Fara í efni

Fræðslu- og skólanefnd 2009-2014

84. fundur 20. maí 2012 kl. 14:00 - 16:00

Arna Arnórsdóttir, Birna María Antonsdóttir, Bjarni Jónsson, Hlynur Sigurbjörnsson og Valgerður Jóna Oddsdóttir sem ritar fundargerð.

Auk þeirra Ingibjrög Hannesdóttir skólastjóri, Kartrín Rós Sigvaldadóttir fulltrúi kennara grunnskólasviðs, Þórdís Þórisdóttir fulltrúi kennara leikskólasviðs,

Brynjólfur Sæmundsson fulltrúi foreldra leikskólabarna og Dagný Hauksdóttir fulltrúi foreldra grunnskólabarna.

1.Setning fundar.


Formaður setur fundinn og býður fólk velkomið.


2.Uppsögn skólastjóra.

Formaður les uppsögn skólastjóra sem barst sveitarstjóra 14. maí sl.

Fræðslu- og skólanefnd vill þakka Ingibjörgu Hannesdóttur skólastjóra fyrir samstarfið og óskar henni velfarnaðar í nýju starfi. Fræðslu og skólanefnd mælist til þess að hún fái að hætta strax eins og hún óskar eftir samkvæmt tölvupósti dags. 19 maí sl. merkt: “Beiðni um fyrirkomulag starfsloka skólastjóra” og fái uppsagnarfrestinn greiddan. Samkvæmt því munu þeir fyrirvarar sem settir voru í upphaflegu uppsagnarbréfi dags. 14. maí sl. falla niður. Fráfarandi skólastjóri verði þó sviðsstjórum innan handar, þannig að þeir geti leitað til hennar varðandi upplýsingar. Einnig að skólastjóri verði nýjum stjórnanda innan handar í sumar með því að veita viðkomandi allar upplýsingar og gögn sem hann telur sig þurfa og óskar eftir. Ingibjörg mun skila af sér skýrslu um stöðu mála varðandi starfsmannahald, ráðningar og uppsetningu starfa fyrir næsta vetur til sveitarstjóra.
Miklar breytingar voru síðastliðið skólaár og nefndin vill þakka skólastjóra og starfsfólki fyri hve vel sameining leik- og grunnskóla hefur gegnið. Ingibjörg er hugmyndaríkur stjórnandi með mikinn eldmóð. Hún er frumkvöðull og komu margar nýjungar í skólastarfið til framkvæmda undir hennar stjórn.
Fræðslu- og skólanefnd mælist til að sviðsstjórum sé veitt fullt umboð til að taka við stjórn hvor á sínu sviði til að klára skólaárið.


Möguleikar í stöðunni:


  • Auglýsa skólastjórastöðuna lausa. Með þeim áherslum sem þarf eftir að búið er að meta þetta skólaár.

  • Ráða skólastjóra og auk þess fjármálastjóra í hlutastarf.

  • Fá einhvern innan úr skólanum til að gegna skólastjóra stöðunni tímabundið næsta skólaár og meta stöðuna þá.

  • Ráða menntafyrirtæki til að taka við rekstri skólans.

  • Að skipaður verði vinnuhópur til að ræða áframhaldandi þróun á stjórnun í skólanum, þ.e. umfang og verkaskiptingu milli stjórnenda. Í þessum hópi væru sviðsstjórar, gjaldkeri sveitarfélagsins og jafnvel utanaðkomandi aðili sem hefði innsýn í stjórnun á skólastarfi.


Greinargerð frá Ingibjörgu Hannesdóttur skólastjóra:


Hvalfjarðarsveit 14. maí 2012


Hvalfjarðarsveit b/t Laufeyjar Jóhannsdóttur sveitarstjóri og Fræðslu- og skólanefndar Hvalfjarðarsveitar
Innrimel 3 301 Akranes

Efni: Greinargerð frá skólastjóra um nýjungar í faglegu starfi leik- og grunnskóla skólaárið 2011-2012, foreldrasamstarf, starfsmannamál og sameininguna.


