Fara í efni

Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd

8. fundur 02. nóvember 2022 kl. 15:30 - 18:00 í stjórnsýsluhúsinu Innrimel 3
Nefndarmenn
  • Sæmundur Víglundsson formaður
  • Ása Hólmarsdóttir varaformaður
  • Helga Harðardóttir ritari
  • Ómar Örn Kristófersson aðalmaður
  • Svenja Neele Verena Auhage aðalmaður
Starfsmenn
  • Jökull Helgason embættismaður
  • Arnheiður Hjörleifsdóttir embættismaður
Fundargerð ritaði: Jökull Helgason Skipulagsfulltrúi
Dagskrá

1.Uppbyggingarsjóður Vesturlands - umsóknir.

2210073

Lagðar fram upplýsingar um Uppbyggingarsjóð Vesturlands en opnað hefur verið fyrir umsóknir og er umsóknarfrestur til 17. nóvember 2022.
Lagt fram.

2.Áætlun um loftgæði

2210084

Umhverfisstofnun var falið að endurskoða ,,Áætlun um loftgæði á Íslandi 2017-2029 - Hreint loft til framtíðar" skv. tilskipun 2008/50/EB um gæði andrúmsloft og hreinna loft í Evrópu. Þessi tilskipun var innleidd hér á landi með lögum nr. 144/2013 um breytingu á lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Áætlunin á að gefa út til 12 ára í senn og skal áætlunin gilda fyrir allt landið. Þá skal endurskoða áætlunina á fjögurra ára fresti. Umhverfisstofnun mun vinna tillögu að nýrri áætlun í samvinnu við heilbrigðisnefndir sveitarfélaga, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins og aðra haghafa og leggja fyrir ráðherra.
Umhverfisstofnun hefur skilgreint sveitarfélögin sem haghafa að gerð áætlunar um loftgæði 2022-2033 og sendir því drögin til skoðunar.
USNL-nefnd leggur til við sveitarstjórn að veita eftirfarandi umsögn um ,,Áætlun um loftgæði á Íslandi 2017-2029, Hreint loft til framtíðar“ skv. tilskipun 2008/50/EB um gæði andrúmslofts og hreinna lofts í Evrópu:

USNL-nefnd tekur undir mikilvægi þess að halda áhrifum loftmengunar á heilsu manna sem lægstum og stuðla að því að almenningur á Íslandi hafi aðgang að hreinu og heilnæmu andrúmslofti. Einnig er mikilvægt að almenningur á Íslandi hafi góðan aðgang að upplýsingum um loftgæði og að ábyrgðarskipting stjórnvalda í málefnum tengdum loftgæðum sé skýr og að stjórnsýslan sé skilvirk.

Í nýju aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar (óstaðfest) er áhersla lögð á það að gætt verði að því við skipulag svæða, að lýðheilsu- og umhverfissjónarmiðum varðandi loftgæði og losun gróðurhúsalofttegunda sé í sátt við náttúruna og að sveitarfélagið standi vörð um um gæði andrúmslofts. Að auki er það skýr stefna sveitarfélagsins að draga úr losun frá mengandi starfsemi, þ.á.m. brennisteinstvíoxíðs og flúors. Umfangsmikið iðnaðar- og athafnasvæði er innan sveitarfélagsins við Grundartanga og hefur sveitarfélagið sett í stefnu sína að ekki verði heimiluð nú starfsemi innan sveitarfélagsins sem losar brennisteinstvíoxíð og flúor.

