Fara í efni

Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd

9. fundur 16. nóvember 2022 kl. 15:30 - 18:00 í stjórnsýsluhúsinu Innrimel 3
Nefndarmenn
  • Sæmundur Víglundsson formaður
  • Ása Hólmarsdóttir varaformaður
  • Helga Harðardóttir ritari
  • Ómar Örn Kristófersson aðalmaður
  • Svenja Neele Verena Auhage aðalmaður
Starfsmenn
  • Jökull Helgason embættismaður
  • Arnheiður Hjörleifsdóttir embættismaður
Fundargerð ritaði: Jökull Helgason Skipulagsfulltrúi
Dagskrá

1.Nýtnivikan 2022 - sóun er ekki lengur í tísku!

2211020

Evrópska nýtnivikan verður haldin 19. - 27. nóvember n.k. og er markmið vikunnar að hvetja til aukinnar nýtni og draga úr myndun úrgangs. Þema vikunnar í ár eru föt og annar textíll undir slagorðinu "Sóun er ekki lengur í tísku".
Í tilefni Nýtnivikunnar eru sveitarfélög, fyrirtæki, stofnanir, skólar og almenningur hvött til þess að fræðast um umhverfisáhrif textíls og leggja sitt af mörkum til að skapa hringrásarhagkerfi textíls í samfélaginu.
Lagt fram til kynningar.
Vakin hefur verið athygli á nýtnivikunni á heimasíðu Hvalfjarðarsveitar.

2.Úrgangsmál í Hvalfjarðarsveit

2210038

Endurskoðuð samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Hvalfjarðarsveit ásamt forsendum fyrir nýja gjaldskrá fyrir úrgangshirðu og urðun úrgangs í Hvalfjarðarsveit.
Umhverfisfulltrúi fór yfir það helsta sem tengist þeirri vinnu sem fram hefur farið undanfarnar vikur og greindi m.a. frá:
- Ráðstefnu um úrgangsmál á vegum SSV og fram fór mánudaginn 14. nóvember sl.
- Helstu forsendum við uppreiknaða gjaldskrá fyrir úrgangshirðu og urðun úrgangs í Hvalfjarðarsveit.
- Tilboði frá Íslenska Gámafélaginu í viðbótartunnur fyrir heimili í sveitarfélaginu ásamt kynningarefni í tengslum við breytta úrgangsstjórnun í samræmi við lagabreytingar sem taka gildi um næstu áramót.
- Samstarfi sveitarfélaga og Sambandi íslenskra sveitarfélaga í málaflokknum.
- Drögum að samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Hvalfjarðarsveit.

USNL-nefnd hefur farið yfir þau gögn sem borist hafa í tengslum við breytta úrgangsstjórnun og þær lagabreytingar sem taka gildi um næstu áramót. Framundan er enn frekari vinna og samstarf sveitarfélaga í tengslum við þessar breytingar og nýjar upplýsingar berast reglulega.
USNL-nefnd vísar drögum að nýrri samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Hvalfjarðarsveit til sveitarstjórnar ásamt þeim forsendum sem nefndin hefur tekið saman í tengslum við breytingarnar og uppfærða gjaldskrá í tengslum við breytta úrgangshirðu í sveitarfélaginu.

3.Óskað eftir sveitarfélögum til þátttöku við að þróa aðlögunaraðgerðir

2211021

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofu Íslands, Byggðastofnun og Skipulagsstofnun óska eftir þátttöku nokkurra sveitarfélaga við að móta aðferðafræði fyrir sveitarfélög til þess að bregðast við afleiðingum loftslagsbreytinga. Vinnan felur m.a. í sér greiningar á áhættu og aðlögunarhæfni sveitarfélaganna sem um ræðir, hvar aðlögunar er þörf og hvernig henni er best háttað.
Lagt fram til kynningar.

4.Tilnefning fulltrúa í vatnasvæðanefnd í samræmi við lög nr. 36-2011 og reglugerð nr. 935-2011 um stjórn vatnamála.

2211013

Erindi dags. 07.11.2022 frá Umhverfisstofnun.
Ósk um tilnefningu fulltrúa í vatnasvæðanefnd í samræmi við lög nr. 36 frá 2011 og reglugerð nr. 935 frá 2011 um stjórn vatnamála.
Samþykkt að tilnefna Ásu Hólmarsdóttur sem fulltrúa sveitarfélagsins í vatnasvæðanefnd.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar.

5.Lækkun á hámarkshraða við gatnamót Hringvegar 1 og Grundatangavegar

2211019

Erindi dags. 03.11.2022 frá Vegagerðinni, þar sem tilkynnt er um að með tilliti til umferðaröryggis verði hámarkshraði lækkaður við gatnamót Hringvegar (1) og Grundatangavegar (506) úr 90 km/klst. í 70 km/klst. Um er að ræða um 700 metra kafla við afleggjarann að Grundartanga.
Lagt fram til kynningar.
Samþykkt að fela skipulagssviði að óska eftir skoðun Vegagerðarinnar á því hvort þörf sé á framkvæmdum í tengslum við bætt umferðaröryggi og lækkun umferðarhraða við gatnamót þjóðvegar 1 við Melahverfi í Hvalfjarðarsveit.

