Fara í efni

Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd

2. fundur 17. ágúst 2022 kl. 15:30 - 18:00 í stjórnsýsluhúsinu Innrimel 3
Nefndarmenn
  • Sæmundur Víglundsson formaður
  • Ása Hólmarsdóttir varaformaður
  • Helga Harðardóttir ritari
  • Ómar Örn Kristófersson aðalmaður
  • Svenja Neele Verena Auhage aðalmaður
Starfsmenn
  • Jökull Helgason embættismaður
  • Arnheiður Hjörleifsdóttir embættismaður
Fundargerð ritaði: Jökull Helgason skipulagsfulltrúi
Dagskrá

1.Breyting á starfsleyfi fyrir Al Álvinnslu.

2207028

Umhverfisstofnun vekur athygli á að tillaga að breytingu á starfsleyfi fyrir Al Álvinnslu ehf. Klafastaðavegi 4 á Grundartanga er í auglýsingu á heimasíðu stofnunarinnar. Frestur til að skila inn umsögnum eða gera athugasemdir við tillöguna var til og með 8. ágúst sl. Hvalfjarðarsveit hefur sótt um frest til 26. ágúst n.k. til að skila inn umsögn. Vakin hefur verið athygli á starfsleyfistillögunni á heimasíðu Hvalfjarðarsveitar. Öllum er heimilt að senda athugasemdir.
Sjá hér: https://ust.is/atvinnulif/opinber-birting/starfsleyfistillogur-i-auglysingu/stok-frett/2022/07/07/Tillaga-ad-breytingum-a-starfsleyfi-Als-alvinnslu-ehf/
Tilkynning barst frá Umhverfisstofnun í tölvupósti, dags. 15. ágúst sl. þess efnis að nauðsynlegt er, að mati stofnunarinnar, að setja af stað nýja auglýsingu á tillögu að breytingum á umræddu starfsleyfi í stað þeirrar sem auglýst var á tímabilinu 7. júlí - 8. ágúst. Breytingin kemur til vegna breyttra áforma rekstraraðila sem óskað hefur eftir að hámarksmagn af álgjalli sem taka megi í vinnslu verði 15.000 tonn á ári eins og í núverandi starfsleyfi. Ný auglýsing verður sett af stað síðar þar sem ekki er gert ráð fyrir því lengur að minnka leyft umfang.
USNL nefnd ítrekar fyrirspurnir sínar til Umhverfisstofnunar og felur Umhverfisfulltrúa að ganga á eftir svörum.
Málinu frestað þar til ný gögn berast.

2.Flæðigryfjur við Grundartanga - álit Skipulagsstofnunar um matsáætlun.

2207026

Nýjar flæðigryfjur á hafnarsvæði við Grundartanga.
Álit Skipulagsstofnunar dags. 08.07.2022 um matsáætlun fyrir flæðigryfjur á Grundartanga.
Helstu niðurstöður:
1. Valkostir: Nýta umhverfismatið til að bera saman umhverfisáhrif þeirra valkosta sem til greina koma. Gera þarf sérstaklega grein fyrir valkosti eða -kostum sem felast í endurvinnslu kerbrota.
2. Urðun í flæðigryfjur: Gera í umhverfismatsskýrslu grein fyrir hvaða efni verði urðuð þar og hversu lengi gryfjunum er ætlað að endast til að taka við efni til urðunar.
3. Vistgerðir og fuglalíf: Í umhverfismatsskýrslu þarf að gera grein fyrir þeim vistgerðum og því fuglalífi sem er að finna á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði. Meta þarf verndargildi þeirra vistgerða sem eru á svæðinu. Meta þarf hvernig fuglar nýti svæðið, hvaða tegundir og þéttleika þeirra og gera grein fyrir áhrifum framkvæmdanna á fugla og vistgerðir.
Álit Skipulagsstofnunar lagt fram til kynningar.

3.Álit Skipulagsstofnunar um matsáætlun vegna Holtavörðuheiðarlínu 1.

2205036

Niðurstaða Skipulagsstofnunar:

Við vinnslu og framsetningu umhverfismatsskýrslu þarf að:
1. Forsendur. Fjalla ítarlega um þörf á því að núverandi lína verði áfram í notkun og hvaða tilgangi hún komi til með að þjóna í tengingu svæðisbundinna flutningskerfa við meginflutningskerfið og til hve langs tíma, m.a. í ljósi þess að núverandi byggðalína er að nálgast 50 ára líftíma sinn. Gera þarf einnig grein fyrir hvort að sú staðreynd kalli á endurbætur á núverandi línu.
2. Jarðstrengir. Rökstyðja ástæður þess að svigrúm til að leggja Holtavörðuheiðarlínu 1 í jörðu sé nær ekkert þrátt fyrir að hún virðist tengjast inn á flutningskerfið á suðvesturhorninu. M.a. þarf að skýra við hvaða aðstæður væri möguleiki fyrir hendi að leggja jarðstreng lengri vegalengdir, þ.e. hvort að slíkar aðstæður væru fyrir hendi ef búið væri að reisa nýja línu frá Holtavörðuheiði að Blöndustöð og þaðan til Akureyrar (Blöndulína 3).
3. Núverandi lína í jörðu. Gera grein fyrir um hvaða kafla um verði að ræða sem fyrirhugað væri að leggja núverandi línu í jörðu og rökstyðja ítarlega ástæður fyrir vali þessara kafla; m.a. hvaða umhverfislegi ávinningur væri af því og þá einkum m.t.t. ásýndaráhrifa. Þá þarf að koma fram lengd viðkomandi kafla og skýringar hvað takmarki lengdina. Skipulagsstofnun bendir á að mikilvægt er að jarðstrengslögn núverandi línu eða samnýting mastra sé skoðuð á viðkvæmum og að mestu leyti óröskuðum svæðum m.t.t. ásýndaráhrifa, m.a á þeim köflum sem línuleið er innan miðhálendismarka og í jaðri Tvídægru/Arnarvatnsheiðar, sbr. einnig mynd 6.1 af verndarsvæðum.
4. Valkostir. Rökstyðja ítarlega við val á aðalvalkosti hvaða umhverfis- og samfélagslegu þættir vógu þyngst við þá ákvörðun og hvaða mótvægisaðgerðir ef einhverjar koma til greina til að draga úr neikvæðum áhrifum.
5. Fuglar. Leggja mat á áflugshættu á þeim hluta línunnar sem er í Hvalfirði vegna nálægðar við
Grunnafjörð sem er alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði sem og á þeim hluta leiðarinnar sem er innan og í grennd við mikilvægt fuglasvæði á Arnarvatnsheiði. Í umhverfismatsskýrslu þarf jafnframt að gera grein fyrir hverjar niðurstöður athugana sem Landsnet hefur staðið fyrir um áflug og áflugshættu, í tengslum við línuframkvæmdir á vegum fyrirtækisins, hafa verið og að hvaða leyti þær nýtast í þessu mati. Auk þess þarf að fjalla um leiðir til þess að draga úr áflugshættu, m.a. með erkingum leiðara.
6. Efnistaka. Leggja mat á sjónræn áhrif af efnistökusvæðum, fyrir utan mat á áhrifum á gróður, fugla, fornleifar og vatnalíf og fjalla um frágang svæðanna. Þá þarf að gera grein fyrir hvers konar jarðmyndanir eru á efnistökusvæðum.
7. Vegir. Koma fram upplýsingar um lengd nýrra vega og endurbygging eldri slóða, skeringar og fyllingar, áætluð ræsagerð, útskot og áætluð umferð á framkvæmdatíma vegna efnisflutninga, sem og umferð um vegina að framkvæmdum loknum. Koma þarf fram heildarbreidd svæða sem raskast að meðaltali vegna veglagningar. Þá þurfa að koma fram upplýsingar um heildarumfang raskaðs svæðis vegna loftlínu- og hliðarslóða. Bent er á að við mat á áhrifum af veglagningu þarf, auk þess að leggja mat á gróður, landbúnað/ræktað land og fornleifar, að gera ráð fyrir að leggja mat á ásýnd og landslag, einkum þar sem um verður að ræða rask vegna nýrra slóða og þá einnig á bú- og fæðuöflunarsvæði fugla.
8. Menningarminjar. Í samræmi við ábendingar Minjastofnunar Íslands að sýna staðsetningu og útlínur fornleifa á orti/loftmynd ásamt legu línunnar, slóða, útlínum efnistökusvæða og staðsetningu tengivirkja og vinnubúða.
9. Landslag og ásýnd. Við mat á mikilvægi landslagsheilda að taka mið af því gildi sem ósnortin eða lítt röskuð svæði hafa þó að þau njóti ekki formlegrar verndar.
10. Ásýndarmyndir. Gera ráð fyrir að myndvinnsla og framsetning ásýndarmynda fyrir og eftir framkvæmdir verði sambærileg við þá myndvinnslu og framsetningu og var í umhverfismatsskýrslu Landsnets um Blöndulínu 3. Þá þarf í umhverfismatsskýrslu að birta ásýndarmyndir fyrir og eftir framkvæmd sem sýna fyrirhugaðar raflínur að vetri til þegar snjór er yfir svæðunum.
11. Vöktun. Leggja fram áætlun um vöktun umhverfisáhrifa eftir að framkvæmdum er lokið og starfsemin er komin í rekstur, eftir því sem við á, m.a. áætlun um hvernig eigi að vakta áflug fugla.
Niðurstaða Skipulagsstofnunar lögð fram til kynningar.