Hvalfjarðarsveit leggur á það áherslu að hægt sé að fylgjast með loftgæðamælingum í rauntíma og það eigi ekki síður við um svæði þar sem álag á umhverfi og andrúmsloft er mikið, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu, heldur einnig þar sem vöktun fer fram vegna mengandi starfsemi. Í þessu samhengi vill Hvalfjarðarsveit benda á nauðsyn þess að fjölga mælistöðvum á Íslandi en skv. skýrslunni var heildarfjöldi mælistöðva í upphafi árs 2022 42, þar af eru 4 í eigu Umhverfisstofnunar. Aðrar eru í eigu sveitarfélaga eða starfsleyfishafa þar sem í starfsleyfi er gert ráð fyrir að vöktun loftgæða fari fram. Hvalfjarðarsveit finnst eðlilegt að skoða að fjölga mælistöðvum í eigu Umhverfisstofnunar. Það ýti enn frekar undir þau markmið að Umhverfisstofnun viðhaldi öflugri gagnasöfnun á loftgæðum á Íslandi ásamt því að gera reglulega tölfræðilegar greiningar á gögnunum í formi árlegrar skýrslu um loftgæði.

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hefur ályktað að loftmengun sé sá umhverfisþáttur sem hafi einna mest neikvæð áhrif á lýðheilsu þar sem hún ógnar bæði lífsgæðum almennings og efnahag. Fram kemur í áætluninni að á Íslandi sé almenningur betur að sér nú en áður um mikilvægi heilnæms andrúmslofts. Að auki er stjórnvöldum ljós nauðsyn þess að hafa eftirlit með mengandi starfsemi, vakta loftgæði og tryggja þau með viðeigandi aðgerðum og nauðsyn þess að upplýsa almenning um þessi málefni.

Hvalfjarðarsveit tekur undir þessi markmið og vonast til þess að þessi áætlun muni stuðla að heilnæmu umhverfi og bættu heilbrigði í landinu auk þess að hún megi nýtast öllum þeim sem láta sig loftgæði og lýðheilsu varða.

3.Úrgangsmál í Hvalfjarðarsveit

2210038

Í tengslum við breytingar í úrgangsstjórnun í sveitarfélaginu er nauðsynlegt að endurskoða samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Hvalfjarðarsveit. Í framhaldinu þarf einnig að endurskoða gjaldskrá fyrir sorphirðu og urðun úrgangs.
USNL-nefnd beinir því til sveitarstjórnar, að uppfæra samþykkt um meðhöndlun úrgangs og gjaldskrá fyrir sorphirðu í Hvalfjarðasveit í samræmi við markmið lagabreytinga sem flestar koma til framkvæmda þann 1. janúar nk. en eitt af meginmarkmiðum breytinganna er að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis svo stuðla megi að sjálfbærari auðlindanotkun og draga úr myndun úrgangs.

Hvalfjarðarsveit ætlar að hefja sérstaka söfnun við heimili á fjórum úrgangsflokkum á næsta ári með það að markmiði að auka endurvinnsluhlutfall heimilisúrgangs.
Það ætti að vera stefna sveitarfélagsins að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs sem næst raunkostnaði fyrir tiltekna þjónustu þar sem þjónustugjöld eru ólík sköttum að því leyti að þeim er ætlað að standa undir kostnaði við tiltekna þjónustu sem veitt er gjaldanda.

USNL-nefnd felur umhverfisfulltrúa að uppfæra drög að samþykkt um meðhöndlun úrgangs í samræmi við umræður á fundinum og leggja fyrir á næsta fundi nefndarinnar þann 16. nóvember nk.
Jafnframt er umhverfisfullrúa falið að uppfæra gjaldskrá og leggja fyrir nefndina á næsta fundi þar sem tillit er m.a. tekið til þeirra breytinga sem verið er að gera á samþykktinni þannig að gjöld fyrir söfnun og urðun á úrgangi í Hvalfjarðarsveit verði sem næst raunkostnaði, byggt á áætlun þar um sem og samningi við Íslenska Gámafélagið og tilboði í ákveðna verkþætti.

Jafnframt leggur USNL-nefnd til að leitað verði leiða til hagræðingar í málaflokknum, sem kæmu á móti auknum kostnaði við að uppfylla breytt lagaákvæði.

4.Hreinsunarátak 2022.

