Fara í efni

Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd

16. fundur 01. mars 2023 kl. 15:30 - 17:30 í stjórnsýsluhúsinu Innrimel 3
Nefndarmenn
  • Sæmundur Víglundsson formaður
  • Ása Hólmarsdóttir varaformaður
  • Helga Harðardóttir ritari
  • Ómar Örn Kristófersson aðalmaður
  • Þorsteinn Már Ólafsson 1. varamaður
    Aðalmaður: Svenja Neele Verena Auhage
Starfsmenn
  • Jökull Helgason embættismaður
  • Arnheiður Hjörleifsdóttir embættismaður
Fundargerð ritaði: Jökull Helgason Skipulagsfulltrúi
Dagskrá

1.Úrgangsmál í Hvalfjarðarsveit

2210038

Umhverfisfulltrúi fór yfir stöðu á innleiðingu á breyttri úrgangsstjórnun í Hvalfjarðarsveit og lagði fram fundargerð frá samráðsfundi Hvalfjarðarsveitar og Íslenska gámafélagsins sem fram fór 1. mars sl.
Jafnframt greindi umhverfisfulltrúi frá því að svör hafa nú borist frá ráðuneytinu varðandi nýja Samþykkt um meðhöndlun úrgangs og er stefnt að birtingu í B-deild stjórnartíðinda síðar í þessum mánuði.
Fjórðu tunnunni, 240 lítra tunnu undir plast, hefur nú verið dreift um hluta sveitarfélagsins. Dreifingu á að vera lokið um allt sveitarfélagið um 20 mars.
Þá er stífri fundarlotu í verkefninu "Borgað þegar hent er" nú lokið en verkefnið heldur áfram fram á mitt ár, en þá ætti ný gjaldskrá fyrir sorphirðu í Hvalfjarðarsveit að vera tilbúin. Umhverfisfulltrúi fór yfir forsendur nýrrar gjaldskrár sem endurspeglar nýtt lagaumhverfi og áherslur í innleiðingu hringrásarhagkerfisins.
USNL-nefnd felur umhverfisfulltrúa að vinna áfram að innleiðingu að breyttri úrgangsstjórnun í Hvalfjarðarsveit og að upplýsa nefndina reglulega um stöðu mála. Jafnframt samþykkir USNL-nefnd að fela umhverfisfulltrúa, í samstarfi við verkefnastjóra framkvæmda og eigna, að finna staðsetningu og undirbúa undirlag fyrir flokkunarílát undir gler, málma og textíl á grenndarstöðinni við Melahverfi. Samhliða þurfi að upplýsa íbúa Hvalfjarðarsveitar um aukna möguleika til flokkunar úrgangs. USNL-nefnd leggur á það áherslu að grunneining íláta í Hvalfjarðarsveit styðji við sérsöfnun eftirfarandi úrgangsflokka: Plast, pappi, lífúrgangur og almennur (óflokkaður) úrgangur og skulu öll heimili í sveitarfélaginu búin grunneiningu íláta (4 ílát) til úrgangsflokkunar. Til að uppfylla ákvæði nýrra laga um flokkun og endurvinnslu o.fl. leggur USNL-nefnd áherslu á að ný gjaldskrá fyrir sorphirðu og úrgangsstjórnun í Hvalfjarðarsveit endurspegli hugmyndafræðina um hringrásarhagkerfið og minni urðun úrgans með því að skoða möguleikann á því að bjóða svokallaða "spartunnu" og annað sem ýtir undir meiri flokkun. USNL-nefnd felur umhverfisfulltrúa að skoða þessa möguleika og leggja fyrir næsta fund nefndarinnar.

