsóknar, þar sem óskað var eftir leyfi fyrir viðbyggingu við sumarhúsið Asparskógum 6.
Erindið var grenndarkynnt m.a. fyrir aðliggjandi lóðarhöfum (7 aðilar) samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Frestur til að skila inn athugasemdum var til 15. mars 2021.
Svör bárust frá einum aðila, engar athugasemdir komu fram.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd leggur til við sveitarstjórn að heimila byggingarfulltrúa að veita byggingarleyfi á grundvelli grenndarkynningarinnar.

10.Stöðuleyfisgjöld

2103098

Erindi frá Samtökum iðnaðarins.
Samtök iðnaðarins vilja með erindinu skora á hvert og eitt sveitarfélag að endurskoða álagningu stöðuleyfisgjalda í kjölfar úrskurða úrskurðanefndar umhverfis- og auðlindamála.

Fram kemur í bréfi SI að Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi með stuttu millibili úrskurðað innheimtu Hafnarfjarðarbæjar á gjöldum vegna útgáfu stöðuleyfa fyrir gáma, svokölluð stöðuleyfisgjöld, ólögmæta.
Af úrskurðum úrskurðarnefndar nr. 28/2020 og 34/2020 megi ráða að gjaldtökuheimild 51. gr. mannvirkjalaga verði ekki túlkuð á þann veg að fjárhæð gjalds vegna útgáfu stöðuleyfis og tilheyrandi eftirlits ráðist af stærð eða fjölda lausafjármuna sem stöðuleyfið taki til.
Þá sé ekki heimild til að innheimta stöðuleyfisgjöld af gámum sem séu á svæðum sem sérstaklega eru skipulögð og ætluð til geymslu gáma í skilningi mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar.
Enn fremur hafi nefndin skýrlega tekið afstöðu til þess að aðeins sé heimilt að innheimta stöðuleyfisgjald fyrir hverja leyfisveitingu en ekki fyrir hvern gám.
Þessi afstaða nefndarinnar sé í samræmi við leiðbeiningar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem gefnar voru fyrst út árið 2017.
Samtökin skora á hvert og eitt sveitarfélag að endurskoða álagningu stöðuleyfisgjalda í kjölfar úrskurða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og leiðbeininga Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd leggur til við sveitarstjórn að gildandi gjaldskrá Hvalfjarðarsveitar "fyrir afgreiðslu umsókna, leyfisveitingar og þjónustu skipulags- og byggingarfulltrúaembættis Hvalfjarðarsveitar" nr. 909/2014 verði endurskoðuð með hliðsjón af ábendingum Samtaka iðnaðarins.

11.Eyri-DSK- af Eyrarási og Eyrarskjól

1911042

Sveitarfélagið hefur haft deiliskipulagstillögu fyrir Eyrarás og Eyrarskjól í landi Eyrar, til meðhöndlunar, en um var að ræða breytingu á landnotkun í landi Eyrar í Svínadal varðandi lóðirnar Eyrarás (26,3 ha) sem verður landbúnaðarsvæði (smábýli) og Eyrarskjól (1,61 ha) sem verður áfram frístundasvæði. Á Eyrarási er gert ráð fyrir íbúðarhúsi og skemmu en í Eyrarskjóli er gert ráð fyrir tveimur sumarhúsum (smáhýsum) til viðbótar við það hús sem fyrir er. Samhliða deiliskipulagi var unnin óveruleg breyting á aðalskipulagi sveitarfélagsins 2008-2020 er varðaði breytingu á landnotkun í landi Eyrar, henni breytt úr frístundarbyggð í landbúnaðarland.

Þegar málsmeðferð deiliskipulagstillögunnar var lokið í febrúar 2021, m.a. vinnu við staðbundið hættumat vegna snjóflóða vegna íbúðarhúsalóðar í skipulagstillögunni, staðfesti sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar deiliskipulagið endanlega þann 23.02.2021 og í kjölfarið var Skipulagsstofnun sent erindi um yfirferð stofnunarinnar á efni og málsmeðferð deiliskipulagsins, sem venja er að gera áður en samþykkt deiliskipulag er auglýst í B-deild Stjórnartíðina, sem við það öðlast gildi.

Barst sveitarfélaginu svar Skipulagsstofnunar þann 18. mars 2021 og bendir Skipulagsstofnun á það í svari sínu að formgalli sé á málsmeðferð deiliskipulagstillögunnar og felst formgallin í því að birta skuli auglýsingu um samþykkt deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda, innan árs frá því athugasemdafresti deiliskipulagstillögunnar lauk, sem var 6. mars 2020.
Er þetta í samræmi við ákvæði 42. greinar skipulagslaga nr. 123/2010.

Bendir Skipulagsstofnun á að auglýsa þurfi deiliskipulagstillöguna að nýju.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd leggur til við sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar að auglýsa að nýju deiliskipulag fyrir Eyrarás og Eyrarskjól samkvæmt 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

12.Krossland eystra - landeignanúmer 205470 - breyting á landnotkun.