Margar af þeim nýjungum sem ég lagði upp með og skipulagði inn í starfið undanfarið skólaár hafa gengið mjög vel í framkvæmd. Nýtt húsnæði grunnskólasviðs gefur greinilega nýja möguleika og börnunum virðist líða vel í nýja skólahúsnæðinu. Leikskólabörnin virðast einnig glöð og ánægð og þeim er vel sinnt. Foreldrar hafa verið jákvæðir gagnvart nýjungum í starfinu innan skólans og engar kvartanir borist mér frá þeirra hópi í vetur. Lítið hefur verið um vandamál meðal nemenda skólans sem hafa þurft að koma inn á mitt borð og daglegt skólastarf gengið sérlega vel. Samstarf
við sérfræðinga hefur einnig gengið mjög vel.

Leikskólasvið
Faglega starfið á leikskólasviði hefur gengið mjög vel í vetur. Þær nýjungar sem ég hef aðallega komið með þar inn varða aukningu á tónlistarkennslu, sem og samnýtingu starfsmanna sviðanna, en list- og verkgreinakennarar hafa komið í leikskólann til að vinna með leikskólabörnunum og börnin á leikskólanum farið reglulega í allan vetur í verkefni í íþróttamiðstöð og grunnskóla. Tónlistarkennslan hefur orðið umfangsmeiri með tilkomu píanós inn á eldri deildina, sem og nýs starfsmanns sem hefur góða menntun á því sviði. Leikskólalæsi er líka viðbót sem ég hef kappkostað að bætist við annars frábært starf leikskólans sem greinilega hvílir á góðum grunni nú þegar, enda búið að skilgreina starfið og markmið þess mjög vel í skilvirkri skólanámskrá. Góð deildarstjórn er á báðum deildum og á eldri deild er verið að takast á við það krefjandi verkefni að taka barn í atferlisþjálfun á skólatíma.


Grunnskólasvið
Þær breytingar sem ég hef innleitt á grunnskólasviði hafa í heild sinni gengið mjög vel. Eins og fram kom í umsókn minni um starfið er mín áhersla á breytta kennsluhætti, aukningu á skapandi starfi og mikilvægi list- og verkgreina. Að auki hef ég stutt við það verkefni sem fyrirhugað var og búið var að fá styrk til í vor, Byrjendalæsi, í neðstu þremur bekkjum grunnskólasviðsins, enda snýst Byrjendalæsi um það að kenna lestur og læsi með fjölbreyttari kennsluaðferðum en almennt hefur verið gert.

Ég hleypti af stokkunum þematengdri verkefnavinnu í vinnuanda Sæmundarskóla, í 4./5. bekk, þar sem markmiðið er að útbúa þematengd verkefni í stað beinnar bókavinnu. Nemendur unnu þemabækur sem sýna afrakstur vetrarins, en í vetur voru unnin í þeim hópi 9 þemu í þessum samþættingaranda. Það hefur strax sýnt sig að í þessum hópi hefur þörf á sérkennslu minnkað umtalsvert í tengslum við þessi tilteknu verkefni og hinn almenni nemandi virðist hafa lengra úthald til vinnu við þessar aðstæður heldur en í hefðbundinni uppsetningu kennslu.


Í skólanum í vetur hefur verið töluvert af börnum sem teljast með sérþarfir varðandi bóklegt nám. Slíku fylgir oft lægra sjálfsmat hjá börnum sem aftur kemur niður á námsárangri. Ég ákvað að bregðast við þessu með því að setja inn aukalega í töflu leiklist og framsögn hjá ákveðnum hópi nemenda. Það hefur sýnt sig að þau eru að ná umtalsverðum árangri á báðum þessum sviðum og námið hefur leitt til jákvæðra breytinga á sjálfsmynd þeirra.


