Fara í efni

Fjárhagsáætlun Hvalfjarðarsveitar 2020-2023

Fjárhagsáætlun Hvalfjarðarsveitar fyrir árið 2020 ásamt þriggja ára áætlun 2021-2023 var
samþykkt á fundi sveitarstjórnar þann 26. nóvember sl.

Um er að ræða áætlun til næstu fjögurra ára þar sem áfram er haldið á sömu braut og hlúð
að góðri þjónustu við íbúa, viðhaldi eigna sinnt auk þess sem byggt er upp til framtíðar, m.a.
með fyrirhugaðri byggingu nýs íþróttahúss, áframhaldandi gatnagerð til úthlutunar nýrra
lóða og gerð göngu- og reiðhjólastíga.

Við áætlunargerðina var lögð áhersla á að tekjuáætlunin væri varfærin, útgjaldaáætlun
raunsæ og að ekki væri gengist undir skuldbindingar sem raskað gætu forsendum í rekstri og afkomu til lengri tíma.

Forsendur fjárhagsáætlunar:

Í áætluninni er stuðst við upplýsingar frá Hag- og upplýsingasviði Sambands íslenskra
sveitarfélaga og útsvarsáætlun þeirra auk Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands vegna þróunar
verðlags fyrir komandi ár. Aðrar forsendur sem sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar horfir til eru
útkomuspá yfirstandandi árs og átta mánaða árshlutauppgjör ársins.

Launaáætlun var unnin út frá óbreyttum stöðugildafjölda á öllum deildum m.v. stöðuna nú í
haust. Kjarasamningar eru allir lausir og óljóst hvað nýir samningar munu fela í sér og því var
sama hækkun sett inn á alla kjarasamninga en mikil óvissa ríkir enn um
kjarasamningagerðina.

Útsvar:

Álagning útsvars árið 2020 verður 13,69% eða óbreytt frá fyrra ári.
Stuðst er við staðgreiðsluáætlun Sambands íslenskra sveitarfélaga við áætlun útsvarstekna.

Fasteignaskattur og lóðarleiga:

Álagningarhlutföll fasteignaskatts árið 2020 verða eftirfarandi:

  •  A-flokkur 0,40% - þ.e. lækkar úr 0,44%
  •  B-flokkur 1,32% - óbreytt
  •  C-flokkur 1,65% - óbreytt

Lækkun álagningarhlutfalls í A-flokki skilar lækkun gjalda umfram hækkun fasteignamats
eigna á komandi ári þar sem lækkunin er 10% milli ára en meðaltalshækkun fasteignamatsins
er 8,3%.
Lóðarleiga verður óbreytt eða 1,0%.

Fasteignagjöld:

Gjaldskrá sorphirðu- og sorpurðunar verður auk vísitöluhækkunar hækkuð í samræmi við
kostnað vegna aukalosunar sem mun taka gildi um nk. áramót en græna tunnan verður þá
tæmd á 42 daga fresti í stað 56 daga fresti áður.
Íbúðarhúsnæði kr. 37.775 í sorphirðugjald
Sumarhús (frístundahús) kr. 15.840 í sorphirðugjald
Íbúðir og sumarhús kr. 3.790 í sorpurðunargjald

Gjaldskrá fyrir hreinsun rotþróa er vísitölubundin og hækkar skv. því í janúar ár hvert.

Aðrar tekjur:

Gjaldskrár þjónustugjalda eru flestar vísitölubundnar og hækka sbr. það eins og kveður á um
nk. áramót.
Ekki er gert ráð fyrir framlagi frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á komandi ári.

Rekstur:

Almenn hækkun rekstrarkostnaðar er í takt við verðbólguspá Hagstofunnar fyrir komandi ár.
Forstöðumenn fóru auk þess vel yfir alla kostnaðarliði m.t.t. raunþróunar þeirra auk þess
sem einskiptisliðir yfirstandandi árs voru teknir út og nýjir komu inn.

