Fara í efni

Sala ljósleiðarakerfis í eigu Hvalfjarðarsveitar

 Það var af mikilli framsýni sem sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti á kjörtímabilinu 2010-2014 að ljósleiðarvæða sveitarfélagið og þar með að færa íbúum þau gæði sem felast í háhraðatengingu sem slík gagnaveita er. Verkefninu var lokið um mitt ár 2014 og hefur gagnaveitan því verið rekin í rúm 5 ár af Hvalfjarðarsveit.  Notendur í dag eru um 240.

Lagning ljósleiðara í Hvalfjarðarsveit var framkvæmd áður en farið var að veita verulegan stuðning við slík verkefni í gegnum Póst- og fjarskiptastofnun á þeim svæðum sem einkafyrirtæki hafa ekki séð sér fært að ráðast í lagningu slíkra kerfa. Það má segja að dreifbýlissveitarfélög landsins hafi fengið það verkefni í hendur með stuðningi frá ríkissjóði að ljósleiðaravæða landsbyggðina. Metnaðarfullt verkefni sem er nú langt komið og hefur fært íbúum á landsbyggðinni mikil gæði.  Sveitarfélög í landinu hafa farið ýmsar leiðir til að leysa þetta verkefni, t.d. hafa þau flest innheimt stofngjöld á bilinu kr. 100.000 – 350.000 til fjármögnunar verkefnanna.  Það var ekki gert í Hvalfjarðarsveit heldur var verkið að fullu greitt úr sveitarsjóði og með verulegri lántöku.  Þó ber að geta þess að leitað var eftir mögulegri aðkomu fjarskiptafélaga að framkvæmdinni en þær tilraunir skiluðu ekki árangri. 

Mikið var jafnframt rætt um heppilegt eignarhald og rekstrarfyrirkomulag kerfisins en ekki var gerlegt fyrir opinberan aðila að veita fyrirtækjum í samkeppnisrekstri fjárstyrk til framkvæmda.  Lokaniðurstaðan varð því að Hvalfjarðarsveit skyldi leggja og reka ljósleiðarakerfið fyrir eigið fé.  Leita þurfti álits ESA á því hvort sveitarfélaginu væri heimilt að ráðast í verkefnið á skilgreindum samkeppnismarkaði og fjármagna með skattfé.  Skoðun ESA var flókin og ítarleg og niðurstaða ekki ljós fyrr en árið 2015 eða ári eftir að framkvæmdinni lauk.  Niðurstaðan var að markaðsbrestur væri á svæðinu, þ.e. að aðilar á samkeppnismarkaði höfðu á þessum tíma ekki áhuga á að fjárfesta í slíkri framkvæmd og því varð niðurstaða ESA jákvæð gagnvart inngripi og ákvörðun Hvalfjarðarsveitar. 

Hvalfjarðarsveit ráðstafaði handbæru fé til verkefnisins og tók auk þess lán til að mæta framkvæmdakostnaði. Bókfærður stofnkostnaður við lagningu gagnaveitunnar voru rúmlega kr. 377.000.000 og var tekið lán að fjárhæð kr. 222.200.000.- til að mæta þessari miklu fjárfestingu. Á árinu 2019 voru eftirstöðvar lánsins greiddar upp og að hluta endurfjármagnað með hagkvæmara 50 milljón króna láni hjá Lánasjóði ísl. sveitarfélaga.

Á 22. fundi mannvirkja- og framkvæmdanefndar þann 27. maí sl. lagði nefndin til við sveitarstjórn að skoða sölu á ljósleiðarakerfi Hvalfjarðarsveitar.

Sveitarstjórn samþykkti samhljóða á fundi sínum þann 10. september sl. að fela sveitarstjóra að auglýsa ljósleiðarakerfi sveitarfélagsins til sölu.  Gagnaveitan var síðan auglýst þann 1. nóv. sl. og voru tilboð opnuð í kerfið þann 18. nóv. sl.  Alls bárust tvo tilboð, annars vegar frá Gagnaveitu Reykjavíkur að fjárhæð kr. 49.234.000.- og hins vegar frá Mílu að fjárhæð kr. 83.700.000.-

 Af hverju að selja gagnaveituna ?

