Fara í efni

Sveitarstjórn

298. fundur 12. desember 2019 kl. 15:15 - 16:44 í stjórnsýsluhúsinu Innrimel 3
Nefndarmenn
 • Björgvin Helgason oddviti
 • Daníel Ottesen varaoddviti
 • Guðjón Jónasson vararitari
 • Ragna Ívarsdóttir aðalmaður
 • Helga Harðardóttir aðalmaður
 • Elín Ósk Gunnarsdóttir aðalmaður
 • Helga Jóna Björgvinsdóttir 2. varamaður
Starfsmenn
 • Linda Björk Pálsdóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Linda Björk Pálsdóttir sveitarstjóri
Dagskrá

1.Sveitarstjórn - 297

1911007F

Fundargerðin framlögð.

2.Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd - 108

1910009F

Til máls tóku DO og LBP.
 • Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd - 108 Nefndin samþykkir stofnun nýrrar lóðar "Ferstikla rofastöð" úr landi Ferstiklu 2 L133170.
  Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
  "Sveitarstjórn samþykkir tillögu nefndarinnar um stofnun nýrrar lóðar "Ferstikla rofastöð" úr landi Ferstiklu 2 L133170."
  Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
 • Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd - 108 Nefndin samþykkir byggingarleyfið af framhaldi að stofnun lóðar og lóðarleigusamningi við landeigendur. Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
  "Sveitarstjórn samþykkir tillögu nefndarinnar um útgáfu byggingarleyfis í framhaldi af stofnun lóðarinnar og lóðarleigusamningi við landeigendur."
  Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

3.Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd - 109

1911011F

Fundargerðin framlögð.
DO fór yfir helstu atriði fundargerðarinnar.
 • Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd - 109 USN nefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja aðalskipulagsbreytinguna samkvæmt 2. mgr, 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
  Í aðalskipulaginu er ekki gert ráð fyrir frekari uppbyggingu á frístundarsvæðum en orðið er. Unnin hafa verið drög að flokkun landbúnaðarlands þar sem land er flokkað í fjóra flokka. Land sem breytingin tekur til er í flokki II sem telst til vera gott ræktunarland og stuðlar að nýtingu góðs landbúnðarlands.
  Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
  "Sveitarstjórn samþykkir tillögu nefndarinnar um aðalskipulagsbreytinguna samkvæmt 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
  Í aðalskipulaginu er ekki gert ráð fyrir frekari uppbyggingu á frístundarsvæðum en orðið er. Unnin hafa verið drög að flokkun landbúnaðarlands þar sem land er flokkað í fjóra flokka. Land sem breytingin tekur til er í flokki II sem telst vera gott ræktunarland og stuðlar að nýtingu góðs landbúnaðarlands."
  Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
 • Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd - 109 USN nefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja auglýsingu á deiliskipulagi fyrir Eyrarás og Eyrarskjól samkvæmt 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

  Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
  "Sveitarstjórn samþykkir tillögu nefndarinnar um auglýsingu á deiliskipulagi fyrir Eyrarás og Eyrarskjól samkvæmt 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010."
  Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
 • Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd - 109 USN nefnd leggur til við sveitarstjórn að ekki sé ástæða til að vísa framkvæmdinni í frekara mat þar sem umhverfisáhrif framkvæmdarinnar eru talin óveruleg.
  Fyrirhuguð framkvæmd er að mestu leyti með núverandi vegum, vegslóðum og legu núverandi jarðstrengs. Því sé ekki um miklar breytingar á umhverfi að ræða. Verndarsvæðum og votlendi verður hlíft að mestu leyti á þegar röskuðu landi.
  Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
  "Sveitarstjórn samþykkir tillögu nefndarinnar um að vísa framkvæmdinni ekki í frekara mat þar sem umhverfisáhrif framkvæmdarinnar eru talin óveruleg.
  Fyrirhuguð framkvæmd er að mestu leyti með núverandi vegum, vegslóðum og legu núverandi jarðstrengs. Því er ekki um miklar breytingar á umhverfi að ræða. Verndarsvæðum og votlendi verður hlíft að mestu leyti á þegar röskuðu landi."
  Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
 • Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd - 109 USN nefnd heimilar að falla frá grenndarkynningu þar sem leyfisskyld framkvæmd varðar ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og umsækjanda.
  Nefndin gerir ekki athugasemd við útgáfu á byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við sumarhús í landi Vallanesi 3.
  Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
  "Sveitarstjórn samþykkir tillögu nefndarinnar um að falla frá grenndarkynningu þar sem leyfisskyld framkvæmd varðar ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og umsækjanda.
  Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við útgáfu á byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við sumarhús í landi Vallaness 3."
  Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
 • Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd - 109 USN nefnd leggur til við sveitarstjórn að heimila afskráningu blásarahúss og súrheysþurrkun, mhl.16 á landinu Hlíðarfótur L133180. Byggingarfulltrúa er falið að vinna málið áfram. Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
  "Sveitarstjórn samþykkir tillögu nefndarinnar um að heimila afskráningu blásarahúss og súrheysþurrkunar, mhl.16 á landinu Hlíðarfótur L133180. Byggingarfulltrúa er falið að vinna málið áfram."
  Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
 • Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd - 109 USN nefnd leggur til við sveitarstjórn að heimila breytingu á notkun mannvirkis á lóðinni Stiklur 1, L178286 úr atvinnuhúsnæði í geymsluhúsnæði og að fela byggingarfulltrúa að vinna breytingarnar. Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
  "Sveitarstjórn samþykkir tillögu nefndarinnar um að heimila breytingu á notkun mannvirkis á lóðinni Stiklur 1, L178286, úr atvinnuhúsnæði í geymsluhúsnæði og felur byggingarfulltrúa að vinna breytingarnar."
  Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
 • Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd - 109 USN samþykkir byggingarleyfi fyrir vélageymslu og leggur til við sveitarstjórn að samþykkja erindið. Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
  "Sveitarstjórn samþykkir tillögu nefndarinnar um útgáfu byggingarleyfis fyrir vélageymslu að Eystri-Leirárgörðum."
  Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
 • Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd - 109 USN nefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja stofnun lóðarinnar Brekkukinn úr landi Brekku L2104079. Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
  "Sveitarstjórn samþykkir tillögu nefndarinnar um stofnun lóðarinnar Brekkukinn úr landi Brekku L2104079."
  Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
 • Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd - 109 USN nefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja stofnun lóðanna Bjarteyjarsandur 4, Fornistekkur og Vatnsból-Kúalág úr landi Bjarteyjarsands L133157. Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
  "Sveitarstjórn samþykkir tillögu nefndarinnar um stofnun lóðanna Bjarteyjarsandur 4, Fornistekkur og Vatnsból-Kúalág úr landi Bjarteyjarsands L133157."
  Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
 • 3.14 1911037 Birkihlíð 41
  Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd - 109 Fyrir liggur undirritað samþykki aðliggjandi lóðarhafa og landeiganda.
  USN nefnd gerir ekki athugasemd við útgáfu á byggingarleyfi fyrir sumarhúsi við Birkihlíð 41 í samráði við byggingarfulltrúa.
  Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
  "Sveitarstjórn samþykkir tillögu nefndarinnar um útgáfu byggingarleyfis fyrir sumarhús við Birkihlíð 41."
  Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

4.Fjölskyldu- og frístundanefnd - 13

1911009F

Fundargerðin framlögð.
HH fór yfir helstu atriði fundargerðarinnar.
 • Fjölskyldu- og frístundanefnd - 13 Nefndin ákvað að sameina jafnréttisáætlun Hvalfjarðarsveitar og jafnréttisstefnu Hvalfjarðarsveitar undir heiti hins síðarnefnda. Bæði áætlunin og stefnan voru teknar til skoðunar hjá Jafnréttisstofu og mælt var með sameiningu þeirra.