2.Stóri plokkdagurinn

2302031

Stóri plokkdagurinn verður þann 30. apríl nk. og hvetur Plokk á Íslandi fyrirtæki stofnanir, félagasamtök og einstaklinga að taka þátt og hvetja aðra til þátttöku.
Allir mega stofna viðburði á Stóra plokkdaginn á samfélagsmiðlum, tengja þá við Plokk á Íslandi og fá merkingar frá Plokk á Íslandi.
Sveitarfélög landsins auglýsa sína viðburði og hvernig hægt er að bera sig að með frágang, flokkun eða urðun á hverjum stað fyrir sig.
USNL-nefnd felur umhverfisfulltrúa að vekja athygli á stóra plokkdeginum á heimasíðu Hvalfjarðarsveitar og um leið að óska eftir hugmyndum að verkefnum eða viðburðum sem honum tengjast. Nefndin hvetur íbúa sveitarfélagsins til að taka þátt í verkefninu og leggja þannig umhverfinu lið ásamt því að stunda holla og góða útiveru.
Lagt fram.

3.Landamerki Teigs og Krosslands eystra.

2211039

Erindi frá Innviðaráðuneytinu dags. 8. febrúar 2023 þar sem tilkynnt var að ráðuneytingu hafi borist stjórnsýslukæra Harðar Jónssonar, kt. 200865-3679 og Valdísar Heiðarsdóttur kt. 260161-2969, þar sem kærð er ákvörðun Hvalfjarðarsveitar um neitun á viðurkenningu þess efnis að röng landamerki hafi legið til grundvallar við gerð stofnskjals jarðarinnar Korsslands eystra árið 2006.
Ekki verður annað lesið út úr kærunni en að kærendur séu að fara fram á það við Innviðaráðuneytið að framangreind ákvörðun sveitarfélagsins verði felld úr gildi en sú krafa kemur ekki fram með skýrum hætti í kærunni.
Meðal fylgigagna kærunnar eru afrit tveggja bréfa skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins, dags. 27. september og 22. desember 2022, þar sem gerð er grein fyrir afstöðu sveitarfélagsins til erindis kærenda varðandi stofnskjal það sem mál þetta varðar.
Er þess farið á leit að sveitarfélagið sendi ráðuneytinu öll gögn málsins og geri enn fremur grein fyrir athugasemdum sínum vegna kærunnar, ef einhverjar eru, eigi síðar en 1. mars 2023.
Lagt fram bréf sveitarfélagsins til Innviðaráðuneytisins sem unnið var af lögmanni sveitarfélagsins hjá Pacta og er honum falið að vinna áfram að málinu.

4.Breyting á legu þjóðvegar við Borgarnes- skipulagslýsing.

2302029

Erindi frá Borgarbyggð.
Breyting á legu þjóðvegar við Borgarnes, ósk um umsögn um lýsingu að breytingu á Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 sbr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti þann 9. febrúar 2023 að auglýsa lýsingu að breytingu á Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022, Breyting á legu þjóðvegar við Borgarnes.
Umsagnarfrestur er til og með 9. mars 2023.

Umrædd breyting varðar stækkun á íbúðarsvæði Í12, sem nemur 50 íbúðum á svæði sem spannar 6,3 hektara, til viðbótar við núverandi skilgreiningu íbúðarsvæðisins Í12 í aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022, og vegna þessarar stækkunar þarf að færa fyrirhugaða legu þjóðvegar 1 fjær byggðinni, eins og hann er skilgreindur í gildandi aðalskipulagi Borgarbyggðar.

Annars vegar er um að ræða færslu þjóðvegar 1 við aðkomu að Borgarnesi frá Borgarfjarðarbrú við Digranes skv. tillögu 3 og 5, og hinsvegar, til að rýma fyrir nýrri íbúðarbyggð, er um að ræða færslu þjóðvegar 1 útfyrir Kveldúlfshöfða og um Grímólfsvík og tengist vegurinn landi við Grímólfskeldu skv. tillögu 5 en umræddar tillögur (1, 2, 3, 4 og 5) koma fram á yfirlitsuppdrætti frá Vegagerðinni, sem ber heitið Hringvegur (1) um Borgarnes dags. 28.02.2022.

Færsla legu þjóðvegar 1 er talin nauðsynlegt til að skapa meira rými fyrir stækkun íbúðarbyggðrinnar en jafnframt til að tryggja betri loftgæði og hljóðvist fyrir íbúðarbyggðina.

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd gerir fyrir sitt leyti ekki athugasemd við fyrirhugaða breytingu á aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022. Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar.