2203017

Hreinsunarátak 2022.
Niðurstöður ársins 2022.
Umhverfisfulltrúi fór yfir hreinsunarátak/vorhreinsun yfirstandandi árs.
Hreinsunarátakið gekk að mestu vel og margir nýttu sér þjónustuna. Það má alltaf gera betur í flokkun og er mikilvægt að öll ílát sem nýtt eru í verkefnið séu vel merkt og leiðbeiningar skýrar.
Í tengslum við umræður á fundinum og í ljósi breyttrar úrgangsstjórnunar sem framundan er í Hvalfjarðarsveit er umhverfisfulltrúa falið að endurskoða verklag um hreinsunarátak fyrir árið 2023 og leggja fyrir nefndina í byrjun næsta árs.

5.Fráveitur. Leiðbeiningar um minni fráveitur og eftirlitsmælingar og vöktun

2210090

Umhverfisstofnun hefur gefið út tvö ný leiðbeiningarrit, annars vegar um minni fráveitur sem ætlað er að leiðbeina einstaklingum, hönnuðum, rekstraraðilum og heilbrigðiseftirlitum um þessar lausnir og fyrirkomulag varðandi kröfur til hreinsunar og staðsetningar á hreinsivirki. Hins vegar eru það leiðbeiningar um eftirlitsmælingar og vöktun vegna losunar á skólpi. Þær leiðbeiningar byggja á kröfum sem settar eru fram í reglugerð um fráveitur og skólp nr. 798/1999 og reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns. Reglugerðirnar eru settar með stoð í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála.
Bæði ritin eru gefin út í október 2022.
USNL-nefnd leggur til við sveitarstjórn að leiðbeiningarritin verði birt á heimasíðu Hvalfjarðarsveitar.

6.Umsögn um Þjóðgarða og önnur friðlýst svæði - lykilþættir.

2210030

Erindi frá Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
Kynnt er og óskað samráðs mál nr. 188/2022 "Þjóðgarðar og önnur friðlýst svæði - lykilþættir".
Umsagnarfrestur var frá 07.10.2022 til og með 21.10.2022.

Síðastliðið vor skipaði umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra starfshóp til að vinna greinargerð um stöðu og áskoranir í þjóðgörðum og friðlýstum svæðum á Íslandi og var starfstími hans til 1. október sl.
Starfshópurinn hefur dregið saman ýmis fyrirliggjandi gögn og aflað upplýsinga með samtölum og samskiptum við hagaðila, fulltrúa þeirra stofnana sem reka friðlýst svæði og þjóðgarða og önnur stjórnvöld.
Það skjal sem nú er birt í samráðsgátt er samantekt á lykilþáttum og áskorunum sem fram komu hjá fulltrúum þeirra sem komu á fund hópsins eða sendu inn gögn. Auk þess er skjalið byggt á ábendingum sem fram komu í viðtölum sem fyrirtækið Maskína tók.
Eftir að tímafresti í samráðsgátt lýkur verður unnið úr ábendingum og verður skjalið síðan hluti af lokaskýrslu starfshópsins þar sem birtar verða ýmsar staðreyndir og fróðleikur um málaflokkinn.
Á Íslandi eru 130 friðlýst svæði, þar af þrír þjóðgarðar. Svæðin eru undir stjórn þriggja stofnana og umsjón með svæðunum og stjórnfyrirkomulag á þeim er því með ólíkum hætti. Á undanförnum árum hefur farið fram umræða um tækifæri og áskoranir sem fylgt geta því að friðlýsa landsvæði á Íslandi. Umræðan hefur átt sér stað á sama tíma og heimsóknum gesta á friðlýst svæði hefur fjölgað mikið með tilheyrandi álagi á náttúru og innviði svæðanna.

Ríkisstjórnir undanfarinna ára hafa sett sér þau markmið að efla friðlýst svæði á Íslandi auk þess sem þær hafa lagt áherslu á aukna vernd miðhálendisins. Samhliða umræðu um stöðu friðlýstra svæða hafa komið fram sjónarmið um aukna samþættingu og samræmingu stofnana sem hafa umsjón með svæðunum.
USNL-nefnd telur verkefnið jákvætt og bindur vonir við að samráðsgáttin skili gagnlegum upplýsingum um málaflokkinn til ráðherra.
Nefndin tekur undir og leggur áherslu á að greina þurfi á milli og merkja vel vegi og vegslóða sem heimilt er að aka, og hverjir eru ekki til almennrar notkunar. Mikilvægt er að gera átak í því í samstarfi við sveitarfélög og landeigendur.