  Jafnframt verður tölfræðihluti hennar um kynjahlutföll nefndarmanna fjarlægt úr stefnunni og haft sem lifandi fylgiskjal. Er það einnig gert að tillögu Jafnréttisstofu.

  Kynjahlutföll nefndarmanna í stjórnum, ráðum og nefndum, bæði aðal- og varamanna, eru 49 karlar og 52 konur. Við skipan í stjórnir, ráð og nefndir á vegum sveitarfélagsins skal hlutfall kynjanna vera jafnt og ekki undir 40% kynjahalli.

  Nefndin gerir engar athugasemdir við stöðu mála.

  Nefndin vísar breytingunni til afgreiðslu hjá sveitarstjórn.
  Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
  "Sveitarstjórn samþykkir tillögu nefndarinnar um að sameina jafnréttisáætlun og jafnréttisstefnu Hvalfjarðarsveitar undir heitinu Jafnréttisstefna Hvalfjarðarsveitar. Jafnréttisstofa hafði áður mælt með sameiningu þeirra."
  Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

5.Menningar- og markaðsnefnd - 11

1911012F

Fundargerð framlögð.
Fundargerðin framlögð.

6.Mannvirkja- og framkvæmdanefnd - 27

1912001F

Fundargerðin framlögð.
GJ fór yfir helstu atriði fundargerðarinnar.
Til máls tóku DO og GJ.
 • Mannvirkja- og framkvæmdanefnd - 27 Mannvirkja- og framkvæmdanefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja tilfærslu á milli deilda og viðauka á deildir samkvæmt minnisbalði byggingarfulltrúa. Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
  "Sveitarstjórn samþykkir viðauka nr. 26 við fjárhagsáætlun ársins 2019 en um er að ræða tilfærslu fjármuna milli deilda í Eignasjóði og málaflokki 13 og því ekki um aukin útgjöld að ræða. Sveitarstjórn samþykkir einnig viðauka nr. 27 við fjárhagsáætlun ársins 2019 að fjárhæð kr. 5.500.000 á deildir 31021,31051,51058 og 31076, bókhaldslykil 4620 en auknum útgjöldum verður mætt með lækkun á handbæru fé."
  Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

7.Landbúnaðarnefnd - 16

1911010F

Fundargerð framlögð.
Fundargerðin framlögð.
 • Landbúnaðarnefnd - 16 Landbúnaðarnefnd leggur til við sveitarstjórn að fela skipulag- og umhverfisfulltrúa að funda með núverandi verktökum sem sinna refa- og minkaeyðingu og í framhaldi af þeim fundi að ganga til saminga við verktakana á grundvelli þeirra forsenda um fyrirkomulag sem fundurinn mun skila. Verðlaun og greiðslur til veiðimanna verði í samræmi og takt við núgildandi samninga. Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
  "Sveitarstjórn samþykkir tillögu nefndarinnar um að að fela skipulags- og umhverfisfulltrúa að funda með núverandi verktökum sem sinna refa- og minkaeyðingu og í framhaldi af þeim fundi að ganga til saminga við verktakana á grundvelli þeirra forsenda um fyrirkomulag sem fundurinn mun skila. Greiðslur til veiðimanna verði í samræmi og takt við núgildandi samninga."
  Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  Til máls tóku DO og LBP.

8.Fundir sveitarstjórnar í desember 2019.

1912005

Erindi frá oddvita.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn samþykkir að seinni fundur sveitarstjórnar sem ætti að vera 24. desember næstkomandi verði felldur niður. Næsti reglubundni fundur sveitarstjórnar verður því 14. janúar 2020."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Til máls tók RÍ.

