Fara í efni

Umhverfis- og náttúruverndarnefnd 2006-2011

14. fundur 14. mars 2007 kl. 20:00 - 22:00

Arnheiður, Petrína, Baldvin og Jóhanna. Gauti, varamaður Bylgju, boðaði forföll.

Arnheiður bauð fundarmenn velkomna og sagði þennan fund eingöngu helgaðan skipulagsmálum, en samkvæmt erindisbréfi á Umhverfis- og náttúruverndarnefnd (U&N) að veita sveitarstjórn umsögn um svæðis-, aðal- og deiliskipulag sem stofnað geta í hættu umhverfisþáttum sem sérstakt gildi hafa og er líklegt til að hafa áhrif á náttúruna. Henni hafi fundist ástæða til að nefndin skoðaði því aðalskipulagið (samþættingu aðalskipulaga) og sinnti þeim málaflokkum sem henni væru ætlaðir.

Fundarmenn skoðuðu saman uppdrættina og gerðu eftirfarandi athugasemdir:

Varðandi "Vernduð svæði"

Athygli fundarmanna vakti að friðlýsingarflokkar og ákvæði um þá voru hvergi nefnd nema í greinargerð, en vanta þótti nánari útlistun hugtaka og flokka á uppdrættina.

Saurbærjarhlíðin er öll skipulögð sem frístundabyggð á uppdrættinum.

U&N leggur til að ekki verði skipulögð frekari byggð í náttúrulegum birkiskógi (Saurbæjarhlíð, Hafnarskógi og Botnsdal), en orðið er.

Víðast vantar að ákvarða grannsvæði við vatnsból, skv. reglugerð um mengun vatns nr. 796 frá 1999.

Ástæða þótti til að nánar yrðu skoðuð brunnsvæði sem liggja innan þynningarsvæðis frá verksmiðjunum á Grundartanga og vestan við kjúklingabúið á Krókum, sem er vatnsból fyrir Hlíðarbæ.

Þá þótti nefndinni ástæða til að setja braggahverfið á Miðsandi undir hverfisvernd, enda eina heillega braggahverfið á landinu.

Varðandi "Sveitarfélagsuppdrátt"

Taka þarf afstöðu varðandi þann hluta Katanesslands þar sem iðnaðarsvæði skarast við friðslýst svæði og leiðrétta samkvæmt því.

Hverfisvernd – taka þarf afstöðu til hvort jökulgarða sunnan Blákolls verði verndaðar með strangari ákvæðum en hverfisvernd.

U&N vill eindregið taka undir orð Vegamálastjóra um að vegur um Grunnafjörð fari í óformlegt mat á umhverfisáhrifum þar sem nefndin hefur áhyggjur af áhrifum veglagningarinnar á friðlýst náttúruverndarsvæði.

Það vekur einnig athygli að hólmar í Hvalfirði þar sem varp er mikið skuli ekki falla í sama friðlýsingarflokk og ströndin sbr. Hrafnabjargarhólmi, Geirshólmi og Þyrilsey.

Varðandi "Göngu– og reiðleiðir"

Inn á uppdráttinn vantar reiðveg á mörkum Skipaness og Lyngholts, en við hann eru þegar hafnar framkvæmdir.

Færa þarf göngu- og reiðleiðir frá þjóðvegum þar sem þess er nokkur kostur, t.d með því að nýta gamlar þjóðleiðir. Víða eru þessar leiðir hættulega nálægt vegum.

U&N leggur til að lögð verði gönguleið að Eiðisvatni, út í Lambhaganes og frá Melahverfi inn í skógræktina í Fannahlíð. Einnig að lögð verði göngu- og reiðleið norðan Akrafjalls frá Slögu og inn í skógræktina í Fannahlíð.

Varðandi "Auðlindir"

U&N þykir ástæða til að greint verði með einhverjum hætti á uppdrættinum milli þeirra náma sem eru í notkun og þeirra sem ekki eru það (búið að loka eða óopnaðar).

Almennt

Athygli vakti að hvergi skyldi minnst á heildstæðari framtíðarskipan vatnsveita í sveitarfélaginu og þá með tilliti til að aukins öryggis og til að tryggja íbúunum nægjanlegt neysluvatn.

Rammaskipulag Melahverfis

Gert verði ráð fyrir göngustígum innan þéttbýlissvæðisins og að myndað verði skjól með skógrækt eða mönum og góð ásýnd höfð strax í huga við hönnun hverfisins. Gætt verði að hæfilegri fjarlægð íbúðarhúsa frá þjóðvegum.

Næsti fundur nefndarinnar verður haldinn miðvikudaginn 11.apríl og verður heilbrigðisfulltrúi boðaður á þann fund.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl 22:55

Fundarr. Jóhanna Harðard.

Efni síðunnar