Fara í efni

Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd 2011-2013

14. fundur 20. ágúst 2012 kl. 15:00 - 17:00

Sævar Ari Finnbogason formaður, Daníel Ottesen aðalmaður, Guðjón Jónasson 1. varamaður og Ólafur Ingi Jóhannesson aðalmaður.


Daníel Ottesen , ritaði fundargerð.


Einnig sat fundinn Hjörtur Hans Kolsöe Skipulags- og byggingarfulltrúi


1. 1204015 - Deiliskipulagsbreyting Eystri Leirárgarðar ehf. Bugavirkjun með Umhverfisskýrslu.


Athugasemd við deiliskipulagstillöguna barst frá Birni Jónssyni hrl., fyrir hönd Leirárskóga ehf. dags. 25 maí 2012.

 

Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd Hvalfjarðarsveitar leitaði álits hjá Dýrleif Kristjánsdóttur hrl. hjá LEX lögmannsstofu og gerir nefndin eftirfarandi svar hennar, dags. 9 ágúst s.l., við athugasemdinni að sínu; "Vitnað í álit LEX"

 

Svör við athugasemdum Björns Jónssonar hrl. f.h. umbjóðanda hans, Leirárskógar ehf., dags. 25. maí 2012.

 

I. Brot á lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Í athugasemdunum segir að það sé hlutverk stjórnvalda, þar með talið sveitarstjórna, að sjá til þess að lögum sé fylgt. Ekki liggur ljóst fyrir í athugasemdunum hvort hér sé átt við almennt eftirlitshlutverk sveitarfélaga, en því er hvergi haldið fram að sveitarstjórn hafi brugðist því, eða að sveitarstjórninni sem slíkri hafi láðst á einhvern hátt að sinna hlutverki sínu samkvæmt viðeigandi heimildarlögum. Óumdeilt er að heimild og skylda til þess að skipuleggja landnotkun á landsvæði sem fellur undir lögsögu viðkomandi sveitarfélags hvílir á sveitarstjórn og nær til lands og hafs innan marka viðkomandi sveitarfélags í samræmi við 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 28.-32. gr. og 37.-43. gr. sömu laga. Því er ekki haldið fram að skipulagsskyldan hvíli ekki á sveitarfélaginu og ekki liggur fyrir að fyrrgreind lög séu ekki stjórnskipulega rétt sett. Þar af leiðandi er óumdeilanlegt að sveitarfélagið hefur að lögum heimild til að taka bindandi ákvarðanir um landnotkun. Hins vegar eru skipulagsákvarðanir um margt sérstakar og varða marga aðila og mismunandi hagsmuni. Þess vegna mæla skipulagslög fyrir um afar vandaða málsmeðferð, svo þeir sem hagsmuna eiga að gæta, hvort sem þeir hagsmunir eru almennir eða

einstaklingsbundnir, hafi tækifæri til að koma að sjónarmiðum sínum áður en lokaákvörðun er tekin. Þar af leiðandi getur samþykkt sveitarstjórnar frá 10. apríl sl. um að auglýsa breytingartillögu deiliskipulags Eystri-Leirárgarða ekki falið í sér brot á lögmætisreglu enda er ábyrgð á gerð skipulagsáætlana og skipulagsskyldan sem slík ótvírætt á herðum sveitarstjórnar lögum samkvæmt. Í athugasemdinni er ekki tíundað hvernig hagsmunir Leirárskógar ehf. munu skerðast vegna tillögu að breytingu að deiliskipulagi Eystri-Leirárgarða svo að í bága fari við lögmætisreglu. Því er mótmælt að um nokkurt brot á lögmætisreglu stjórnsýsluréttar sé að ræða og sérstaklega að hagsmunir Leirárskóga ehf. hafi verið skertir á nokkurn hátt.

 