Í 8. – 10. bekk setti ég saman í töflu alla unglingadeild saman, með umsjónarkennurum sínum, þrjá tíma á viku í samþætta þematengda vinnu í náttúrufræði, ensku og samfélagsfræði. Nemendur voru farnir að kalla þessa tíma fimmtudagsfjör, sem lýsir best viðhorfi þeirra til þessarar vinnu. Það unnu nemendur t.a.m. bæklinga um Hvalfjarðarsveit ásamt fleiri skemmtilegum rauntengdum verkefnum. Þessa vinnu má þróa enn frekar á næsta skólaári.


Dönskukennsla hefur verið í gagngerri endurskoðun í vetur og farið var af stað með þróunarverkefni í dönskukennslu, þar sem kennsluháttum var breytt að mörgu leyti. 10. bekkur fékk raunveruleikatengt verkefni, þar sem farið var í samstarf við skóla í Danmörku sem endaði með heimsókn nemenda til Danmerkur þar sem þau kynntu land og þjóð jafnöldrum sínum þar með miklum sóma. Nemendur höfðu allan veturinn staðið að ýmsum fjáröflunum og tókst með mikilli elju í samstarfi við kennara og ættingja að ná fram góðum hagnaði. Dönskuverkefnið liggur inni sem þróunarverkefni hjá NordPlus, umsókn er farin af stað fyrir áframhaldandi vinnu í þessum anda og spennandi að sjá hvort hún fari í gegn, sem myndi auðvelda kostnaðarhlið verkefnisins til muna.


Aukin tónlistariðkun er eitt af því sem ég vildi setja inn í skólastarfið og setti vegna inn morgunsöng á hverjum morgni, þar sem nemendur sungu saman fyrir morgunmatinn. Þetta hefur mælst vel fyrir og ég hef heyrt frá mörgum foreldrum varðandi aukinn söngáhuga meðal nemenda heimafyrir. Að auki hlusta nemendur á ýmis konar tónlist undir borðum í morgunmatnum. Þar sem tónlistarvinnan er komin á fullt á leikskólasviði verður spennandi að sjá þróunina í morgunsöngnum á grunnskólasviði næstu misseri.


Uppbyggingarstefna á grunnskólasviði hefur fengið sinn sess í skólastarfinu, auk þeirrar daglegu vinnu þar sem kennarar sviðsins vinna með stefnuna. Ég breytti nú á vorönn aðeins skipulagi morgunstundar fyrir morgunmatinn, þar sem ég minnkaði morgunsöng um einn dag, þannig að nú kemur fulltrúi kennara í uppbyggingarteymi skólans fram með innslag í byrjun vikunnar fyrir morgunmatinn, í staðinn fyrir morgunsönginn, sem nú er þá fjórum sinnum í viku í stað allra daga vikunnar. Þetta hefur gefist vel, börnin virðast sátt við þessa breytingu og móttækileg fyrir slíkum skilaboðum í byrjun vinnuvikunnar.


Sameining/samstarf milli sviða – starfsmannamál -foreldrasamstarf
Í heildina litið hefur mér tekist nú þegar að koma vísi að inn í starfið þeim auknu áherslum á fjölbreytta kennsluhætti sem ég tel vænlegar til árangurs og sem ríma vel við áherslur nýrrar Aðalnámskrár. Hefðbundin skólanámskrá var ekki til í grunnskólanum, en undirbúningsvinna skólanámsskrár á því sviði er nú komin vel á veg, sem og gerð áætlana sem fylgja eiga námskránni. Skólanámskrá leikskólans var fyrir vel unnin og aðgengileg og því stóra verkefnið þar að sameina sjónarmið beggja skólastiga í faglega sameiginlega skólanámskrá.


Mér tókst að fá styrk frá Sprotasjóði Menntamálaráðuneytisins upp á 800.000,- kr. til aukinna fundahalda næsta vetur með öllum starfsmönnum sameinaðs skóla, til að samhæfa enn frekar viðhorfin milli skólastiganna með það fyrir augum að skólinn muni ná að semja og innleiða sameiginlega skólanámskrá beggja skólastiga næstu ár. Eftir mikla undirbúningsvinnu í vetur hefur verið sett fram skýr skólastefna fyrir sameinaðan skóla sem búið er að kynna öllum hlutaðeigandi, og mun verða kjölfesta í nýrri skólanámskrá.