4.Þynningarsvæði. Galtarlækur og Fellsöxl.

2103086

Um er að ræða afrit af bréfum frá Rétti lögmannsstofu, sem gætir hagsmuna Skagastáls efh, til annars vegar Norðuráls og hins vegar Elkem og varðar skilgreint þynningarsvæði umhverfis verksmiðjurnar.
Lagt fram til kynningar.

5.Úrgangsmál. Flokkunartafla fyrir "gráa tunnu", almennan, óflokkaðan heimilisúrgang.

2208017

Mikilvægt er að merkja sorpílát vel og útskýra hvað á heima hvar. Gera þarf átak í að merkja gáma í sveitarfélaginu og leiðbeina þannig notendum um rétta úrgangsflokkun.
Samkvæmt samningi Hvalfjarðarsveitar við Íslenska Gámafélagið, skal verktaki sjá um að merkja alla gáma mjög greinilega samkvæmt FENÚR kerfinu og viðhalda þeim merkingum. Verktaki skal hafa þjónustusímanúmer sitt vel sýnilegt á grenndarstöðvum og merkingar gáma skulu vera vel læsilegar.
Ekki eru til merkingar fyrir svokallaða "gráa tunnu" hjá Íslenska Gámafélaginu og hefur Hvalfjarðarsveit því útbúið leiðbeiningar í samræmi við merkingar á grænu og brúnu tunnunni.
USNL-nefnd samþykkir tillögu um merkingar fyrir almennan, óflokkaðan úrgang fyrir sitt leiti og felur umhverfisfulltrúa að vinna að því í samstarfi við Íslenska Gámafélagið að gera átak í merkingu gáma á grenndarstöðvum í Hvalfjarðarsveit, sbr. ákvæði verksamnings um sorphirðu í sveitarfélaginu. Jafnframt leggur nefndin til við sveitarstjórn að leiðbeiningar fyrir almennan, óflokkaðan úrgang verði þýddar yfir á ensku, og að þessum leiðbeiningum verði jafnframt komið á framfæri á heimasíðu sveitarfélagsins ásamt upplýsingum um úrgangsmál og mikilvægi flokkunar. Umhverfisfulltrúa falið að vinna málið áfram.

6.Ósk um breytingu á staðsetningu gámastöðvar

2206047

Erindi frá sumarhúsafélaginu í Kambshólslandi þar sem óskað er eftir leyfi til að færa gáma undir úrgang, inn fyrir girt svæði sumarhúsasvæðisins.
Nefndin felur umhverfisfulltrúa og formanni USNL-nefndar að funda með bréfritara og landeiganda um málið og finna ásættanlega lausn í samræmi við reglur og samþykktir sveitarfélagsins.

7.Umhverfisvöktun við Grundartanga, niðurstöður ársins 2021.

2206048

Árið 2021 fór fram vöktun á umhverfinu í kringum iðnaðarsvæðið á Grundartanga samkvæmt umhverfisvöktunaráætlun sem gildir til ársins 2028, með samþykki Umhverfisstofnunar.
Eftirfarandi þættir voru vaktaðir að þessu sinni: loftgæði (andrúmsloft og úrkoma), ferskvatn, sjór við flæðigryfjur, lífríki sjávar (kræklingur og set), móareitir, gróður (gras, lauf og barr) og grasbítar (sauðfé og hross).
Þau fyrirtæki sem taka þátt í umhverfisvöktuninni eru Elkem Ísland ehf., Norðurál Grundartangi ehf. og Alur Álvinnsla ehf.
Tilgangur vöktunarinnar er að meta þau áhrif á umhverfið sem starfsemi á iðnaðarsvæðinu á
Grundartanga veldur.
Skýrsla Eflu verkfræðistofu um niðurstöður umhverfisvöktunar fyrir árið 2021 lögð fram.
Þar segir m.a.:
Niðurstöður fyrir flúor og brennistein voru óvenjulega háar árið 2021 sem hugsanlega tengist staðsetningu mælistöðva, veðurfari og áhrif frá eldgosinu í Geldingadölum sem hófst 19. mars 2021 og stóð yfir allt sumarið fram á haust.
Niðurstöður fyrir ferskvatn, gras, sjó, lífríki sjávar (krækling) leiða í ljós að öll viðmiðunarmörk voru uppfyllt, sem sett eru í reglugerðum. Loftgæðamælingar á flúor á Kríuvörðu mældust utan viðmiðunarmarka starfsleyfis. Aðrar mælingar á flúor voru innan starfsleyfismarka Norðuráls auk þess sem aðrar loftgæðamælingar í andrúmslofti uppfylltu öll viðmiðunarmörk í reglugerðum. Ekki hafa
verið skilgreind íslensk viðmiðunarmörk fyrir set, móareiti, gróður (lauf og barr), grasbíta (sauðfé og hross) eða úrkomu. Í öllum tilfellum voru niðurstöður bornar saman við bakgrunnsgildi og niðurstöður fyrri ára. Styrkur flúors í gróðri mældist í öllum tilvikum undir töldum þolmörkum gróðurs og undir reglugerðarmörkum um magn flúors í fóðri. Meðalstyrkur flúors í kjálkabeinum sauðfjár hafði hækkað samanborið við árið 1997 og hefur meðalstyrkur flúors í lömbum austan, norðan og norðvestur af iðnaðarsvæðinu ekki mælst jafn hár síðan 2007. Ekki var greinilegt samband á milli tannheilsu sláturfjár og styrks flúors í kjálkabeinum. Ekki voru greinanleg áhrif flúors á tönnum eða í liðum lifandi sauðfjár og hrossa.

8.Handbók um framkvæmd úrgangsstjórnunar

2208024

Handbók um framkvæmd úrgangsstjórnunar hefur verið gefin út og birt á vefsíðu Umhverfisstofnunar. Um er að ræða vegvísi sveitarfélaga í úrgangsmálum sem fjallar um þær stefnumótandi ákvarðanir og þjónustu sem sveitarstjórnum eru faldar samkvæmt lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Í handbókinni má m.a. finna ítarlegar leiðbeiningar um gerð svæðisáætlana og sniðmát sem sveitarstjórnum er skylt að gefa út skv 9. gr. reglugerðar um meðhöndlun úrgangs.
Handbók um framkvæmd úrgangsstjórnunar lögð fram til kynningar.