9.Ljósleiðari - Sala á gagnaveitu

1905037

Framhald máls frá síðasta sveitarstjórnarfundi.
Það var af mikilli framsýni sem sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti á kjörtímabilinu 2010-2014 að ljósleiðarvæða sveitarfélagið og þar með að færa íbúum þau gæði sem felast í háhraðatengingu sem slík gagnaveita er. Verkefninu var lokið um mitt ár 2014 og hefur gagnaveitan því verið rekin í rúm 5 ár af Hvalfjarðarsveit. Notendur í dag eru um 240.

Lagning ljósleiðara í Hvalfjarðarsveit var framkvæmd áður en farið var að veita verulegan stuðning við slík verkefni í gegnum Póst- og fjarskiptastofnun á þeim svæðum sem einkafyrirtæki hafa ekki séð sér fært að ráðast í lagningu slíkra kerfa. Það má segja að dreifbýlissveitarfélög landsins hafi fengið það verkefni í hendur með stuðningi frá ríkissjóði að ljósleiðaravæða landsbyggðina. Metnaðarfullt verkefni sem er nú langt komið og hefur fært íbúum á landsbyggðinni mikil gæði. Sveitarfélög í landinu hafa farið ýmsar leiðir til að leysa þetta verkefni, t.d. hafa þau flest innheimt stofngjöld á bilinu kr. 100.000 - 350.000 til fjármögnunar verkefnanna. Það var ekki gert í Hvalfjarðarsveit heldur var verkið að fullu greitt úr sveitarsjóði og með verulegri lántöku. Þó ber að geta þess að leitað var eftir mögulegri aðkomu fjarskiptafélaga að framkvæmdinni en þær tilraunir skiluðu ekki árangri.

Mikið var jafnframt rætt um heppilegt eignarhald og rekstrarfyrirkomulag kerfisins en ekki var gerlegt fyrir opinberan aðila að veita fyrirtækjum í samkeppnisrekstri fjárstyrk til framkvæmda. Lokaniðurstaðan varð því að Hvalfjarðarsveit skyldi leggja og reka ljósleiðarakerfið fyrir eigið fé. Leita þurfti álits ESA á því hvort sveitarfélaginu væri heimilt að ráðast í verkefnið á skilgreindum samkeppnismarkaði og fjármagna með skattfé. Skoðun ESA var flókin og ítarleg og niðurstaða ekki ljós fyrr en árið 2015 eða ári eftir að framkvæmdinni lauk. Niðurstaðan var að markaðsbrestur væri á svæðinu, þ.e. að aðilar á samkeppnismarkaði höfðu á þessum tíma ekki áhuga á að fjárfesta í slíkri framkvæmd og því varð niðurstaða ESA jákvæð gagnvart inngripi og ákvörðun Hvalfjarðarsveitar.

Hvalfjarðarsveit ráðstafaði handbæru fé til verkefnisins og tók auk þess lán til að mæta framkvæmdakostnaði. Bókfærður stofnkostnaður við lagningu gagnaveitunnar voru rúmlega kr. 377.000.000 og var tekið lán að fjárhæð kr. 222.200.000.- til að mæta þessari miklu fjárfestingu. Á árinu 2019 voru eftirstöðvar lánsins greiddar upp og að hluta endurfjármagnað með hagkvæmara 50 milljón króna láni hjá Lánasjóði ísl. sveitarfélaga.

Á 22. fundi mannvirkja- og framkvæmdanefndar þann 27. maí sl. lagði nefndin til við sveitarstjórn að skoða sölu á ljósleiðarakerfi Hvalfjarðarsveitar.

