Fara í efni

Sveitarstjórn

316. fundur 27. október 2020 kl. 15:00 - 15:45 í stjórnsýsluhúsinu Innrimel 3
Nefndarmenn
  • Björgvin Helgason oddviti
  • Daníel A. Ottesen varaoddviti
  • Brynja Þorbjörnsdóttir ritari
  • Guðjón Jónasson vararitari
  • Ragna Ívarsdóttir aðalmaður
  • Helga Harðardóttir aðalmaður
  • Elín Ósk Gunnarsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Linda Björk Pálsdóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Linda Björk Pálsdóttir sveitarstjóri
Dagskrá
Björgvin Helgason,oddviti, bauð fundarmenn velkomna og setti fund skv. fyrirliggjandi dagskrá.

Ragna Ívarsdóttir sat fundinn í gegnum fjarfundabúnað, Teams.

1.Sveitarstjórn - 315

2010003F

Fundargerðin framlögð.

2.Menningar- og markaðsnefnd - 18

2010005F

Fundargerðin framlögð.

BÞ fór yfir helstu atriði fundarins.

3.Fræðslunefnd - 22

2010004F

Fundargerðin framlögð.

EÓG fór yfir helstu atriði fundarins.
  • Fræðslunefnd - 22 Erindi foreldrafélagsins er tvíþætt. Annarsvegar er spurt um tímabundið verkefni um gæslu í Akranesrútunni á heimleið, hver sé staðan á því. Hinsvegar er leitað eftir
    upplýsingum um hvort starfandi væri þroskaþjálfi í sveitarfélaginu vegna þjónustu við fötluð börn. Skv. 26. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir ber sveitarfélaginu að hafa þroskaþjálfa í sveitarfélaginu. Hvort starfandi sé þroskaþjálfi í skólunum og hvort það sé ætlun sveitarfélagsins að ráða slíkan aðila?

    Skólaakstur:
    Í 5.gr. reglna um skólaakstur í grunnskóla Hvalfjarðarsveitar sem samþykktar voru í sveitarstjórn 24. september 2019 kemur eftirfarandi fram: Skólastjóri í samráði við fræðslunefnd metur hvort þörf sé á gæslumanni í skólabifreið með fleiri en 25 nemendum með hliðsjón af öryggi, aldri nemenda og samsetningu nemendahópsins sem ferðast með biðfreiðinni, vegalengd og öðrum aðstæðum. Það er því ekki um tímabundið verkefni að ræða heldur hefur skólastjóri heimild til að útvega gæslumann í Akranesrútuna á heimleið ef hann metur þörf á slíku, í samráði við fræðslunefnd.

    Starfandi þroskaþjálfi í sveitarfélaginu:
    Fræðslunefnd gerir tillögu til sveitarstjórnar um kennslustundaúthlutun fyrir hvert skólaár. Það er í höndum skólastjóra hvernig hann velur að manna stöður í skólanum samkvæmt þeirri úthlutun. Ef hann metur að þörf sé á þroskaþjálfa við skólann þá hefur hann heimild til að ráða slíkann innan þess ramma sem honum er úthlutaður. Við skólann er starfandi fagaðili sem lýkur þroskaþjálfanámi vor 2021.

    Fræðslunefnd getur ekki svarað fyrir áform sveitarfélagsins um ráðningu þroskaþjálfa til að starfa að verkefnum er falla undir Lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfi nr.38/2018 og bendir foreldrafélaginu á að beina þeirri spurningu til fjölskyldunefndar.

    Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
    "Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir að vísa erindinu til fjölskyldu- og frístundanefndar en vill um leið árétta að sveitarfélagið tók yfir málefni fatlaðra þann 1. október sl. og er yfirfærslu verkefna vegna þess ekki lokið og stendur sú vinna yfir og mun væntanlega gera það þetta ár. Umræða um ráðningu þroskaþjálfa er á þann veg að skoða kosti þess að samnýta hana með leik- og grunnskóla sveitarfélagsins en þangað til verði lausnin að nýta verktakaþjónustu."
    Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Fræðslunefnd - 22 Í samræmi við Reglur Hvalfjarðarsveitar um kostnaðarþátttöku og leikskóladvöl barna utan lögheimilissveitarfélags leggur fræðslunefnd til við sveitarstjórn að samþykkja leikskóladvöl barns til þriggja mánaða. Umsókn uppfyllir skilyrði um samþykkta kostnaðarþátttöku lögheimilissveitarfélags og núverandi aðstæður í leikskólanum leyfa tímabundna fjölgum barna. Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
    "Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir tillögu nefndarinnar."
    Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

4.Fjárhagsáætlun 2021 - 2024.