7.Ársfundur náttúruverndarnefnda 2022

2210085

Ársfundur náttúruverndarnefnda verður að þessu sinni haldinn í Grindavík þann 10. nóvember nk. Á fundinum verður m.a. farið yfir hlutverk náttúruverndarnefnda, fjallað um hlutverk Umhverfisstofnunar, Samtaka íslenskra sveitarfélaga og samtaka náttúrustofa auk þess að fjalla um náttúruverndarmál.
Formaður hvatti nefndarfólk til þess að taka þátt í fundinum en honum verður jafnframt streymt.
Umhverfisfulltrúa falið að sitja fundinn.
Arnheiður Hjörleifsdóttir, umhverfisfulltrúi vék af fundi.

8.Viðhald og gerð reiðvega í Hvalfjarðarsveit.

2205014

Þann 3.5.2022 barst sveitarfélaginu erindi frá stjórn Hestamannafélagsins Dreyra vegna samnings um gerð reiðvega í Hvalfjarðarsveit.
Með erindinu fylgdi kort með áherslum til ársins 2027.

Skv. erindinu er óskað eftir að samningur um viðhald og gerð reiðvega í sveitarfélaginu verði gerður milli Hvalfjarðarsveitar og félagsins.
Dreyri leggur til að samningurinn gildi í 4 ár, frá árinu 2023 til 2027 og að fjárframlag Hvalfjarðarsveitar verði 4 milljónir króna á ári. Hestamannafélagið mun sjá um að framkvæma í sjálfboðavinnu og/eða finna til verktaka vegna vinnu við nýlagningu reiðleiða/reiðvega og viðhalds eldri reiðvega.
Aðaláhersla hestamannafélagins Dreyra á næstu árum mun fara í að auka umferðaröryggi í Hvalfjarðarsveit og færa reiðvegi sem fjærst akvegi eins og aðstæður leyfa á hverjum stað. Einnig stefnum við á að setja upp/girða áningarhólf á hentugum stöðum og setja betri hlið við algengar reiðleiðir þar sem það á við.
Helstu áherslur næstu 4 árin.
A. Berjadalsá að Urriðaá. Lengd um 9 km.
B. Laxá að Leirá- meðfram þjóðvegi 1. Lengd um 1 km.
C. Laxárbakki-Hlíð-Tunga-Silfurberg-Laxárbakki, hringleið. Lengd um 14 km.
D. Önnur verkefni, styttri vegbútar, litlar áningarstaðir/girðingar, hlið og fleira.

Reiðvegurinn í dag á leiðum A og B er í vegöxl þessara fjölförnu akvega þar sem umferðarhraði er hár og fjöldi stórra ökutækja á ferð.

A. Berjadalsá- Urriðaá um 9 km.
Hentugar aðstæður til að færa reiðveg A frá akvegi hafa skapast eftir að Veitur fjarlægðu hitaveiturör meðfram Akrafjallsvegi frá Litlu-Fellsöxl að Ósi. Búið er að fylla upp í rörasárið og færa skurði á hluta þessarar leiðar (vestast) af Vegagerð og Veitum. Um nýlagninu reiðvegar yrði á þessari leið, frá Ósi að Arkarlæk um 5 km.

B.- Laxá - Leirá. Lengd 1 km.
Á reiðleið B er einnig um að ræða nýlagninu. Hér er um gríðarstórt öryggismál að ræða bæði fyrir akandi og ríðandi umferð. Reiðvegurinn er bókstaflega í vegöxl þjóðvegarins þar sem bæði er beygja og slæmt útsýni fyrir vegfarandur.