9.Endurvinnsla kerbrota - umsagnarbeiðni.

2208025

Kerendurvinnslan hefur sent Skipulagsstofnun tilkynningu um ofangreinda framkvæmd (Endurvinnsla kerbrota).
Í samræmi við 20. gr. laga nr. 111/2021 er óskað eftir að Hvalfjarðarsveit gefi umsögn um framkvæmdina. Í umsögninni skal koma fram eftir því sem við á, hvort nægjanlega sé gerð grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar, umhverfisáhrifum, mótvægisaðgerðum og vöktun eftir því sem við á. Jafnframt hvort og þá hvaða atriði umsagnaraðilar telja þurfi að skýra frekar og hvort þau kalli á að framkvæmdin fari í umhverfismat að teknu tilliti til viðmiða í 2. viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
Jafnframt skal í umsögn gera grein fyrir leyfum sem framkvæmdin er háð.
Efni: Endurvinnsla kerbrota, umsagnarbeiðni

Tillaga að umsögn Hvalfjarðarsveitar:
Erindi frá Skipulagsstofnun vegna tilkynningar Kerendurvinnslunnar, en Hvalfjarðarsveit er umsagnaraðili sbr. 20.gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
Í umsögninni skal koma fram eftir því sem við á, hvort Hvalfjarðarsveit telji að nægjanlega sé gerð grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar, umhverfisáhrifum, mótvægisaðgerðum og vöktun eftir því sem við á. Jafnframt hvort og þá hvaða atriði umsagnaraðilar telja þurfa að skýra frekar og hvort þau kalli að hans mati á að framkvæmdin fari í umhverfismat að teknu tilliti til viðmiða í 2. viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
Jafnframt skal í umsögn gera grein fyrir leyfum sem framkvæmdin er háð.

Eins og fram kemur í fyrirspurninni frá Kerendurvinnslunni, er það stefna Hvalfjarðarsveitar skv. núgildandi aðalskipulagi að heimila ekki nýjar verksmiðjur eða iðnaðarfyrirtæki sem hafa í för með sér losun á brennisteinstvíoxíði eða flúor á svæðinu. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fram koma hjá Kerendurvinnslunni, losar fyrirhuguð verksmiðja 260 kg af flúori á ári og 2600 kg af brennisteinstvíoxíði í afgasi miðað við hámarks afköst verksmiðjunnar. Þó þetta séu hlutfallslega ekki háar tölur (miðað við núverandi losun Norðuráls t.d.) þá er þetta viðbót og því samræmist þessi starfsemi ekki aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar.
Í nýju aðalskipulagi (enn óstaðfest), kemur þetta einnig fram, en í almennum skilmálum fyrir iðnaðarsvæði segir: Áfram verði dregið úr losun frá mengandi starfsemi, þ.á.m. losun flúors og brennisteinstvíoxíðs. Ekki verður heimil ný starfsemi sem losar flúor og brennisteinstvíoxíð.
Það er þó ljóst, að förgun kerbrota er vandræðamál, og má kannski segja að þau séu ákveðið olnbogabarn þegar kemur að álframleiðslu í heiminum. Mögulega er engin aðferð góð við endurvinnslu, urðun eða förgun og því nauðsynlegt að finna skástu mögulegu lausn.
Um árabil hafa verið starfræktar svokallaðar flæðigryfjur á Grundartanga, reknar á grundvelli starfsleyfa annars vegar Norðuráls og hins vegar Elkem. Hingað til hefur sú ráðstöfun hlotið náð hjá eftirlitsaðilum og Hvalfjarðarsveit verið talin trú um að nálægð við sjó, og það að sjór flæði um kerbrotin, geri það að verkum að hættuleg efni, eins og sýaníð, bindist þannig að ekki hljótist skaði af fyrir lífríki sjávar. Þó það sé nú líklega ekki talin góð ráðstöfun til langs tíma litið að urðun og landfyllingar sé lausnin, telur Hvalfjarðarsveit rétt að vinna að nánari samanburði þessara aðferða í tengslum við matskyldufyrirspurnina en einnig er í gangi vinna við umhverfismat vegna nýrra flæðigryfja á Grundartanga. Telur Hvalfjarðarsveit skynsamlegt að líta á þessi mál í samhengi og vega og meta kosti og galla ólíkra aðferða við urðun og/eða endurvinnslu kerbrota.
Það eru nokkrir kostir mögulegir til að draga úr losun í flæðigryfjur og aðferðir hafa verið þróaðar til að meðhöndla kerbrot og koma á endurvinnslu. Hvalfjarðarsveit óskar eftir nánari upplýsingum um þessar aðferðir og samanburð á þeim, hvernig þær hafa reynst og hvað kæmi best út fyrir Ísland. Það virðist jú ekki vera mikil framtíðarsýn í því að urða kerbrot, sér í lagi ef sú aðferð er háð sérstakri undanþágubeiðni, eins og fram kemur í samantektinni.

Þessu til viðbótar óskar Hvalfjarðarsveit eftir upplýsingum um eftirtalda þætti:
1.
Í fyrirspurn framkvæmdaraðila kemur fram að framleiðslugeta verksmiðjunnar sé 35.000 tonn á ári. Einnig að það þarf um 200 lítra af ferskvatni fyrir hvert tonn af kerbrotum. Óskar Hvalfjarðarsveit eftir nánari upplýsingum um vatnsnotkun og vatnsöflun verksmiðjunnar. Um er að ræða kælivatn og því vaknar sú spurning hvort hægt væri að nýta sjó eða yfirborðsvatn til slíkrar kælingar.
2.
Fram kemur að afurðin í endurvinnsluferlinu kallast HiCal og er notað í ofnrekstri innan sementsiðnaðar á mörkuðum fjarri Íslandi, eða í Asíu, Afríku og Suður-Ameríku. Jafnframt kemur fram að kerbrot frá íslenskum álverum útvega rétt ríflega helming þess hráefnis sem fyrirhuguð verksmiðja annar. Þá verður restin, til að ná fullum afköstum, innflutt kerbrot mögulega frá Kína, Indlandi, Rússlandi eða annars staðar (sjá töflu 1: Kerbrot á heimsvísu, í fyrirspurn um matskyldu). Kerbrot eru flokkuð sem spilliefni sem gerir meðhöndlun þeirra og urðun erfiða og þau falla undir reglur um flutning á hættulegum efnum. Hvalfjarðarsveit óskar eftir nánari upplýsingum um afurðina, sölumöguleika hennar, hugsanlega kaupendur og verðmætasköpun. Einnig óskar sveitarfélagið eftir samantekt á heildarumhverfisáhrifum að teknu tilliti til flutninga og markaða, bæði kerbrotanna og afurðarinnar, svo framleiðslan uppfylli markmið um hringrásarhagkerfið og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um að minnka úrgang, auka endurvinnslu, draga úr sóun og stuðla að verðmætasköpun eins og fram kemur í fyrirspurninni.
3.
Mun starfsemi Kerendurvinnslunnar geta dregið úr losun flúors og brennisteinstvíoxíðs á svæðinu, þannig að með byggingu verksmiðjunnar minnki heildarlosun þessara efna frá svæðinu?
Það er ljóst að bygging umræddrar verksmiðju fellur ekki að stefnu og framtíðarsýn Hvalfjarðarsveitar og því telur sveitarfélagið ekki tímabært að svara spurningum um hvaða leyfum framkvæmdin er háð. Sé óskað eftir því hvort Hvalfjarðarsveit telji að framkvæmdin fari í umhverfismat, þá er það niðurstaða sveitarfélagsins að svo sé, í ljósi þess umfangs iðnaðar sem nú þegar er á Grundartanga og vegna þeirra atriða sem hér að framan eru talin.

