Fara í efni

Hækkun útsvarsálagningar - “Með þessu fylgir ekki hækkun á skattbyrði skattgreiðenda”

Málið felur í sér samkomulag milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og þriggja ráðuneyta um sérstaka viðbótarfjármögnun á þjónustu við fatlað fólk, dagsett 16.12.2022. Viðeigandi lagabreytingar verða samþykktar á Alþingi og allar sveitarstjórnir þurfa að samþykkja 0,22% hækkun útsvars fyrir áramót, svo samkomulagið raungerist. Álagningahlutfall útsvars í Hvalfjarðarsveit fyrir árið 2023 verður því 13,91%.

Forsagan á þessu máli er sú að þann 23. nóvember 2010 gengu ríki og sveitarfélög frá samkomulagi um yfirfærslu á þjónustu við fatlað fólk þar sem sveitarfélögin tóku við þjónustunni af ríkinu.Staðan er þannig í dag að útgjaldavöxtur málaflokksins fyrir sveitarstjórnarstigið í heild er orðinn umfangsmikill og hafa sveitarfélögin kallað eftir mun hærra framlagi frá ríkinu vegna þessarar þjónustu. Í því ljósi hafa stjórnvöld fallist á það með sveitarfélögum að flytja 5 milljarða króna frá ríki til sveitarfélaga á árinu 2023. Þessi tilfærsla fjármuna er framkvæmd með því móti að útsvarsprósenta sveitarfélaga og hlutdeild Jöfnunarsjóðs í útsvarinu hækkar um 0,22% en tekjuskattsprósentur ríkisins lækka í sama mæli.

Með þessu fylgir ekki hækkun á skattbyrði skattgreiðenda.

Því vill sveitarstjórn árétta að samkvæmt þessu samkomulagi þurfa sveitarfélögin að samþykkja þessa hækkun útsvars en í staðinn lækkar ríkið tekjuskatt sem því nemur. Það þýðir að skattgreiðendur borga jafn mikið í skatt og eiga ekki að finna fyrir breytingu, hvorki hækkun né lækkun. Fjárhæðin sem skattgreiðendur hefðu greitt til ríkisins fer í staðinn til sveitarfélaganna, nánar tiltekið í Jöfnunarsjóð, sem hefur það hlutverk að jafna mismunandi útgjaldaþörf sveitarfélaganna.

Stjórnarráðið | Samkomulag um breytingu á fjármögnun þjónustu við fatlað fólk (stjornarradid.is)
Forgangsverkefni að þjónusta við fatlað fólk verði fjármögnuð að fullu - Samband íslenskra sveitarfélaga