Fara í efni

Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd 2013-2022

159. fundur 04. maí 2022 kl. 15:30 - 18:00 í stjórnsýsluhúsinu Innrimel 3
Nefndarmenn
  • Daníel A. Ottesen formaður
  • Guðjón Jónasson varaformaður
  • Ása Hólmarsdóttir ritari
  • Helgi Magnússon aðalmaður
  • Ragna Ívarsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Jökull Helgason embættismaður
  • Arnheiður Hjörleifsdóttir
Fundargerð ritaði: Jökull Helgason Skipulagsfulltrúi
Dagskrá

1.Umsókn um undanþágu vegna hundasamþykktar og gjaldskrár um hundahald

2204028

Erindi frá Palla T. Karlssyni, þar sem óskað er eftir undanþágu frá hundasamþykkt Hvalfjarðarsveitar hvað varðar fjölda hunda og gjaldskrá um hundahald.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd þakkar bréfritara erindið en hafnar undanþágubeiðni hvað varðar fjölda hunda og hundaleyfisgjöld. Jafnframt felur nefndin umhverfisfulltrúa í samstarfi við hundaeftirlitsmann að yfirfara samþykkt um hundahald í Hvalfjarðarsveit sem er frá árinu 2016 og uppfæra í samræmi við gjaldskrá fyrir hundahald í íbúakjörnum í Hvalfjarðarsveit, sem er frá árinu 2021.

2.Umsögn um umhverfismatsskýrslu vegna endurnýjunar búnaðar og aukna framleiðslugetu eggjabús Vallár á Kjalarnesi.

2203065

Erindi frá Skipulagsstofnun, sem fer fram á að umsagnaraðilar veiti umsögn um mat á umhverfisáhrifum þessarar framkvæmdar: Endurnýjun búnaðar og aukin framleiðslugeta eggjabús Vallár á Kjalarnesi í Reykjavík.
Umsagnaraðilar skulu gefa álit sitt í samræmi við 16. gr. reglugerðar nr. 1381/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
Í umsögn skal koma fram hvort umsagnaraðili hafi athugasemdir við umfjöllun í umhverfismatsskýrslu út frá starfssviði sínu, svo sem um gögn sem byggt er á, úrvinnslu gagna, mat á vægi og eðli umhverfisáhrifa eða framsetningu umhverfismatsskýrslu. Einnig, ef á skortir, hvaða atriðum umsagnaraðili telur að gera þurfi frekari skil eða hafa sérstaklega í huga við leyfisveitingar, svo sem varðandi mótvægisaðgerðir og vöktun. Leyfisveitendur skulu í umsögn sinni gera grein fyrir þeim leyfum sem eru á starfssviði þeirra og framkvæmdin er háð.
Umsögn óskast send Skipulagsstofnun í síðasta lagi 17. maí 2022.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja umsögn nefndarinnar um umhverfismatsskýrslu vegna endurnýjunar búnaðar og aukna framleiðslugetu eggjabús Vallár á Kjalarnesi.

Umsögn umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefndar:

Erindið: Skipulagsstofnun fer fram á að umsagnaraðilar veiti umsögn um mat á umhverfisáhrifum umræddrar framkvæmdar í samræmi við 16. gr. reglugerðar nr. 1381/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Framkvæmdin og eggjaframleiðslan er öll utan Hvalfjarðarsveitar en fyrirtækið hyggst losa sig við hænsnaskít af búinu með því að dreifa honum sem áburði á land Geldingaár í Hvalfjarðarsveit (og á fleiri svæði, en þetta er eina svæðið sem nýtt verður til dreifingar innan Hvalfjarðarsveitar).

Þeir framkvæmdaþættir sem hafa áhrif á umhverfið eru hænsnaskítur og fráveituvatn vegna fjölgunar á fuglum á búinu. Umhverfisþættirnir sem metnir eru í umhverfismatsskýrslunni eru: lyktarmengun, yfirborðsvatn og grunnvatn og sýkingarhætta.

Í gildandi aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2008-2020 eru merkt inn þó nokkur vatnsból og brunnsvæði í landi Geldingaár þar sem fyrirhugað er að dreifa hænsnaskít. Stór hluti svæðisins er einnig skilgreindur sem vatnsverndarsvæði. Samkvæmt umræddu skipulagi er dreifingarsvæðið við Geldingaá innan skilgreinds vatnsverndarsvæðis. Við austurjaðar afmarkaðs svæðis er brunnsvæði vatnsbóls við Bugalæk þar sem fyrirhugað er að dreifa hænsnaskít. Hluti afmarkaðs svæðis er einnig innan skilgreinds grannsvæðis vatnsbóls. Þá eru samkvæmt auðlindakorti aðalskipulagsins tilgreind nokkur brunnsvæði til viðbótar bæði innan afmarkaða svæðisins og sunnan við það. Í aðalskipulagi er tekið fram að innan grannsvæðis vatnsbóls skuli áburðarnotkun vera undir ströngu eftirliti.

