Fara í efni

Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd

26. fundur 18. október 2023 kl. 15:30 - 18:00 í stjórnsýsluhúsinu Innrimel 3
Nefndarmenn
  • Sæmundur Víglundsson formaður
  • Helga Harðardóttir ritari
  • Ómar Örn Kristófersson aðalmaður
  • Svenja Neele Verena Auhage aðalmaður
Starfsmenn
  • Jökull Helgason embættismaður
  • Arnheiður Hjörleifsdóttir embættismaður
Fundargerð ritaði: Jökull Helgason Skipulagsfulltrúi
Dagskrá
Ása Hólmarsdóttir boðaði forföll.

1.Svarfhóll - Stofnun lóðar - Miðfellsmúli.

2309003

Erindinu var frestað á 23. fundi nefndarinnar þann 6.9.2023 þar sem samþykki allra landeigenda lá ekki fyrir.



Erindi frá Mílu.

Sótt er um stofnun lóðar úr landi Svarfhóls landeignanúmer 133207.

Um er að ræða svokallaða millispildu sem mun renna saman við lóðina Miðfellsmúla landeignanúmer 179990, sem er 400 m2 að stærð.

Með erindinu fylgdi hnitsettur uppdráttur á loftmyndagrunni, sem sýnir aðkomu að svæðinu.

Stærð fyrirhugaðrar millispildu úr landi Svarfhóls verður 1.600 m2.

Hin stækkaða lóð Miðfellsmúla verður eftir samruna lóðanna 2.000 m2 að stærð.



Skv. tölvupósti frá Mílu dags. 16. október sl., dregur umsækjandi umsókn sína til baka þar sem fallið er frá stækkun lóðarinnar.
Lagt fram til kynningar.

2.Hafnarland - Lísuborgir - deiliskipulag.

2110020

Bréf dags. 3.10.2023 frá lögmanni málsaðila, Eiríki Gunnsteinssyni, hæstaréttarlögmanni.

Er þess m.a. krafist að tillaga að deiliskipulagi sem dagsett er 15. júní 2023 verði samþykkt og sett í lögformlegt ferli innan tveggja vikna frá dagsetningu bréfsins. Verði það ekki gert er þess krafist að sveitarfélagið hafni deiliskipulaginu með formlegum hætti og þeirri niðurstöðu verði hægt að skjóta til æðra stjórnvalds eða dómsstóla eftir atvikum eins og segir í bréfinu.
Samþykkt að vísa erindinu til lögmanns Hvalfjarðarsveitar og fela honum að rita svarbréf vegna málsins.

3.Tilkynning um fyrirhugaða niðurfellingu Eystri-Leirárgarðavegar 1 (5062-01) af vegaskrá

2310034

Erindi dags. 5. október frá Vegagerðinni.

Í bréfinu er tilkynnt um fyrirhugaða niðurfellingu Eystri-Leirárgarðavegar 1 nr. 5062-01 af vegaskrá.

Vegagerðin er veghaldari þjóðvega og hefur það hlutvek skv. 7. grein vegalaga nr. 80/2007 að halda vegaskrá sem er skrá yfir alla þjóðvegi.



Skv. upplýsingum Vegagerðarinnar er ekki lengur lögheimili eða atvinnurekstur fyrir hendi á staðnum og uppfyllir vegurinn því ekki skilyrði þess að teljast til þjóðvega en skv. 6. grein reglugerðar nr. 774/2010 um héraðsvegi og skv. 3. málsgrein 8. greinar vegalaga er Vegagerðinni skylt að fella veg úr tölu héraðsvega og afskrá úr vegaskrá uppfylli hann ekki lengur skilyrði vegalaga um þjóðvegi. Með vísan til þess er áformað að fella veginn af vegaskrá frá og með næstu áramótum og mun viðhald og þjónusta hans ekki lengur verða á ábyrgð Vegagerðarinnar frá þeim tíma. Gefinn er kostur á koma með athugasemdir við hina fyrirhuguðu ákvörðun sem skulu berast Vegagerðinni innan 4 vikna frá 5. október að telja.
Lagt fram til kynningar.

4.Aðalskipulagsbreyting í Reykjavík - Skotíþróttasvæði á Álfsnesi.

2303043

Erindi frá Umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.