6.Vatnaskógur-Br.-deiliskipulagi

1909045

Sveitarfélagið sendi Skipulagsstofnun deiliskipulag Vatnaskógar til yfirferðar skv. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga þar sem stofnunin fór yfir málsmeðferð sveitarfélagsins og skipulagsgögnin sjálf.
Skipulagsstofnun hefur lokið yfirferð sinni og sent sveitarfélaginu bréf þar sem gerð er athugasemd við að sveitarstjórn staðfesti deiliskipulagið með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.
Ástæðan er sú að fyrirhuguð bygging matskála uppfyllir ekki ákvæði 5.3.2.14 greinar skipulagsreglugerrðar nr. 90/2014, en þar segir:

5.3.2.14. gr.
Skipulag við vötn, ár og sjó.
"Í þéttbýli skal lögð áhersla á að almenningur geti komist að og meðfram vötnum, ám og sjó eftir því sem hægt er á viðkomandi svæði.
Við afmörkun lóða á svæðum utan þéttbýlis skal þess gætt að rými sé fyrir aðkomu að og meðfram vötnum, ám og sjó.
Utan þéttbýlis skal ekki reisa mannvirki nær vötnum, ám eða sjó en 50 m."

Skv. bréfi Skipulagsstofnunar þarf sveitarstjórn að taka afstöðu til hvort aflað verði undanþágu ráðherra vegna fjarlægðar fyrirhugaðs matskála frá vatni.
Í bókun sveitarstjórnar þarf að rökstyðja og gera grein fyrir málinu vegna slíkrar undanþágubeiðnar.

Þann 8. ágúst sl., ræddi Skipulagsfulltrúi Hvalfjarðarsveitar við fulltrúa Vatnaskógs um fjarlægð fyrirhugaðs matskála frá vatni.

Í gildandi deiliskipulagi fyrir Vatnaskóg, frá árinu 2008 kemur eftirfarandi fram, með tilvísun í skipulagsreglugerð:
"Ef byggt er nær vatni og ám en 50 metra kallar slíkt á undanþágu umhverfisráðherra frá ákvæðum skipulagsreglugerðar nr. 400/1998."
Núverandi matskáli í Vatnaskógi var tekinn í notkun árið 1968. Húsið var byggt fyrir sumarstarfsemi og hentar ekki vel til vetrarnotkunar. Þörf er á stærri og rúmbetri matsal og fleiri snyrtingum til að tryggja aðgengi allra. Eldhúshúsið uppfyllir ekki nútíma kröfur með tilliti til vinnuaðstöðu og hefur Heilbrigðiseftirlit Vesturlands gert athugasemdir þar um. Einnig vantar geymslurými tengt eldhúsinu.

Í ljósi m.a. þessa, leitaði forsvarsfólk Vatnsskógar til Guðmundar Gunnlaugssonar arkitekts hjá Archus og var hann beðinn að hanna endurbætur á núverandi matskála.
Í kjölfarið voru gerðar tillögur að endurbótum núverandi matskála en niðurstaða arkitektsins var að heppilegra væri að byggja nýtt hús m.a. til að mæta áðurnefndum þörfum.
Eftir að hafa skoðað málið betur var það niðurstaða Skógarmanna KFUM að fylgja ráðum arkitektsins og var hann fenginn til þess að hanna nýjan matskála á nýjum stað.

Arkitektinn staðsetti húsið til móts við núverandi matskála og eru helstu rök hans og Skógarmanna KFUM fyrir staðsetningu hússins eftirfarandi:
1) Frábært útsýni yrði úr matsal yfir Eyrarvatn og til Skarðsheiðarinnar og fyrir sunnan nýjan matskála mun myndast sólríkt svæði í skjóli fyrir ríkjandi vindátt á staðnum.
2) Húsið yrði í línu við „Gamla skála“, elsta hús staðarins og „andlit“ hans. Staðsetning hússins tengir vel saman starfsemi beggja vegna þess.
3) Anddyri nýja hússins bæri svip af anddyri Gamla skála og þannig munu húsin „tengjast“.
4) Nýr matskáli yrði miðpunktur staðarins eins og núverandi matskáli er nú, þar sem auðvelt verður að tryggja aðgengi allra að húsinu á þessum stað.
5) Staðsetning hússins er innan Lindarrjóðurs, þess hluta Vatnaskógar sem KFUM fékk afhent á sínum tíma.
6) Hægt yrði að ljúka við byggingu nýs matskála án þess að skerða starfsemi núverandi matskála og vinna við byggingu hússins á þessum stað myndi hafa í för með sér lágmarks truflun á annarri starfsemi á staðnum.
7) Vörumóttaka nýs matskála yrði staðsett þannig að flutningabílar ækju styttri leið um hlað staðarins.
8) Húsið yrði vel staðsett m.t.t. brunahættu vegna skógarelda og aðkoma neyðarbíla að húsinu yrði tryggð úr tveimur áttum.
9) Hægt verður að tengja húsið núverandi fráveitukerfi staðarins.
10) Staðsetning hússins mun falla vel að því sem þegar hefur verið gert varðandi endanlegan yfirborðsfrágang á hlaði og stígum.