2009009

Fyrri umræða.
Sveitarstjóri fór yfir og kynnti forsendur fjárhagsáætlunarinnar.

Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir eftirfarandi álagningu gjalda á árinu 2021:
Álagning útsvars verði 13,69%
Álagning fasteignaskatts verði:
A-flokkur 0,40% af fasteignamati.
B-flokkur 1,32% af fasteignamati.
C-flokkur 1,65% af fasteignamati.
Þá samþykkir sveitarstjórn að vísa fjárhagsáætlun 2021-2024 til síðari umræðu í sveitarstjórn."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Til máls tóku LBP, DO og GJ.

5.Barnaverndarnefnd Borgarfjarðar og Dala-beiðni um inngöngu.

2010057

Erindi til Borgarbyggðar.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar staðfestir beiðni til Borgarbyggðar um inngöngu Hvalfjarðarsveitar í Barnaverndarnefnd Borgarfjarðar og Dala."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Hvalfjarðarsveit hefur óskað eftir inngöngu í barnaverndarnefnd Borgarfjarðar og Dala að nýju og hefur byggðarráð Borgarbyggðar tekið jákvætt í beiðnina og falið velferðarnefnd að vinna nánar að aðkomu Hvalfjarðarsveitar að nefndinni og vísa til umsagnar í Barnaverndarnefnd.

6.Lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga.

2010077

Uppgreiðsluverðmæti.
Hvalfjarðarsveit er með tvö lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga samtals að fjárhæð tæpar 62,2mkr., bæði lánin eru verðtryggð. Uppgreiðsluverðmæti lánanna með uppgreiðsluálagi er um 67mkr. þann 22. október 2020.

Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir að greiða upp bæði lán sveitarfélagsins hjá Lánasjóði sveitarfélaga og felur sveitarstjóra að ganga frá uppgreiðslu þeirra."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Til máls tók DO.

7.Tillaga til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar frá fulltrúum Íbúalistans.

2010076

Erindi frá Íbúalistanum.
"Við undirritaðar leggjum til við sveitarstjórn eftirfarandi tillögur sem hluta af markaðs- og kynningarátaki Hvalfjarðarsveitar með það að markmiði að laða að nýja íbúa.

Lagður verði þungi í að deiliskipuleggja það land sem sveitarfélagið á við Melahverfi í Hvalfjarðarsveit með það að markmiði að fjölga byggingarlóðum sem hraðast.

Við kaup á lóðum í eigu Hvalfjarðarsveitar greiði kaupandi 50% við undirritun kaupsamnings og 50% þegar byggingarstigi 4 er náð samkvæmt ÍST 5 Byggingastig húsa, þó eigi síðar en 8 mánuðum frá undirritun kaupsamnings.

Hafist verði handa við þarfagreiningu vegna innviðauppbyggingar í Hvalfjarðarveit samhliða væntanlegri íbúafjölgun næstu ára.

Unnið skal markvist að því að Hvalfjarðarsveit verði vinsæll áfangastaður ferðamanna og eftirsóknarverður til búsetu. Unnin skal stefnumótandi áætlun þar sem sett er fram framtíðarsýn og skýr markmið til að árangur náist.

Ragna Ívarsdóttir og Elín Ósk Gunnarsdóttir"

Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir að vísa tillögunum til umfjöllunar í umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd, mannvirkja- og framkvæmdanefnd og menningar- og markaðsnefnd."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Til máls tók RÍ.

8.Rekstur sundlaugarinnar að Hlöðum sumarið 2021.

