Fara í efni

Breytingar í úrgangsmálum í Hvalfjarðarsveit

Um áramótin gengu í gildi ný lög um stjórnun úrgangsmála á Íslandi. Markmið breytinganna er að draga úr myndun úrgangs og stuðla að myndun endurvinnslusamfélags hér á landi sem er ein forsenda fyrir því að við færumst í átt að hringrásarhagkerfi. Eitt af lykilatriðunum við að koma á fót öflugu hringrásarhagkerfi hér á landi er að fara að hugsa um úrganginn okkar sem hráefni sem við getum endurunnið aftur og aftur, en ekki efni til urðunar.

Íbúar í Hvalfjarðarsveit hafa verið duglegir að flokka úrgang og t.d. hefur lífúrgangi (matarleifum) verið safnað frá árinu 2010. Breytingarnar eru því minni en hjá mörgum öðrum sveitarfélögum.

Stærstu breytingarnar við innleiðingu á nýju kerfi eru þessar:

Ný ruslatunna fyrir plast: Um leið og aðstæður leyfa (veður og færð) mun nýjum 240 lítra tunnum verða keyrt út til allra heimila í sveitarfélaginu. Nýja ílátið er eingöngu ætlað fyrir plast.

Sérsafna þarf pappír/pappa eins og áður og í dreifbýli verður 660 lítra karið nýtt til þess en 240 lítra ílát annars staðar (eins og verið hefur, nema nú fer eingöngu pappír/pappi í það ílát).

Öll ílát verða merkt að nýju í samræmi við nýtt og samræmt flokkunarkerfi á landsvísu. Nýja ílátið kemur merkt en stefnt er að því að merkingum allra íláta verði lokið um mitt ár.

Brúna tunnan verður áfram nýtt fyrir lífúrgang (matarleifar, kaffikorg, servíettur).

Áfram verður blönduðum úrgangi safnað við heimili eins og áður, þar sem ýmislegt endar þar eins og einnota bleyjur, tíðavörur, ryksugupokar o.fl.

Málmum, gleri og textíl verður safnað í þar til gert ílát í grenndarstöðinni við Melahverfi. Ílát undir þessa úrgangsflokka er í pöntun hjá þjónustuaðila og kemur vonandi til landsins í febrúar. Tilkynnt verður um það þegar að því kemur. Þetta er því breyting frá því sem verið hefur, en fram til þessa hefur málmi verið safnað í svokallaða græna tunnu (fyrir plast, pappa og málma).

Á grenndarstöðvum í sveitarfélaginu, sem þjónusta m.a. eigendur sumarhúsa, verður komið fyrir nýju íláti fyrir plast áður en sumarið gengur í garð. Það verður því sérsöfnun á plasti og pappa á grenndarstöðvunum. Áfram verður gámur fyrir almennan (óflokkaðan) heimilisúrgang á grenndarstöðvum.

Innleiðing þessara breytinga og aðlögun að þeim mun standa yfir allt árið 2023. Hvalfjarðarsveit mun reglulega upplýsa um stöðu innleiðingarinnar auk þess að halda kynningarfund. Samhliða því að nýjum tunnum verður dreift til íbúa mun fara fram tunnutalning í öllu sveitarfélaginu. Hún er fyrirhuguð 12. og 13. janúar nk.

Að lokum minnum við á eftirfarandi reglur sem gilda um sorpílát í Hvalfjarðarsveit:

„Sérhverjum húsráðanda er skylt að nota þau ílát og þær aðferðir sem sveitarstjórn ákveður. Sorpgeymslur og gámasvæði skulu vera aðgengileg. Húsráðendur skulu halda ílátum hreinum og hreinsa snjó frá sorpgeymslum á vetrum og halda ávallt greiðfærri leið að þeim“.

„Ef sorpílát skemmast eða hverfa vegna þess að það hefur ekki verið gengið nægilega vel frá tunnum, t.d. undir skýli eða að festingar vantar verður innheimtur raunkostnaður á hvert sorpílát sam­kvæmt reikningi frá verktaka. Sorpílát sem geymd eru utanhúss skulu standa á fastri undirstöðu og vera þannig staðsett að aðgangur að þeim sé greiður og af þeim geti ekki stafað óþægindi eða óþrifnaður fyrir umhverfið.“

Allar nánari upplýsingar veitir umhverfisfulltrúi Hvalfjarðarsveitar,  umhverfi@hvalfjardarsveit.is  og í síma 433-8500.