Fara í efni

Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd

33. fundur 21. febrúar 2024 kl. 15:30 - 18:07 í stjórnsýsluhúsinu Innrimel 3
Nefndarmenn
  • Sæmundur Víglundsson formaður
  • Ása Hólmarsdóttir varaformaður
  • Helga Harðardóttir ritari
  • Ómar Örn Kristófersson aðalmaður
  • Svenja Neele Verena Auhage aðalmaður
Starfsmenn
  • Jökull Helgason embættismaður
  • Arnheiður Hjörleifsdóttir embættismaður
Fundargerð ritaði: Jökull Helgason Skipulagsfulltrúi
Dagskrá

1.Regluverk um búfjárbeit - sjónarmið matvælaráðuneytis.

2402023

Minnisblað frá Matvælaráðuneyti, vegna umræðna og fyrirspurna um mál sem tengjast reglum um búfjárbeit. Niðurstaða ráðuneytisins er að það muni ekki að svo stöddu beita sér fyrir því eða gefa út samræmdar leiðbeiningar um túlkun fjallskilalaga eða laga um búfjárhald.
Erindið lagt fram.

2.Úrgangsmál í Hvalfjarðarsveit

2210038

Umfangsmiklar breytingar hafa átt sér stað í úrgangsmálum hjá sveitarfélögum sl. misseri.

Umhverfisfulltrúi fór yfir það helsta frá síðasta fundi, m.a. söfnun á lífúrgangi, flokkunareiningu við Miðgarð, breytingar á heimasíðu Hvalfjarðarsveitar, fundi á vegum SSV um ráðstöfun dýraleifa, útboðsmál o.fl.

Einnig lögð fram drög að dreifibréfi til íbúa með upplýsingum um úrgangsmál.
Drög að dreifibréfi til íbúa samþykkt og umhverfisfulltrúa falið að senda það til íbúa sveitarfélagsins.

3.Glymur 2024

2402031

Erindi frá Umhverfisstofnun er varðar sjálfboðaliða fyrir sumarið 2024.
Umhverfisfulltrúa falið að fylla út skráningarblað fyrir sumarið 2024, þar sem gert verði ráð fyrir 5 sjálfboðaliðum á vegum Umhverfisstofnunar í tvær vikur.

4.Þjóðlendumál - eyjar og sker.

2402018

Erindi frá Óbyggðanefnd sem sent er í upplýsingarskyni þeim sveitarfélögum sem liggja að sjó.

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur fyrir hönd íslenska ríkisins afhent óbyggðanefnd kröfur um þjóðlendur á svæði 12 sem nefnist "eyjar og sker" og tekur til landsvæða innan landhelginnar en utan strandlengju meginlandsins. Um er að ræða sautjánda og síðasta svæðið sem óbyggðanefnd tekur til meðferðar. Með erindinu fylgdu upplýsingar um kröfugerð íslenska ríkisins og málsmeðferð.

Óbyggðanefnd kallar nú eftir kröfum þeirra sem kunna að eiga öndverðra hagsmuna að gæta. Kröfum skal lýst skriflega í síðasta lagi 15. maí 2024. Að lokinni gagnaöflun og rannsókn á eignarréttarlegri stöðu svæðanna úrskurðar óbyggðanefnd um framkomnar kröfur.
USNL-nefnd leggur til við sveitarstjórn að vakin sé athygli eigenda sjávarjarða í sveitarfélaginu á því sem hér um ræðir með áberandi hætti. Jafnframt að íbúar og jarðareigendur séu hvattir til að sýna aðgæslu í þessum efnum og koma á framfæri athugasemdum sínum fyrir 15. maí næstkomandi. Að öðrum kosti er hætta á að eignarréttur glatist á hólmum og skerjum, sem mögulegt er að fylgi jörðum. Í Hvalfjarðarsveit er um fjölda jarða að ræða sem kröfulýsingin snertir m.a. í Grunnafirði, Borgarfirði og við Hvalfjörð.

5.Aðalskipulag Hvalfjarðarsveitar 2020-2032, breyting á þéttbýlisuppdrætti - Melahverfi ÍB10

2402039

Erindi frá Hvalfjarðarsveit.

Óskað er breytingar á aðalskipulagi Hvaljarðarsveitar 2020-2032 er varðar þéttbýlisuppdrátt - Melahverfi ÍB10.

Breytingin snýr að fjölgun íbúða á svæðinu ÍB10 þar sem byggingarheimildir svæðisins eru rýmkaðar og íbúðafjöldi aukinn.

Í breytingunni felst að heimilað verður að hafa hús með kjallara þar sem landslag og landhalli leyfir.

Heildarfjöldi íbúða á svæðinu breytist úr 48 í 68.

Með erindinu fylgdi uppdráttur dags. 14.02.2024 er sýnir skipulagsbreytinguna ásamt gátlista vegna áhrifa breytinganna.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir að auglýsa breytingu á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 í samræmi við 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með síðari breytingum.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

6.Deiliskipulag Melahverfis, 3. áfangi.