USNL-nefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja tillögu að umsögn nefndarinnar varðandi endurvinnslu kerbrota.

10.Fjallskil 2022

2208021

Fjallskilaseðill Hvalfjarðarsveitar fyrir árið 2022.
Fjallskil 2022.

Göngur og réttir í Hvalfjarðarsveit 2022.

Tillaga til sveitarstjórnar að fjallaskilaseðli Hvalfjarðarsveitar fyrir árið 2022.

A. Leitarsvæði Núparéttar: Leitarsvæðið nær yfir Leirár- og Melasveit og Svínadal norðan Laxár inn að mörkum Hlíðarfótar og Eyrar.
Leitardagur er á laugardegi fyrir réttir.
Fyrri Núparétt er sunnudaginn 11. september kl:13 og seinni rétt laugardaginn 24. september þegar smölun lýkur
Leitarstjórar eru Baldvin Björnsson og Hannes Adolf Magnússon.
Réttarstjóri er Baldvin Björnsson.
Marklýsingamenn eru Helgi Bergþórsson og Atli Viðar Halldórsson.
Skilamenn í Hornsrétt eru Baldvin Björnsson og Hannes Adolf Magnússon.

B. Leitarsvæði Reynisréttar. Leitarsvæðið nær yfir Skilmannahrepp allan, Innri-Akraneshrepp og Akraneskaupstað. Leitardagar skulu vera sömu daga og réttir eru.
Fyrri Reynisrétt er laugardaginn 17. september þegar smölun lýkur og seinni rétt laugardaginn 24. september þegar smölun lýkur.
Leitarstjórar eru Bjarki Borgdal Magnússon og Sigurgeir Guðni Ólafsson.
Réttarstjóri er Lilja Guðrún Eyþórsdóttir.
Marklýsingamenn eru Ólafur Sigurgeirsson og Haraldur Benediktsson.

C. Leitarsvæði Svarthamarsréttar. Leitarsvæðið nær yfir Hvalfjarðarströnd, Svínadal allan sunnan Laxár og norðan Laxár að innanverðu allt að merkjum Eyrar og Hlíðarfótar og upprekstrarland Akraneskaupstaðar á Botnsheiði og land jarða í Skorradalshreppi sunnan Fitjaár allt að landi Litlu Drageyrar. Leitardagar eru föstudagur og laugardagur fyrir fyrri skilaréttir.
Fyrri Svarthamarsrétt sunnudaginn 18. september kl: 10 og seinni rétt sunnudaginn 2. október þegar smölun lýkur.
Leitarstjóri er Guðmundur Sigurjónsson.
Réttarstjóri er Arnheiður Hjörleifsdóttir.
Marklýsingamenn eru Guðmundur Sigurjónsson og Jón Ottesen.
Skilamenn í Oddstaðarétt eru Stefán Gunnar Ármannsson og Guðbjartur Þór Stefánsson.

Þá leggur nefndin til að sveitarstjórn sjái til þess að við réttir í sveitarfélaginu verði kaffiveitingar, að höfðu samráði við kvenfélagið Lilju og réttarstjóra.

Arnheiður Hjörleifsdóttir, umhverfisfulltrúi vék af fundi.

11.Vatnaskógur-Br.-deiliskipulagi

1909045

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi fyrir Vatnaskóg í Hvalfjarðarsveit, matsskáli.

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti á fundi sínum þann 8. febrúar 2022 að auglýsa breytingu á deiliskipulagi fyrir Vatnaskóg í Hvalfjarðarsveit samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Svæðið sem skipulagssvæðið takmarkast við er 223 ha að stærð, að mestu kjarri og skógi vaxið við suðurströnd Eyrarvatns og Þórisstaðavatns. Talsverð byggð er á svæðinu, samkomuhús, svefnskálar, íþróttahús og kapella. Helstu breytingar með deiliskipulagstillögunni felast m.a. í að þar sem nú er merkt leiksvæði á samþykktu deiliskipulagi milli núverandi matskála og gamla skála er fyrirhuguð bygging fyrir nýjan matskála og eldhús sem byggt verður á megin byggingarsvæði svæðisins við hlið Gamla skála og gegnt núverandi Matskála. Í stað leiksvæðis skv. núgildandi deiliskipulagi fyrir Vatnaskóg sem samþykkt var í sveitarstjórn 10.06.2008, verður byggingarreitur, merktur B13 sem verður 961 m2 að stærð. Stærð fyrirhugaðrar byggingar þ.e. matskála/eldhúss, verður 435 m2 að stærð og nýtingarhlutfall byggingarreits því 0,45 eða 45 %.
Um er að ræða endurupptöku deiliskipulagstillögu sem var áður auglýst árið 2020 og var til umfjöllunar hjá sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar árið 2020, sbr. mál nr. 2.2 af fundi nr. 299 dags. 13.01.2020.

Deiliskipulagstillagan var til sýnis á skrifstofu Hvalfjarðarsveitar, að Innrimel 3, Hvalfjarðarsveit frá og með 15. júní 2022 til og með 28. júlí 2022.
Skipulagsgögn voru einnig aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins https://www.hvalfjardarsveit.is.
Kynning var á skrifstofu Hvalfjarðarsveitar 22. júní 2022.
Frestur til að skila inn athugasemdum við tillöguna var til 28. júlí 2022.

Leitað var umsagnar þann 10.06.2022 hjá eftirtöldum lögaðilum sbr. ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010, Heilbrigðiseftirlit Vesturlands, Samgöngustofa, Minjastofnun, Vegagerðin, Umhverfisstofnun, Veiðifélag Láxár í Leirársveit, Hafrannsóknarstofnun, Fiskistofa.
Með bréfi dags. 21.06.2022 frá Vegagerðinni kemur fram að Vegagerðin hafi farið yfir tillöguna í samræmi við hlutverk sitt og geri ekki athugasemd við breytingartillöguna.
Með tölvupósti dags. 05.07.2022 frá Samgöngustofu kemur fram að ekki séu gerðar athugasemdir við breytingartillöguna.
Með tölvupósti dags. 14.07.2022 spurðist formaður Veiðifélags Laxár í Leirársveit, fyrir um málið og voru viðkomandi gefin svör (bréflega og símleiðis) þann sama dag.
Með bréfi dags. 15.07.2022 frá Minjastofnun Íslands, þar kom fram að stofnunin skoðaði skipulagssvæðið á vettvangi þann 12. júlí sl, og hefðu engar þekktar fornminjar verið á skipulagsreitnum og því geri Minjastofnun ekki athugasemd við deiliskipulagsbreytinguna.
Með tölvupósti dags. 18.07.2022 frá Heilbrigðiseftirliti Vesturlands kom fram að gera þurfi ráð fyrir fitugildru frá nýju eldhúsi og setja ákvæði um fjarlægð fráveitumannvirkja frá vatni.
Með bréfi dags. 25.07.2022 frá Umhverfisstofnun er bent á að samkvæmt kortasjá Skógræktarinnar sé svæðið skilgreint sem náttúrulegur birkiskógur. Umhverfisstofnun bendir á að náttúrulegur birkiskógur getur fallið undir b. lið 1. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd en skv. 61. gr. laganna er kveðið á um sérstaka vernd þeirra vistkerfa og jarðminja sem taldar eru upp í 1. mgr. og 2. mgr. sama ákvæðis. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins ber að forðast röskun þeirra náttúrufyrirbæra, sem undir greinina falla, nema brýna nauðsyn beri til og ljóst sé að aðrir kostir séu ekki fyrir hendi. Loks bendir stofnunin á að leyfisveitanda sé heimilt að skv. 5. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga, að binda leyfi þeim skilyrðum sem eru nauðsynleg til að draga úr áhrifum framkvæmdarinnar á þau náttúrufyrirbæri sem verða fyrir röskun. Gera skuli grein fyrir fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum, sem og mögulegri endurheimt náttúruverðmæta þegar það á við.