II. Brot á reglum vatnalaga. Því er haldið fram að verði deiliskipulagstillagan samþykkt fari það gegn tilteknum ákvæðum vatnalaga, nr. 15/1923 m.s.br. þar sem ekki liggi fyrir heimild landeiganda og leyfi samkvæmt fyrrnefndum lögum. Fyrir liggur samþykki Veiðifélags Leirár fyrir fyrirhugaðri virkjun í Bugalæk, sbr. samþykkt aðalfundar Veiðifélags Leirár vegna ársins 2010 sem haldinn var 31. mars 2011. Þar er svofelld bókun: Á aðalfundi Veiðifélags Leirár haldinn að E-Leirárgörðum 31. mars 2011 var tekin fyrir beiðni um Bugavirkjun (landeigendur E-Leirárgarða og V-Leirárgarða) um virkjun í Bugalæk. Veiðifélag Leirár áskilur sér rétt á skaðabótum ef reynsla af rekstri Bugavirkjunar sýnir fram á tjón á Leirá hvað varðar fiskgengd og veiði. Að öðru leyti gerir Veiðifélag Leirár ekki athugasemd við framkvæmdir og væntanlegan rekstur Bugavirkjunar. Samkvæmt fyrrgreindu liggur fyrir samþykki veiðifélagsins og viðkomandi hagsmunaaðilar hafa þannig fyrir sitt leyti fallist á virkjun í Bugalæk en áskilnaður er um rétt til skaðabóta leiði rekstur virkjunarinnar til tjóns á fiskigengd og veiði. Málsmeðferð breytingartillögu umrædds deiliskipulags er ekki lokið en ljóst er að framkvæmdaraðili ber ábyrgð á að tilkynna fyrirhugaða framkvæmd til Orkustofnunar í samræmi við 144. gr. vatnalaga nr. 15/1923 m.s.br. Það er á valdsviði þeirrar stofnunar að gefa út nauðsynleg leyfi, eftir atvikum, á grundvelli laganna vegna framkvæmda sem tengjast vatni og vatnafari. Þá ber sveitarstjórn, þegar þar að kemur, við undirbúning og útgáfu framkvæmdaleyfis í samræmi við 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, að staðreyna að öll nauðsynleg leyfi lögum samkvæmt liggi fyrir. Samkvæmt fyrrgreindu liggur fyrir að ekki hefur verið farið á svig við ákvæði vatnalaga eða annarra laga, málsmeðferð breytingartillögu deiliskipulags er ólokið og ekki komið að því að undirbúa útgáfu nauðsynlegra leyfa. Að auki liggur fyrir samþykki veiðifélagsins með fyrrgreindum áskilnaði. Þar af leiðandi er því alfarið hafnað að ákvarðanir sveitarfélagsins skorti lögmæti eða skerði á nokkurn hátt hagsmuni umbjóðanda lögmannsins.

 

III. Brot á lögum um umhverfismat. Því er haldið fram að sveitarfélagið hafi ekki fylgt ákvæðum laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana við undirbúning að gerð breytingartillögu við deiliskipulagið. Þessu er alfarið hafnað.

Umhverfisskýrsla Deiliskipulagsbreyting Eystri-Leirárgarðar, dagsett í apríl 2012, unnin af EFLU verkfræðistofu, liggur fyrir og var auglýst í Morgunblaðinu 16., 17. og 24. maí 2012 og í Lögbirtingablaði, útgefið dags. 17. apríl 2012, samhliða deiliskipulagsbreytingunni. Auglýst var aftur í Morgunblaðinu og Lögbirtingablaði, bæði útgefin þann 3. maí 2012, vegna formgalla í fyrri auglýsingum varðandi tímafresti. Í síðari auglýsingum var framlengdur frestur til 31. maí 2012 til þess að skila inn athugasemdum við fyrirhugaða breytingu á deiliskipulagi og umhverfisskýrslu. Því er sömuleiðis hafnað að nauðsynlegt hafi verið að æskja á ný umsagna tiltekinna sérfræðistofnana enda bendir Skipulagsstofnun á í erindi sínu til Hvalfjarðarsveitar, dags. 13. mars 2012 að þegar framkvæmdin var tilkynnt skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum voru þau gögn send til umsagnar fleiri aðila en virðist hafa verið gert við vinnslu deiliskipulagsins [...] og er eðlilegt að gögn frá þeirri vinnu séu einnig nýtt við skipulagsvinnuna og umhverfismat deiliskipulagsins. Umbjóðandi lögmannsins hefur ekki sýnt fram á að þetta vinnulag sem Skipulagsstofnun lagði til stangist á við lög. Samkvæmt niðurstöðu Skipulagsstofnunar, Bugavirkjun í Hvalfjarðarsveit, ákvörðun um matsskyldu, dags. 27. júlí 2011, er fyrirhuguð virkjun í Bugalæk ekki talin líkleg til þess að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og þar af leiðandi ekki háð mati á umhverfisáhrifum í samræmi við ákvæði laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Umbjóðandi lögmannsins kærði ekki þessa ákvörðun stofnunarinnar, eins og honum hefði verið í lófa lagið ef hann hefði talið að framkvæmdin myndi skerða hagsmuni hans. Skipulagsstofnun byggir niðurstöðu sína m.a. á skýrslum opinberra sérfræðistofnana, þ.m.t. Veiðimálastofnunar, dags. 3. janúar 2011. Þar kemur fram að stofnunin telur ólíklegt að seiðastofnar eða göngur fullorðinna fiska í Leirá verði fyrir neikvæðum áhrifum vegna minna rennslis á þeim kafla sem vatn verður leitt um þrýstipípur, þar sem rennsli Bugu sé að jafnaði hlutfallslega lítið miðað við rennsli Leirár. Þar að auki endurtók Veiðimálastofnun vorið 2012, sbr. erindi stofnunarinnar, dags. 28. júní sama ár, mælingar á seiðaþéttleika vegna framkominna athugasemda umbjóðanda lögmannsins. Meginniðurstaða Veiðimálastofnunar er að miðað við fyrirliggjandi upplýsingar muni fyrirhuguð virkjun hafa lítil áhrif á stofn laxfiska og veiði í Leirá. Í samræmi við fyrrgreint er því mótmælt að undirbúningi og rannsókn máls þessa sé á einhvern hátt ábótavant.