Starfsáætlun er í endurskoðun, en í vetur hef ég sett í forgang að huga að þeim áætlunum sem varða öryggismál er snúa að börnum og starfsfólki. Heilbrigðiseftirlit hefur gert úttektir, brunavarnir verið settar í forgang og óveðursáætlun verið sett upp og þróuð. Ég hef einnig unnið að því að öryggi á skólalóð og aðkoma skólabíla að húsinu verði bætt. Búið er að útbúa öryggisáætlun eftir forskrift vinnueftirlitsins, sem einnig hefur komið og gert sína úttekt á stofnuninni.


Þær nýjungar sem ég hef sett fram varðandi það að 6 mánuði af skólaárinu fari elstu nemendur leikskólans í heimsókn í grunnskólann í prógram með leikskólakennurum sínum sem og kennurnum grunnskólans og með nemendum 1. bekkjar hefur mælst einstaklega vel fyrir og bæði kennarar og nemendur ánægðir með samstarfið. Einnig hafa elstu árgangar leikskólans verið með í viðburðum á grunnskólasviði, eins og 1. des. hátíðinni og þorrablótshátíðinni svo eitthvað sé nefnt. List- og verkgreinakennarar grunnskólans eru með það töflusett hjá sér að kenna leikskólabörnunum einu sinni í viku. Það er mjög gott fyrir leikskólabörnin að fá að kynnast og vera hluti af grunnskólaumhverfinu, bæði inni í nýja skólanum sem og í íþróttahúsinu og sundlauginni. Að auki var svo vorskóli elstu barna leikskólasviðsins eins og venjan hefur verið, þar sem leikskólabörnin fara þá með skólarútunum í skólann og heim. Það kom í ljós í vorskólanum að þessi fyrri tenging hafði skilað sér heldur betur vel til barnanna. Þegar boðið var upp á kvöldkynningu á vorskólanum voru börnin heimavön og hlupu með foreldrum sínum um allan skóla að sýna þeim skólann sinn. Þarna hefur myndast frábær samfella milli skólastigi, strax á fyrsta ári sameiningarinnar.

 


„Skólastjóri: „Hvernig gengur í vorskólanum. Er ekki gaman?“. Drengur svarar brosandi:“Við erum hvort sem er alltaf hér á fimmtudögum“.


Ég hef átt mjög góð samskipti við foreldrafélögin og fulltrúa foreldra og grenndarsamfélags í skólaráði. Bæði skólaráð grunnskóla/foreldraráð leikskóla og stjórnir foreldrafélaganna hafa tekið þá ákvörðun að sameinast, og hef ég unnið að þeirri útfærslu með þeim.


Í haust stóð ég að því í samstarfi við foreldrafélögin að fá hingað fyrirlesarann Húgó Þórisson, með það að markmiði að bæta samskipti milli allra í skólasamfélaginu. Fjöldi foreldra mættu á fyrirlesturinn sem tókst með eindæmum vel. Starfsmenn voru boðnir á fyrirlesturinn og mikill hluti þeirra mætti, auk þess sem ég gaf öllum starfsmönnum skólans bók Húgós með leiðbeiningum um jákvæð samskipti í jólagjöf frá skólanum, þar sem ég hef mikla trú á aðferðum virkrar hlustunar og hef sjálf setið námskeið og kynnt mér sérstaklega þessar aðferðir Thomasar Gordons sem kenningar Húgós byggja á. Þar sem starfsandi skiptir miklu máli hef ég brugðist við þeim starfsmannamálum sem upp hafa komið af einurð og í samráði við sérfræðinga hverju sinni. Vinnusálfræðingur hefur heimsótt starfsmannahópinn á grunnskólsviði og auk Húgós hefur Edda Björgvinsdóttir komið með öflugan fyrirlestur fyrir alla starfsmenn skólans á sameiginlegum starfsmannafundi beggja sviða, um ábyrgð hvers og eins á góðum starfsanda og húmor í vinnuumhverfinu.