Nefndin tekur undir með Heilbrigðiseftirliti Vesturlands um að setja þurfi í deiliskipulagið ákvæði um fjarlægð fráveitumannvirkja frá vatni.
Nefndin fjallaði um þær ábendingar sem bárust frá Umhverfisstofnun vegna röskunar á náttúrulegum birkiskógi í deiliskipulaginu, en við nánari úttekt á náttúrulegum birkiskógi innan framkvæmdasvæðisins eins og skilgreint er í kortasjá Skógræktarinnar kemur í ljós að um blandaðan aðallega plantaðan skóg er að ræða og skv. talningu sem gerð hefur verið á fjölda trjáa á svæðinu, eru þau um 50 talsins og er minni hluti þeirra náttúrulegar birkiplöntur.
Telur nefndin því ekki ástæðu til nánari umfjöllunar í deiliskipulaginu um röskun náttúrulegs birkis og um mótvægisaðgerðir vegna endurheimtar náttúruverðmæta sbr. 5. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga, um að binda megi leyfi þeim skilyrðum sem nauðsynleg eru til að draga úr áhrifum framkvæmdarinnar á þau náttúrufyrirbæri sem verða fyrir röskun, en hvetur nefndin forsvaraðila framkvæmdanna til að planta sambærilegum fjölda náttúrulegra birkiplantna í samstarfi við Skógræktina sem mótvægisaðgerð til samræmis við inntak 5. greinar náttúruverndarlaga.

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir deiliskipulagið fyrir sitt leyti og leggur til við sveitarstjórn að deiliskipulagsbreytingin verði samþykkt með áorðnum breytingum, send Skipulagsstofnun til athugunar og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.


12.Bjarkarás 11 - Grenndarkynning - byggingarleyfi

2109006

Grenndarkynning vegna skemmu Bjarkarási 11.
Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti á 352. fundi sínum þann 24.05.2022 að grenndarkynna byggingarleyfi vegna skemmubyggingar/frístundaaðstöðu á lóðinni Bjarkarási 11 úr landi Beitistaða fyrir lóðarhöfum og landeigendum á svæðinu.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd fjallaði einnig um málið á 160. fundi sínum þann 18.05.2022.

Um var að ræða umsókn lóðarhafa þar sem óskað var eftir byggingarleyfi fyrir skemmubyggingu/frístundaaðstöðu, stærð 697,38 m2 að grunnfleti, á lóðinni Bjarkarási 11 úr landi Beitistaða.
Vegghæð hússins er 5,3 m en mesta mænishæð hússins er 6,0 m.
Stærð lóðarinnar er 9041 m2, heimilt byggingarmagn á lóðinni skv. gildandi deiliskipulagi er 10 % af stærð lóðar eða um 904,1 m2.
Landeignanúmer lóðar er 194447.

Með erindinu fylgdu aðaluppdrættir ódagsettir og án þess að höfundar þeirra væri getið.

Í gildi er deiliskipulag fyrir Bjarkarás sem samþykkt var í sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar árið 2014.
Í skipulags- og byggingaskilmálum deiliskipulagsins er kveðið á um að grenndarkynna skuli húsnæði undir frístundaaðstöðu á öllu skipulagssvæðinu.
Byggingarleyfið var því grenndarkynnt fyrir hagsmunaaðilum skv. ákvæðum deiliskipulagsins fyrir Bjarkarás og skv. ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 fyrir lóðarhöfum og landeigendum svæðisins.
Athugasemdafrestur var til 29. júlí 2022.

Grenndarkynnt var hjá öllum lóðarhöfum í Bjarkarási ásamt aðliggjandi lóðum utan þess.
Alls var grenndarkynnt hjá 12 aðilum vegna 18 landeigna.
Bjarkarás 1, Bjarkarás 2, Bjarkarás 3, Bjarkarás 4, Bjarkarás 5, Bjarkarás 6, Bjarkarás 7, Bjarkarás 8, Bjarkarás 9, Bjarkarás 10, Bjarkarás 12, Bjarkarás, Silfurtún Beitistaðaland, Beitistaðaland, Beitistaðaland Álfhóll, Silfurberg, Silfurtúnsland.

Alls bárust athugasemdir frá tveimur aðilum.
Athugasemdir bárust þann 27.07.2022 frá íbúum í Bjarkarási 8.
Gerðar eru athugasemdir við stærð og hæð skemmubyggingar sem fyrirhugað er að byggja í Bjarkarási 11 og kemur fram sú skoðun að skemmubygging af þessari áberandi stærðargráðu eigi að mati bréfritara alls ekki heima í íbúðarsvæði Bjarkaráss og muni hafa verulega neikvæð áhrif á heildarmynd umhverfisins innan um hefðbundin íbúðarhús. Fram kom sú skoðun að huga þurfi að því hver not húsnæðisins verði í langri framtíð. Þá er gerð athugasemd við að í grenndarkynningu séu íbúar ekki upplýstir um hvaða starfsemi eigi að fara þarna fram. Í bréfinu er skorað á sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar að hafna byggingarleyfi fyrir skemmubyggingu af þessari stærðargráðu í landi Bjarkaráss 11.

Athugasemdir dags. 27.07.2022, mótteknar þann 02.08.2022 bárust frá íbúa Bjarkarási 10. Eru athugasemdir settar fram í 16 tölusettum liðum.
1) Fram kemur sú skoðun bréfritara að verulega hafi skort á lýsingu og notkun húsnæðisins og útilokað fyrir íbúa svæðisins að átta sig á umræddri byggingu, raunverulegri stærð hennar og fyrirhugaðri notkun.
2) Fram kemur að bygging af þessu tagi sé ekki í samræmi við samþykkt deiliskipulag á svæðinu og sé því ólögmætt.
3) Fram koma áhyggjur bréfritara um að fyrirhugað sé að hafa atvinnustarfsemi í húsinu.
4) Fram kemur m.a. að skemmubygging geti ekki talist stakstæð bílgeymsla í svipuðum stíl og íbúðarhús á lóðinni.
5) Fram kemur að fyrirhuguð skemmubygging geti ekki flokkast sem gróðurhús, hesthús eða sambærilegt húsnæði undir frístundabúskap, byggingin beri einkenni iðnaðar- og atvinnuhúsnæðis sem sé í ósamræmi við deiliskipulag svæðisins.
6) Fram kemur að bygging atvinnu-, iðnaðar- eða geymsluhúss sé ekki í samræmi við deiliskipulag svæðisins.
7) Fram kemur að ekki verði séð að gætt hafi verið að samræmi í hönnun og gerð húsnæðis hvað varðar útlit og frágang, þar á meðal þakhalla, þakfrágang, áferð og litaval. Fram kemur sú skoðun að ósamræmi sé á milli skemmunnar sjálfrar og skúrbyggingar sem við hana er tengd. Þá sé húsið ekki í samræmi við önnur hús á skipulagssvæðinu.
8) Fram kemur að á afstöðumynd hafi ekki verið sýnd öll aðliggjandi hús á svæðinu sbr. nýbyggt hús að Bjarkarási 9.
9) Fram kemur að málsetningar á teikningum og texta í byggingarleyfisumsókn, gæti misræmis og engin leið sé að átta sig á því hve stórt hús er verið að sækja um.
10) Fram kemur að upplýsingar vanti í grenndarkynningargögnum um meðferð sorps á lóðinni sem sé andstætt skipulagsskilmálum svæðisins.
11) Fram kemur að svo stórt hús nálægt opna svæðinu í kringum Beitistaðatjörn, sé í þversögn við áætlanir sem um svæðið voru.
12) Fram kemur að skemma af þessari stærðargráðu eigi frekar heima á atvinnulóð.
13) Fram koma áhyggjur um burðarþol vega í Bjarkarási á framkvæmdatíma hússins.
14) Fram koma áhyggjur um rýrnun verðmæta á fasteignum í næsta nágrenni við skemmubygginguna. Einnig áhyggjur af hljóð- og sjónmengun og loks af umhverfismálum á lóðinni til framtíðar litið. Áskilur lóðarhafi sér rétt til að sækja bætur til viðeigandi aðila vegna afleiðinga af byggingu hússins.
15) Fram kemur að talið sé að skemman sé í ósamræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins.
16) Gerð er athugasemd við málsmeðferð sveitafélagsins árið 2020 þegar heimilað var að reisa einbýlishús á 2 hæðum.