Drög að aðalskipulagbreytingu er varðar skotíþróttasvæði á Álfsnesi, sbr. áður kynnt verkefnislýsing, eru nú til kynningar og umsagnar. Í drögunum er sett fram tillaga að skilgreiningu íþróttasvæðis á Álfsnesi, þar sem núverandi skotæfingasvæði eru til staðar í dag. Gert er ráð fyrir að um tímabundna landnotkunarheimild sé að ræða og verði heimilt að endurnýja starfsleyfi til félaga á svæðinu til ársloka 2028. Stefna um landnotkun á svæðinu verður tekin til endurskoðunar innan fjögurra ára og þá á grundvelli niðurstaðna um staðarval skotæfingasvæða til lengri framtíðar litið. Með vísan til 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga eru umrædd gögn lögð fram til kynningar og umsagnar.

Drögin verða til kynningar í skipulagsgáttinni, sjá skipulagsgatt.is, samráðsvettvangi um skipulagsmál og mat á umhverfisáhrifum.

Óskað er eftir því að athugasemdum verði komið á framfæri á þeim vettvangi fyrir 2. nóvember nk.



Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd gerir ekki athugasemd við fyrirhugaða aðalskipulagsbreytingu vegna fyrirhugaðra breytinga á starfsemi skotæfingasvæðis á Álfsnesi, eins og þau eru kynnt erindinu.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

5.Hvítbók um skipulagsmál.

2310004

Erindi frá Innviðaráðuneyti.

Í erindinu er vakin athygli á að hvítbók um skipulagsmál ásamt umhverfismatsskýrslu er nú í kynningu í samráðsgátt stjórnvalda.

Um er að ræða drög að landsskipulagsstefnu til 15 ára og aðgerðaáætlun til 5 ára.

Landsskipulagsstefna er á þingmálaskrá fyrir haustþing 2023 og er gert ráð fyrir að tillaga að þingsályktun verði lögð fyrir Alþingi seint á haustþingi. Í hvítbók er tillaga að landsskipulagsstefnu sem er grunnur að komandi þingsályktunartillögu.

Hvítbók um skipulagsmál ásamt umhverfisskýrslu og greinargerð um stöðu og þróun skipulagsmála á Íslandi, er kynnt í samráðsgátt í sex vikur frá 20. september til 31. október.

Óskað er umsagnar eða ábendingar til og með 31. október 2023.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd gerir ekki athugasemd við fyrirliggjandi gögn, eins og þau eru kynnt í erindinu.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

6.Uppbygging innviða fyrir orkuskipti.

2309048

Bréf dags. 26. september frá Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti er varðar innviði fyrir orkuskipti.



Í bréfinu kemur m.a. fram að til að ná markmiðum Íslands í orku- og loftslagsmálum þarf orkuskipti í samgöngum á landi. Í umhverfis- og orku og loftslagsráðuneytinu er unnið að endurskoðun fyrirliggjandi aðgerðaáætlunar um orkuskipti frá árinu 2017. Bent hefur verið á að til að ná fyrrgreindum markmiðum þurfi að byggja hratt upp hleðsluinnviði og dreifi- og flutningskerfi raforku. Þannig hefur Samorka áætlað að tvöfalda þurfi afhendingargetu dreifikerfa dreifiveitna vegna orkuskipta og telur að gera megi ráð fyrir því að verulegur hluti þeirrar viðbótargetu þurfi að koma til fyrir 2030 og að mestu leyti innan 10-15 ára.

Mikilvægi orkuskipta birtast m.a. drögum að nýrri landsskipulagsstefnu innviðaráðherra (hvítbók), en þar eru loftslagsbreytingar og orkumál meðal viðfangsefna.

Ljóst er að staðarval fyrir lóðir undir hraðhleðslustöðvar fyrir smáa og stóra bíla er mikilvægt skipulagsmál. Orkustofnun hefur bent á að við staðarval vegna hraðhleðslustöðva þurfi að hafa í huga nálægðina við mikilvæga innviði raforkukerfisins, eins og tengipunkta flutningskerfisins (tengivirki). Í ljósi þess að sveitarfélögin í landinu fara með skipulagsgerð innan sinna sveitarfélagamarka telur ráðuneytið rétt að benda þeim á þennan mikilvæga þátt, þrátt fyrir að margir aðrir þættir geti einnig haft áhrif á heppilegt staðarval.
Lagt fram til kynningar.

7.Gröf II 207694 - UFF2 - Tillaga að deiliskipulagi

2306036

Erindi frá Redstone ehf.

Lagt fram uppfært deiliskipulag fyrir Gröf II.

Málið var áður á dagskrá 22. fundar USNL-nefndar þann 16.08.2023.