Vatnsbólin í landi Geldingaár eru nýtt af nærliggjandi bæjum og hafa verið það frá árinu 1964.
Jarðfræðilegar aðstæður eru þannig að efsta jarðlagið (þ.e.a.s. undir jarðvegi, þar sem hans nýtur við) er möl, yfirleitt 1-2 metrar að þykkt. Hún er hriplek og tekur vel við öllu yfirborðsvatni. Undir henni er þéttur jökulruðningur sem hleypir vatni illa í gegnum sig. Vatn sem kemur að ofan stoppar því á þessum lagmótum og rennur um mölina sem grunnvatn. Landslagið bendir til þess að grunnvatnsrennsli frá landgræðslusvæðinu (áburðardreifingarsvæðinu) sé til suðurs í átt að vatnsbóli Skipaness. Vera kann að skurðirnir umhverfis mýrina, sem vatnsbólið er í, hafi einhver áhrif. Það þyrfti að kanna og meta betur. Samkvæmt áliti jarðfræðings sem Hvalfjarðarsveit leitaði til, er lagt til að svæðið sé skoðað með tilliti til þess að mengun sé möguleg frá dreifingasvæðinu, þar sem dreifing hænsnaskíts liggur ofar í landinu og því getur mengað vatn sigið niður í grunnvatnið sem leiðir að brunnsvæði. Mikilvægt er talið að sérfræðingar á þessu sviði meti hvort hætta sé á mengun.

Um landið rennur samnefnd á, Geldingaá, og hún fellur í Grunnafjörð. Sveitarfélagið áréttar að Grunnafjörður er svokallað Ramsar svæði, sem þýðir að um það gilda ákveðnar reglur sem alþjóðlega mikilvægt votlendi. Þá er óraskað votlendi við suðurjaðar svæðisins, sem nýtur sérstakrar verndar skv. Náttúruverndarlögum og skv. gildandi aðalskipulagi.

Í reglugerð um neysluvatn (nr. 536/2001) segir í 9. gr.: Umhverfis hvert vatnsból skal heilbrigðisnefnd ákvarða vatnsverndarsvæði sem skiptist í brunnsvæði, grannsvæði og fjarsvæði, sbr. reglugerð um varnir gegn mengun vatns. Brunnsvæði skal vera algjörlega friðað fyrir óviðkomandi umferð og framkvæmdum öðrum en þeim sem nauðsynlegar eru vegna vatnsveitunnar. Heilbrigðisnefnd skal, þar sem þörf krefur, krefjast þess að svæðið skuli girt gripa- og mannheldri griðingu, sem sé minnst 5 metra frá vatnsbóli.

Í umhverfismatsskýrslunni kemur fram að skíturinn sem fellur til á eggjabúinu á Vallá fari í gám og sé fjarlægður þaðan eigi sjaldnar en tvisvar í viku og fluttur að Geldingaá. Einnig kemur fram að þar (á Geldingaá) sé hauggeymsla til geymslu á skít sem rúmar um 120 tonn af skít. Hvalfjarðarsveit óskar eftir nánari upplýsingum um hauggeymsluna á Geldingaá og flutning og flutningsmáta gámanna á milli svæða.

Í reglugerð um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri (nr. 804/1999) segir í 7.gr. að: Í starfsleyfi fyrir starfsleyfisskylda búfjárframleiðslu skulu vera ákvæði um söfnun, geymslu og dreifingu búfjáráburðar sem taki mið af starfsreglum um góða búskaparhætti.

Í kynningarferlinu varðandi tillögu að matsáætlun, benti Hvalfjarðarsveit á að mikilvægt væri að umfjöllun yrði um lyktarmengun við Geldingaá vegna þess magns af skít sem dreifa á þar ár hvert. Óskar sveitarfélagið eftir rökstuðningi fyrir því hvers vegna það er ekki gert. Í reglugerð um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri (nr. 804/1999) segir í grein 7.2 að í umsókn um starfsleyfi fyrir starfsleyfisskylda búfjárframleiðslu eigi fyrirtæki að gera ráðstafanir til að draga úr óþægindum m.a. vegna lyktarvandamála vegna geymslu og dreifingar búfjáráburðar.