C. Á hringleið frá og til Laxárbakka. Lengd 14 km.
Lagfæra/endurgera þarf stóran hluta reiðvegar frá Laxárbakka að Galtarholti (3,5 km) og fara í nýlagninu reiðvegar á milli Galtarholts og Tungu (3km) en þar er enginn reiðvegur núna.
Síðan þarf að lagfæra reiðveg frá Steinholti-Silfurbergi (3 km).
Frá Silfurbergi að þjóðvegi 1 (500 m) þarf að gera nýjan reiðveg þar sem aðeins er grófur mói í dag. Síðan tekur við sú mikilvæga reiðleið sem merkt er B að Laxárbakka.

Með fjárframlagi í samningi til fjögurra ára á milli Dreyra og Hvalfjarðarsveitar upp á 16 milljónir myndi staða gæða- og öryggismála reiðvega í
Hvalfjarðarsveit taka stórt og jákvætt skref fram á við.

Á 351. fundi sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar þann 10.05.2022 var erindið tekið fyrir, eftirfarandi bókun var samþykkt:
"Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar tekur jákvætt í erindi Hestamannafélagsins Dreyra um gerð samnings vegna reiðvegagerðar í Hvalfjarðarsveit, og að unnin sé stefnumótun um forgangsröðun reiðleiða í sveitarfélaginu. Málinu er vísað til umfjöllunar við gerð næstu fjárhagsáætlunar og hjá USN nefnd."
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd tekur jákvætt í að gerður verði samningur um viðhald og gerð reiðvega í sveitarfélaginu árin 2023 - 2027, milli Hvalfjarðarsveitar og hestamannafélagsins Dreyra og að áfram verði unnin stefnumótun um forgangsröðun reiðleiða í sveitarfélaginu.
Endanleg staðsetning reiðleiðar verði í samráði við landeigendur á hverjum stað.

9.Geldingaá - efnistaka.

2210080

Erindi dags. 20.10.2022 frá Ólafi Sveinssyni f.h. Steypustöðvarinnar er varðar áform um efnistöku í landi Geldingaár í Hvalfjarðarsveit.

Með erindinu vill Steypustöðin upplýsa Hvalfjarðarsveit um áform sín um efnistöku/-vinnslu í landi Geldingaár i Hvalfjarðarsveit.

Skv. erindinu hafa farið fram viðræður við landeigendur og fram kemur að þeir séu jákvæðir gagnvart þessum áformum.

Eftir viðræður við jarðfræðing, hefur Steypustöðin ákveðið að fá hann til að koma að því verkefni að meta hugsanlegt magn sem hægt væri að taka þarna og afmarka það svæði sem varðar fyrirhugaða efnistöku og -vinnslu.

Áform Steypustöðvarinnar eru, ef leyfi fást og aðstæður leyfa að taka þarna 1 - 2 milljónir rúmmetra.
Ástæður þessa er þörf á steinefnum frá þessu svæði á komandi árum og í því sambandi er magn steinefna sem þarf að skaffa til mannvirkjagerðar á Akranes-, Hvalfjarðarsveitar- og Borgarnessvæðinu á næstu 4 - 6 árum yfir 500.000 rúmmetrar.

Þar sem Steypustöðinni er kunnugt um að unnið er að gerð nýs aðalskipulags fyrir Hvafjarðarsveit, vill fyrirtækið kanna hvort vilji sé til staðar hjá Hvafjarðarsveit að taka þetta verkefni til skoðunar og jafnframt að taka tillit til þess í væntanlegu aðalskipulagi.

Mun fyrirtækið senda sveitarfélaginu ítarlegri upplýsingar um áform sín eftir forskoðun og mat jarðfræðings á staðsetningu og áætluðu magni efnistöku um miðjan nóvember.
Skv. gildandi aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2008-2020 er ekki gert ráð fyrir efnistöku af þessu magni í landi Geldingaár og heldur ekki í nýju aðalskipulagi sem nú er í lokaferli hjá sveitarfélaginu.
Ekki er því mögulegt að taka tillit til efnisnámu af þessari stærðargráðu í væntanlegu aðalskipulagi sveitarfélagsins 2020-2032.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd hvetur til að sveitarfélaginu verði sendar meiri og ítarlegri upplýsingar um málið þegar rannsóknir jarðfræðings hafa verið unnar og liggja fyrir svo sem um stærð svæðis, staðsetningu osfrv.