Ég hef einnig bætt upplýsingaflæði innan stofnunarinnar þar sem ég sendi öllum starfsmönnum sameinaðs skóla orðsendingu í hverri viku um fréttir úr starfi liðinnar viku og áætlun fyrir næstu viku, þ.a. allir hafa aðgengi að sömu upplýsingum og geta fylgst með starfi skólans í heild. Þetta gengur undir nafninu vikupóstur og hefur mælst vel fyrir hjá starfsmönnum. Mánaðarskýrslur, sem innihalda nánari útlistun á starfi hvers mánaðar, bæði hjá leik- og grunnskólasviði, eru nú líka orðnar mjög aðgengilegar á forsíðu heimasíðu skólans. Breyting sem ég gerði á uppsetningu funda á grunnskólasviði hefur einnig skilað góðum árangri. Kennarar og almennir starfsmenn funda saman einu sinni í viku og hefur upplýsingaflæði þannig batnað og allir eru klárir á sínum hlutverkum í þeim verkefnum sem liggja fyrir í daglegu starfi skólans. Þetta hefur einnig leitt til minni stéttskiptingar innan starfshópsins og meiri skilnings á milli starfstétta, en mér skilst að hafi verið áður.


Annað mjög jákvætt verkefni sem ég hleypti af stokkunum í samstarfi við foreldrafélag grunnskólasviðsins, var forvarnarverkefnið „Hugsað um barn“ fyrir elstu nemendur skólans. Mikið ánægja hefur verið með það frumkvæði mitt meðal fulltrúa foreldra sem og nemenda þar sem umræða um verkefnið hafði verið í gangi, en það ekki komist til framkvæmdar. Viðbrögð foreldra og kennara voru með eindæmum góð og sagði umsjónaraðilinn sem kom með fyrirlestur í tengslum við verkefnið að hann hefði sjaldan séð eins góða þáttöku foreldra og starfsmanna í kringum nemendahóp í verkefninu.

Sameiningin hefur haft jákvæð áhrif á samskipti starfshópanna. Sameiginlegir starfsmannafundir hafa verið jákvæð upplifun þar sem starfsmenn hafa hlakkað til að eiga samræður við kollega sína á hinu sviðinu. Ég hef reynt að setja fundi upp sem sambland af fræðslu, spjalli og hópefli. Gagnkvæm virðing og skilningur starfshópanna fyrir störfum hinna hefur aukist frá því að ég tók viðtöl við starfsmenn síðastliðið vor, svo um munar. Það er að mínu mati ein jákvæðasta afleiðing sameiningarinnar.


Ég óska þeim sem taka við keflinu í áframhaldandi uppbyggingu faglegs skólastarfs í Hvalfjarðarsveit velfarnaðar í störfum sínum, vona að þessi greinargerð nýtist þeim í framtíðinni um leið og ég þakka þeim sem sýnt hafa mér stuðning og traust í þessari faglegu uppbyggingu. Sérstaklega þakka ég einstakt samstarf við sviðsstjóra beggja sviða í uppbyggingarferlinu og þeirra faglegu aðkomu að verkefninu. Fræðslu- og skólanefnd, sveitarstjóra og starfsmönnum skrifstofu Hvalfjarðarsveitar þakka ég gott samstarf á liðnu ári.

Með góðri kveðju,
Ingibjörg Hannesdóttir skólastjóri

 


Framhald af fundargerð er merkt b.

 

 

FUNDARGERÐ b
84. fundur fræðslu- og skólanefndar Hvalfjarðarsveitar.

Haldinn sunnudaginn 20. maí 2012 kl. 14:00 að Innrimel 3

 


Mættir:
Arna Arnórsdóttir, Birna María Antonsdóttir, Bjarni Jónsson, Hlynur Sigurbjörnsson og Valgerður Jóna Oddsdóttir sem ritar fundargerð.


