Fara í efni

Umhverfis- og náttúruverndarnefnd 2006-2011

35. fundur 08. janúar 2009 kl. 16:00 - 18:00

Arnheiður Hjörleifsdóttir, Baldvin Björnsson, Gauti Halldórsson, Petrína Ottesen og Andrea Anna Guðjónsdóttir sem jafnframt ritaði fundargerð. 

Arnheiður setti fundinn, bauð fólk velkomið og var síðan gengið til dagskrár.

 

1. Fundargerð 34. fundar upplesin og undirrituð. Engar athugasemdir gerðar.

2. Erindi frá Skipulagsstofnun, dags. 4. desember 2008 og varðar umhverfismatsskyldu breytinga vegna fyrirhugaðrar framleiðslu á sólarkísil í verksmiðju Elkem á Ísland ehf. við Grundartanga í Hvalfjarðarsveit. Samhliða lagt fram minnisblað frá Stefáni Gíslasyni, umhverfisstjórnunarfræðingi.

Niðurstaðar umhverfisnefndar: Miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja er rökrétt að ætla að umrædd framkvæmd hafi ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif – umfram það sem þegar er gert ráð fyrir í gildandi starfsleyfi. Færa má gild rök fyrir því að framkvæmdin hafi ýmis jákvæð áhrif í för með sér fyrir umhverfi og samfélag, enda um að ræða tiltölulega mannfreka starfsemi sem byggir á meiri fullvinnslu afurða en áður. Niðurstaða umhverfisnefndar er því sú, að fyrirhugaðar breytingar kalli ekki á umhverfismat. Hins vegar beinir umhverfisnefnd eftirfarandi atriðum til sveitarstjórnar og skorar á hana að fá nánari upplýsingar um:

1. Raforkuþörf: Gert er ráð fyrir að hámarksaflþörf vegna umræddrar starfsemi verði tæp 100 MW og orkunotkun um 720 GWst á ári. Tæplega er hægt að horfa alfarið framhjá orkunotkuninni þegar rætt er um heildarumhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar.

2. Neysluvatnsnotkun: Ætla má að notkun á neysluvatni aukist mjög verulega, hugsanlega umfram afkastagetu vatnslinda á svæðinu, að teknu tilliti til annarra notenda. Þörf er á nánari upplýsingum um vatnsþörfina.

3. Fastur úrgangur: Set og efni frá vatnshreinsistöð gæti numið um 9.400 tonnum á ári. Þessi úrgangur er nokkuð frábrugðinn föstum úrgangi frá núverandi starfsemi, og flokkast líklega ekki allur sem óvirkur úrgangur. Hluti úrgangsins mun jafnvel ekki uppfylla kröfur fyrir almennan úrgang, og gæti þurft að meðhöndlast sem spilliefni.

4. Fljótandi úrgangur: Losun uppleystra efna í sjó með fráveituvatni mun aukast frá því sem nú er. Þessu geta hugsanlega fylgt aukin neikvæð áhrif á umhverfið.

5. Samráð: Nefndin leggur áherslu á öflugt samráð í tengslum við fyrirhugaða framkvæmd og kemur þeirri hugmynd hér með á framfæri að Elkem standi fyrir opinni kynningu á breyttri framleiðslulínu, þar sem íbúum sveitarfélagsins (og jafnvel næstu nágrönnum) verði boðið á sérstakan kynningarfund þar sem innihald skýrslunnar verður kynnt nánar auk þess að veitt verði svör við þeim atriðum sem nefnd eru hér að ofan.

Einnig vill umhverfisnefnd árétta að útblástur frá verksmiðju Elkem Ísland ehf. hefur valdið nefndinni, sem og íbúum sveitarfélagsins, talsverðum áhyggjum. Nefndin skorar því á stjórnendur fyrirtækisins að leita allra leiða til að minnka útblástur mengandi efna og bæta þar með ásýnd verksmiðjunnar.

3. Umhverfisfulltrúi í Hvalfjarðarsveit. Arnheiður greindi frá viðræðum sveitarfélagsins við fulltrúa

frá Elkem, Norðuráli og Faxaflóahöfnum. Niðurstaðan úr þeim viðræðum var skipun í

samstarfshóp. Sveitarstjóri verður fulltrúi Hvalfjarðarsveitar í hópnum.

4. Úrgangsmál í Hvalfjarðarsveit.

a) Samningur við Gámaþjónustuna. Arnheiður upplýsti að tekin hefði verið

sú sameiginlega ákvörðun sveitarfélaganna sem standa að samningnum, að framlengja núgildandi samningi við Gámaþjónustuna um eitt ár.

b) Plastsöfnun í Hvalfjarðarsveit. Umhverfisnefnd leggur til að hafist verði handa við plastsöfnun sem fyrst, að því gefnu að það leiði ekki til kostnaðarauka fyrir sveitarfélagið.

Jafnframt leggur nefndin til að hafnar verði viðræður við Gámaþjónustuna um fyrirkomulag plastsöfnunar á árinu en upplýsingar hafa borist frá Gámaþjónustunni um breytt fyrirkomulag af þeirra hálfu.

5. Bláskeggsárbrú. Arnheiður lagði fram loftmyndir og gögn sem sýna bílastæði, snúningsplan og fleira við brúna.

6. Umhverfisvottun sveitarfélaga. Vaxtarsamningur Vesturlands hefur lagt fram gögn er varðar undirbúning að vottun sveitarfélaga skv. Green Globe staðli. Umhverfisnefnd fagnar þessu framtaki Vaxtarsamningsins.

7. Greinargerð frá Orkuveitu Reykjavíkur er varðar viðtaka fráveituvatns frá Akranesi. Lagt fram.

Umhverfisnefnd harmar að ekki hafi farið fram kynning á umræddum framkvæmdum mun fyrr, þar sem ekki fæst betur séð á gögnum en að þynningarsvæðið nái inn fyrir sveitarfélagsmörkin.

8. Ársskýrsla umhverfisnefndar fyrir starfsárið 2008. Lögð fram.

 

Fleira var ekki rætt fundi slitið kl. 17.40

Efni síðunnar