2102151

Lögð fram breyting á deiliskipulagi Melahverfis, III áfangi.

Deiliskipulagið varðar svæði ÍB10 skv. gildandi aðalskipulagi Hvaljarðarsveitar 2020-2032.

Um er að ræða nýtt íbúðasvæði þar sem gert er ráð fyrir 10 lóðum fyrir einbýlishús, 14 lóðum undir parhús, samtals 28 íbúðum, 9 lóðum undir fjögurra íbúða raðhús, samtals 36 íbúðum.

Málið var áður á dagskrá 31. fundar USNL-nefndar dags. 17.01.2024 og samþykkti nefndin tillöguna með áorðnum breytingum og er tillagan því aftur lögð fyrir nefndina eftir uppfærslu hennar.Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir deiliskipulagstillögu fyrir Melahverfi, 3. áfanga, með áorðnum breytingum og leggur til við sveitarstjórn að auglýsa tillöguna samkvæmt 1. og 2 mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br. Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

7.Brekka, deiliskipulagsbreyting.

2309023

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi fyrir Brekku í Hvalfjarðarsveit.

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti á fundi sínum þann 11. október 2023 að auglýsa breytingu á deiliskipulagi fyrir Brekku í Hvalfjarðarsveit samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Breytingin tekur til stækkunar á íbúðarlóð úr 6.285 m2 í 49.135 m2, vestan aðkomuvegar að frístundabyggð á Brekku, færslu á byggingarreit íbúðarlóðar, nýs byggingarreits fyrir ferðaþjónustuhús og breytinga á byggingarskilmálum. Auk þess er vegtenging við aðkomuveg færð og fjölgað úr einni í tvær og gert ráð fyrir vegi að ferðaþjónustuhúsum. Afmörkun skipulagssvæðisins stækkar úr 34 ha í 38 ha.

Leyfilegt heildarbyggingarmagn innan íbúðalóðar verður eftir breytingu 760 m2 en var áður 314 m2. Byggingarreitur fyrir íbúðarhús færist í norðaustur og breytingar eru gerðar á byggingarskilmálum.

Byggingarreitur fyrir 6 ferðaþjónustuhús til útleigu bætist við ásamt byggingarskilmálum, samanlögð stærð þeirra ásamt fylgihúsum verður að hámarki 330 m2 og rúma að hámarki 15 gesti í gistingu.

Deiliskipulagstillagan var auglýst og kynnt skv. ákvæðum skipulagslaga.

Hagsmunaaðilum var gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna og var frestur til að skila inn athugasemdum til og með 14. febrúar 2024.

Alls bárust svör frá 11 hagsmunaaðilum þ.e. Heilbirgðiseftirliti Vesturlands, Minjastofnun Íslands, Samgöngustofu, Skipulagsstofnun, Skógræktinni, Slökkviliði Akraness og Hvalfjarðarsveitar, Umhverfisstofnun, Landsneti, Mílu, Náttúrufræðistofnun Íslands og Vegagerðinni.
Deiliskipulagið hefur verið auglýst samkvæmt 43. gr skipulagslaga nr. 123/2010.
Umhverfis-, skipulags-, náttúrverndar- og landbúnaðarnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja deiliskipulagið með tilgreindum breytingum sem koma fram í minnisblaði dagsettu 21. febrúar 2024 og staðfesta gildistöku þess í B-deild Stjórnartíðinda.

8.Leirá - aðalskipulagsbreyting.

2402024

Aðalskipulagsbreyting - erindi frá Eflu fh. málsaðila þ.e. Yggdrasill Carbon ehf, Önnu Leifar Auðar Elídóttur og Ásgeirs Arnar Kristinsson.

Óskað er eftir breytingu á Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020 - 2032.

Jörðin Leirá (L133774) er 123,7 ha skv. Fasteignaskrá HMS og hún skráð sem lögbýli.

Óskað er eftir að um 38,8 ha svæði verði skilgreint sem skógræktar- og landgræðslusvæði í aðalskipulagi sveitarfélagsins.

Svæðið sem áætlað er að verði skógræktar- og landgræðslusvæði er annars vegar landbúnaðarland í flokki 2 og hins vegar hluti frístundasvæðis F36.

Gerð yrði skipulagslýsing á svæðinu sem sveitarfélagið tekur til umfjöllunar og kynningar og myndi sú breyting fela í sér landnotkun nýs skógræktar- og landgræðslusvæðis.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir að heimila landeiganda að leggja fram tillögu að breytingu á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032, en bendir á að gæta þurfi að ákvæðum aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 vegna þess.

9.Kúludalsá - deiliskipulagsbreyting.