  • Sérhæfing og sérþekking er ekki til staðar hjá Hvalfjarðarsveit til reksturs gagnaveitu.
  • Með sölunni má draga úr ýmsum kostnaði vegna umsýslu og rekstur gagnaveitunnar.
  • Losa fjármagn sem bundið er í veitunni og nýta til annarra mikilvægra verkefna.
  • Minnka áhættu í rekstri, komi til tjóns á veitunni sem sveitarfélagið bæri kostnað af. Nýr eigandi ber alla ábyrgð á rekstri og þjónustu kerfisins við kaupin.
  • Framkomið tilboð frá Mílu er um kr. 350.000.- pr. tengingu sem er með því hæsta sem boðið hefur verið í áþekk ljósleiðarakerfi.
  • Tekjur af afnotagjöldum í  rekstri ljósleiðarans á árinu 2018 voru kr. 6.146.019.
  • Gjöld af rekstri ljósleiðarans á árinu 2018 voru samtals kr. 31.516.821.-, þ.m.t eru afskriftir og  fjármagnskostnaður.     

Um Mílu
Míla mun sjá um að veita öðrum fjarskiptafyrirtækjum heildsöluaðgang að ljósleiðarakerfinu á jafnræðisgrundvelli.  Míla sér þannig um allan rekstur á kerfinu og stendur straum af viðhaldi á því. 
Gert er ráð fyrir að afnotagjald notenda verði í samræmi við það sem almennt gerist á Íslandi með leigugjald fyrir heimtaugar ljósleiðara á sambærilegum svæðum.  Míla selur sína vöru í heildsölu til fjarskiptafyrirtækja sem selja vöruna til endanotanda og bera ábyrgð á sinni verðlagningu.
Míla er í dag skilgreint með umtalsverðan markaðsstyrk á sínum mörkuðum á landsvísu en landið er skilgreint sem einn markaður.  Þetta felur í sér að Míla ber ýmsar kvaðir varðandi þjónustu og verð.  Það er Póst- og fjarskiptastofnun sem setur reglurnar skv. fjarskiptalögum og byggir það á evrópsku regluverki.
Míla ber alþjónustukvöð sem felur í sér að fyrirtækinu ber að tengja öll heimili með þráðbundinni tengingu og að allir fái sömu vöru á sama verði og sömu þjónustu.  Verðkvöð er jafnframt á flestu nema ljósheimtaugum (kostnaðargreint jafnaðarverð).
Heimtaugagjald í dreifbýli er allsstaðar það sama hjá Mílu eða kr. 2.300 án virðisaukaskatts. 

Að lokum
Fjarskiptafélag sem er þegar með í rekstri sínum ljósleiðarakerfi og skyldan búnað, hlýtur alltaf að vera betur fallið til þess að reka slík kerfi heldur en sveitarfélag.  Hjá fjarskiptafélögum er reynslan fyrir hendi og einnig hafa slík félög samninga við verktaka til þess að sinna viðgerðum og þjónustu. Ef horft er til fjárhags- og rekstrarlegra forsendna sveitafélagsins virðist hagkvæmara og áhættuminna að semja við fjarskiptafélag um rekstur og eignarhald en að sveitafélagið eigi og reki kerfið á eigin ábyrgð.  Gera má ráð fyrir neikvæðri rekstrarafkomu sjálfstæðs fjarskiptafélags í eigu sveitarfélagsins af þeirri stærð sem um ræðir, sem getur orsakað að greiða þurfi með rekstrinum. Ef horft er til framtíðar varðandi viðbætur við kerfið og viðhald þá eru stærri fjarskiptafélög í mun betri aðstöðu til að sinna slíkum verkefnum en minni sveitarfélög.

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar