Fara í efni

Sveitarstjórn

33. fundur 22. nóvember 2007 kl. 13:00 - 15:00

Mættir allir aðalmenn auk sveitarstjóra er reit fundargerð. 

 Oddviti bauð menn velkomna og þá sérstaklega Ólaf Ástgeirsson frá JB-byggingafélagi sem mættur var til að kynna teikningar að nýjum leikskóla í Krosslandi. Oddviti lagði enn fremur til þá dagskrárbreytingu að 7. liður á dagskrá yrði tekinn fyrir fyrstur, þ.e. kynning á ofangreindum teikningum. Samþykkt. Oddviti gaf síðan Ólafi orðið.
Ólafur rakti sögu fyrirtækisins og forsögu málsins. Var síðan farið yfir teikningarnar og ákveðnar breytingar sem á þeim hafa orðið eftir yfirferð fræðslu- og skólanefndar. Eftir er að leggja teikningarnar fyrir skipulags- og byggingarnefnd. JB-byggingafélag mun skila húsinu tilbúnu fyrir innréttingar samkvæmt samningi. Ólafur yfirgaf síðan fundinn.
Fundargerðir nefnda sveitarfélagsins
1)
Sveitarstjóri fer yfir fundargerð 32. fundar. Engar athugasemdir. Enn fremur dreifði sveitarstjóri á fundinum ritinu “Árbók sveitarfélaga 2007.”
2)
47. fundur skipulags- og byggingarnefndar haldinn 14. nóvember. Magnús og Ása sem bæði sitja í nefndinni fóru yfir fundargerðina. Í 16.lið varðandi matsskyldu vegna vatnsveitu frá Bugalæk mælir nefndin með því við sveitarstjórn að farið verði í undirbúning aðalskipulagsbreytingar. Samþykkt. Varðandi lið 19 (dýpkun Litla-Sandshafnar) leggur nefndin til að dýpkunin verði leyfð. Upplýst var að dýpkuninni er lokið. Fundargerð samþykkt. Einn sveitarstjórnarmaður er á móti afgreiðslu nefndarinnar á 5. lið.
3)
23. fundur umhverfis- og náttúruverndarnefndar haldinn 12. nóvember. Arnheiður formaður nefndarinnar fór yfir fundargerðina. Í 6.lið leggur nefndin til að auglýst verði eftir hundaeftirlitsmanni sem sjái um skráningu hunda í sveitarfélaginu og eftirlit með hundahreinsun. Samþykkt. Fundargerð samþykkt.
4)
4. fundur ritnefndar haldinn 16. nóvember ásamt drögum að ritstjórnarstefnu fyrir vefinn. Fundargerð og ritstjórnarstefna samþykkt.

Mál til afgreiðslu
Oddviti lagði nú til dagskrárbreytingu þar sem Jón Haukur Hauksson var mættur á fundinn og lagði til að tekinn yrði fyrir 6. liður á dagskrá; samningar við Akraneskaupstað. Samþykkt. Oddviti bauð Jón Hauk velkominn á fundinn og gaf honum orðið, en hann var sérstakur ráðgjafi við samningsgerðina við Akraneskaupstað.
Farið var yfir einstaka samninga og þeir kynntir með 12 mánaða uppsagnarákvæði (og 6 mánaða fyrirvara varðandi endurskoðun á einstökum ákvæðum) nema skipulagsskrá fyrir Dvalarheimilið Höfða þar sem er 18 mánaða uppsagnarákvæði.
Samningur um Byggðasafnið að Görðum var síðan samþykktur samhljóða.
Skipulagsskrá fyrir Dvalarheimilið Höfða samþykkt samhljóða.
Samstarfssamningur um félagsstarf aldraðra. Samþykktur samhljóða.
Samstarfssamningur um ýmis málefni á sviði félags- og íþróttamála. Miklar umræður urðu um þennan samning, en hann gerir ráð fyrir að Akraneskaupstaður og Hvalfjarðarsveit reki sameiginlega mannvirki á Akranesi til félagsstarfs unglinga og íþróttamannvirki fyrir almenning og íþróttafélög og að íbúar sveitarfélaganna tveggja hafi sama aðgengi að þjónustunni sem þar er rekin. Samkvæmt fyrirliggjandi samningsdrögum er kostnaðarþátttaka Hvalfjarðarsveitar í rekstri ofangreindra mannvirkja á Akranesi ákveðin sem 2,0% af árlegum kostnaði við rekstur íþróttamiðstöðvarinnar við Jaðarsbakka og rekstur Akraneshallarinnar. Samþykktur með fimm atkvæðum. Arnheiður og Stefán sátu hjá og lögðu fram eftirfarandi bókun. “Við sjáum okkur ekki fært að samþykkja samstarfssamning milli sveitarfélaganna um ýmis málefni á sviði félags- og íþróttamála. Aðferðin við kostnaðarþátttöku virðist vera handahófskennd og þýðir umtalsverða hækkun eingreiðslu til Akraneskaupstaðar. Að okkar mati hefði verið eðlilegra að útfæra greiðslu t.d. með þeim hætti að aðildarfélög ÍA (eða annarra íþróttafélaga) sem íbúar Hvalfjarðarsveitar eru félagar í, njóti fjárstyrks Hvalfjarðarsveitar með beinum hætti. Þá gerum við þá kröfu að verði breyting á rekstri þeirra mannvirkja sem tiltekin eru í samningnum, geti annað sveitarfélagið farið fram á að samningarnir verði teknir upp þá þegar. Við ítrekum samstarfsvilja okkar við öll nágrannasveitarfélög Hvalfjarðarsveitar og mikilvægi samráðs og samvinnu, en við bendum jafnframt á að hvergi á landinu virðast vera fordæmi fyrir viðlíka samstarfssamning og hér er til umfjöllunar.”
Samstarfssamningur um brunavarnir og eldvarnareftirlit. Samþykktur samhljóða.
Samningur um meðferð og eyðingu sorps. Samþykktur samhljóða.