2401021

Erindi frá Al-hönnun ehf, f.h. Kristófers Emils Þorgrímssonar er varðar ósk um breytingu á deiliskipulagi fyrir Kúludalsá. Með breytingunni felst m.a. að stækka byggingarreit nær þjóðvegi 1 sem nemur 15 m og verður fjarlægð byggingarreits frá þjóðvegi þá 85 m í stað 100 skv. gildandi skipulagi. Umrætt svæði er skv. aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 úrvals landbúnaðarland L1 með takmörkuðum byggingarheimildum. Að jafnaði er eingöngu heimilt að byggja til landbúnaðar eða í tengslum við rekstur búsins s.s. minni háttar rekstur með landbúnaði, til að auðvelda kynslóðaskipti eða byggingar til landbúnaðar. Heimilt er að byggja upp í tengslum við núverandi bæjartorfur eða í jaðri svæða. Í gildi er deiliskipulag frístundabyggðar í landi Kúludalsár, reitur E, frá árinu 1998. Þar kemur fram að umræddar sumarhúsalóðir eru 5 talsins.
Í gildi er deiliskipulag frístundabyggðar fyrir umrætt svæði.
Skv. grein 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 með áorðnum breytingum, segir um Fjarlægð milli bygginga og vega, d-lið:

"Utan þéttbýlis skal ekki staðsetja íbúðir eða frístundahús nær stofn- og tengivegum en 100 m og ekki nær öðrum þjóðvegum eða almennum vegum en 50 m eins og þeir eru skilgreindir í aðalskipulagi. Aðrar byggingar skal ekki staðsetja nær stofn- og tengivegum og öðrum þjóðvegum og almennum vegum en 50 m eins og þeir eru skilgreindir í aðalskipulagi. Heimilt er að víkja frá þessum ákvæðum þegar um er að ræða verslunar- og þjónustubyggingar en gæta skal ákvæða vegalaga um veghelgunarsvæði. Óheimilt er að færa þjóðveg eða byggja nýjan veg utan þéttbýlis þannig að fjarlægð milli bygginga og vega verði minni en framangreind mörk segja til um án undangenginnar málsmeðferðar um deiliskipulag."

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd telur að ekki sé unnt að heimila byggingar nær þjóðvegi 1 en 100 m á umræddu frístundasvæði með hliðsjón af ofangreindum ákvæðum skipulagsreglugerðar.
Ómar Örn Kristófersson vék af fundi undir umræðum og afgreiðslu málsins.

10.Flæðigryfjur Grundartanga.

2203027

Vegna fyrirhugaðrar útvíkkunar á flæðigryfjum Norðuráls og Elkem, var nauðsynlegt að vinna áhrifamat fyrir vatnshlotið Hvalfjörð. Slíkt mat skal fylgja deiliskipulagi. Samkvæmt niðurstöðum matsins hefur útvíkkun flæðigryfju ekki neikvæð áhrif á strandsjávarhlotið Hvalfjörð en matið byggist á greiningarvinnu m.t.t. Vatnaáætlunar og byggir á niðurstöðum umhverfisvöktunar undanfarinna ára.
Kynning Elkem og Norðuráls lögð fram ásamt skýrslu Mannvits um áhrifamat fyrir vatnshlotið Hvalfjörð, dags. í janúar 2024.
Umrædd gögn munu fylgja auglýsingu um deiliskipulag fyrir Flæðigryfjur á Grundartanga.

11.Skorholtsnes L206127 og Akurey L133729 - samruni lóða.

2402029

Erindi frá Jóni Sveinssyni þar sem óskað er að landeignanúmer Akureyjar (L133729) og Skorholtsness (L206127) verði sameinuð í eitt landeignanúmer þ.e. Akureyjar sem er 133729.

Hið sameinaða land og fyrirhugað lögbýli verður samtals 21,4 ha að stærð.Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir erindið fyrir sitt leyti.
Endanlegri afgreiðslu vísað til afgreiðslufundar byggingarfulltrúa.

12.Hafnarberg Hafnarland L 208217 - breyting ASK.

2402026

Beiðni um breytingu á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032.

Um er að ræða lóð sem skv. gildandi aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar er innan svæðis sem skráð er frístundasvæði F21 og er stærð landsins 10 ha.

Óskað er eftir að gildandi aðalskipulagi sé breytt og lóðinni verði breytt í verslunar- og þjónustusvæði með heimild til fastra búsetu á landinu.

Einnig er óskað heimildar til að leggja fram deiliskipulag fyrir svæðið.

Fyrirhugaðar áætlanir eru að reisa einbýlishús og hafa á lóðinni fasta búsetu, auk þess að byggja skemmu/vinnuaðstöðu, ásamt smáhýsum til útleigu fyrir allt að 30 gesti.

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd gerir ekki athugasemd við að hafin verði vinna við breytingu á aðalskipulagi en vill benda á að ekki er heimilt að byggja nær reiðvegi sem liggur í gegnum landið, en þannig að 6 metrar verði á milli reiðvegar og mannvirkja í samræmi við leiðbeiningar Vegagerðarinnar og Landssambands hestamannafélaga frá apríl 2022 um gerð og uppbyggingu reiðstíga.

Fundi slitið - kl. 18:07.

Efni síðunnar