Fara í efni

Umhverfis- og náttúruverndarnefnd 2006-2011

40. fundur 23. júní 2009 kl. 16:30 - 18:30

Arnheiður Hjörleifsdóttir, Baldvin Björnsson, Petrína Helga Ottesen og Andrea Anna Guðjónsdóttir sem ritaði fundargerð. Forföll boðaði Gauti Halldórsson. Einnig sat Skúli Lýðsson Skipulags- og byggingarfulltrúi fundinn.

 

Arnheiður setti fundinn, bauð fólk velkomið og var síðan gengið til dagskrár.

Mál til afgreiðslu

1.   Fundargerð 39. fundar upplesin. Engar athugasemdir gerðar. 

2.   Starfsleyfi Elkem Ísland. Tillaga Umhverfisstofnunar að starfsleyfi Elkem á Grundartanga. Lagt fram. Nefndarmenn munu kynna sér tillöguna og vinna athugaemdir í samstarfi við Stefán Gíslason hjá UMÍS. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun er stefnt að því að halda kynningarfund um starfsleyfið 2. júlí nk.

3.   Vöktunaráætlun Norðuráls. Lögð fram. Nefndin sammála um að skila áliti vegna áætlunarinnar. Arnheiði falið að ganga frá því í samræmi við þau atriði sem fram komu á fundinum um málið.

4.   Vorhreinsun í Hvalfjarðarsveit. Umhverfisnefndin sammála um að vorhreinsunin hafi farið tiltölulega vel fram. Einhverjir hnökrar urðu þó á framkvæmdinni, t.d. er varðar merkingu gámanna. Þá bárust nokkrar kvartanir, aðallega frá sumarhúsaeigendum vegna hreinsunarátaksins. Skúli fór yfir þær og upplýsti að hreinsunarátakið hefði m.a. verið lengt um viku til að koma á móts við athugasemdir sem bárust. Umhverfisnefnd sammála um að halda ábendingunum til haga og leggja til grundvallar fyrir næsta vor.

5.    Umhverfisstarf í skólum Hvalfjarðarsveitar. Milli funda sendi nefndin frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kom með hvaða hætti hún hefur lagt skólum Hvalfjarðarsveitar lið með óhefðbundnum hætti til að efla og styrkja umhverfismennt og útikennslu. Nokkrir nefndarmenn upplýstu að þessi aðkoma nefndarinnar hefði vakið mjög jákvæð viðbrögð víða.                                     

Undir þessum lið vill nefndin koma á framfæri hamingjuóskum til Heiðarskóla, sem flaggaði Grænfánanum í vor, eftir markvisst og metnaðarfullt starf vetrarins.

6.    Erindi frá Landgræðslunni dags. 19.05 sl. og varðar utanvegaakstur í sveitarfélaginu. Lagt fram til kynningar. Formanni falið að senda svar á langræðsluna þar sem bent er á aukið álag vegna utanvegaaksturs um Skarðsheiði, Botnsheiði og Akrafjallið norðanvert.

7.    Umhverfisviðurkenningar Hvalfjarðarsveitar 2009. Ákveðið að auglýsa eftir tilnefningum til umhverfisverðlauna Hvalfjarðarsveitar 2009. Ekki verða veittar viðurkenningar fyrir sérstakan flokk þetta árið, heldur tekið á móti öllum rökstuddum tillögum. Formanni falið að útbúa dreifimiða og útvega fólk í dómnefnd. Stefnt er að afhendingu verðlaunanna um miðjan ágúst.

8.    Endurvinnsla, orkusparnaður og græn innkaup. Umhverfisnefnd leggur það til við sveitarstjórn að undir formerkjum Staðardagskrár 21 verði stutt námskeið fyrir starfsfólk Hvalfjarðarsveitar þar sem áhersla verður á hagnýt ráð til hagræðingar í rekstri og vistvænni innkaupa. Námskeiðið verði seinnihluta ágústmánaðar og geti því líka nýst stjórnendum og/eða starfsfólki skólanna. Námskeiðið er sveitarfélaginu að kostnaðarlausu, þar sem Hvalfjarðarsveit er þátttakandi í Staðardagskrá 21 verkefninu.

9.    Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs. Erindi frá Sorpurðun Vesturlands dags. 11. maí sl. Sent nefndinni til umsagnar. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að áætlunin verði staðfest.

 

Mál til kynningar

10.  Umsögn Hvalfjarðarsveitar vegna efnistöku af hafsbotni í Hvalfirði. Afgreitt á fundi sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar þann 9. júní sl. Lagt fram.

11.  Kynningarfundur 4. Júni 2009 með Olíudreifngu og vettvangsferð um svæði þeirra í Hvalfirði. Arnheiður og Skúli greindu frá fundinum.    

 

Önnur mál

12.  Úrgangsmál. Ljóst er að núverandi samningur við Gámþaþjónustu Vesturlands rennur út um mitt næst ár. Því leggur nefndin það til við sveitarstjórn að strax verði hafist handa við undirbúningsvinnu vegna fyrirhugaðs útboðs v/sorphirðu.

13.  Jarðgerð við heimili og stofnanir. Rætt hefur verið um jarðgerð við Skýjaborg og Heiðarskóla. Arnheiður hefur átt samtal við aðila innan skólanna og mun aðstoða við upplýsingagjöf og ráðgjöf varðandi jarðgerð og jarðgerðarbúnað, eins og þurfa þykir.

14.  Ásýnd og umgengni í Melahverfi. Ábending kom fram um umferð og geymslu stórra bíla. Nefndin telur brýnt að finna sæmandi lausn varðandi aðstöðu þeirra í hverfinu. Nefndin leggur til við skipulags- og byggingarfulltrúa að skoðaður verði sá möguleiki að nýta svæði ofan við núverandi hverfi til bráðabirgða, þar til varanleg lausn hefur verið fundin. Þessi þáttur snertir bæði ásýnd og öryggi.

15.  Haugtankur við Mela. Fyrirspurn kom frá nefndarmanni um lekan haugtank við svínabúið á Melum. Skipulags- og byggingarfulltrúi upplýsti að ekki væri allt með felldu og að Heilbrigðiseftirlitinu hefði nú þegar verið tilkynnt um málið.

 

Fleira ekki gert. Fundi slitið 18:40

Andrea Anna Guðjónsdóttir, fundarritari

 

Efni síðunnar