Fara í efni

Fjárhagsáætlun Hvalfjarðarsveitar 2022-2025

Fjárhagsáætlun Hvalfjarðarsveitar fyrir árið 2022 ásamt þriggja ára áætlun 2023-2025 var samþykkt á fundi sveitarstjórnar þann 23. nóvember sl.

Um er að ræða áætlun til næstu fjögurra ára þar sem líkt áður er áfram haldið á sömu braut að hlúa að góðri þjónustu við íbúa, viðhaldi eigna auk uppbyggingar til framtíðar, m.a. með áframhaldandi gatnagerð í Melahverfi til úthlutunar nýrra lóða, framkvæmda við gerð opins svæðis í Melahverfi og áframhaldandi göngu- og reiðhjólastígagerðar auk byggingar nýs íþróttahúss við Heiðarborg.

Við áætlunargerðina er, eins og áður, lögð áhersla á að tekjuáætlun sé varfærin, útgjaldaáætlun raunsæ og að ekki sé gengist undir skuldbindingar sem raskað geti forsendum í rekstri og afkomu sveitarfélagsins til lengri tíma.

Forsendur fjárhagsáætlunar:

Í áætluninni er stuðst við upplýsingar frá Hag- og upplýsingasviði Sambands íslenskra sveitarfélaga og útsvarsáætlun þeirra auk Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands vegna þróunar verðlags fyrir komandi ár.  Aðrar forsendur sem sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar horfir til eru útkomuspá yfirstandandi árs og átta mánaða árshlutauppgjör ársins.

Launaáætlun hefur verið unnin út frá raunforsendum á öllum deildum og hafa forstöðumenn yfirfarið áætlanirnar.  Launahækkanir hafa verið settar inn skv. þeim kjarasamningum sem liggja fyrir en kjarasamningar kennara eru lausir á næsta ári og eins og áður hefur verið gert ráð fyrir tilfallandi veikindum en engum langtímaveikindum.    

Almenn nefndarlaun eru í flestum tilfellum áætluð 11 mánuði ársins, þ.e. ekki er gert ráð fyrir fundum á sumarleyfistíma, í júlí. 

Útsvar:

Álagningarhlutfall útsvars árið 2022 verður óbreytt frá fyrra ári eða 13,69%.
Stuðst er við staðgreiðsluáætlun Sambands íslenskra sveitarfélaga við áætlun útsvarstekna.

Jöfnunarsjóðsframlag:

Framlag úr jöfnunarsjóði vegna málefna fatlaðra er áætlað skv. þeirri áætlun sem sjóðurinn hefur gefið út. 

Fasteignaskattur og lóðarleiga:

Álagningarhlutföll fasteignaskatts árið 2022 verða óbreytt frá fyrra ári nema í A-flokki en þau verða eftirfarandi:

  • A-flokkur 0,38% í stað 0,40%
  • B-flokkur 1,32%
  • C-flokkur 1,65%

Lóðarleiga verður einnig óbreytt eða 1,0%.

Fasteignagjöld:

Gjaldskrár sorphirðu og rotþróa hafa verið endurskoðaðar í því skyni að færa þjónustutekjur nær raunkostnaði.

Gjöld fyrir sorphirðu og urðun verða eftirfarandi frá og með 1. janúar nk.:

Sumarhús (frístundahús)     17.150 kr. í sorphirðugjald
Íbúðarhúsnæði                       40.895 kr. í sorphirðugjald
Íbúðir og sumarhús                 4.100 kr. í sorpurðunargjald

Fyrir auka sorpílát við íbúðarhús skal greiða fyrir sorpílát og aukaurðun fyrsta árið og þar eftir aukaurðunargjald sem er:

Fyrir almennan úrgang (óflokkað)   25.000 kr.
Fyrir endurvinnanlegan úrgang        13.000 kr.
(flokkað og lífrænt)
Ker (aðeins í dreifbýli)                          40.000 kr.