Er fyrirhugaðri veitingu byggingarleyfis fyrir skemmmubygginguna mótmælt og gerð krafa um að umsókn um byggingarleyfi verði hafnað eða henni vísað frá.
Er m.a. óskað svara um niðurstöðu málsins þegar sveitarstjórn hefur fjallað um málið.
Er þess óskað að ef ekki verði fallist á athugasemdir vegna málsins verði bréflega kynnt um kæruleiðir vegna ákvörðunar sveitarstjórnar.

Sveitarfélagið leitaði álits Pacta lögmanna vegna málsins. Var niðurstaða Pacta að skilmálar gildandi deiliskipulags fyrir svæðið heimili byggingu umræddrar skemmubyggingar.
Ennfremur leitaði sveitarfélagið álits Skipulagsstofnunar um túlkun eða skilgreiningu á frístundabúskap eða hvers konar starfsemi geti fallið undir slíka skilgreiningu. Benti Skipulagsstofnun á að þar sem ákvæði aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar fyrir landbúnaðarland væru opin en ekki takmarkandi hvað þetta varðar, þá verði að telja sem svo að hvers konar starfsemi sem ekki er fyrirhuguð í atvinnuskyni geti flokkast undir frístundabúskap, sbr. einnig það sem kemur fram í deiliskipulagi Bjarkaráss. Það geti átt við hvers konar vélargeymslur eða verkstæði til eigin nota. Að mati Skipulagsstofnunar eru ákvæði í aðalskipulagi sveitarfélagsins það opin að túlka megi það svo að umrædd starfsemi sé í samræmi við ákvæði bæði í aðalskipulagi og deiliskipulagi fyrir umrætt svæði.
Umhverfis-, skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd gerir ekki athugasemd við að byggingarfulltrúi veiti byggingarleyfi á grundvelli niðurstöðu grenndarkynningar sem framkvæmd var sbr. 44. grein skipulagslaga nr. 123/2010.
Skipulagsfulltrúa falið að svara þeim aðilum sem gerðu athugasemdir við fyrirhugaða skemmubyggingu í samræmi við neðangreint.

Athugasemdir dags. 27.07.2022 frá íbúum í Bjarkarási 8.
Gerðar eru athugasemdir við stærð og hæð skemmubyggingar sem fyrirhugað er að byggja í Bjarkarási 11 og kemur fram sú skoðun að skemmubygging af þessari áberandi stærðargráðu eigi að mati bréfritara alls ekki heima í íbúðarsvæði Bjarkaráss og muni hafa verulega neikvæð áhrif á heildarmynd umhverfisins innan um hefðbundin íbúðarhús. Fram kom sú skoðun að huga þurfi að því hver not húsnæðisins verði í langri framtíð. Þá er gerð athugasemd við að í grenndarkynningu séu íbúar ekki upplýstir um hvaða starfsemi eigi að fara þarna fram. Í bréfinu er skorað á sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar að hafna byggingarleyfi fyrir skemmubyggingu af þessari stærðargráðu í landi Bjarkaráss 11.
Svar við athugasemd:
Nefndin telur að umrætt hús falli að deiliskipulagi svæðisins sbr. einnig álit Skipulagsstofnunar og Pacta lögmannsstofu sem sveitarfélagið leitaði álits til og eru hluti af fundargögnum málsins.
Varðandi þá athugasemd að í grenndarkynningu séu íbúar ekki upplýstir um hvaða starfsemi eigi að fara fram í húsinu, þá kemur skýrt fram í grenndarkynningargögnum að um sé að ræða frístundaaðstöðu og telur nefndin að sú skilgreining sé nægilega upplýsandi til að lýsa þeirri starfsemi sem fyrirhuguð er í húsinu.

Athugasemdir dags. 27.07.2022, mótteknar þann 02.08.2022 bárust frá íbúa Bjarkarási 10. Eru athugasemdir settar fram í 16 tölusettum liðum.

1) Fram kemur sú skoðun bréfritara að verulega hafi skort á lýsingu og notkun húsnæðisins og útilokað fyrir íbúa svæðisins að átta sig á umræddri byggingu, raunverulegri stærð hennar og fyrirhugaðri notkun.
Svar við athugasemd: Varðandi þá athugasemd að skort hafi á lýsingu og notkun húsnæðisins þá kemur skýrt fram í grenndarkynningargögnum að um sé að ræða frístundaaðstöðu og telur nefndin að sú skilgreining sé nægilega upplýsandi til að lýsa þeirri starfsemi sem fyrirhuguð er í húsinu. Varðandi þá athugasemd að ekki hafi verið unnt að átta sig á raunverulegri stærð hússins þá voru grunnmyndir hússins, útlitsmyndir og snið, málsett nægilega til að hægt væri að átta sig vel á stærð húsnæðisins auk þess sem stærðin kom fram í texta í grenndarkynningargögnum.

2) Fram kemur að bygging af þessu tagi sé ekki í samræmi við samþykkt deiliskipulag á svæðinu og sé því ólögmætt.
Svar við athugasemd: Nefndin telur að umrætt hús falli að deiliskipulagi svæðisins sbr. einnig álit Skipulagsstofnunar og Pacta lögmannsstofu sem sveitarfélagið leitaði álits til og eru hluti af fundargögnum málsins.

3) Fram kemur áhyggjur bréfritara um að fyrirhugað sé að hafa atvinnustarfsemi í húsinu.
Svar við athugasemd: Nefndin vill taka fram að ekki er heimilt skv. deiliskipulagi svæðisins og gildandi aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2008-2020 að hafa aðra starfsemi í húsinu en landnotkun svæðisins kveður á um.

4) Fram kemur m.a. að skemmubygging geti ekki talist stakstæð bílgeymsla í svipuðum stíl og íbúðarhús á lóðinni.
Svar við athugasemd: Nefndin telur að umrætt hús falli að deiliskipulagi svæðisins sbr. einnig álit Skipulagsstofnunar og Pacta lögmannsstofu sem sveitarfélagið leitaði álits til og eru hluti af fundargögnum málsins.

5) Fram kemur að fyrirhuguð skemmubygging geti ekki flokkast sem gróðurhús, hesthús eða sambærilegt húsnæði undir frístundabúskap, byggingin beri einkenni iðnaðar- og atvinnuhúsnæðis sem sé í ósamræmi við deiliskipulag svæðisins.
Svar við athugasemd: Nefndin telur að umrætt hús falli að deiliskipulagi svæðisins sbr. einnig álit Skipulagsstofnunar og Pacta lögmannsstofu sem sveitarfélagið leitaði álits til og eru hluti af fundargögnum málsins.

6) Fram kemur að bygging atvinnu-, iðnaðar- eða geymsluhúss sé ekki í samræmi við deiliskipulag svæðisins.
Svar við athugasemd: Nefndin áréttar að ekki er heimilt skv. deiliskipulagi svæðisins og gildandi aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2008-2020 að hafa aðra starfsemi í húsinu en landnotkun svæðisins kveður á um.