10.Umsögn um drög að frumvarpi til laga um breytingu á skipulagslögum(Carlsbergs-ákvæði), mál 202-2022.

2210065

Erindi frá Innviðaráðuneyti / samráðsgátt stjórnvalda.
Ósk um umsögn um drög að frumvarpi til laga um breytingu á skipulagslögum (Carlsbergs-ákvæði), mál 202-2022.

Innviðaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 202/2022 - „Drög að frumvarpi til laga um breytingu á skipulagslögum“.
Með erindinu er Hvalfjarðarsveit boðið að senda inn umsgön vegna málsins en umsagnarfrestur er til og með 06.11.2022.

Niðurstöður samráðsins verða birtar í samráðsgáttinni þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Um er að ræða breytingu á skipulagslögum nr. 123/2010 þar sem kveðið verður á um heimild sveitarfélaga til að gera kröfu um það í deiliskipulagi að allt að 25% af byggingamagni svæðis verði fyrir hagkvæmar íbúðir, leiguíbúðir og aðrar íbúðir sem njóta stuðnings ríkisins og/eða sveitarfélaga.
Ekki er um skyldu að ræða heldur heimild og einnig geta sveitarfélög samið um hærra viðmið en 25% ef nást samningar um það nú eða lægra.

Þetta frumvarp, sem er í raun eitt lagaákvæði, er ívilnandi fyrir sveitarfélög þ.e.a.s. veitir þeim heimild en felur ekki í sér neinar skyldur á hendur sveitarfélaga.


Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd gerir ekki athugasemd við drög að lagafrumvarpinu.

11.Gjaldskrárbreyting - Skipulags- og byggingarfulltrúi

2112013

Lögð fram uppfærð gjaldskrá skipulags- og byggingarfulltrúa.

Á 362. fundi sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar þann 26.10.2022 var afgreiðslu gjaldskrárinnar frestað til næsta fundar.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd gerir fyrir sitt leyti ekki athugasemd við tillögur að gjaldskrám fyrir skipulags- og byggingarfulltrúa.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

12.Fornleifaathugun í Akurey í Grunnafirði.

2203039

Skýrsla frá Fornleifastofnun Íslands.
Þann 18.10.2022 móttók sveitarfélagið lokaskýrslu um skráningu fornleifa í Akurey.
Eyjan er í heild um 7,2 hektarar að stærð og voru samanlagt skráðar 24 fornleifar á 16 minjastöðum.
Vettvangsvinna vegna skýrslunnar fór fram í júlí 2022 að loknu æðarvarpi.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd gerir ekki athugasemd við lokaskýrslu um skráningu fornleifa í Akurey.
Samþykkt að senda Eflu skýrsluna til uppfærslu þeirra upplýsinga um fornminjar í aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032, sem þar koma fram.

13.Deiliskipulag Melahverfis, 3. áfangi.

2102151

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti á 336. fundi sínum þann 14.09.2021 að ganga til samninga við Landmótun um hönnun 3. áfanga Melahverfis á grundvelli niðurstöðu verðkönnunar í verkefnið.
Á 5. fundi USNL-nefndar þann 21.09.2022 voru lögð fram fyrstu drög Landmótunar að deiliskipulagi Melahverfis III.
Fjallaði nefndin m.a. um gatnaskipulag og fjölda og dreifingu mismunandi íbúðagerða.
Tillagan var í samræmi við afmörkun ÍB10 í tillögu að nýju aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032.
Á fundinum bókaði USNL-nefnd að fela skipulagsfulltrúa að funda með Landmótun um málið og fara yfir ýmsar breytingar og áherslu nefndarinnar varðandi skipulagstillöguna.
Skipulagsfulltrúi fundaði með Landmótun þann 13. október 2022 og fór yfir áherslur USNL-nefndar varðandi fyrstu skipulagsdrögin.
Í kjölfarið sendi Landmótun sveitarfélaginu uppfærða tillögu en skv. henni er gert ráð fyrir 15 húsum fyrir einbýli, 18 parhúsaíbúðum og 36 raðhúsaíbúðum.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd gerir fyrir sitt leyti ekki athugasemd við tilöguna hvað varðar gatnaskipulag og fjölda og dreifingu mismunandi íbúðagerða.
Samþykkt að óska eftir því við Landmótun að á næsta fundi liggi fyrir tillaga að greinargerð vegna skipulagsins.
Tillagan samþykkt með áorðnum breytingum skv. umræðum á fundinum.