Lögð fram tillaga að deiliskipulagi dags. 16.10.2023 þar sem gert er ráð fyrir að heimilt verði að byggja aðalhús/starfsmannahús og 6 smáhýsi vegna fyrirhugaðrar gististarfsemi á landinu Gröf II, landeignanúmer 207694. Svæðið er skilgreint sem landbúnaðarland L2 skv. aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032. Skv. aðalskipulaginu eru í gildi almennir skilmálar fyrir landbúnaðarland varðandi svona uppbygginu, og ef þarna verður föst búseta þá er heimilt að byggja upp atvinnurekstur ótengdum landbúnaði. Í almennum skilmálum segir: Þar sem er föst búseta, er heimilt að stunda frístundabúskap eða minniháttar atvinnustarfsemi ótengdri landbúnaði, m.a. með gistingu fyrir allt að 15 gesti. Tryggja skal aðkomu og að næg bílastæði séu innan lóðar til að anna starfseminni. Byggingar fyrir ótengda atvinnustarfsemi geta verið allt að 1.200 m². Gröf II er ekki byggð upp í dag með íbúðarhúsi og því er ekki heimilt að stunda atvinnurekstur ótengdum landbúnaði á spildunni nema að byggt sé upp til fastrar búsetu og þá má vera með minniháttar atvinnustarfsemi, t.d. gistirými fyrir allt að 15 gesti. Skv. þessum ákvæðum aðalskipulagsins má reisa lítil útleiguhús án breytingar á aðalskipulagi.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir að auglýsa deiliskipulagið skv. 1. mgr. 41. greinar skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt er að auk lögboðinna umsagnaraðila verði tillagan kynnt fyrir Slökkviliði Akraness og - Hvalfjarðarsveitar. Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

8.Litli-Botn, deiliskipulag.

2310020

Erindi frá Arkitektastofunni OG ehf f.d. landeigenda.

Tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir Litla-Botn, nánar tiltekið í norðanverðum Botnsdal, norðan við Litlabotnsveg.

Skipulagið er innan reita F40 og F41, sem ætlaðir eru fyrir frístundabyggð í aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032. Á skipulagssvæðinu eru 50 frístundalóðir auk sameiginlegra útivistarsvæða og lands undir vegstæði. Aðalskipulagið gerir ráð fyrir að lóðir skuli að jafnaði vera 0,5-2,0 ha. að stærð.

Deiliskipulagið er í samræmi við skilmála og stefnumörkun í aðalskipulagi og er því sveitarstjórn heimilt að falla frá gerð lýsingar í samræmi við 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem allar meginforsendur liggja fyrir í aðalskipulagi.

Svæðið skiptist í tvö aðskilin undirsvæði, auðkennd vestursvæði og austursvæði á uppdrætti. Vestursvæðið, innan reits F40, er 26,0 ha. að stærð og er óbyggt. Austursvæðið, innan reits F41, er 28,5 ha., þar er búið að byggja á tveimur lóðum. Bæði svæðin halla til suðurs, niður í átt að Litlabotnsvegi og Botnsá. Neðri mörk vestursvæðis eru í um 12 m hæð y.s. en efri mörkin í um 140 m. Austursvæði er lægst í um 20 m hæð y.s. en efri mörk þess í um 130 m.

Skipulagssvæðið er innan hverfisverndarsvæðis HV6 samkvæmt aðalskipulagi.

Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir 50 lóðum fyrir frístundabyggð, 29 á vestursvæði og 21 á austursvæði. Stærð lóða er frá 3.871 m² til 13.307 m².

Aðkoma að deiliskipulagssvæðinu er frá Litlabotnsvegi. Gera þarf nýjan aðkomuveg að vestursvæði, en aðkoma að austursvæði er um núverandi leið að eyðibýlinu Litla-Botni. Gerður er nýr vegur að öllum lóðum.

Hámarksbyggingarmagn á hverri lóð miðast við nýtingarhlutfall 0,03 í samræmi við ákvæði í aðalskipulagi, þó að hámarki 250 m². Byggja má þrjú hús á hverri lóð, frístundahús, gestahús allt að 40 m² og geymslu allt að 25 m². Hús skulu að jafnaði vera einnar hæðar, en þó er heimilt að gera kjallara eða svefnloft/rishæð ef aðstæður leyfa. Form húsa er frjálst að öðru leyti en því, að óheimilt er að byggja kúluhús eða A-hús. Hámarkshæð er 6 m frá frágengnu gólfi 1. hæðar
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir deiliskipulagið með áorðnum breytingum sem skipulagsfulltrúa er falið að koma á framfæri við landeigendur/skipulagshöfund.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir að auglýsa deiliskipulagið skv. 1. mgr. 41. greinar skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt er að auk lögboðinna umsagnaraðila verði tillagan kynnt fyrir Slökkviliði Akraness og -Hvalfjarðarsveitar. Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

9.Flæðigryfjur Grundartanga-deiliskipulagsbreyting.