Auk þeirra Ingibjrög Hannesdóttir skólastjóri, Kartrín Rós Sigvaldadóttir fulltrúi kennara grunnskólasviðs, Þórdís Þórisdóttir fulltrúi kennara leikskólasviðs, Brynjólfur Sæmundsson fulltrúi foreldra leikskólabarna og Dagný Hauksdóttir fulltrúi foreldra grunnskólabarna.

 

Fundargerð


Önnur mál:
Frá foreldrafélagi Heiðarskóla: Heiðarskóli – grunnskólasvið
Stjórn foreldrafélags Heiðarskóla lýsir yfir áhyggjum sínum á þeirri stöðu sem upp er komin í starfsmannamálum á grunnskólasviði Heiðarskóla. Þegar hluti starfsmanna lætur af störfum raskar það óhjákvæmilega skólastarfinu og getur haft neikvæð áhrif á þá þróun sem átt hefur sér stað á undangengnu skóalári. Að mati stjórnar foreldrafélagsins hafa orðið miklar og jákvæðar breytingar á faglegu starfi grunnskólasviðs og greinilegt að lagður hefur verið metnaður í alla þá vinnu. Fyrir það á starfsfólk skólans hrós skilið. Stjórn foreldrafélagsins vill sjá slíka faglega þróun halda áfram svo að skólinn okkar eflist enn frekar og verði framúrskarandi í því að mæta öllum sínum nemendum. Skólinn er mikilvægasta stofnun samfélagsins hér í Hvalfjarðarsveit og ber okkur öllum skilda til að leggja okkar að mörkum til að um hana ríki sátt. Börnin eiga rétt á að haldið sé þétt utanum málefni skólans þeirra og brugðist sé við þeim málum er upp kunna að koma og er það að okkar mati hlutverk Fræðslu- og skólanefndar og sveitarstjórnar. Við förum því fram á við þá sem þeim ábyrgðarstöðum gegna að þau tryggi að skólastarf í Hvalfjarðarsveit haldi áfram að vaxa og dafna á þeim metnaðarfulla grunni sem lagður hefur verið í vetur.


Virðingarfyllst
Dagný Hauksdóttir
Daniela Gross
Guðrún Magnúsdóttir
Sigurbjörg Kristmundsdóttir

 


Bjarni Jónsson segir sig úr fræðslu- og skólanefnd.


Ég undirritaður hef ákveðið að vel íhuguðu máli að segja starfi mínu lausu í fræðslu og skólanefnd.


Ástæður uppsagnar eru margþættar, hefur nefndin þurft að taka á mörgum erfiðum málum skólasamfélagsins og hefur það tekið sinn toll af mínum persónulegu samskiptum við vini og ættingja.


Sameining skólastiga er eitt stærsta verkefni sem þessi nefnd hefur tekist á við fyrr og síðar að mínu mati, þar finnst mér vel hafa tekist þó verkinu sé ekki lokið. Þar eru mörg spennandi tækifæri sem vonandi verða nýtt í framtíðinni.


Það að starfa í fræðslu og skólanefnd er krefjandi og oft á tíðum skemmtilegt. Þetta kjörtímabil hefur þó einkennst af erfiðuð málum sem fyrr segir og oft á tíðum óvinsælum ákvörðunum. Ég met það svo að það á ekki vel við mig að starfa í þessu umhverfi . Nefndarmönnum þakka ég gott samstarf og óska nýjum nefndarmönnum velfarnaðar í komandi málefnum.

Virðingarfyllst
Bjarni Jónsson

 


Arna Arnórsdóttir segir sig úr fræðslu- og skólanefnd.


Ég hef beðist lausnar frá störfum í Fræðslu- og skólanefnd Hvalfjarðarsveitar og sent oddvita E listans Hallfreði Vilhjálmssyni bréf þess efnis dagsett 17. maí 2012.