2103121

Erindi frá Skagastáli ehf.
Beiðni landeigenda Krosslands eystra, landeignanúmer 205470 um að breyta landnotkun úr landbúnaðarsvæði í íbúðarsvæði við yfirstandandi endurskoðun aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar.
Janframt er óskað eftir heimild til að gera tillögu að deiliskipulagi að íbúðarbyggð á landinu sem yrði um 100 íbúða blönduð byggð lítilla tveggja hæða fjölbýlishúsa, parhúsa og einbýlishúsa.
Gerð er tillaga um að heimreiðin að Akrakoti verði vegtengingin við nýja íbúðarsvæðið og jafnframt að nýja hverfið og eldra íbúðarhverfið í Krosslandi, verði hringtengt um götuna Krossvelli.
Þar sem Krossland eystra liggur að íbúðahverfi Krosslands, verða byggingarskilmálar fyrir nýja svæðið sambærilegir og er fyrir eldra hverfið.
Með erindinu fylgdi uppdráttur sem sýnir landið og næsta nágreni og möguleika á hvað þar má gera.


Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd samþykkir að vísa erindinu til áframhaldandi vinnslu við endurskoðun aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar.
Á þessu stigi málsins sér nefndin sér ekki fært að taka afstöðu til þess hvort deiliskipulag sé unnið þar sem vinna við aðalskipulag er enn í gangi en bendir þó málsaðila á að hann getur unnið að gerð deiliskipulags fyrir svæðið á eigin ábyrgð.

13.Fellsendi - landeignanúmer 133625 - breyting á landnotkun.

2103122

Erindi frá Skagastáli ehf.
Beiðni landeigenda Fellsenda, landeignanúmer 133625 um að breyta landnotkun á hluta jarðarinnar úr landbúnaðarsvæði í iðnaðarsvæði í yfirstandandi endurskoðun aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar.
Janframt er óskað eftir heimild til að gera tillögu að deiliskipulagi að tveimur iðnaðarsvæðum á landinu en með erinidinu fylgdi uppdráttur sem sýnir staðsetningu á þessum svæðum.

Röksemd umsækjanda fyrir þessari beiðni er sú að jörðin Fellsendi sé innan þynningarsvæðis vegna Grundartanga og þess vegna sé allt búfjárhald á jörðinni bannað.
Ný deiliskipulagstillaga muni fela í sér að byggja stórar skemmur fyrir iðnaðarstarfsemi og geymslur líkt þeirri sem þegar hefur verið byggð.
Einnig er óskað eftir að „gamli“ þjóðvegurinn sem nefndur er Fellsendavegur og sem þverar jörðina verði skilgreindur nákvæmlega en að mati umsækjenda gætir ónákvæmni í greinargerð með Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2008 til 2020 og skv. aðalskipulagskortinu um skilgeiningu á þessum vegi.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd samþykkir að vísa erindinu til áframhaldandi vinnslu við endurskoðun aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar. Nefndin hafnar því að svæðið verði skilgreint sem iðnaðarsvæði en vísar til þess að í drögum að endurskoðun aðalskipulags verða lóðirnar skilgreindar sem athafnasvæði.
Á þessu stigi málsins sér nefndin sér ekki fært að taka afstöðu til þess hvort deiliskipulag sé unnið þar sem vinna við aðalskipulag er enn í gangi en bendir þó málsaðila á að hann getur unnið að gerð deiliskipulags fyrir svæðið á eigin ábyrgð.

14.Galtarlækur - landeignanúmer 133627 - breyting á landnotkun.

2103123

Erindi frá At Iceland ehf.
Beiðni landeigenda Galtarlæks, landeignanúmer 133627 um að breyta landnotkun í yfirstandandi endurskoðun aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar.
Óskað er eftir að landnotkun Galtarlækjar að austanverðu og neðan við þjóðveg nr. 1, verði breytt úr landbúnaðarsvæði í iðnaðarsvæði.
Janframt er óskað eftir heimild til að gera tillögu að deiliskipulagi að iðnaðarlóðum á landinu.
Með erindinu fylgdi uppdráttur sem sýnir landið neðan þjóðvegar og næsta nágrenni og möguleika þess sem þar má gera.

Jörðin Galtarlækur er innan þynningarsvæðis vegna Grundartanga og þess vegna er allt búfjárhald á jörðinni bannað.
Eftir því sem iðnaðarlóðum í tengslum við hafnir á Reykjavíkursvæðinu fækki, muni ásókn í slíkar lóðir á Grundartanga aukast að mati umsækjanda.
Um er að ræða um 24 iðnaðarlóðir, sem verða að meðaltali 2,4 ha að stærð, fyrir hverskonar iðnaðar- og athafnastarfsemi.
Fram kom að deiliskipulagstillagan muni gera ráð fyrir að tenging að svæðinu verði frá afleggjaranum að Grundartanga en ekki af þjóðveginum og svo af hafnargötunni á Grundartanga, sem nefnd hefur verið Klafastaðavegur.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd getur ekki orðið við erindi bréfritara um breytta landnotkun, þar sem hún samræmist ekki stefnumörkun sveitarfélagsins við endurskoðun aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar 2020-2032.