2309052

Erindi frá Faxaflóahöfnum sf.

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna stækkunar á flæðigryfjum á Grundartanga.

Á vestursvæði Grundartanga er gert ráð fyrir athafna-, hafnar- og iðnaðarsvæðum skv. Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032.

Í gildi er deiliskipulag iðnaðar- og hafnarsvæðis á Grundartanga, vestursvæði, sem upphaflega var samþykkt 13. nóvember 2007. Í aðal- og deiliskipulagi er gert ráð fyrir landfyllingum til suðvesturs frá núverandi hafnarmannvirkjum og lengingu hafnarbakkans. Á fyllingunni verður athafnasvæði hafnar- og hafnarbakkasvæði. Með síðari breytingum á deiliskipulaginu fram til 2021 var gert ráð fyrir flæðigryfjum og stækkun þeirra innan fyrirhugaðra landfyllinga Grundartangahafnar.



Hvorki verður gerð breyting á umfangi landfyllinga né landnotkun innan hafnarsvæðisins.

Breyting á deiliskipulagi felst í afmörkun flæðigryfju fyrir úrgang frá nálægum iðjuverum innan fyrirhugaðrar landfyllingar á hafnarbakkasvæði Grundartangahafnar.

Skilmálar fyrir flæðigryfju eru skýrðir/endurskoðaðir.



Samkvæmt starfsleyfum Norðuráls Grundartanga ehf. og Elkem Ísland ehf. er fyrirtækjunum heimilt að losa efni og afurðir sem ekki fara í sölu, endurvinnslu eða endurnýtingu í flæðigryfjur. Stærstur hluti framleiðsluúrgangs Norðuráls Grundartanga eru kerbrot en mestur hluti framleiðsluúrgangs Elkem Ísland er fínefni af hráefnum.



Framkvæmdin, þ.e. efnislosun í flæðigryfjur, er í flokki A í 1. viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021 og ber því að meta umhverfisáhrif hennar. Fyrir liggur umhverfismatsskýrsla, sem unnin er af verkfræðistofunni Mannvit í janúar 2023, þar sem gerð er grein fyrir áhrifum efnislosunar í flæðigryfju á skipulagssvæðinu á umhverfið. Í skýrslunni er einnig gerð grein fyrir staðháttum, tengslum við aðrar áætlanir og tilhögun framkvæmda. Skipulagsstofnun telur að umhverfismatsskýrslan uppfylli skilyrði laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021 (álit Skipulagsstofnunar dags. 17. ágúst 2023).



Breyting á deiliskipulagi felst í því að afmarkað er sérstakt 4,2 ha efnislosunarsvæði sem nýtt verður sem flæðigryfja til viðbótar við eldri flæðigryfjur sem enn eru í notkun. Svæðið er innan stærra efnislosunarsvæðis/landfyllingar á hafnarsvæðinu þar sem gert er ráð fyrir hafnarbökkum og athafnasvæðum hafnar í gildandi deiliskipulagi.



Árlega er gert ráð fyrir um 13.000 - 19.000 tonnum úrgangsefna frá nálægum iðjuverum til urðunar í flæðigryfjum. Gert er ráð fyrir að ný flæðigryfja endist í a.m.k. 13 ár að því gefnu að Faxaflóahafnir þurfi ekki að fylla svæðið hraðar vegna eftirspurnar eftir auknu hafnarplássi.

Í nýrri flæðigryfju skv. breytingu þessari er miðað við að urða megi u.þ.b. 293.500 m³.



Talsvert grjót þarf í grjótgarð utan um flæðigryfjuna vegna dýpis. Á móti kemur að unnt verður að nýta grjót úr þeim hluta af núverandi garði sem kemur til með að verða innan fyrirhugaðrar flæðigryfju.

Áætluð efnisþörf er: Kjarni: 120.000 m3, grjót: 21.000 m3.