14.Tilkynning um fyrirhugaða niðurfellingu Galtarlækjarvegar nr. 5044-01 af vegaskrá

2210051

Erindi frá Vegagerðinni er varðar tilkynningu um fyrirhugaða niðurfellingu Galtarlækjarvegar nr. 5044-01 af vegaskrá.
Á 362. fundi sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar sem haldinn var 26.10.2022 var samþykkt að vísa erindinu til Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefndar.
Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar er föst búseta ekki lengur fyrir hendi og uppfyllir vegurinn því ekki skilgreint skilyrði þess að teljast til þjóvegar sbr. c. liður 2. mgr. 8. gr. vegalaga um héraðsvegi, sem er einn flokkur þjóðvega.
Héraðsvegir eru vegir sem liggja að býlum, starfrækslu atvinnufyrirtækja, kirkjustöðum, opinberum skólum og öðrum opinberum stofnunum utan þéttbýlis.
Umræða um málið og lagt fram til kynningar.

15.Tilkynning um fyrirhugaða niðurfellingu Másstaðavegar nr. 5048-01 af vegaskrá.

2210052

Erindi frá Vegagerðinni er varðar tilkynningu um fyrirhugaða niðurfellingu Másstaðavegar nr. 5048-01 af vegaskrá.
Á 362. fundi sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar sem haldinn var 26.10.2022 var samþykkt að vísa erindinu til Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefndar.
Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar er föst búseta ekki lengur fyrir hendi og uppfyllir vegurinn því ekki skilgreint skilyrði þess að teljast til þjóvegar sbr. c. liður 2. mgr. 8. gr. vegalaga um héraðsvegi, sem er einn flokkur þjóðvega.
Héraðsvegir eru vegir sem liggja að býlum, starfrækslu atvinnufyrirtækja, kirkjustöðum, opinberum skólum og öðrum opinberum stofnunum utan þéttbýlis.
Umræða um málið og lagt fram til kynningar.

16.Beiðni um viðræður um kaup eða makaskipti á landi af Hvalfjarðarsveit.

2210045

Erindi frá Akraneskaupstað þar sem óskað er eftir viðræðum um kaup eða makaskipti á landi í Hvalfjarðarsveit.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd tók erindið til umfjöllunar og fóru fram gagnlegar umræður um málið.
Nefndin leggur til að haldinn verði sameiginlegur fundur sveitarstjórnar og viðkomandi nefnda hjá Hvalfjarðarsveit.

17.Beiðni um færslu sveitarfélagamarka (breytt lögsögumörk) vegna tiltekins landsskika í landi Akrakots.

2210044

Erindi frá Akraneskaupstað þar sem óskað er eftir færslu sveitarfélagamarka (breyttum lögsögumörkum) vegna tiltekins landsskika í landi Akrakots.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd tók erindið til umfjöllunar og fóru fram gagnlegar umræður um málið.
Nefndin leggur til að haldinn verði sameiginlegur fundur sveitarstjórnar og viðkomandi nefnda hjá Hvalfjarðarsveit.

18.Landsbyggðarstígur.