Viðhald:

Árið 2020 er gert ráð fyrir rúmlega 52mkr. til viðhalds eigna, hæsta fjárhæðin 10,2mkr. er til
Áhaldahúss, tæpar 6,3mkr. til Miðgarðs, tæplega 5mkr. til Heiðarskóla, 4,3mkr. til
Stjórnsýsluhúss, 3,8mkr. til Skýjaborgar og 3,5mkr. til Svarthamarsréttar. Aðrar eignir eru
með lægri fjárhæðir.

Fjárfesting/framkvæmdir:

tafla

Lántaka:

Engin lántaka er í áætluninni.

Niðurstaða fjárhagsáætlunar 2020:

  •  Heildartekjur samstæðu A og B hluta á árinu 2020 eru áætlaðar 983,5mkr. 
     Heildargjöld eru áætluð 915,4mkr. Þar af eru launagjöld 442,5mkr., annar rekstrarkostnaður 431mkr. og afskriftir 41,9mkr.
  •  Heildartekjur í A-hluta eru áætlaðar 975,2mkr. og heildarútgjöld eru áætluð 907mkr.  Þar af eru laun og launatengd gjöld 442,5mkr., annar rekstrarkostnaður 424,2mkr. og afskriftir 40,3mkr.
  •  Fjármunatekjur A og B hluta og A hluta eru áætluð sama fjárhæð eða 52,4mkr.
  •  Rekstrarafgangur A og B hluta er áætlaður 123,5mkr. sem er sama og A-hluta.
  •  Skuldir og skuldbindingar A og B hluta í árslok 2020 eru áætlaðar 150,6mkr. og sama fjárhæð er áætluð í A-hluta.
  • Eigið fé A og B hluta er áætlað 3.147,9mkr. og A hluta 3.127,4mkr.
  •  Veltufé frá rekstri árið 2020 í A og B hluta er áætlað 163,9mkr. en 162,4mkr. ef einungis er litið til A hluta.
  •  Fjárfesting í A og B hluta er áætluð 122mkr. árið 2020.
  •  Afborganir langtímalána eru áætlaðar 6,5mkr. Ekki er gert ráð fyrir að taka ný langtímalán á árinu.
  •  Áætlað er að í árslok 2020 verði handbært fé um 979,7mkr.

Forsendur fjárhagsáætlunar fyrir árin 2021 – 2023:
Tekjur og gjöld:
Grunnforsenda fyrir fjárhagsáætlun fyrir árið 2021-2023 er áætlun um fjárheimildir
fyrir árið 2020.
Áætlunin tekur mið af kostnaðarverðlagi ársins 2020. Kostnaðarliðir aðrir en laun
breytast í takt við spá um breytingu neysluverðsvísitölu.
Útsvarstekjur breytast á milli ára í takt við launavísitölu eins og hún er áætluð í
Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands.
Gert er ráð fyrir að launakostnaður breytist í takt við spá um þróun launavísitölu í
Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands.

Helstu lykiltölur úr rekstri og efnahag árin 2021-2023, samantekið A og B hluti:

  •  Rekstrarafkoma á tímabilinu verður jákvæð öll árin á bilinu 96-121mkr. eða uppsafnað á tímabilinu tæpar 333mkr.
  •  Veltufé frá rekstri verður á bilinu 156-168mkr. á ári eða um 14-16% af tekjum, hæst 16,5% árið 2021 og fer svo lækkandi til 2023 þegar það er áætlað 14,4% af tekjum.
  •  Veltufjárhlutfall er áætlað 10,70 árið 2021, 9,03 árið 2022 og 10,24 árið 2023.
  •  Skuldahlutfall heldur áfram að lækka til ársins 2023 þegar það er áætlað 13,0% (var 24,2% árið 2018).

Sveitarstjóri færir starfsfólki á skrifstofu Hvalfjarðarsveitar og forstöðumönnum þakkir fyrir
þeirra mikilvæga framlag, aðkomu og vinnu við gerð fjárhagsáætlunarinnar.

Hvalfjarðarsveit 28. nóvember 2019
Linda Björk Pálsdóttir, sveitarstjóri

Fjárhagsáætlun Hvalfjarðarsveitar 2020-2023 má sjá hér