Breytingin er í samræmi við gildandi aðalskipulag Hvalfjarðarsveitar. Skipulagssvæðið er skilgreint sem hafnarsvæði (H1) í aðalskipulagi með eftirfarandi skipulagsákvæðum:

Höfn sem þjónustar járnblendiverksmiðju, álverksmiðju og aðra starfsemi á Grundartanga. Einnig er gert ráð fyrir almennri flutningastarfsemi og annarri hafnsækinni þjónustu. Núverandi hafnarbakkar eru alls 849 metrar og er mögulegt að lengja þá um allt að 700 metra. Á svæðinu er heimilt að vera með athafnastarfsemi. Heimilt að afmarka flæðigryfjur, fyrir úrgang, sem heimilt er að urða í samræmi við starfsleyfi, leyfilegt er að nýta flæðigryfjusvæðið sem hætt er að nota og búið er að ganga frá, sem baksvæði hafnarbakka undir gáma og annað en föst mannvirki. Staðsetning og ákvæði um flæðigryfjur skal sett fram í deiliskipulagi.

Uppfylling gryfja kann að nýtast síðar til uppbyggingar hafnargarða og plana. Aðstaðan annar eftirspurn í dag og eru möguleikar til framþróunar taldir góðir.



Breytingin kallar ekki á breytt mörk, landnotkun eða nýtingu í deiliskipulagi.

Engin friðlýst eða vernduð svæði eru á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði.

Framkvæmdasvæðið er utan marka mikilvægs fuglasvæðis (IBA skrá) sem nær yfir stóran hluta af Hvalfirði (sjá mynd 3.3 í umhverfismatsskýrslu Mannvits).

Norðan við framkvæmdasvæðið eru fornminjar á jörðinni Klafastöðum (sjá á minjavefsjá Minjastofnunar Íslands). Þessi framkvæmd/breyting hefur engin áhrif á minjastaði.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir deiliskipulagið með áorðnum breytingum sem skipulagsfulltrúa er falið að koma á framfæri við landeigendur/skipulagshöfund.
Ekki er þörf á lýsingu þar sem um er að ræða breytingu á gildandi deiliskipulagi sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, auk þess sem megin forsendur vegna nýs deiliskipulags liggja fyrir í aðalskipulagi sveitarfélagsins sbr. 2. mgr. 40 gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. greinar og 2. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

10.Áshamar II - Umsókn um byggingarleyfi,

2306002

Erindi frá skipulags- og byggingarfulltrúa.

Á 62. afgreiðslufundi byggingarfulltrúa, dags. 18. september sl., mál nr. 9, lá fyrir umsókn um byggingarleyfi vegna Áshamars II.

Á fundinum afgreiddi byggingarfulltrúi byggingarheimild með hliðsjón af gildandi aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 en skv. því er lóðin á landbúnaðarsvæði L3 sem er víkjandi landbúnaðarland þar sem heimilt er að byggja upp til fastrar búsetu. Í ljós kom eftir afgreiðslu byggingarheimildar að aðliggjandi lóð var í eigendaskiptaferli eftir sölu og nýjir eigendur fengu ekki tækifæri til að tjá sig um byggingaráformin að Áshamri II og var gerð athugasemd við að grenndarhagsmuna hafði ekki verið gætt við afgreiðslu málsins.

Byggingarfulltrúi átti samtöl við ýmsa aðila málsins, s.s. lóðarhafa Áshamars II, aðliggjandi lóðarhafa að Ásklöpp og Teigarási og nýja eigendur að Teigarási.



Hefur byggingarfulltrúi ákveðið að fella úr gildi byggingarheimild vegna lóðarinnar Áshamars II og óska eftir því við USNL-nefnd að grenndarkynna byggingaráformin.

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir að grenndarkynna byggingaráform vegna Áshamars II í samræmi við 1. mgr. 44. greinar skipulagslaga nr. 123/2010.
Grenndarkynnt verði meðal aðliggjandi lóðarhafa þ.e. Ytri-Hólms, Teigaráss, Áshamars 1 og 3 og Ásklappar.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

11.Reglur um skilti í Hvalfjarðarsveit

2310043

Reglur um skilti í Hvalfjarðarsveit.

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkti á 7. fundi sínum að vinna að endurskoðun á reglum um skilti í Hvalfjarðarsveit frá árinu 2010.

Lögð fram fyrstu drög að nýjum reglum.
Lögð fram fyrstu drög að breyttum reglum um skilti í Hvalfjarðarsveit.
Umhverfisfulltrúa og Skipulagsfulltrúa falið að vinna áfram að málinu.

Arnheiður Hjörleifsdóttir, umhverfisfulltrúi, sat fundinn undir þessum lið.

12.Skilti við Hvalfjarðargöng

2205056

Skilti við Hvalfjarðargöng.
Rætt um málefni skiltis við Hvalfjarðargöng.
Samþykkt að fela lögmanni sveitarfélagsins að rita aðilum málsins bréf.

Fundi slitið - kl. 18:00.

Efni síðunnar