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd telur að sérstakar aðstæður séu fyrir hendi varðandi staðsetningu hússins í Vatnaskógi meðal annars með tilliti til eldvarna-, öryggis- og aðgengismála, auk þess sem fleiri eldri byggingar á svæðinu séu nær vatnsbakka en 50 metrar. Í ljósi þess samþykkir nefndin að óska eftir undanþágu Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra vegna staðsetningar hússins skv. tillögu að deiliskipulagi svæðisins þar sem fyrirhuguð bygging matskála uppfyllir ekki ákvæði 5.3.2.14 greinar skipulagsreglugerrðar nr. 90/2014.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

7.Deiliskipulagsbreyting-Vestri Leirárgarðar.

2102006

USNL-nefnd fjallaði um tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Vestri-Leirárgarða á fundi sínum þann 19.10.2022.
Sveitarstjórn fjallaði um málið á fundi sínum þann 26.10.2022.
Með tölvupósti til Skipulagsfulltrúa dags. 31.10.2022, upplýsir Magnús Hannesson á Eystri-Leirárgörðum um að mörk deiliskipulags fyrir Vestri-Leirárgarða, nái inn fyrir landamerki Eystri-Leirárgarða.
Í ljósi þessara upplýsinga óska landeigendur eftir breytingu á deiliskipulagi fyrir Vestri-Leirárgarða.

Með erindinu fylgdi uppdráttur af breytingu deiliskipulagsins frá Jóni Stefáni Einarssyni hjá JeES arkitektum.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir fyrir sitt leyti að auglýsa breytingu á deiliskipulagi fyrir Vestri-Leirárgarða skv. fyrirliggjandi tillögu, skv. 1. mgr. 43. greinar skipulagslaga nr. 123/2010.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

8.Eyrarás, umsókn um stofnun lögbýlis úr landi Eyrar

2203057

Erindi dags. 8.11.2022 frá Foss lögmönnum f.h. Jóns Þórarins Eggertssonar og Hjördísar Benediktsdóttur.
Með erindinu fylgdi ósk um umsögn vegna stofnunar lögbýlis fyrir Eyrarás, landeignanúmer L208936, úr landi Eyrar í Svínadal.
Skv. erindinu er fyrirhuguð starfsemi á lögbýlinu hrossarækt og skógrækt og fram kemur að landið sé vel gróið og ákjósanlegt fyrir þá starfsemi.
Í Eyrarsási hefur verið reist einbýlishús, alls 166,2m2 að stærð en jafnframt er þar byggingarreitur fyrir skemmu.
Í gildi er deiliskipulag frá árinu 2021 en stærð skipulagssvæðisins er 26,3 ha.
Fyrir liggur jákvæð umsögn ráðunautar hjá Búnaðarsamtökum Vesturlands um stofnun lögbýlisins.

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir fyrir sitt leyti að gefa jákvæða umsögn um stofnun lögbýlis að Eyrarási úr landi Eyrar í Svínadal, landeignanúmer 208936 sbr. 17. gr. jarðalaga nr. 81/2004.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

9.Aðalskipulag-endurskoðun-2020-2032

1901286

Lagðar fram tillögur að svörum til þeirra sem gerðu umsagnir og athugasemdir við auglýsta tillögu að aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar og landbúnaðarnefnd fór yfir tillgögur að svörum til þeirra sem gerðu ábendingar og athugasemdir við auglýsta tillögu að aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 sbr. ákvæði 1. mgr. 32. greinar skipulagslaga nr. 123/2010.
Endanlegri afgreiðslu frestað til næsta fundar.



10.Breyting á starfsleyfi fyrir Al Álvinnslu

2207028

Tilkynning frá Umhverfisstofnun - til kynningar.
Umhverfisstofnun hefur tekið ákvörðun um breytingu á starfsleyfi Als Álvinnslu ehf. á Grundartanga. Stofnunin hefur birt ákvörðun sína á heimasíðu sinni, www.ust.is.
Ákvörðun Umhverfisstofnunar er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála innan eins mánaðar frá birtingu ákvörðunar Umhverfisstofnunar.
Lagt fram til kynningar.
Arnheiður Hjörleifsdóttir, umhverfisfulltrúi sat fundinn undir liðum 1,2,3,4 og 10.

Fundi slitið - kl. 18:00.

Efni síðunnar