Búfjáráburður getur verið uppspretta sýkla en í kafla um sýkingarhættu er niðurstaðan sú að sýkingarhætta frá starfseminni sé óveruleg. Í ábendingum sínum um tillögu að matsáætlun, benti Hvalfjarðarsveit á sýkingarhættu og smitleiðir vegna fugla sem dreifing á hænsnaskít gæti haft í för með sér og óskaði eftir því að nánari grein væri gerð fyrir þessum þáttum í frummatsskýrslu.

Hvað varðar dreifingu hænsnaskíts í landi Geldingaár, þarf að sækja um starfsleyfi fyrir henni til Heilbrigðiseftirlits Vesturlands.

Að lokum vill umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd Hvalfjarðarsveitar ítreka áður fram komnar ábendingar um að fenginn verði óháður aðili til að meta hvort hætta sé á að vatnsbólin í nágrenni við dreifingasvæðið mengist. Einnig að ítarlegri grein sé gerð fyrir flutningum á þessu magni af skít, hvernig þeim verði háttað og mögulegum áhrifum á umferð og umferðaröryggi í Hvalfjarðarsveit.

3.Umsóknir um stofnun vegsvæðis úr Áslandi, L1986331, L195902 og L198633

2204050

Erindi frá Direkta lögfræðiþjónustu fyrir hönd Vegagerðarinnar.
Sótt er um stofnun vegsvæðis úr eftirfarandi landeignum:
Ásland L198631, 3.763,98 m2. Heiti nýrrar lóðar verður Ásland vegsvæði.
Ásland L195902, 14.753,11 m2. Heiti nýrrar lóðar verður Ásland 2 vegsvæði.
Ásland - Ásmelar, L198633, 6.907,88 m2. Heiti nýrrar lóðar verður Ásland Ásmelar vegsvæði.
Heildarvegsvæðið er 25.424,97 m2.
Með erindinu fylgdi eyðublað Þjóðskrár nr. F-550 um stofnun nýrra landeigna í fasteignaskrá, undirritað af landeiganda, einnig hnitsettur uppdráttur á loftmyndagrunni.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja stofnun lóðanna.

4.Skólasetursvegur 3 - breytt notkun.

2204045

Erindi frá Hvalfirði ehf, er varðar Hótel Glym í Hvalfirði.
Óskað er eftir viðbrögðum Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefndar við hugmyndum eigenda að breyttri notkun fasteignarinnar að Skólasetursvegi 3 Hvalfjarðarsveit.
Starfsmannahús og 6 bústaðir hafa verið seldir frá rekstri Hótels Glyms.
Óskað er eftir viðbrögðum sveitarfélagsins til þeirra hugmynda að breyta Hótel Glym í orlofsíbúðir með allt að 22 íbúðum en húsið er ca. 1.430 m2.
Um verður að ræða litlar íbúðir 40-60 m2 ásamt húsvarðaríbúð.
Gert er ráð fyrir að hver eign verði seld fyrir sig.
Framkvæmdir kalla ekki á miklar breytingar utanhúss.
Stefnt er að því að ljúka framkvæmdum í maí 2023.
Skv. gildandi aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2008-2020 og gildandi deiliskipulagi frá árinu 2007 er svæðið skilgreint sem verslun og þjónusta.
Í gildi er lóðarleigusamningur frá árinu 2007.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd gerir fyrir sitt leyti ekki athugasemd við þau áform að breyta notkun húsnæðis Hótel Glyms í Hvalfirði.

5.Gröf 2, umsókn um landskipti stofnun lögbýlis

2205006

Erindi frá Elís Guðmundssyni f.h. eigenda og skv. umboði eigenda.
Sótt er um landskipti / stofnun lögbýli fyrir Gröf 2, landeignanúmer L207694.
Tilgangur með stofnun lögbýlis er að einfalda möguleika á uppbyggingu á jörðinni Gröf 2, hvort sem að uppbyggingin feli í sér skógrækt, landbúnað af einhverjum toga eða byggingu íbúðar- eða frístundahúsa. Uppbyggingin mun þó alltaf samræmast aðalskipulagi sveitarfélagsins hverju sinni.
Óskað er eftir umsögn vegna umsóknar um skráningu lögbýlis í Gröf 2.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd leggur til við sveitarstjórn að gefa jákvæða umsögn um stofnun lögbýlis að Gröf 2, landeignanúmer L207694 sbr. 17. gr. jarðalaga nr. 81/2004.
Nefndin telur æskilegt að föst búseta fylgi stofnun lögbýlis.