5.Grundartangi, Vestursvæði 1 deiliskipulagsbreyting.

2301015

Erindi frá Eflu verkfræðistofu.

Á fundi skipulagsnefndar þann 18. janúar 2023 var fjallað um óverulega deiliskipulagsbreytingu vestursvæðis 1 á Grundartanga, vegna lóða 5, 7 og 9 við Klafastaðaveg.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd gerði athugasemd við tillöguna og var skipulagsfulltrúa falið að funda með málsaðilum.

Breyting deiliskipulagsins fól í sér :
- Byggingarreitir voru sameinaðir en nýtingarhlutfall hélst áfram óbreytt 0,6. Leyfilegt byggingarmagn á lóð óbreytt. Staðsetning bygginga breyttist óverulega.
- Lóð fyrir spennistöð færðist til og staðsetning hennar var skilgreind leiðbeinandi.
- Heimilt að sameina lóðirnar 5, 7 og 9 ef þurfa þætti án þess að breyta deiliskipulagi.
- Engar breytingar voru gerðar á greinargerð deiliskipulags og eldri skilmálar giltu því að öðru leyti.


Skipulagsfulltrúi fundaði með skipulagshöfundi Eflu verkfræðistofu ásamt með skipulagsfulltrúa Faxaflóahafna þann 03.02.2023.
Í kjölfarið barst sveitarfélaginu ný tillaga þann 22.02.2023 og skv. henni hafa verið gerðar eftirfarandi breytingar:

1. Eftirfarandi texti er tekinn út úr tillögunni: "Það er mat sveitarstjórnar að deiliskipulagsbreyting þessi teljist óveruleg þar sem hún hefur engar breytingar á landnotkun í för með sér og hún er ekki líkleg til að hafa áhrif á einstaka aðila eða á stórt svæði." Bætt er inn rökstuðningi fyrir óverulegri breytingu.

2. Staðsetning spennistöðvar er fest og sett inn hámarkshæð 3,5 m. Tekinn út texti um að staðsetning lóðar fyrir spennistöð sé leiðbeinandi.

3. Fyrirkomulag sem gerir ráð fyrir að byggingarreitur nái yfir margar lóðir og heimild sé til að sameina lóðir án deiliskipulagsbreytingar var lögð fyrir Skipulagsstofnun sem tók jákvætt í þessa útfærslu.

4. Texta um áhrif á umhverfið hefur verið breytt og ítarlegri umfjöllun um möguleg áhrif þess að nú geti komið ein löng bygging í stað þriggja stakstæðra, en í ljósi þess að þetta er á iðnaðarsvæði þar sem nánasta umhverfi er gróf atvinnustarfsemi sem ekki er talin viðkvæm fyrir breytingu á útsýni og ásýnd þá eru áhrifin metin óveruleg.

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir fyrir sitt leyti breytta deiliskipulagstillögu með þeirri breytingu að fram komi í deiliskipulaginu að samþykki sveitarfélagsins þurfi til að heimila breytingu á lóðum / byggingarreitum sbr. ábendingu Skipulagsstofnunar til Eflu verkfræðistofu skv. tölvupósti stofnunarinnar frá 22. febrúar 2023.
Í ljósi þess að nýtingarhlutfall helst áfram óbreytt, leyfilegt byggingarmagn á lóð verður áfram óbreytt, að staðsetning bygginga breytist óverulega, að engar breytingar eru gerðar á greinargerð deiliskipulagsins, að um er að ræða iðnaðarsvæði þar sem nánasta umhverfi er gróf atvinnustarfsemi sem ekki er talin viðkvæm fyrir breytingu á útsýni eða ásýnd, telur USNL-nefnd að áhrif tillögunnar séu óveruleg.

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir fyrir sitt leyti að auglýsa óverulega breytingu á deiliskipulagi vestursvæðis 1 á Grundartanga með áorðnum breytingum, samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt að grenndarkynna meðal aðliggjandi lóðarhafa við Klafastaðaveg.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

6.Gandheimar, efnistaka - umsögn um matsáætlun.