2009015

Samningsdrög 2021-2023 ásamt rekstaryfirliti og gestakomum árið 2020.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar lýsir yfir ánægju sinni með að núverandi rekstraraðili vilji gera samning til næstu þriggja ára enda hefur samstarfið og reksturinn verið til fyrirmyndar undanfarin tvö ár. Sveitarstjórn samþykkir framlögð drög að verksamningi og felur sveitarstjóra að ganga til samninga við Aldísi Ýr Ólafsdóttur um umsjón og rekstur sundlaugarinnar að Hlöðum fyrir árin 2021-2023."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

9.Ljósleiðari

2005008

Fyrirhuguð íbúakosning um sölu á ljósleiðarakerfi Hvalfjarðarsveitar.
Á 306. sveitarstjórnarfundi þann 12. maí sl. samþykkti sveitarstjórn að fresta almennri íbúakosningu um sölu á ljósleiðarakerfi Hvalfjarðarsveitar þar til mál myndu skýrast frekar hvort hæstbjóðandi stæði við tilboð sitt í kerfið. Aðdragandinn var erindi frá Mílu í kjölfar greiningar Póst- og fjarskiptastofnunar sem orsakaði breytta stöðu Mílu um kaup á kerfinu en taldi fyrirtækið þó rétt að halda málinu opnu. Þar sem endanleg greining frá Póst og fjarskiptastofnun liggur ekki fyrir og óvíst er hvenær svo muni vera er ljóst að staða Mílu er óbreytt. Sbr. 108.gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 skal sveitarstjórn verða við ósk um almenna atkvæðagreiðslu eigi síðar en innan árs frá því að slík ósk berst. Ósk um almenna atkvæðagreiðslu barst 16. desember 2019 og ætti kosning því að fara fram fyrir 16. desember nk.

Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir að ekki verði boðað til íbúakosningar að sinni þar sem óbreytt staða er uppi og alveg óvíst hver niðurstaðan verði. Sveitarstjórn samþykkir jafnframt að komi til sölu ljósleiðarakerfisins muni sveitarstjórn láta fara fram íbúakosningu áður en gengið verði frá sölunni."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Til máls tók RÍ.

10.Fundarboð XXXV. landsþings Sambands íslenskra sveitarfélaga.

2010056

Haldið rafrænt föstudaginn 18. desember nk.
Fundarboðið framlagt en landsþingið mun fara fram rafrænt föstudaginn 18. desember nk.

11.Ágóðahlutagreiðsla 2020.

2010069

Erindi frá Eignarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslands.
Hvalfjarðarsveit fær kr. 849.800 í ágóðahlutdeild árið 2020.

12.Aðalfundargerð, ársskýrsla 2019 og fundargerðir HeV.

2010075

Ársskýrsla 2019 ásamt fundargerðum frá HeV.
Ársskýrsla 2019, aðalfundargerð ásamt 161., 162. og 163. fundargerð framlagðar.

13.Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76-2003, með síðari breytingum(skipt búseta barns), 11. mál.

2010044

Erindi frá Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis.
Framlagt.

14.Umsögn um frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, 14. mál.

2010050

Erindi frá Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis.
Framlagt.

15.Umsögn um frumvarp til laga um stjórnsýslu jafnréttismála, 15. mál.

2010051

Erindi frá Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis.
Framlagt.

16.Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna laga um kynrænt sjálfræði(breytt kynskráning), 21. mál.

2010052

Erindi frá Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis.
Framlagt.

17.Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24-2000(jöfnun atkvæðavægis), 27. mál.

2010062

Erindi frá Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis.
Framlagt.

18.Umsögn um tillögu til þingsályktunar um upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál, 85. mál.

2010063

Erindi frá Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis.
Framlagt.

19.Umsögn um frumvarp til laga um almannatryggingar(hækkun lífeyris), 25. mál.

2010068

Erindi frá Velferðarnefnd Alþingis.
Framlagt.

20.Umsögn um frumvarp til laga um almannatryggingar(skerðing á lífeyri vegna búsetu), 28. mál.

2010070

Erindi frá Velferðarnefnd Alþingis.
Framlagt.

21.Umsögn um frumvarp til laga um fjarskipti, 209. mál.

2010073

Erindi frá Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.
Framlagt.

22.198. fundargerð Faxaflóahafna sf.

2010064

Fundargerð.
Fundargerðin framlögð.

Til máls tók DO.

23.889. fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

2010067

Fundargerð.
Fundargerðin framlögð.

Fundi slitið - kl. 15:45.

Efni síðunnar