2210049

Erindi frá Akraneskaupstað er varðar stígagerð.
Á undanförnum árum hefur Vegagerðin í samstarfi við sveitarfélög lagt stíga sem ætlaðir eru fyrir gangandi og hjólandi umferð auk reiðstíga. Í því sambandi er vert að skoða möguleika á skipulagi og uppbyggingu svokallaðs "Landsbyggðastígs" sem tengir saman sveitarfélögin Akraness og Hvalfjarðarsveit, verkefnið yrði samvinnu verkefni sveitarfélaganna og Vegagerðarinnar. Slíkur stígur gæti t.d. náð hringinn í kringum Akrafjall með góðri tengingu við Melahverfi og Grundartanga. Stígurinn ætti að vera fyrir gangandi- og hjólandi vegfarendur ásamt reiðstíg.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd tekur undir bókun Mannvirkja- og framkvæmdanefndar frá 54. fundi dags. 1.11.2022, mál nr. 9, um að formanni Mannvirkja- og framkvæmdanefndar og verkefnastjóra framkvæmda og eigna hjá Hvalfjarðarsveit, verði falið að eiga fund með fulltrúum Akraneskaupstaðar.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar.

19.Stjórnsýslukæra nr. 33-2022, vegna vegar að Ölver 12.

2204040

Úrskurður frá Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Þann 20. október 2022, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík og var tekið fyrir mál nr. 33/2022, kæra á afgreiðslu Hvalfjarðarsveitar frá 18. mars 2022, á erindi um að sveitarfélagið beiti sér fyrir lausn á aðkomu að sumarbústað kæranda á lóðinni Ölveri 12, Hvalfjarðarsveit.
Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála,sem barst nefndinni 20. apríl 2022, kærir Sigurlaug María Jónsdóttir, afgreiðslu Hvalfjarðarsveitar frá 18. mars 2022 á erindi um að sveitarfélagið beiti sér fyrir lausn á aðkomu að sumarbústað hennar á lóðinni Ölveri 12, Hvalfjarðarsveit. Er þess krafist að sveitarfélagið tryggi að kærandi geti notað veg sem liggur um land Narfastaða og að vegurinn verði settur í deiliskipulag.

Mál þetta snýst um kröfu kæranda um að honum verði tryggð aðkoma að sumarbústað sínum eftir vegi sem liggur um land Narfastaða, nánar tiltekið yfir lóðina Háholt 22. Erindi kæranda til sveitarfélagsins sem og málsmeðferð og afgreiðsla þess ber ekki með sér að um sé að ræða ákvörðun sem tekin hafi verið á grundvelli skipulagslaga af þar til bærum stjórnvöldum, svo sem varðandi skipulagsbreytingu.
Liggur því ekki fyrir í máli þessu ákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndina.

Hvað varðar kröfu kæranda um að honum verði tryggður réttur til umferðar um nefndan veg í landi Narfastaða skal bent á að ágreiningur um umferðarrétt og inntak hans á grundvelli hefðarréttar heyrir ekki undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar heldur eftir atvikum dómstóla. Rétt þykir jafnframt að benda á að deiliskipulag getur ekki hróflað við eða ráðstafað eignarréttindum manna.
Bent er á að kærandi getur óskað eftir því við Hvalfjarðarsveit að gerð verði tillaga að breytingu á deiliskipulagi til að tryggja aðkomu að lóðinni Ölveri 12. Afgreiðsla slíks erindis væri eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Með hliðsjón af framangreindu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.
Lagt fram til kynningar.

20.Aðalskipulag-endurskoðun-2020-2032

1901286

Lagðar fram umsagnir aðila við auglýsta tillögu að aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032.
31. Leirárskógar
32. Vestri-Leirárgarðar
33. Leirá
34. Bjarteyjarsandur
35. Hlésey, Galtarvík, Glóra
36. Skipulagsstofnun.
Samþykkt að fela skipulagsfulltrúa í samstarfi við formann USNL-nefndar og Eflu verkfræðistofu að gera uppkast að svörum við athugasemdum.
Stefnt að því að leggja tillögur að svörum til þeirra sem gerðu athugasemdir við aðalskipulagið, fram á næsta fundi í USNL-nefnd þann 16. nóvember næstkomandi.

Fundi slitið - kl. 18:00.

Efni síðunnar