Fara í efni

Sveitarstjórn

304. fundur 24. mars 2020 kl. 15:10 - 16:01 í stjórnsýsluhúsinu Innrimel 3
Nefndarmenn
  • Björgvin Helgason oddviti
  • Daníel A. Ottesen varaoddviti
  • Guðjón Jónasson vararitari
  • Ragna Ívarsdóttir aðalmaður
  • Helga Harðardóttir aðalmaður
  • Elín Ósk Gunnarsdóttir aðalmaður
  • Helgi Magnússon 1. varamaður
Starfsmenn
  • Linda Björk Pálsdóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Linda Björk Pálsdóttir sveitarstjóri
Dagskrá
Björgvin Helgason, oddviti, bauð fundarmenn velkomna og setti fund skv. fyrirliggjandi dagskrá.

Brynja Þorbjörnsdóttir boðaði forföll.

1.Sveitarstjórn - 303

2003001F

Fundargerðin framlögð.

2.Ársreikningur Hvalfjarðarsveitar 2019.

2003019

Síðari umræða.
Síðari umræða.
Ársreikningur, síðari umræða ásamt endurskoðunarskýrslu.
Ársreikningur vegna ársins 2019 lagður fram til seinni umræðu.

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu 2019 námu 1.055,9mkr. samkvæmt rekstrarreikningi fyrir A og B hluta en þar af námu rekstrartekjur A hluta 1.047,9mkr. Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt ársreikningi A og B hluta var jákvæð um 906,6mkr. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2019 nam 3.127,4mkr. samkvæmt efnahagsreikningi. Veltufé frá rekstri var 89,93%, veltufjárhlutfall 9,3% og eiginfjárhlutfall 94%.

Rekstrarniðurstaða einstakra málaflokka og deilda er almennt innan áætlunar ársins 2019. Stærstu frávikin eru á deildum/málaflokkum sem eru í formi samstarfssamninga við önnur sveitarfélög og Hvalfjarðarsveit því ekki með beina rekstrarlega aðkomu eða forsendur til að bregðast við í rekstrinum.

Forstöðumönnum stofnana Hvalfjarðarsveitar og starfsfólki eru færðar þakkir fyrir þeirra aðkomu og vinnu við gerð ársreikningsins.

Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir ársreikning vegna ársins 2019 og staðfestir hann með undirritun sinni."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Til máls tóku GJ, DO, LBP og RÍ.

3.Fundir sveitarstjórnar í apríl 2020.

2003037

Erindi frá oddvita.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn samþykkir að reglubundnir fundir sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar í apríl sem eiga að vera dagana 14. apríl og 28. apríl verði felldir niður og í þess stað verði boðað til eins fundar í apríl, þriðjudaginn 21. apríl.
Ef þörf er talin á verði hins vegar boðað til aukafundar í sveitarstjórn."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

4.Fjarfundir sveitarstjórnar og nefnda.

2003036

Erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Til að bregðast við aðstæðum sem hafa skapast vegna Covid-19 kórónaveirufaraldursins hefur Alþingi samþykkt breytingar á sveitarstjórnarlögum sem ætlað er að skapa sveitarfélögum svigrúm til að bregðast við neyðarástandi og tryggja að sveitarstjórnir verði starfhæfar. Breytingarnar kveða á um að ráðherra geti veitt sveitarstjórnum tímabundna heimild til að víkja frá tilteknum ákvæðum sveitarstjórnarlaga til að sveitarstjórn sé starfhæf við neyðarástand og til að auðvelda ákvarðanatöku. Í greinargerð með frumvarpi til laganna segir að rétt þyki að rýmka reglur um fjarfundi til að bregðast við tilmælum yfirvalda um sóttvarnir, án þess að það torveldi ákvarðanatöku innan stjórnkerfis sveitarfélaga.
Á grundvelli þess að ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir neyðarstigi almannavarna á Íslandi vegna farsóttar af völdum Covid-19, hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra tekið svofellda ákvörðun, með vísan til VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Til að tryggja starfhæfi sitt og til að auðvelda ákvarðanatöku við stjórn sveitarfélags er öllum sveitarstjórnum heimilt að taka eftirfarandi ákvarðanir fela m.a. í sér tímabundin frávik frá skilyrðum ákvæða 3. mgr. 17. gr., 5. mgr. 35. gr., 1. mgr. 40. gr., 1. og 2. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga og 5. gr. leiðbeininga innanríkisráðuneytisins, frá 4. desember 2013, um leiðbeiningar um notkun fjarfundarbúnaðar á fundum sveitarstjórna, nr. 1140/2013. Sveitarstjórnum er heimilt að taka framangreindar ákvarðanir á fundi þar sem allir fundarmenn taka þátt í fundinum í gegnum fjarfundarbúnað. Heimildin gildir til 18. júlí 2020.

Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Á grundvelli þessa samþykkir sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar að heimila fjarfundi sveitarstjórnar og fastanefnda sveitarfélagsins til að tryggja starfshæfni þegar aðstæður krefjast þess. Einnig samþykkir sveitarstjórn að staðfesting fundargerða sveitarstjórnar og fastanefnda verði í samræmi við leiðbeiningar Sambands íslenskra sveitarfélaga þar um þegar notast er við fjarfund. Jafnframt beinir sveitarstjórn því til fastanefnda sveitarfélagsins að fresta fundum meðan í gildi er samkomubann, nema brýna nauðsyn beri til afgreiðslu mála."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Til máls tóku DO, LBP, HM, RÍ og GJ.