15.Belgsholt L133734 - fjós - Mhl. 28

2101012

Fyrir liggur niðurstaða vegna grenndarkynningar en sótt var um byggingarleyfi fyrir nautgripahúsi í Belgsholti í Hvalfjarðarsveit skv. aðaluppdráttum frá Al-Hönnun ehf, en um var að ræða um 758 m2 viðbyggingu við eldra fjós, matshluti 28, auk tengibyggingar og haugkjallara.
Erindið var grenndarkynnt fyrir aðliggjandi lóðarhafa að Belgsholti nr. 2 samkvæmt ákvæðum 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en ekki er í gildi deiliskipulag á svæðinu.
Frestur til að skila inn athugasemdum var til 15. apríl 2021.
Svör bárust frá umræddum hagsmunaaðila 23.03.2021,engar athugasemdir komu fram.
Heimilt er að stytta tímabil grenndarkynningar ef þeir hagsmunaaðilar sem fengu grenndarkynningu, hafa lýst skriflega yfir með undirritun sinni að þeir geri ekki athugasemd við byggingarleyfið.

Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd leggur til við sveitarstjórn að heimila byggingarfulltrúa að veita byggingarleyfi á grundvelli grenndarkynningarinnar.

16.Hugmyndir um notkun lands í eigu sveitarfélagsins vegna endurskoðunar á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar

2103126

Erindi dags. 23.03.2021 frá Marteini Njálssyni þar sem bent er á nýtingarmöguleika á landi í eigu sveitarfélagsins vegna yfirstandandi endurskoðunar á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd þakkar bréfritara fyrir erindið og samþykkir að vísa erindinu til áframhaldandi vinnslu við endurskoðun aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar.

17.Staðfesting Vegagerðarinnar á staðsetningu söguskiltis við Miðgarð

2102057

Samþykki Vegagerðar til kynningar.
Með bréfi dags. 10.03.2021 samþykkir Vegagerðin staðsetningu á söguskilti við Miðgarð í Hvalfjarðarsveit.
Lagt fram til kynningar.

18.Tillaga að viðauka við Landsskipulagsstefnu 2015-2016.

2012018

Kynning á tillögum Skipulagsstofnunar til Umhverfis- og auðlindaráðuneytis.
Skipulagsstofnun hefur afhent Umhverfis- og auðlindaráðherra, tillögu Skipulagsstofnunar að viðauka við Landsskipulagsstefnu 2015-2026.

Í tillögu Skipulagsstofnunar er sjónum beint að því hvernig beita má skipulagsgerð sveitarfélaga á markvissan hátt til að vinna að markmiðum stjórnvalda um loftslagsmál, landslag og lýðheilsu. Áherslurnar sem settar eru fram í tillögunni fléttast með ýmsum hætti við viðfangsefni gildandi landsskipulagsstefnu sem samþykkt var á Alþingi árið 2016 og tekur til skipulagsmála á miðhálendinu, í dreifbýli og þéttbýli og á haf- og strandsvæðum. Tillagan felur einnig í sér viðbætur við gildandi landsskipulagsstefnu varðandi skipulag haf- og strandsvæða.
Viðamikil undirbúningsvinna liggur að baki tillögunni og fól sú vinna í sér víðtækt samráð við önnur stjórnvöld og hagsmunaaðila, auk þess sem almenningur hefur átt þess kost að hafa áhrif á mótun tillögunnar. Skipulagsstofnun stóð fyrir fjölbreyttri greiningarvinnu um áhersluefnin þrjú, loftslag, landslag og lýðheilsu, auk þess sem þessi viðfangsefni voru til umfjöllunar í morgunfundaröð sem Skipulagsstofnun hélt í samvinnu við ýmsa aðila á tímabilinu október 2019 til ágúst 2020. Upplýsingar um ferlið, þ.á.m. framangreind greiningarverkefni og viðburði, voru reglulega sendar samráðsvettvangi um landsskipulagsstefnu.

Drög að tillögunni sem nú er afhent ráðherra lágu frammi til kynningar í átta vikur frá nóvember 2020 og fram í janúar 2021. Þau voru send til umsagnar sveitarfélaga, hlutaðeigandi opinberra aðila og hagsmunasamtaka, auk samráðsvettvangsins. Alls bárust Skipulagsstofnun á fimmta tug umsagna sem hafðar voru til hliðsjónar við lokavinnslu tillögunnar.

Umhverfis- og auðlindaráðherra tekur nú tillögu Skipulagsstofnunar til skoðunar og áætlar að leggja fram tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu á Alþingi á yfirstandandi þingi. Landsskipulagsstefna öðlast gildi þegar hún hefur verið samþykkt sem þingsályktun.
Tillöguna ásamt fylgiskjölum er að finna á vef landsskipulagsstefnu.
Nánari upplýsingar um landsskipulagsferlið, gögn úr ferlinu og innsendar umsagnir má finna á vefsíðu landsskipulagsstefnu, landsskipulag.is.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 19:00.

Efni síðunnar