Gjald fyrir hreinsun rotþróa verður eftirfarandi frá og með 1. janúar nk.:
Hreinsunargjald kr. 13.675 á rotþró við hvert íbúðarhús og sumarhús.  Árgjald sem miðast við að tæming sé þriðja hvert ár.  
Barkalengd yfir 50 metra kr. 3.170 á ári.
Endurkomugjald er 50% álag á hreinsunargjald.
Losun utan reglubundinnar losunar er greidd skv. raunkostnaði, bæði hreinsun og akstur

Aðrar tekjur:

Gjaldskrár þjónustugjalda eru flestar vísitölubundnar og hækka sbr. það nk. áramót.  Þær gjaldskrár sem ekki voru vísitölubundnar, þ.e. vegna ljósleiðara og hundahalds hafa verið endurskoðaðar.

Frá 1. janúar nk. verður árlegt leyfisgjald fyrir að halda hund í íbúakjarna kr. 9.000 auk einskiptis skráningargjalds kr. 3.000.  Innifalið í leyfisgjaldinu er ormahreinsun auk umsýslugjalds. 

Frá 1. janúar nk. verður mánaðargjald ljósleiðara á hvern notanda kr. 2.650 auk þess sem gjöld fyrir leigu á aðstöðu í tækjaskápum, flutningi þjónustu, stofngjalds og bilanaleit hefur verið uppfært. 

Rekstur:

Rýnt hefur verið vel í reksturinn og forstöðumenn fóru vel yfir alla kostnaðarliði m.t.t. raunþróunar þeirra auk þess sem einskiptisliðir yfirstandandi árs voru teknir út. 

Viðhald:

Árið 2022 er gert ráð fyrir 75,8mkr. til viðhalds eigna, hæsta fjárhæðin tæpar 43mkr. er til Heiðarskóla, bæði þakviðgerða og innanhúsviðgerða í ljósi nýkominnar ástandsskýrslu, 4,8mkr. eru til Skýjaborgar, 3,5mkr. til Stjórnsýsluhúss, 3,1mkr. á Hlaðir og 2,9mkr. til Heiðarborgar.  Aðrar eignir eru með lægri fjárhæðir til viðhaldsframkvæmda.

Fjárfesting/framkvæmdir:

Á næsta ári eru áætlaðar 600mkr. til framkvæmda, þ.a. eru 415mkr. til nýs íþróttahúss við Heiðarborg, 90mkr. til gatnagerðar Lyngmels og undirbúnings og framkvæmda gatnagerðar í Melahverfi 3. áfanga, fjárhæðin er að teknu tilliti til tekna gatnagerðargjalda, 65mkr. í opið svæði í Melahverfi, 15mkr. til göngu- og reiðhjólastíga, 2mkr. til ráðgjafar varðandi leikskóla, 10mkr. til hitaveitumála og 3mkr. vegna kaldavatnsmála í Hlíðarbæ.  Árið 2023 er gert ráð fyrir 483mkr. til framkvæmda, þ.a. 410mkr. vegna byggingar nýs íþróttahúss, 15mkr. til göngu- og reiðhjólastíga, 50mkr., að teknu tilliti til gatnagerðargjalda, til áframhaldandi gatnagerðar 3. áfanga Melahverfis og 8mkr. til Vatnsveitufélags Hvalfjarðarsveitar.  Árið 2024 eru áætlaðar 88mkr. í framkvæmdir, þ.a. 50mkr. nettó til gatnagerðar, 15mkr. til göngu- og reiðhjólastíga og 23mkr. til Vatnsveitufélags Hvalfjarðarsveitar. 

Lántaka: 

Ekki er gert ráð fyrir lántöku í áætluninni.

