Fara í efni

Fræðslu- og skólanefnd 2009-2014

81. fundur 02. febrúar 2012 kl. 17:45 - 19:45

Birna María Antonsdóttir, Bjarni Jónsson, Hlynur Sigurbjörnsson, Valgerður Jóna Oddsdóttir og Arna Arnórsdóttir sem ritar fundargerð.


Auk þeirra Ingibjörg Hannesdóttir skólastjóri, Samúel Þorsteinsson fulltrúi kennara grunnskólasviðs, Þórdís Þórisdóttir fulltrúi kennara leikskólasviðs,

Brynjólfur Sæmundsson fulltrúi foreldra leikskólabarna og Dagný Hauksdóttir fulltrúi foreldra grunnskólabarna.


1. Setning fundar.


Formaður setur fundinn og býður fólk velkomið.


2. Fundargerð 80. fundar fræðslu- og skólanefndar dags. 12.

janúar 2012.

Formaður fer yfir fundargerð 80. fundar.

 

3. Mánaðarskýrsla skólastjóra fyrir janúar 2012.


Nýtt ár heilsaði með snjóþyngslum og óveðursköflum sem urðu til þess að leggja þurfti tvívegis niður skólastarf á grunnskólasviðinu vegna ófærðar og ekki var hægt að halda úti fullri þjónustu á leikskólasviði vegna þess að sumir starfsmenn komust ekki til vinnu vegna veðurs.
Óveður, slæm færð og mikill snjór settu líka svip sinn á starfið þar sem útivera varð af þessum sökum af skornum skammti. Þá daga sem fært var út nutu nemendur beggja sviða þó útiveru í snjónum eins og þeim einum er lagið.
Í janúar unnu nemendur á eldri deild leikskólans í orkuþema með nemendum á grunnskólasviði. Börnin skoðuðu m.a. veðurfar, mældu hitastig úti og báru saman milli daga, rannsökuðu fossa og vatn. Unnið var m.a. með aðferð könnunaraðferðarinnar og er sameiginleg sýning fyrirhuguð á ferlinu með grunnskólasviði. Ingibjörg Harpa íþróttakennari kom i heimsókn á leikskólasviðið og var með jógastund með börnunum. Tengist það auðvitað orkuþemanu þar sem slökun er nauðsynleg til að safna orku!
Hálfur starfsdagur var í byrjun janúar á leikskólasviði og var hann nýttur fyrir starfsmannafund og síðan tvö stutt námskeið, annarsvegar um
málþroska barna og hinsvegar um einhverfu og atferlismeðferð.
Hið árlega Kallakaffi í leikskólanum var að venju á bóndadaginn og buðu börn og starfsfólk pöbbum, öfum, bræðrum, frændum og vinum barnanna í kaffi og kleinur. Frábær mæting var nú sem endranær og áttum við góða stund með köllunum.
Unnið hefur verið að uppsetningu á nýrri heimasíðu Tindaskóla sem fer í loftið von bráðar. Hönnunarvinnu verður lokið nú í byrjun febrúar.
Samúel tónmenntakennari kom í heimsókn á leikskólasvið og átti samráðsfund með kennurum.
Eitt barn hóf leikskóladvöl sína í janúar í Tindaskóla og byrjaði hún á Dropanum.
Morgunsöngurinn á grunnskólasviði hefur gengið vel það sem af er og er orðinn fastur liður í skólamenningunni. Nemendur eru búnir að læra mörg lög og foreldrar hafa talað um að börnin þeirra séu farin að tralla hina ýmsu texta við eldhúsborðið! Söngnám barna í leikskólanum hefur líka tekið kipp sem sást m.a. vel á frábæru söngatriði krakkanna á kallakaffinu í janúar.
Forvarnarverkefninu „Hugsað um barn“ var hleypt af stokkunum í janúar. Unglingarnir okkar í 10 bekk komu ásamt foreldrum sínum og forráðamönnum á frábæran fyrirlestur hjá Ólafi Grétari Gunnarssyni forsvarsmanni verkefnisins. Nemendur fengu dúkkur heim yfir helgi sem þau þurfa að annast dag og nótt. Þessi reynsla þeirra mun sannarlega nýtast vel og verða uppspretta annarra verkefna og umræðna bæði í skólanum og heima. Við vonum að þetta verkefni eigi eftir að verða fastur liður í samstarfi heimila og skóla í forvarnarmálum í framtíðinni.
Fyrstu lokaskil verkefnastjóra voru nú í lok janúarmánaðar þegar verkefnastjóri þrifaskipulags skilaði lokaskýrslu sinni.
Skólastjóri og Katrín Rós fóru á frábæra ráðstefnu NORDPLUS í tengslum við þróun á nýjungum í dönskukennslu, og verið er að vinna vegna þess umsókn fyrir næsta vetur um samstarf á milli Tindaskóla og grunnskóla í Danmörku. Katrín fer svo í febrúar í undirbúningsheimsókn til Danmerkur til að hitta kennara og þróa og skipuleggja samstarfið.
Orkusparnaðarvika var í janúar á grunnskólasviðinu og spennandi að sjá útkomuna úr henni á næsta greiðsluseðli!