Sveitarstjórn samþykkti samhljóða á fundi sínum þann 10. september sl. að fela sveitarstjóra að auglýsa ljósleiðarakerfi sveitarfélagsins til sölu. Gagnaveitan var síðan auglýst þann 1. nóv. sl. og voru tilboð opnuð í kerfið þann 18. nóv. sl. Alls bárust tvo tilboð, annars vegar frá Gagnaveitu Reykjavíkur að fjárhæð kr. 49.234.000.- og hins vegar frá Mílu að fjárhæð kr. 83.700.000.-

Af hverju að selja gagnaveituna ?
* Sérhæfing og sérþekking er ekki til staðar hjá Hvalfjarðarsveit til reksturs gagnaveitu.
* Með sölunni má draga úr ýmsum kostnaði vegna umsýslu og rekstur gagnaveitunnar.
* Losa fjármagn sem bundið er í veitunni og nýta til annarra mikilvægra verkefna.
* Minnka áhættu í rekstri, komi til tjóns á veitunni sem sveitarfélagið bæri kostnað af. Nýr eigandi ber alla ábyrgð á rekstri og þjónustu kerfisins við kaupin.
* Framkomið tilboð frá Mílu er um kr. 350.000.- pr. tengingu sem er með því hæsta sem boðið hefur verið í áþekk ljósleiðarakerfi.
* Tekjur af afnotagjöldum í rekstri ljósleiðarans á árinu 2018 voru kr. 6.146.019.
* Gjöld af rekstri ljósleiðarans á árinu 2018 voru samtals kr. 31.516.821.-, þ.m.t eru afskriftir og fjármagnskostnaður.

Um Mílu:
Míla mun sjá um að veita öðrum fjarskiptafyrirtækjum heildsöluaðgang að ljósleiðarakerfinu á jafnræðisgrundvelli. Míla sér þannig um allan rekstur á kerfinu og stendur straum af viðhaldi á því.
Gert er ráð fyrir að afnotagjald notenda verði í samræmi við það sem almennt gerist á Íslandi með leigugjald fyrir heimtaugar ljósleiðara á sambærilegum svæðum. Míla selur sína vöru í heildsölu til fjarskiptafyrirtækja sem selja vöruna til endanotanda og bera ábyrgð á sinni verðlagningu.
Míla er í dag skilgreint með umtalsverðan markaðsstyrk á sínum mörkuðum á landsvísu en landið er skilgreint sem einn markaður. Þetta felur í sér að Míla ber ýmsar kvaðir varðandi þjónustu og verð. Það er Póst- og fjarskiptastofnun sem setur reglurnar skv. fjarskiptalögum og byggir það á evrópsku regluverki.
Míla ber alþjónustukvöð sem felur í sér að fyrirtækinu ber að tengja öll heimili með þráðbundinni tengingu og að allir fái sömu vöru á sama verði og sömu þjónustu. Verðkvöð er jafnframt á flestu nema ljósheimtaugum (kostnaðargreint jafnaðarverð).
Heimtaugagjald í dreifbýli er allsstaðar það sama hjá Mílu eða kr. 2.300 án virðisaukaskatts.

Að lokum:
Fjarskiptafélag sem er þegar með í rekstri sínum ljósleiðarakerfi og skyldan búnað, hlýtur alltaf að vera betur fallið til þess að reka slík kerfi heldur en sveitarfélag. Hjá fjarskiptafélögum er reynslan fyrir hendi og einnig hafa slík félög samninga við verktaka til þess að sinna viðgerðum og þjónustu. Ef horft er til fjárhags- og rekstrarlegra forsendna sveitafélagsins virðist hagkvæmara og áhættuminna að semja við fjarskiptafélag um rekstur og eignarhald en að sveitafélagið eigi og reki kerfið á eigin ábyrgð. Gera má ráð fyrir neikvæðri rekstrarafkomu sjálfstæðs fjarskiptafélags í eigu sveitarfélagsins af þeirri stærð sem um ræðir, sem getur orsakað að greiða þurfi með rekstrinum. Ef horft er til framtíðar varðandi viðbætur við kerfið og viðhald þá eru stærri fjarskiptafélög í mun betri aðstöðu til að sinna slíkum verkefnum en minni sveitarfélög.