Samkomulag um rekstur tónlistarskóla. Samþykktur samhljóða.
Einnig kynnt og samþykkt fréttatilkynning sem send verður til fjölmiðla þegar bæði sveitarfélögin hafa samþykkt samningana.
5)
Ársreikningur Hvalfjarðarsveitar og Heiðarskóla fyrir árið 2007. Síðari umræða. Enn fremur lögð fram endurskoðunarskýrsla frá endurskoðanda. Reikningar samþykktir samhljóða. Enn fremur var lagt fram sundurliðað rekstraryfirlit Hvalfjarðarsveitar 1. janúar -30. september 2007. Ása yfirgaf nú fundinn.
6)
Samningar við Akraneskaupstað. Framhald umræðu frá 32. fundi. Afgreitt fyrr á fundinum.
7)
Leikskóli í landi Kross í Hvalfjarðarsveit. Drög að teikningum. Afgreitt fyrr á fundinum.
8)
Frumvarp til laga um afnám lágmarksútsvars. Óskað umsagnar sveitarstjórnar. Erindi frá félags- og tryggingamálanefnd Alþingis.
9)
Niðurstöður útboðs á jarðvegsskiptum fyrir stjórnsýsluhús. Einnig kynntur verksamningur við LF-verk sem var lægstbjóðandi. Verksamningur við LF-verk samþykktur.
10)
Niðurstöður útboðs á skólaakstri fyrir Heiðarskóla. Sverrir lýsti því yfir að hann tæki ekki þátt í umræðum. Eftir nokkrar umræður var ákveðið að fresta afgreiðslu málsins til næsta fundar.
11)
Tryggur aðgangur að vatni. Erindi frá Sólveigu Jónu Jóhannesdóttur, Móum. Oddviti lagði til að þessu erindi yrði vísað til starfshóps um vatnsveitur í Hvalfjarðarsveit.
12)
Efnistaka af hafsbotni í Hvalfirði. Tillaga að matsáætlun og ósk um umsögn. Erindi frá Skipulagsstofnun. Samþykkt að vísa þessu máli til umhverfis- og náttúruverndarnefndar.
13)
Endurskoðuð fjárhagsáætlun Byggðasafnsins að Görðum 2007. Vísað til fjárhagsáætlunar.
14)
Ákvörðun útsvarshlutfalls fyrir árið 2008. Frestað til næsta fundar.
Arnheiður yfirgaf nú fundinn.
Mál til kynningar
15)
Skráning á skólaþing sveitarfélaga 2007 sem haldið verður 30. nóvember
16)
Þorrablót 2008. Erindi frá kvenfélaginu Grein. Vísað til æskulýðs- og menningarmálanefndar.
17)
Aðalfundur Spalar 2007. Magnús vakti athygli á að fylgiskjöl vantaði með fundarboði.

18)
Úrgangsferð til Norðurlanda. Kynning og samantekt Arnheiðar. Frestað til næsta fundar.
Aðrar fundargerðir
19)
45. fundur stjórnar Faxaflóahafna haldinn 14. nóvember
Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 18:50.
Hallfreður Vilhjálmsson
Hlynur M. Sigurbjörnsson
Arnheiður Hjörleifsdóttir
Ása Helgadóttir
Magnús I. Hannesson
Sigurður Sverrir Jónsson
Stefán G. Ármannsson
Einar Örn Thorlacius


Efni síðunnar