5.Hugmyndir og ábendingar að aðgerðum til viðspyrnu fyrir íslenskt atvinnulíf í ljósi þess samdráttar sem blasir við í þjóðarbúskapnum.

2003035

Erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Lagt fram erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, þar koma fram í fjórum liðum hugmyndir og ábendingar að aðgerðum sveitarfélaga til viðspyrnu fyrir íslenskt atvinnulíf vegna samdráttar sem við blasir vegna áhrifa af heimsfaraldri Covid 19.
Í aðgerðarpakkanum eru sveitarfélög m.a. hvött til að kanna möguleika á gjaldskrárlækkunum og tímabundinni lækkun eða niðurfellingu tiltekinna gjalda. Auk þess eru sveitarfélög hvött til að auka og flýta framkvæmdum umfram það sem er í gildandi fjárhagsáætlunum ársins 2020 og í áætlun 2021.

Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir á þessu stigi eftirfarandi aðgerðir til að koma til móts við íbúa og fyrirtæki í sveitarfélaginu vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru í þjóðfélaginu.

1. Komi upp þær tímabundnu aðstæður vegna ákvörðunar foreldra/forráðamanna eða vegna sóttkvíar eða gruns um smit að börn í leik- eða grunnskóla mæti ekki í skóla, skal einungis greitt fyrir nýtta þjónustu og fæði enda sé fjarvera í heilum vikum. Ákvörðun þessi er tímabundin til loka maímánaðar.

2. Varðandi önnur gjöld og skatta er beðið frekari leiðbeininga frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

3. Kannaður verði möguleiki þess að koma með auknum hætti að kynningu og eflingu ferðaþjónustu í Hvalfjarðarsveit með tilliti til þeirra aðstæðna sem hafa skapast í samfélaginu.

4. Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar tekur jákvætt í áskorun Sambands íslenskra sveitarfélaga að flýta viðhalds- og nýframkvæmdum sem fyrirhugaðar hafa verið í framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins. Sveitarstjórn horfir þá til að flýta framkvæmdum við byggingu íþróttahúss, skipulag og gatnagerð í Melahverfi verði aukin, veituframkvæmdir og viðhaldsverkefni sem eru í langtímaáætlun færist framar í tíma.
Nánari útfærsla þess efnis verður lögð fram á fundi sveitarstjórnar í apríl.

Sveitarstjórn samþykkir einnig vegna áður útsendra reikninga fyrir leikskólagjöldum og fæðisgjöldum í grunnskóla fyrir marsmánuð, en gjöldin eru innheimt fyrirfram í upphafi hvers mánaðar, að ekki verðir sendir út reikningar fyrir aprílmánuð nú um komandi mánaðarmót. Næsti reikningur vegna þessara gjalda verði sendur út í upphafi maímánaðar og þar muni fara fram leiðrétting á marsmánuði ásamt innheimtu gjalda fyrir apríl og maí mánuði. Varðandi fæði í grunnskóla sem samkvæmt gjaldskrá er ein fjárhæð fyrir morgun- og hádegismat er samþykkt að fyrir léttan málsverð sem boðið er upp á nú í skertu skólastarfi verði gjaldið 40% af gjaldskrárfjárhæðinni."

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Til máls tóku RÍ, LBP, GJ, HH, EÓG, HM og DO.

6.Viðbragðsáætlun Hvalfjarðarsveitar við heimsfaraldri af völdum COVID-19.

2003038

Viðbragðsáætlun 1. útgáfa 13.03.2020.
Framlögð til kynningar.
Áætlunin, sem nú þegar hefur verið birt á heimasíðu sveitarfélagsins, á að vera stjórnendum sveitarfélagsins til stuðnings um hvernig takast eigi á við aðstæðurnar sem nú eru uppi. Til frekari stuðnings og eftirfylgni áætlunarinnar hefur verið gerð Aðgerðaáætlun þar sem m.a. eru skilgreindar ráðstafanir stofnana og starfsemi sveitarfélagsins til varnar útbreiðslu veirunnar, til að draga úr áhrifum hennar og að auki til að undirbúa skerta starfsemi með eins lítilli röskun og framast er unnt miðað við aðstæður. Aðgerðaráætlunin er í stöðugri endurskoðun.

Til máls tóku RÍ og LBP.

7.Almennt eftirlit með því að fjármál og fjármálastjórn sveitarfélaga séu í samræmi við lög og reglur. Fjárfesting og eftirlit með framvindu á árinu 2019.

1903032

Yfirlit framkvæmdaáætlunar 2019.
Framlagt til kynningar. Erindi ráðuneytisins verður svarað með framlögðu yfirliti.

8.Umsögn um drög að breytingu á reglugerð um framkvæmdaleyfi.

2003027

Erindi frá Umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
Erindið framlagt.

9.Umsögn um drög að frumvarpi til kosningalaga.

2003034

Erindi frá lagaskrifstofu Alþingis.
Erindið framlagt.

10.Styrktarsjóður EBÍ 2020.

2003039

Erindi frá Eignarhaldsfélagi EBÍ.
Erindið framlagt.

11.879. fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

2003008

Fundargerð.
Fundargerðin framlögð.

12.189. fundargerð Faxaflóahafna sf.

2003040

Fundargerð.
Fundargerðin framlögð.

Til máls tók DO.

Fundi slitið - kl. 16:01.

Efni síðunnar