Á fundi sveitarstjórnar þann 10. sept. sl. samþykkti sveitarstjórn samhljóða að fela sveitarstjóra að auglýsa gagnaveitukerfi sveitarfélagsins til sölu. Gagnaveitan var síðan auglýst þann 1. nóv. sl. og tilboð í kerfið voru opnuð þann 18. nóv. sl.
Alls bárust tvo tilboð í gagnaveituna, annars vegar frá Gagnaveitu Reykjavíkur að fjárhæð kr. 49.234.000.- og hins vegar frá Mílu að fjárhæð kr. 83.700.000.-

Ragna Ívarsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun:
"Miðað við gefnar forsendur geta undirritaðar ekki samþykkt sölu ljósleiðarakerfis í eigu Hvalfjarðarsveitar.
Íbúalistinn hefur lagt mikla áherslu á aukið íbúalýðræði og telur ákvörðun sem þessa eiga fullt erindi í íbúakosningu, enda er um að ræða eina af stærstu eignum sveitarfélagsins.
Ragna Ívarsdóttir
Elín Ósk Gunnarsdóttir"

Elín Ósk Gunnarsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun:
"Ég vil byrja á því að segja að ég harma það að mín tillaga hafi ekki fengið hljómgrunn um að setja með bréfinu upplýsingar hvernig hægt væri að hafa samband við oddvita/sveitastjóra til að taka samtal um þetta mál.
Ég vil nota tækifærið og útskýra mitt atkvæði, afhverju ég kýs að hafna sölu á ljósleiðara að þessu sinni.
Ég er hér í umboði íbúalistans, rauði þráðurinn í gegnum samtal og sannfæringu fólksins á bak við listann var aukið íbúalýðræði sem í þessu máli hefur raunin ekki verið. Svo það sé alveg á hreinu þá er ég fylgjandi sölu á ljósleiðarakerfi en það þarf að taka samtalið við íbúa.
Ég átta mig á því að á síðasta fundi óskaði ég ekki eftir íbúafundi vegna þessa, en miðað við það sem kom fram á síðasta fundi þá þarf ekki að flýta þessa sölu í gegn og sé ég ekkert að því að fresta ákvörðun í þessu máli, kalla til íbúafundar/kosningar um þetta mál.
Undirrituð leggur til að málinu verði frestað og haldinn verði íbúafundur um þetta mál.
Elín Ósk Gunnarsdóttir"

Tillaga um að fresta afgreiðslu málsins borin undir atkvæði og hún felld með 5 atkvæðum, BH, DO, HH, GJ og HJB, 2 atkvæði greidd með tillögunni.


Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn samþykkir að taka tilboði Mílu að fjárhæð kr. 83.700.000.- í ljósleiðarakerfi í eigu Hvalfjarðarsveitar. Jafnframt samþykkir sveitarstjórn að fela sveitarstjóra að ganga frá samningi við Mílu um söluna á grundvelli áður samþykktra útboðsgagna um sölu ljósleiðarakerfisins."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 5 atkvæðum, RÍ og EÓG voru á móti.

Til máls tóku RÍ, GJ, EÓG, DO og HH.

10.Staðarhöfði

1911015

Framhald máls frá síðasta sveitarstjórnarfundi.
Sveitarstjórn samþykkti á fundi þann 26. nóv sl. að hafna tilboðum frá landeigendum Miðhúsa og Heyness í land Staðarhöfða þar sem þau voru jafnhá að fjárhæð kr 5.500.000.- Jafnframt samþykkti sveitarstjórn að fela sveitarstjóra að bjóða landeigendum Miðhúsa og Heyness að gera að nýju tilboð í Staðarhöfða.
Líkt og áður hefur komið fram telur sveitarstjórn ekki fært að fara með landið í opið söluferli þar sem engin trygg aðkoma er að landinu nema í gegnum lönd annarra.

Framlögð eru á fundinum óopnuð umslög með tilboðum í land Staðarhöfða.

Jafnframt er framlagt erindi frá Birni Þorra Viktorssyni lögfræðistofunni Lögmenn Laugardal ehf. þar sem gerð er athugasemd við sölumeðferð eignarinnar ásamt kauptilboði f.h. Daníels Daníelssonar í land Staðarhöfða.

Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn samþykkir að fresta afgreiðslu málsins."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Til máls tóku RÍ, GJ, DO og HH.

11.Tillögur um viðauka nr. 23-25 við fjárhagsáætlun 2019.

1912008

Viðaukar við fjárhagsáætlun 2019.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn samþykkir viðauka nr. 23 við fjárhagsáætlun ársins 2019 en um tilfærslu fjármuna milli deilda er að ræða og því ekki um aukin útgjöld að ræða. Sveitarstjórn samþykkir einnig viðauka nr. 24 við fjárhagsáætlun ársins 2019 að fjárhæð kr. 2.660.000 á deild 09007, skiptist á nokkra lykla skv. yfirliti en auknum útgjöldum verður mætt með lækkun á handbæru fé. Sveitarstjórn samþykkir jafnframt viðauka nr. 25 að fjárhæð kr. 510.000 á deild 21041, lykil 4960 en auknum útgjöldum verður mætt með lækkun á handbæru fé".
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

12.Beiðni um áframhaldandi afnot af skrifstofuherbergi í Stjórnsýsluhúsi.

1912007

Erindi frá Minningarsjóði Einars Darra.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn samþykkir að styðja við Minningarsjóð Einars Darra með endurgjaldslausum afnotum af skrifstofuherbergi að Innrimel 3 út árið 2020."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

13.Beiðni um afnot af Fannahlíð án endurgjalds vegna jólafundar.

1912010

Erindi frá Kvenfélaginu Lilju.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn samþykkir að Kvenfélagið Lilja fái endurgjaldslaus afnot af félagsheimilinu Fannahlíð til að halda Jólafund kvenfélagsins í desember 2019."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 6 atkvæðum.

Ragna Ívarsdóttir vék af fundi undir umræðu og afgreiðslu málsins.

14.Afskriftabeiðni.

1911050

Erindi frá Sýslumanninum á Vesturlandi.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn samþykkir afskriftir krafna að fjárhæð kr. 1.708.641.- auk áfallins kostnaðar, þar sem kröfurnar eru fyrndar og innheimta hefur reynst árangurslaus."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

15.Fjárhagsáætlun Höfða hjúkrunar- og dvalarheimilis 2020-2023, ásamt greinargerð.

1910070

Erindi frá framkvæmdastjóra.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir fjárhagsáætlun Höfða hjúkrunar- og dvalarheimilis 2020-2023."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

16.Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og sveitarstjórnarlögum (forsendur úthlutana úr Jöfnunarsjóði), 391. mál.

1912001

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og sveitarstjórnarlögum (forsendur úthlutana úr Jöfnunarsjóði).
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir að senda inn athugasemdir við frumvarpið sameiginlega með Ásahreppi, Fljótsdalshreppi, Grímsnes- og Grafningshreppi og Skorradalshreppi. Umsögnin verður unnin af Óskari Sigurðssyni hjá LEX lögmannsstofu sem jafnframt mun senda athugasemdirnar inn sameiginlega f.h. sveitarfélaganna fimm."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

17.Viðbótarframlag vegna skólaaksturs 2019.

1911047

Bréf frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Erindið framlagt.

18.Ályktun Öldungaráðs Akraneskaupstaðar vegna málefna Höfða hjúkrunar- og dvalarheimilis.

1911046

Afrit af bréfi Öldungaráðs til heilbrigðisráðherra.
Erindið framlagt.

19.Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125-1999 (öldungaráð), 383. mál.

1912004

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999 (öldungaráð).
Erindið framlagt.

20.876. fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

1912006

Fundargerð.
Fundargerðin framlögð.

21.186. fundargerð Faxafóahafna sf.

1912009

Fundargerð.
Fundargerðin framlögð.

Fundi slitið - kl. 16:44.

Efni síðunnar