Sundrung, óánægja og leiðindi í Hvalfjarðarsveit eru þess valdandi að ég hef ekki lengur áhuga á að starfa fyrir sveitarfélagið í Fræðslu- og skólanefnd, þrátt fyrir mikinn áhuga og metnað skólastarfinu til handa.

Uppsögn Ingibjargar skólastjóra var dropinn sem fyllti mælinn, en atburðir og uppákomur síðustu mánaða hafa verið með eindæmum. Ég vil taka sem dæmi nafngift nýja sameinaða skólans en ferlið í kringum þá nafngift vil ég kalla skrípaleik, skrípaleik sem ég vil ekki lengur vera þátttakandi í og tel það fyrir neðan virðingu mína sem íbúi í sveitarfélaginu og leikskólakennari með metnað fyrir farsælu og faglegu skólastarfi.


Ingibjörg er stjórnandi sem hefur mikinn faglegan metnað, hún er hugmyndarík og skapandi í kennslustarfi, frumkvöðull sem kom inn með margt nýtt og spennandi og mér finnst eftirsjá af þannig skólastjóra. Hún hefur hleypt af stokkunum nýjungum í námi og kennslu sem ég hef staðfestar heimildir fyrir að foreldrar eru mjög ánægðir með.


Undir stjórn Ingibjargar og hennar frábæru sviðsstjóra, ásamt kennurum og öðru starfsfólki hefur sameining skólasviðanna tekist með miklum ágætum. Samstarf og samvinna þar á milli er til fyrirmyndar


Ég vil líka minnast á þann orðróm sem heyrst hefur um samstarfsörðuleika Ingibjargar skólastjóra við kennara skólans. Hversu margir þeir kennarar eru hef ég ekki hugmynd um og er mjög hissa á að kvörtun frá þeim hafi ekki fyrr komið inn á borð Fræðslu- og skólanefndar ef óánægjan var eins mikil og látið var í veðri vaka. Aðeins einn kennari hefur skrifað okkur bréf sem einnig var sent á alla í sveitarstjórn og sveitarstjóra.


Það er oft kalt á toppnum, starfsmenn hafa oft á tíðum sterkar skoðanir á sínum yfirmönnum og stjórnunarstíl þeirra. En allar skoðanir eiga rétt á sér og öll mál hafa tvær hliðar. Þess vegna get ég ekki sætt mig við hvernig þessi óánægja með skólastjórann hefur verið blásin út í sveitafélaginu og ég vil líkja við árás á viðkomandi persónu, sem að mínu mati hefur ekki fengið tækifæri til að bera hönd yfir höfði sér og ekki fengið þann stuðning sem hún hefði átt að hafa frá sveitarstjórn, þar hefur oft hver höndin verið uppi á móti annari.


Ég vil að lokum þakka mínu frábæra samstarfsfólki í nefndinni fyrir frábæra samvinnu sem aldrei bar skugga á. Samstaðan og sáttin sem ríkti í sameiningarferlinu er til fyrirmyndar og til eftirbreytni fyrir aðra. Pólitískur ágreiningur á að mínu mati ekki heima í nefnd sem þessari.


Virðingarfyllst,
Arna Arnórsdóttir

 


Hlynur Sigurbjörnsson segir sig úr fræðslu- og skólanefnd.


Til Fræðslu- og skólanefndar Hvalfjarðarsveitar.


Eftir 6 ára setu í Fræðslu- og skólanefnd Hvalfjarðarsveitar mun ég eftir þennan fund biðjast lausnar frá störfum í nefndinni. Ég hef íhugað málið í nokkrar vikur og tek því þessa ákvörðun að vel athuguðu máli. Ástæður hennar eru óeining og ósætti í samfélaginu um málefni skólans. Ég hef lagt mig allan fram um að vekja athygli á því jákvæða sem áunnist hefur í starfinu. Andrúmsloftið í sveitarfélaginu virðist hinsvegar
þannig að ekki er áhugi á að líta til þess heldur snýr hann að sögusögnum og neikvæðni. Að starfa í slíku umhverfi er ekki að mínu skapi.