7) Fram kemur að ekki verði séð að gætt hafi verið að samræmi í hönnun og gerð húsnæðis hvað varðar útlit og frágang, þar á meðal þakhalla, þakfrágang, áferð og litaval. Fram kemur sú skoðun að ósamræmi sé á milli skemmunnar sjálfrar og skúrbyggingar sem við hana er tengd. Þá sé húsið ekki í samræmi við önnur hús á skipulagssvæðinu.
Svar við athugasemd: Nefndin telur að umrætt hús falli að deiliskipulagi svæðisins sbr. einnig álit Skipulagsstofnunar og Pacta lögmannsstofu sem sveitarfélagið leitaði álits til og eru hluti af fundargögnum málsins.

8) Fram kemur að á afstöðumynd hafi ekki verið sýnd öll aðliggjandi hús á svæðinu sbr. nýbyggt hús að Bjarkarási 9.
Svar: Nefndin telur að grenndarkynningargögn hafi verið nægilega upplýsandi fyrir íbúa svæðisins til að taka afstöðu til málsins.

9) Fram kemur að málsetningar á teikningum og texta í byggingarleyfisumsókn, gæti misræmis og engin leið sé að átta sig á því hve stórt hús er verið að sækja um.
Varðandi þá athugasemd að ekki hafi verið unnt að átta sig á raunverulegri stærð hússins þá voru grunnmyndir hússins, útlitsmyndir og snið, málsett nægilega til að hægt væri að átta sig vel á stærð húsnæðisins auk þess sem stærðin kom fram í texta í grenndarkynningargögnum.

10) Fram kemur að upplýsingar vanti í grenndarkynningargögnum um meðferð sorps á lóðinni sem sé andstætt skipulagsskilmálum svæðisins.
Svar: Nefndin telur að grenndarkynningargögn hafi verið nægilega upplýsandi fyrir íbúa svæðisins til að taka afstöðu til málsins.

11) Fram kemur að svo stórt hús nálægt opna svæðinu í kringum Beitistaðatjörn, sé í þversögn við áætlanir sem um svæðið voru.
Svar við athugasemd: Nefndin telur að umrætt hús falli að deiliskipulagi svæðisins sbr. einnig álit Skipulagsstofnunar og Pacta lögmannsstofu sem sveitarfélagið leitaði álits til og eru hluti af fundargögnum málsins.

12) Fram kemur að skemma af þessari stærðargráðu eigi frekar heima á atvinnulóð.
Svar við athugasemd: Skv. skilmálum í deiliskipulagi Bjarkaráss og skv. þeim upplýsingum sem fram komu í grenndarkynningargögnum vill nefndin benda á að stærð lóðarinnar Bjarkarási 11 er 9041 m2, heimilt byggingarmagn á lóðinni skv. gildandi deiliskipulagi er 10 % af stærð lóðar eða um 904,1 m2.

13) Fram koma áhyggjur um burðarþol vega í Bjarkarási á framkvæmdatíma hússins.
Svar við athugasemd: Nefndin telur ekki ástæðu til að bregðast sérstaklega við athugasemd.

14) Fram koma áhyggjur um rýrnun verðmæta á fasteignum í næsta nágrenni við skemmubygginguna. Einnig áhyggjur af hljóð- og sjónmengun og loks af umhverfismálum á lóðinni til framtíðar litið. Áskilur lóðarhafi sér rétt til að sækja bætur til viðeigandi aðila vegna afleiðinga af byggingu hússins.
Svar við athugasemd: Nefndin telur að skipulagsskilmálar skv. deiliskipulagi Bjarkaráss eigi að vera öllum íbúum svæðisins ljósir, en sömu skilmálar gilda fyrir allar lóðir á svæðinu, en þar kemur fram að heimilt byggingarmagn á lóðum skv. gildandi deiliskipulagi sé 10 % af stærðum lóða og því mátti öllum lóðarhöfum vera það ljóst að fyrr eða síðar myndu stór hús rísa á svæðinu í samræmi við heimildir þar um.

15) Fram kemur að talið sé að skemman sé í ósamræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins.
Svar við athugasemd: Nefndin telur að umrætt hús falli að deiliskipulagi svæðisins sbr. einnig álit Skipulagsstofnunar og Pacta lögmannsstofu sem sveitarfélagið leitaði álits til og eru hluti af fundargögnum málsins.

16) Gerð er athugasemd við málsmeðferð sveitafélagsins árið 2020 þegar heimilað var að reisa einbýlishús á 2 hæðum.
Svar við athugasemd: Nefndin telur ekki ástæðu til að bregðast sérstaklega við athugasemd.

13.Narfastaðaland 5 no.3 - Byggingarleyfi

2204046

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti á 352. fundi sínum þann 24.05.2022 að grenndarkynna bygginarleyfi vegna sumarhúss á lóðinni Narfastaðalandi 5 nr. 3 í landi Narfastaða fyrir aðliggjandi lóðarhöfum og landeigendum Narfastaða.
Eftirfarandi bókun var gerð:
Sveitarstjórn samþykkir tillögu umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefndar um að byggingarleyfisumsóknin sé grenndarkynnt fyrir aðliggjandi lóðarhöfum og landeigendum Narfastaða skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt að gengið verði frá kvöð um aðkomu að lóðinni og gerð grein fyrir öflun neysluvatns fyrir viðkomandi mannvirki.

Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd fjallaði einnig um málið á 160. fundi sínum þann 18.05.2022.

Um er að ræða byggingarleyfisumsókn lóðarhafa þar sem óskað er eftir byggingarleyfi fyrir nýju sumarhúsi á einni hæð, matshluta 01, stærð 171,8 m2 / 612,0 m3, í landi Narfastaða.
Húsið verður forsteypt einingahús, að hluta til klætt að utan með timbri og með einhalla torfklæddu þaki. Sökklar og gólfplata eru steinsteypt. Mesta mænishæð þaks er 4,2 m frá gólfplötu.
Heimreið að húsi og lóð mun tengjast aðkomuvegi svæðisins.
Landeignanúmer lóðar er 203967, stærð lóðar er 7,2 ha.
Á svæðinu eru verndaðar fornminjar skv. fornminjaskrá m.a. bæjarhóll og útihús en umræddar minjar eru utan lóðarmarka Narfastaða 5 nr. 3.
Með erindinu fylgja aðaluppdrættir dags. 04.04.2022 unnir af P-ark, Laugarvegi 59, 101 Reykjavík og byggingarleyfisumsókn lóðarhafa dags. 25.04.2022.
Ekki er í gildi deiliskipulag á svæðinu.

Byggingarleyfið var því grenndarkynnt skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fyrir aðliggjandi lóðarhöfum og landeiganda og var frestur til að skila inn athugasemdum til 22. júlí 2022.
Alls var grenndarkynnt meðal 5 lóðarhafa auk landeiganda Narfastaða ehf.

Engar athugasemdir komu fram við grenndarkynningu.

Umhverfis-, skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd gerir ekki athugasemd við að byggingarfulltrúi veiti byggingarleyfi á grundvelli niðurstöðu grenndarkynningar sem framkvæmd var sbr. 44. grein skipulagslaga nr. 123/2010.

14.Fyrirspurn um deiliskipulag Lyngmels, Lyngmelur 2, 4, 6, 8.