6.Aðalskipulagsbreyting í Reykjavík - Nýi Skerjafjörður.

2006009

Ósk um umsögn.
Gögn má nálgast hér:
https://2021.reykjavik.is/skipulag-i-kynningu/nyi-skerjafjordur

Einnig má sjá tillöguna á vefnum, www.reykjavik.is, skipulag í kynningu.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd leggur til við sveitarstjórn að gefa jákvæða umsögn með tillögu að breytingu á aðalskipulagi í Reykjavík er varðar nýja Skerjafjörð.

7.Bjarkarás 11 - Grenndarkynning - byggingarleyfi

2109006

Erindi frá Tryggva Þ. Aðalsteinssyni varðandi byggingarleyfi fyrir skemmubyggingu/frístundaaðstöðu á lóðinni Bjarkarási 11, en um er að ræða 681,6 m2 byggingu að grunnfleti.
Erindið var grenndarkynnt á sl. ári fyrir lóðarhöfum Bjarkaráss 1, 2, 3, 4, 5, 6, 7, 8, 9, 10, 12, Silfurbergs, Silfurtúns og landeiganda Bjarkaráss, skv. samþykkt 336. fundar sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.
Málið var grenndarkynnt og bárust athugasemdir frá tveimur aðilum vegna fyrirhugaðs byggingarleyfis.
Umhverfis-, skipulags- og náttúrverndarnefnd tók á fundi sínum þann 08.12.2021 undir innsendar athugasemdir er varðar hæð byggingarinnar og hafnaði erindinu á þeim forsendum.
Umhverfis-, skipulags- og náttúrverndarnefnd fjallaði um málið að nýju á fundi sínum þann 19.01.2022 og hafnaði erindinu á grundvelli þess að umrædd bygging væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag. Sveitarstjórn staðfesti niðurstöðu nefndarinnar á fundi sínum þann 25.01.2022.
25.01.2022 var áður innsend tillaga dregin til baka og sótt um nýja tillögu vegna 681,6 m2 byggingu þann 02.02.2022.
Á fundi nefndarinnar þann 02.03.2022 var sveitarfélaginu falið að óska eftir leiðbeiningum Skipulagsstofnunnar hvort fyrirhuguð bygging samræmist deiliskipulagsskilmálum fyrir íbúðarbyggðina að Bjarkarási og lá sú niðurstaða fyrir 31.03.2021.
Á fundi USN-nefndar þann 06.04.2022 var samþykkt að leita álits/rökstuðnings Skipulagsstofnunar að nýju, er varðar álitaefni málsins.
Þann 02.05.2022 fundaði Skipulagsfulltrúi með Skipulagsstofnun vegna málsins.
Skipulagsfulltrúi átti fund með starfsfólki Skipulagsstofnunar mánudaginn 2. maí s.l. Í framhaldi af umræðum af þeim fundi felur Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd skipulagsfulltrúa að óska eftir áliti lögmanns sveitarfélagsins vegna málsins.

8.Hertar sóttvarnarreglur vegna hættu á fuglaflensu

2204020

Erindi frá Mast.
Upplýsingar varðandi viðbrögð við mögulega veikum eða dauðum fuglum vegna greiningar á skæðri fuglaflensu hér á landi nýlega.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd bendir fólki á greinargóðar upplýsingar um stöðu fuglaflensu á Íslandi og viðbrögð við henni á heimasíðu matvælastofnunar: https://www.mast.is/is/baendur/lyfja-og-sjukdomaskraning/listi-yfir-sjukdoma-og-meindyr/fuglaflensa.

9.Söfnun og eyðing dýraleifa í Hvalfjarðarsveit

2205007

Erindi frá Hvalfjarðarsveit.
Mótun tillagna um hvernig hægt sé að standa að söfnun og eyðingu dýraleifa í Hvalfjarðarsveit hjá dýraeigendum og bændum sem ekki reka starfsleyfisskyldan rekstur.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd leggur til við sveitarstjórn að fela Umhverfisfulltrúa að móta tillögur um hvernig hægt sé að standa að söfnun og eyðingu dýraleifa í Hvalfjarðarsveit hjá dýraeigendum og bændum sem ekki reka starfsleyfisskyldan rekstur. Skoðaðir verði kostir þess að fara í samstarf við nágrannasveitarfélög um verkefnið.
Umhverfisfulltrúa falið að vinna áfram að málinu í samræmi við umræður á fundinum.

Fundi slitið - kl. 18:00.

Efni síðunnar