Í síðustu viku kom slökkiviliðsstjóri Akraness og Hvalfjarðarsveitar, Þráinn Ólafsson í heimsókn til okkar, tók út Heiðarborg, bæði íþróttahúsið og sundlaugina og setti upp áætlun með skólastjóra og sviðsstjórum um brunavarnarkynningu og rýmingaræfingar, bæði í nýju húsnæði grunnskólasviðs og svo í leikskólanum. Þráinn kom svo ásamt sínum mönnum með kynningu og kennslu í brunavörnum á starfsmannafund á grunnskólasviði miðvikudaginn 1. febrúar og svo er fyrirhuguð í framhaldinu æfð rýmingaræfing þann 15. (feb.) Óæfð rýming verður svo aftur með vorinu í nýja grunnskólahúsnæðinu. Í leikskólanum verður samsvarandi kynning og kennsla frá slökkviliðinu í brunavörnum á starfsdegi leikskólans föstudaginn 9. mars, og eftir það verður ákveðin dagsetning á rýmingaráætlun leikskólans. Skyldumæting var þessar kynningar fyrir alla starfsmenn, enda viljum við öll vera vel þjálfuð í að bregðast við komi upp neyðarástand í skólanum í tengslum við bruna og er í tengslum við stefnu skólans að láta öryggismál vera í forgangi í vetur.


4. Upplýsingar frá skólastjóra vegna þróunarverefnis skipurits.


Skólastjóri fór yfir vinnuferlið við mótun starfsheitis sviðsstjóra í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Skólastjórafélag Íslands og Félag stjórnenda í leikskólum.


5. Starfshlutfall á leikskólasviði. Erindi frá skólastjóra frá síðasta fundi.


Í lögum nr. 90/2008 og greinargerð 655/2009 segir að leikskólastjóri að höfðu samráði við sveitarstjórn eða nefnd sveitarfélagsins sem fer með málefni leikskóla í sveitarfélaginu tekur ákvörðun um fjölda barna í leikskóla hverju sinni. Fræðslu- og skólanefnd mun taka sér tíma til 1. maí n.k. til þess að taka afstöðu til erindisins og móta verklagsreglur.


6. Undanþágubeiðni á reglum leikskóla upphaflega dags. 29. nóvember.2011 ný dags. janúar 2012. Frestað frá 79. og 80. fundi.


Bókun.Fræðslu- og skólanefnd samþykkir þessa beiðni þar sem ekkert dagforeldri er starfandi í sveitarfélaginu. Vistun getur hafist í samráði við skólastjóra.


7. Dagur leikskólans 6. febrúar. Til umræðu.

Þ.Þ kynnti hvað leikskólinn mun gera í tilefni dagsins.


8. Styrkbeiðni vegna ferðar til Danmerkur. Til umræðu.


Eftir að ný sveitarstjórnarlög tóku gildi í fyrra haust þá er ekki hægt að fara fram á endurskoðun fjárhagsáætlunar eins og áður. Því er sérstakur liður innan fjárhagsáætlunar ætlaður til styrkja og óskað verður eftir umsóknum í þann lið tvisvar á ári. Þessi styrkbeiðni þarf að fá sömu meðferð hjá sveitarfélaginu og aðrar. En vegna eðli málsins mun formaður fræðslu- og skólanefndar fylgja þessu máli eftir og sjá til þess að þessi styrkbeiðni rati rétta leið.

9. Viðmiðunarreglur vegna útleigu á húsnæði skólans. Drög.


Umræður.

Fræðslu- og skólanefnd mun vinna betur í drögunum og síðan vísa þeim til umfjöllunar í sveitarstjórn.


10. Fé til forvarna.


Fræðslu- og skólanefnd óskar eftir tilfærslu milli málaflokka. Að tekið verði fé af liðnum endurskoðun skólastefnu sem nemur einum fundi og af fræðslu og skólanefnd sem nemur einum fundi alls 157.000,- til forvarnarmála.


11. Hugsað um barn. Forvarnarverkefni fyrir 10. bekk.

Fræðslu- og skólanefnd samþykkir að láta kr.61.000 af því fé sem fæst í forvarnamál í verkefnið Hugsað um barn.


12. Varðandi aðstöðu fyrir námsfólk. Erindi dags. 30. janúar 2012. Til umræðu.

Umræður.
Fræðslu- og skólanefnd vísar því til sveitarstjóra að koma með tillögur til að verða við þessu erindi til reynslu út vorönn.

Bókun:
Skólastjóri biður um að skólabyggingar verði undanskildar.

 

13. Önnur mál.


Skólastefna:


Þ.Þ var með fyrirspurn til nefndarinnar um hvernig vinna við nýja skólastefnu gangi. V.J.O. svaraði í hvaða farvegi sú vinna væri.
Nefnd um endurskoðun skólastefnu mun útbúa spurningar varðandi skólamál fyrir nemendur á grunnskólasviði og biðla til umsjónarkennara um að leggja nefndinni lið við framkvæmd þess.

Viðhorfskönnun starfsmanna:


Athugað verður með kostnað varðandi rafræna viðhorfskönnun.

 


Fundi slitið kl. 19:47


Birna María Antonsdóttir
Bjarni Jónsson
Hlynur Sigurbjörnsson
Valgerður Jóna Oddsdóttir
Arna Arnórsdóttir sem ritar fundargerð

Efni síðunnar