2208019

Erindi dags. 03.08.2022 frá Friðrik Ólafssyni þar sem spurst er fyrir um hvort heimilt sé að byggja hús á lóðunum Lyngmel 2, 4, 6 og 8 skv. deiliskipulagi Lyngmels, án þess að fylgja bogadreginni byggingarlínu. Ekki er óskað eftir að fara út fyrir byggingarreit deiliskipulagsins.
Umhverfis-, skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir fyrir sitt leyti að auglýst verði óveruleg breyting á deiliskipulagi fyrir Lyngmel sbr. 2. mgr. 43. greinar skipulagslaga nr. 123/2010.
Í breytingunni felist að heimilt verði fyrir allt íbúðahverfið í Lyngmel að byggja hús með beinni bundinni byggingarlínu auk bogadreginnar línu þar sem við á, eins og ákvæði deiliskipulagsins gefa til kynna.
Grenndarkynnt verði meðal allra lóðarhafa í Lyngmel.

15.Vegalagning á milli Hafnarland Lísuborgir og Hrauka

2112025

Ósk um framkvæmdaleyfi skv. reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.
Sótt er um heimild til veglagningar vegna aðkomuvegar að Hafnarlandi-Lísuborgum landeignanúmer L203319, en vegurinn tengist einnig Þjóðvegi 1. Fyrir liggur jákvæð umsögn Vegagerðarinnar og samningur við landeigendur Hafnar.
Málið var áður á dagskrá nefndarinnar þann 06.04.2022 en var frestað og skipulagsfulltrúa falið að óska eftir frekari gögnum.
Í vettvangsferð skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa þann 13. júlí 2022 um lóð Hafnarlands Lísuborga, landeignanúmer L203319 í eigu Panorama Glass Lodge ehf, komu í ljós óleyfisframkvæmdir, en verið var að grafa grunna fyrir hús og efni úr grunnum að hluta til mokað yfir reiðveg sem liggur í gegnum landið og er skilgreindur skv. aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar. Einnig hafði verið plantað trjám í reiðveg og þvert fyrir hann.
Skipulagsfulltrúi óskaði eftir við landeigendur að haft yrði samráð við sveitarfélagið um staðsetningu umræddra húsa m.a. með hliðsjón af umræddum reiðvegi og upplýsti landeigendur um að mögulega yrðu framkvæmdir stöðvaðar á meðan ekki liggi fyrir niðurstaða um málið. Hafði skipulagsfulltrúi samband símleiðis við landeiganda og óskaði eftir viðbrögðum landeiganda við málinu. Engin viðbrögð hafa borist frá landeiganda.
Áður en ákvörðun verður tekin um framkvæmdaleyfi fyrir veg í landi Lísuborga, óskar nefndin eftir viðbrögðum landeiganda og að útskýringar verði gefnar varðandi óleyfisframkvæmdirnar.

Skipulagsfulltrúa falið að óska eftir fundi með landeigendum vegna málsins.

16.Grenndarkynning - Aðkomuvegur-heimreið að lóðunum Réttarhaga 1 og 2 úr landi Leirár, landeignanúmer 133774.

2208030

Umsókn um framkvæmdaleyfi.
Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti á 349. fundi sínum þann 12.04.2022 að grenndarkynna framkvæmdaleyfi vegna aðkomuvegar að lóðunum Réttarhaga 1 og Réttarhaga 2 í landi Leirár fyrir aðliggjandi lóðarhöfum. Fyrirhuguð framkvæmd er einnig óveruleg breyting á gildandi deiliskipulagi svæðisins.
Fyrir liggur samþykki landeiganda fyrir veglagningunni sem er sveitarfélagið Hvalfjarðarsveit.

Eftirfarandi bókun var gerð á 349. fundi sveitarstjórnar þann 12.04.2022:

"Sveitarstjórn samþykkir tillögu nefndarinnar um að heimila lagningu vegar í gegnum land sveitarfélagsins og að breyting deiliskipulags verði grenndarkynnt samkvæmt 2. málsgrein 43. greinar skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem um er að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi."

Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd fjallaði einnig um málið á 157. fundi sínum þann 06.04.2022 og var eftirfarandi bókun gerð:

„Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd telur að heimila þurfi lagningu vegar gegnum land sveitarfélagsins vegna vegtengingar við Réttarhaga I og II. Heimildin verði á grundvelli 2. málsgreinar 43. greinar skipulagslaga nr. 123/2010, en skv. henni þarf að grenndarkynna óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi en með hliðsjón af notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis, telst breytingin óverulega að mati Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefndar. Umhverfis-,skipulags-og náttúruverndarnefnd leggur til við sveitarstjórn að hún heimili lagningu vegar í gegnum land sveitarfélagsins vegna vegtengingar fyrir Réttarhaga I og II.“

Um er að ræða framkvæmdaleyfisumsókn landeiganda þar sem óskað er eftir lagningu nýs aðkomuvegar/heimreiðar að lóðunum Réttarhaga 1 og 2 í landi Leirár.

Vegurinn verður með hefðbundnu sniði hvað breidd og gerð varðar. Heimreiðin mun tengjast Skólastíg sbr. meðfylgjandi yfirlitsmynd.
Jafnframt er um að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi fyrir Heiðarskóla og Heiðarborg frá árinu 2009.
Ekki er vitað um verndaðar fornminjar á svæðinu skv. fornminjaskrá, en um fund á áður óþekktum fornminjum gildir ákvæði 13. gr. þjóðminjalaga nr. 107/2001, en þar segir:
„Nú finnast fornleifar sem áður voru ókunnar og skal finnandi þá skýra Fornleifavernd ríkisins frá fundinum svo fljótt sem unnt er. Sama skylda hvílir á landeiganda og ábúanda er þeir fá vitneskju um fundinn. Ef fornleifar finnast við framkvæmd verks skal sá sem fyrir því stendur stöðva framkvæmd uns fengin er ákvörðun Fornleifaverndar ríkisins um hvort verki megi fram halda og með hvaða skilmálum.“

Með erindinu fylgir yfirlitsuppdráttur unninn af Landlínum ehf og er hluti af lýsingu deiliskipulagstillögu vegna Réttarhaga frá árinu 2021.
Með erindinu fylgir einnig uppdráttur af gildandi deiliskipulagi frá árinu 2009.
Ennfremur fylgir með tillaga að deiliskipulagi fyrir Réttarhaga 1 og 2.

Vegna áforma um nýjan aðkomuveg að Réttarhaga þarf sveitafélagið að veita landeiganda framkvæmdaleyfi fyrir vegalagningunni.
Vegna þeirra framkvæmda þarf breytingu á þegar samþykktu deiliskipulagi Heiðarskóla og Heiðarborgar frá árinu 2009, en breytingin telst vera óveruleg að mati skipulagsnefndar og því voru fyrirhugaðar framkvæmdir grenndarkynntar.

Vakin er athygli á því að einungis var um að ræða grenndarkynningu á þeim hluta vegarins að Réttarhaga sem er innan deiliskipulags Heiðarskóla og Heiðarborgar frá árinu 2009, en annar hluti vegarins er hluti af deiliskipulagstillögu fyrir Réttarhaga sem nú er í auglýsingu og kynningu hjá sveitarfélaginu en frestur til að skila inn athugasemdum við deiliskipulagstillöguna er til 22. ágúst 2022.

Breyting deiliskipulagsins og fyrirhuguð framkvæmd var eins og áður hefur komið fram grenndarkynnt skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fyrir aðliggjandi lóðarhöfum og landeiganda.

Í grenndarkynningu fólst að þeim sem hagsmuna áttu að gæta að mati umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefndar Hvalfjarðarsveitar var kynnt tillagan og boðið að gera skriflegar athugasemdir við fyrirhuguð áform, innan tiltekins frests en athugasemdafrestur var til 9. ágúst 2022.

Engar athugasemdir bárust á grenndarkynningartímabilinu.


Umhverfis-, skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd gerir ekki athugasemd við að skipulagsfulltrúi veiti framkvæmdaleyfi á grundvelli niðurstöðu grenndarkynningar sem framkvæmd var sbr. 44. grein skipulagslaga nr. 123/2010.

Fundi slitið - kl. 18:00.

Efni síðunnar