2302030

Erindi dags. 22.02.2023 frá Skipulagsstofnun.
Námufjélagið ehf. hefur sent Skipulagsstofnun matsáætlun um ofangreinda framkvæmd, skv. 21. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.

Óskað er eftir að gefin verði umsögn um matsáætlunina skv. 21. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021 og 12. gr. reglugerðar nr. 1381/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Í umsögninni þarf eftir því sem við á að koma fram hvort sveitarfélagið hafi athugasemdir við það hvernig framkvæmdaraðili hyggst vinna að umhverfismati framkvæmdarinnar, út frá sínu starfssviði, svo sem um skilgreiningu valkosta, gagnaöflun, úrvinnslu gagna, umhverfismat og framsetningu umhverfismatsskýrslu.
Einnig, ef á skortir, hvaða atriðum sveitarfélagið telur að gera þurfi frekari skil eða hafa sérstaklega í huga við umhverfismat framkvæmdarinnar.
Leyfisveitendur skulu í umsögn sinni gera grein fyrir þeim leyfum sem eru á starfssviði þeirra og framkvæmdin er háð.

Umsögnin óskast send Skipulagsstofnun fyrir 24. mars 2023.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir að fela starfsfólki tæknideildar Hvalfjarðarsveitar að gera tillögu að umsögn og leggja fyrir fund nefndarinnar til afgreiðslu.
Lagt fram.

7.Aðalskipulag-endurskoðun-2020-2032

1901286

Lagðar fram athugasemdir Skipulagsstofnunar.
Um er að ræða ósk um lagfæringu á stafrænum gögnum aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar 2020-2023 og athugasemdir/ábendingar varðandi tiltekin atriði í aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032.
Annars vegar eru efnislegar athugasemdir sem kalla á umfjöllun og afgreiðslu sveitarstjórnar, og hinsvegar lagfæringar og framsetningaratriði við greinargerð og uppdrætti.
Skipulagsstofnun hefur lokið yfirferð Vegaskrár, sem fjallar um vegi í náttúru Íslands, en samþykki Vegagerðarinnar vantar þar sem í umsögn Vegagerðarinnar kom ekki fram að stofnunin væri að samþykkja vegaskrána.

Skipulagsfulltrúi og formaður USNL-nefndar funduðu um bréf Skipulagsstofnunar þann 24.02.2023. Í kjölfarið var Eflu verkfræðistofu falið að vinna að uppfærslu gagna og verða þær breytingar lagðar fyrir USNL-nefnd síðar.
Lagt fram til kynningar.

8.Gagnagrunnur um mengaðan jarðveg.

2302035

Umhverfisstofnun vill koma því á framfæri til sveitarfélaganna í landinu að stofnunin hefur komið á fót gagnagrunni um mengaðan jarðveg sbr. reglugerð nr. 1400/2020 um mengaðan jarðveg. Gagnagrunninn er hægt að nálgast í kortasjá Umhverfisstofnunar og á svæði stofnunarinnar um mengaðan jarðveg. Stofnunin vill benda á að í 13.gr. reglugerðarinnar kemur fram að sveitarfélög skulu taka mið af gagnagrunninum við gerð skipulags.

Umhverfisstofnun og heilbrigðiseftirlitin í landinu vinna að því að færa þekkt menguð svæði inn í gagnagrunninn ásamt svæðum þar sem grunur er um mengun.

Umhverfisstofnun vill einnig benda á að opnaður hefur verið ábendingavefur inni á gagnagátt stofnunarinnar þar sem allir geta farið inn og sent inn ábendingu um menguð svæði eða svæði þar sem grunur er um mengun.
Lagt fram til kynningar.
USNL-nefnd felur umhverfisfulltrúa að koma á framfæri tilkynningu á heimasíðu sveitarfélagsins um ábendingarvef Umhverfisstofnunar hvað varðar mengaðan jarðveg og að allir geti sent inn ábendingu um menguð svæði eða svæði þar sem grunur er um mengun.
Arnheiður Hjörleifsdóttir, umhverfisfulltrúi, sat fundinn undir málum 1, 2 og 8.

Fundi slitið - kl. 17:30.

Efni síðunnar