Skólastjóri sameinaðs skóla var ráðinn á vordögum 2011. Ljóst var í upphafi að nýráðins skólastjóra beið erfitt og viðamikið verkefni. Til að takast á við slíkar breytingar og umbætur þarf allt skólasamfélagið og sveitarsjórn að vera tilbúið til samsarfs. Viljinn til þess hefur látið á sér standa og oftar en ekki hafa pólitískir flokkadrættir einkennt umræðu um málefni skólans og er það miður.


Eftir sameiningu leik- og grunnskóla Hvalfjarðarsveitar var ákveðið að finna hinum nýja sameinaða skóla nafn. Umræða og ákvörðun um nafn á skólann hefur verið með hreinum ólíkindum og gert fátt annað en að torvelda sameiningaferli skólanna. Þá gekk niðurstaða sveitarsjórnar á 126. fundi hennar þar sem samþykkt var 7-0 að yfirnafn skólans væri Heiðarskóli, grunnskólasvið Heiðarskóli og leikskólasvið Skýjaborg, þvert á umræður í sameiningaferli skólanna um að ekki skyldi halla á annan skólann við sameininguna. Með niðurstöðu sveitarstjórnar hallar klárlega á leikskólasvið. Á 83. fundi Fræðslu- og skólanefndar var samþykkt tillaga að málamiðlun í þessu nafnamáli og var fundargerðin tekin fyrir á 127. fundi sveitarstjórnar. Þar var tillögunni frestað. Það verða mikil mistök ef þessi málamiðlun verður ekki samþykkt á næsta fundi sveitarstjórnar.


Ég vil ítreka þá skoðun mína að Hvalfjarðarsveit hefur alla burði til að reka skóla eins og best gerist á landsvísu. Nú þegar eru þau mál komin á gott skrið, faglegt starf er í blóma og ég treysti því að eftirmaður minn í nefndinni haldi áfram að stuðla að uppbyggingu góðs skóla í sveitarfélaginu. Ég lít ekki á núverandi stöðu sem krísuástand heldur sem ný tækifæri fyrir nýtt fólk. Nýr skólastjóri og nýtt starfsfólk tekur við góðu búi þar sem búið er að sníða af ýmsa vankanta á skólastarfinu.


Það sem upp úr stendur er það góða samstarf sem ég hef átt við alla nefndarmenn í Fræðslu- og skólanefnd í gegnum tíðina og það ber að þakka. Nefndarmenn hafa borið gæfu til í langflestum málum að halda flokkapólitík fyrir utan starf nefndarinnar. Þá vil ég einnig þakka skólastjóra fyrir vel unnin störf síðast liðið ár. Hún hefur á þessum stutta tíma náð mörgum af þeim grundvallarmarkmiðum sem sett voru við sameiningu skólastiganna.


Með góðum vilja er hægt að byggja upp jákvæðni í garð skólastarfs í Hvalfjarðarsveit. Efniviðurinn er til staðar og sú ábyrgð hvílir á herðum sveitarstjórnarfólks og skólayfirvalda að ganga þar á undan með góðu fordæmi.

Virðingafyllst.
Hlynur Máni Sigurbjörnsson

 


Fráfarandi nefndarmönnum er þakkað fyrir mjög gott samstarf. Nefndin hefur unnið sem einn maður og mikil sátt ráðið ríkjum innan nefndarinnar. Við hörmum það að nefndarmönnum sé ekki stætt að starfa lengur í nefninni vegna utanað komandi aðstæðna. Skólastarf snýst um menntun barna og allir bera ábyrgð á að sátt ríki um skólastarfið, þ.e. foreldrar, skólafólk og samfélagið í heild.

 


Fundi slitið kl. 15:40


Arna Arnórsdóttir
Birna María Antonsdóttir
Bjarni Jónsson
Hlynur Sigurbjörnsson
Valgerður Jóna Oddsdóttir sem ritar fundargerð

Efni síðunnar