 

IV. Brot á grunnreglu stjórnsýsluréttar um málefnaleg sjónarmið. Valdníðsla. Gerð er athugasemd um aðkomu sveitarfélagsins að stofnun vatnsveitufélags Hvalfjarðarsveitar. Athugasemdin virðist vera sett fram sem almenn kvörtun við stofnun vatnsveitufélagsins en beinist ekki að málsmeðferð, formi eða efni deiliskipulagstillögunnar sem auglýst var þann 17. apríl 2012. Þegar af þeirri ástæðu er hvorki nauðsynlegt né mögulegt að taka afstöðu til einstakra ákvarðana sem sveitarfélagið kann að taka í framtíðinni á grundvelli skipulagsáætlana sem þá verða í gildi. Því er mótmælt að til standi að taka nokkrar ákvarðanir á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða.

 

V. Ábendingar Skipulagsstofnunar. Því er haldið fram að ábendingar Skipulagsstofnunar, hér er væntanlega átt við bréf Skipulagsstofnunar til Hvalfjarðarsveitar, dags. 13. mars 2012, hafi ekki verið haft að leiðarljósi við gerð deiliskipulagstillögu. Þessi athugasemd á ekki við rök að styðjast. Eins og umbjóðanda lögmannsins er kunnugt hefur tillaga til breytinga á deiliskipulagi Eystri-Leirárgarða verið auglýst opinberlega, í samræmi við lög, á nýjan leik og öllum gefið tækifæri til að koma að athugasemdum við tillöguna. Ákvörðun um auglýsingu að nýju var tekin á 125. fundi sveitarstjórnar þann 10. apríl 2012, en þá höfðu nauðsynlegar breytingar á skipulagstillögunni verið gerðar og að auki umhverfismat og umhverfisskýrsla í samræmi við lög nr. 105/2006. Þá er vísað til erindis Skipulagsstofnunar, dags. 14. maí 2012, þar sem fram kemur að stofnunin hafi yfirfarið umhverfisskýrslu vegna tillögu að breytingu á deiliskipulagi Eystri-Leirárgarða og geri fyrir sitt leyti ekki athugasemdir við umhverfismatið.

 

VI. Meint fjártjón Leirárskógar ehf. Telji umbjóðandi lögmannsins að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna málsmeðferðar breytingar¬tillögu að deiliskipulagsáætlun er honum bent á að beina þeirri fjárkröfu að sveitarfélaginu í samræmi við lög.

 

Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd Hvalfjarðarsveitar fellst því ekki á innsenda athugasemd. Nefndinn leggur til við sveitarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt og auglýst samkvæmt 41. gr skipulagslaga 123/2010.


2. 1202051 - Lýsing deiliskipulags á Grundartanga - vestursvæði.


Lagt fram.

3. 1208019 - Skógarkerfill í landi Hvalfjarðarsveitar.

Nefndin felur formanni og Skipulags-og byggingarfulltrúa að afla upplýsinga um málið.

4. 1208020 - Fegrun Melahverfis

Málið rætt. Frestað til næsta fundar.


5. 1208022 - Umhverfisverðlaun


Tillaga að auglýsingu rædd og samþykkt að birta með fyrirliggjandi texta.


6. 1207012 - Umsókn um stöðuleyfi


Afgreiðsla kynnt nefndinni


7. 1207029 - Umsókn um byggingarleyfi


Afgreiðsla kynnt nefndinni.

 

8. 1207028 - Umsókn um byggingarleyfi


Afgreiðsla kynnt nefndinni.


9. 1204024 - Umsókn um byggingarleyfi


Afgreiðsla kynnt nefndinni.


10. 1207027 - Umsókn um byggingarleyfi.

Afgreiðsla kynnt nefndinni.


11. 1208021 - Landsskipulagsstefna.Drög , Skipulagsstofnun


Lagt fram.

 


Fleira gerðist ekki. Fundargerðin upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 17:00 .

Efni síðunnar