Fara í efni

Umhverfis- og náttúruverndarnefnd 2006-2011

2. fundur 09. ágúst 2006 kl. 17:00 - 19:00

Arnheiður Hjörleifsdóttir, Petrína Ottesen, Daniela Gross, Bylgja Hafþórsdóttir og Jóhanna G. Harðardóttir, sem jafnframt ritaði fundargerð

  1. Erindisbréf fyrir Umhverfis- og náttúruverndarnefnd Hvalfjarðarsveitar

  2. Styrkumsókn í EBÍ vegna endurbyggingar og viðhalds á Bláskeggsárbrú

  3. Staðardagskrá 21 fyrir Hvalfjarðarsveit

  4. Sanddæling úr Hvalfirði

  5. Umhverfisásýnd Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga

  6. Fyrirhugað þorskeldi í Hvalfirði (Hvammsvík)

  7. Önnur mál

 

1. Erindisbréf fyrir Umhverfis- og náttúruverndarnefnd Hvalfjarðarsveitar.

Drög að erindisbréfi fyrir nefndina lagt fram. Farið yfir efnið og hver grein fyrir sig lesin. Um þessar greinar var rætt sérstaklega:

-       4.gr. Rætt um hvort ekki væri gott að skrifa sveitarstjórn bréf og spyrja með hvaða  hætti nefndi skuli koma að að stórum verkefnum sem minnst er á í drögunum. Arnheiði falið að ganga frá því.

-       5.gr. Rætt um þá ábyrgð sem fylgi umsagnarskyldu af þessu tagi, en hún sé líklega aðeins hugsuð sem álit, varnagli til sveitarstjórnar. Ekki þótti ástæða til breytinga.

-       7.gr. Rætt um fundartíma og staðfest að áður ákveðinn fundartími verði áfram – þ.e.a.s. annar miðvikudagur í hverjum mánuði, kl 17:00

-       10.gr. Í framhaldi af umræðu fyrri fundar og fyrirspurnum A: Fundargerðir verði settar inn á netið um leið og þær eru tilbúnar þótt ekki sé búið að undirrita þær.

-       13.gr. Hér var var rætt  um talsverða ábyrgð sem nefndin tæki á sig varðandi það að vera “sveitarstjórn til ráðuneytis á sem faglegastan hátt í málefnum sem varða starfssvið hennar” en samt var ákveðið að samþykkja greinina og reyna að verða við henni eins vel og auðið væri.

 

Þá bar Daniela upp spurningu er varðar dýraverndunarmál og hvort þau kæmu fyrir nefndina. Arnheiður taldi það geta komið upp, þótt hugsanlegt væri að þau færu fyrir atvinnumálanefnd, vegna forðagæslumála, eða jafnvel Heilbrigðisnefnd. Rætt frekar og töldu nefndarmenn dýraverndarmál eiga vel heima í nefndinni. Arnheiður mun athuga í hvaða nefnd dýraverndarmál falla og láta vita áður en drögin verða send inn til sveitarstjórnar til að hægt verði að gera breytingar ef vill.

 

 

2. Styrkumsókn í EBÍ vegna endurbyggingar og viðhalds á Bláskeggsárbrú

Arnheiður kynnti bréf sem sent var sveitarstjórn, um að nefndin hyggðist sækja um styrk til endurreisnar Bláskeggsárbrúr.

Leita þyrfti til fleiri aðila, s.s. Vegagerðarinnar og/eða Þjóðminjasafns til að styðja við verkefnið. Arnheiður mun gera drög að umsókn og leita til hlutaðeigandi aðila. Drög að umsókninni verða sendar í tölvupósti.

 

3. Staðardagskrá 21 fyrir Hvalfjarðarsveit

Fundarmenn eru sammála um að þessa vinnu þurfti að vinna og það fyrr en seinna. Ákveðið að hefja formlegt ferli við gerð Staðardagskrár strax.

Arnheiður mælti með að til næsta fundar, þann 13. september, verði fenginn aðili  frá verkefninu og  allir nefndarmenn boðaðir (aðal- og varamenn), auk þeirra sveitarstjórnarmanna sem áhuga hafa á að kynna sér málið frekar.

Nokkrar umræður um tímalengd verkefnisins, hvernig mætti skipta með sér verkum og hvernig mætti hafa samstarf við íbúa hreppsins og atvinnurekstur.

 

4. Sanddæling úr Hvalfirði

Jóhanna kynnti málið, sagði starfsleyfi Björgunnar ehf runnið út og að skipulagsstofnun hafi gert Björgun að fara með áframhaldandi verkefni í umhverfismat. Því vill Björgun ekki hlýta og hefur sent Umhverfisráðherra beiðni um undanþágu. Jóhanna lagði fram svohljóðandi tillögu:

“Umhverfis- og náttúruverndarnefnd Hvalfjarðarsveitar hefur áhyggjur af uppdælingu malarefna úr botni Hvalfjarðar og þeim áhrifum sem það hefur á fjörur og lífríki sjávar í firðinum.

Með vísan til ofangreinds, vill Umhverfis- og náttúruverndarnefnd Hvalfjarðarsveitar beina tilmælum til Umhverfisráðherra að umræddri framkvæmd verði gert að fara í umhverfismat áður en starfsleyfi fyrir frekari efnistöku verður afgreitt.”

 

Rætt og bent á að í tillöguna megi bæta vísan í lög (lög nr. 106/2000, lög um mat á umhverfisáhrifum) og hvenær starfsleyfi hafi runnið út.

 

5.  Umhverfisásýnd Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga

Mikið hefur verið rætt  um aukna mengun frá Járnblendinu í fjölmiðlum og milli manna í  sveitinni. Í sveitarstjórn var ákveðið að formaður Umhverfisnefndar og oddviti sveitarstjórnar færu á fund með framkvæmdastjóra Járnblendisins. Fundur verður haldinn næsta mánudag, 14. ágúst, og er það fyrsta skrefið í að ræða málin. Leitað verður skýringa á aukinni mengun og rætt um framtíðarhorfur.

Rætt frekar um ábyrgð yfirvalda, s.s. iðnaðar- og/eða umhverfisráðuneytis varðandi starfleyfi verksmiðjunnar, skilyrði sem því fylgja og e.t.v. undanþágur. Málinu verður haldið vakandi.

 

6. Fyrirhugað þorskeldi í Hvalfirði (Hvammsvík)

Arnheiður lagði fram til kynningar kæru sveitastjórnar um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að fyrirhuguðu þorskeldi í Hvalfirði þyrfti ekki að fara í mat á umhverfisáhrifum.

 

7. Önnur mál

Petrína spurði hvort eitthvað hefði verið rætt um umhverfisásýnd í sveitarfélaginu og  hvort ástæða væri til að benda mönnum á það sem betur mætti fara. Rætt en engin ákvörðun tekin.

 

 

Fleira ekki gert og fundi slitið klukkan 19:00

 

 

Næsti fundur fyrirhugaður miðvikudaginn  13. sept kl 17.00

 

Arnheiður Hjörleifsdóttir

Petrína Ottesen

Bylgja Hafþórsdóttir

Daniela Gross

Jóhanna Harðardóttir

 

Efni síðunnar