Niðurstaða fjárhagsáætlunar 2022:

  • Heildartekjur samstæðu A og B hluta á árinu 2022 eru áætlaðar 1.141mkr.
  • Heildargjöld eru áætluð 1.098,5mkr.  Þar af eru launagjöld 559mkr., annar rekstrarkostnaður 494,3mkr. og afskriftir 45,2mkr.
  • Heildartekjur í A-hluta eru áætlaðar 1.131mkr. og heildarútgjöld eru áætluð 1.088,5 mkr. Þar af eru laun og launatengd gjöld 559mkr., annar rekstrarkostnaður 489,1mkr. og afskriftir 40,4mkr.
  • Fjármunatekjur A og B hluta og A hluta eru áætluð sama fjárhæð eða 32,8mkr.
  • Rekstrarafgangur A og B hluta er áætlaður 78,4mkr. og í A-hluta 78,3mkr.
  • Skuldir og skuldbindingar A og B hluta í árslok 2022 eru áætlaðar 115,5mkr. og sama fjárhæð er áætluð í A-hluta.
  • Eigið fé A og B hluta er áætlað 3.590,9mkr. og A hluta 3.570,2mkr.
  • Veltufé frá rekstri árið 2022 í A og B hluta er áætlað 120,5mkr. en 115,7mkr. ef einungis er litið til A hluta.
  • Fjárfesting í A og B hluta er áætluð 600mkr. árið 2022.
  • Afborganir langtímalána eru engar og ekki er gert ráð fyrir að taka ný langtímalán á áætlunartímabilinu.
  • Áætlað er að í árslok 2022 verði handbært fé um 774,8mkr.

Forsendur fjárhagsáætlunar fyrir árin 2023 – 2025:

Tekjur og gjöld:

Grunnforsenda fyrir fjárhagsáætlun fyrir árið 2023-2025 er áætlun um fjárheimildir fyrir árið 2022.
Áætlunin tekur mið af kostnaðarverðlagi ársins 2022. Kostnaðarliðir aðrir en laun breytast í takt við spá um breytingu neysluverðsvísitölu.
Útsvarstekjur breytast á milli ára í takt við launavísitölu eins og hún er áætluð í Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands.
Gert er ráð fyrir að launakostnaður breytist í takt við spá um þróun launavísitölu í Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands.

Helstu lykiltölur úr rekstri og efnahag árin 2023-2025, samantekið A og B hluti:

  • Rekstrarafkoma á tímabilinu verður jákvæð öll árin á bilinu 40,4-75,4mkr. eða uppsafnað á tímabilinu 162,4mkr.
  • Veltufé frá rekstri verður á bilinu 101,1-120mkr. á ári eða um 8,2-10,1% af rekstrartekjum, hæst 10,1% árið 2023 og 8,4% árið 2025.
  • Veltufjárhlutfall er áætlað 4,28 árið 2023, 4,31 árið 2024 og 5,20 árið 2025.

Skuldahlutfall heldur áfram að lækka en það var 10,8% árið 2020 og er áætlað 10,1% árið 2022 og að það verði komið niður í 9,6% árið 2025.

Lokaorð:

Fjárhagsáætlun Hvalfjarðarsveitar 2022-2025 ber vott um vöxt og uppbyggingu.  Íbúar Hvalfjarðarsveitar hafa aldrei verið fleiri en nú, 687 talsins þann 3. nóvember sl., eða 45 fleiri en fyrir rétt rúmu ári síðan, það er 7% fjölgun.  Það skýrist af uppbyggingu, bæði í þéttbýliskjörnum sem og í dreifbýlinu sem er einkar gleðilegt, að hvoru tveggja sé og ekki er útlit fyrir annað en að sú uppbygging haldi áfram á næstu árum.    

Það er gott að geta hlúð að góðri þjónustu við íbúa, að viðhaldi sé sinnt sem skyldi og að framkvæmdir séu í takt við efni og aðstæður hverju sinni.   

Sveitarstjóri færir starfsfólki á skrifstofu Hvalfjarðarsveitar og forstöðumönnum öllum þakklæti fyrir þeirra mikilvæga framlag, aðkomu og vinnu við gerð fjárhagsáætlunarinnar.

Hvalfjarðarsveit 24. nóvember 2021
Linda Björk Pálsdóttir, sveitarstjóri

 Fjárhagsáætlun Hvalfjarðarsveitar 2022-2025 má sjá hér