Fara í efni

Sveitarstjórn

422. fundur 11. júní 2025 kl. 15:09 - 15:39 í stjórnsýsluhúsinu Innrimel 3
Nefndarmenn
  • Andrea Ýr Arnarsdóttir oddviti
  • Helga Harðardóttir varaoddviti
  • Helgi Pétur Ottesen ritari
  • Birkir Snær Guðlaugsson aðalmaður
  • Inga María Sigurðardóttir aðalmaður
  • Ása Hólmarsdóttir 1. varamaður
  • Marie Greve Rasmussen Varamaður
Fundargerð ritaði: Helga Harðardóttir varaoddviti
Dagskrá
Andrea Ýr Arnarsdóttir, oddviti, bauð fundarfólk velkomið og setti fund skv. fyrirliggjandi dagskrá.

Elín Ósk Gunnarsdóttir og Ómar Örn Kristófersson boðuðu forföll.

1.Sveitarstjórn - 421

2505007F

Fundargerðin framlögð.

2.Mannvirkja- og framkvæmdanefnd - 82

2505010F

Fundargerðin framlögð.
HPO fór yfir helstu atriði fundarins.
  • Mannvirkja- og framkvæmdanefnd - 82 Framlögð er fundargerð opnun tilboða í 2. áfanga byggingu íþróttahússins við Heiðarborg.

    Eftirfarandi tilboð barst:
    K16 ehf


    kr. 633.420.000 - 108,4%
    Kostnaðaráætlun verkkaupa
    kr. 584.140.783 - 100,0%

    Tilboðið hefur verið yfirfarið og leggur Mannvirkja- og framkvæmdanefnd til við sveitastjórn að gengið verði til samnings við K16 ehf að undangengnum biðtíma og háð staðfestingu á hæfi bjóðanda í samræmi við kröfur útboðs og verkefnastjóra framkvæmda og eigna verði falið að ganga frá verksamning.

    Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
    "Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar staðfestir bókun nefndarinnar og samþykkir að gengið verði til samnings við K16 ehf. að undangengnum biðtíma og staðfestingu á hæfi bjóðanda í samræmi við kröfur útboðs. Verkefnastjóra framkvæmda og eigna er falið að ganga frá verksamningi."
    Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Mannvirkja- og framkvæmdanefnd - 82 Tilboð hafa verið opnuð í verkið Melahverfi III - gatnaframkvæmd.

    Eftirfarandi tilboð bárust:

    Fagurverk ehf
    kr. 299.295.100,-131,8%
    Borgarverk ehf


    kr. 242.034.845,-106,6%
    Þróttur ehf


    kr. 274.649.070,-121,0%
    Kostnaðaráætlun verkkaupa
    kr. 226.920.100,-100%

    Tilboðin hafa verið yfirfarin og leggur Mannvirkja- og framkvæmdanefnd að gengið verði til samnings við Borgarverk ehf að undangengnum biðtíma og háð staðfestingu á hæfi bjóðanda í samræmi við kröfur útboðs og verkefnastjóra framkvæmda og eigna verði falið að ganga frá verksamning.

    Verðkönnun var gerð í verkeftirlit Melahverfis III, leitað var til tveggja verkfræðistofa eftir verðfyrirspurn.

    COWI kr. 8.860.000,-
    Verkís kr. 6.536.040,-

    Mannvirkja- og framkvæmdanefnd leggur til við sveitastjórn að gengið verði til samnings við Verkís og verkefnastjóra framkvæmda og eigna verði falið að ganga frá verksamning.
    Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
    "Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar staðfestir bókun nefndarinnar og samþykkir að gengið verði til samnings við Borgarverk ehf. um verkið Melahverfi III-gatnaframkvæmd, að undangengnum biðtíma og staðfestingu á hæfi bjóðanda í samræmi við kröfur útboðs. Verkefnastjóra framkvæmda og eigna er falið að ganga frá verksamningi."
    Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.


    Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
    "Sveitarstjórn staðfestir bókun nefndarinnar og samþykkir að gengið verði til samnings við Verkís um verkeftirlit Melahverfis III og er verkefnastjóra framkvæmda og eigna falið að ganga frá verksamningi."
    Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Mannvirkja- og framkvæmdanefnd - 82 Mannvirkja- og framkvæmdanefnd leggur til við sveitastjórn að heimila bréfritara að fara í viðgerðir og endurbætur á gamla keppnisvellinum fyrir norðan Melahverfi. Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
    "Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir og staðfestir bókun nefndarinnar og heimilar bréfritara, á eigin kostnað, að fara í viðgerðir og endurbætur á gamla keppnisvellinum fyrir norðan Melahverfi en framkvæmdir og endurbætur séu gerðar að undangengnu samþykki verkefnastjóra framkvæmda og eigna á tilhögun þeirra."
    Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 5 atkvæðum.

    Birkir Snær Guðlaugsson og Ása Hólmarsdóttir viku af fundi undir umræðum og afgreiðslu málsins.

3.Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd - 49

2504009F

Fundargerðin framlögð.
ÁH fór yfir helstu atriði fundarins.
  • Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd - 49 Þar sem tillögur að breytingum þessum eru af sömu rótum runnar og málin samkynja þykir rétt að umsögn þessi sé sameiginleg fyrir báðar tillögur að breytingum á starfsleyfum.
    Umrædd stóriðjuver eru starfrækt á Grundartanga, Hvalfjarðarsveit. Í allnokkurn tíma hefur staðið til af hálfu stofnunarinnar að breyta starfsleyfum stóriðjuvera og afnema ákvæði um þynningarsvæði úr þeim, vegna innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/75/ESB frá 24.11.2010 um losun frá iðnaði, sem var innleidd með lögum nr. 66/2017, þar sem ekki er gert ráð fyrir þynningarsvæðum. Sú stefna sem var mörkuð af yfirföldum um afnám þynningarsvæða helgast m.a. af sjónarmiðum náttúruverndar, vernd íbúa og annarra sem hagsmuna eiga að gæta í nágrenni við stóriðju. Ýmsar takmarkanir á landnotkun hafa lengi verið fyrir hendi innan þynningarsvæðis af öryggis- og varúðarsjónarmiðum, enda má mengun innan þess vera yfir umhverfis- og gæðamörkum.

    Vegna tillagna um breytingu á starfsleyfi Elkem
    Samkvæmt tillögu um breytingar fellur ákvæði 1.7 í starfsleyfi brott, sem felur í sér að þynningarsvæði, sem er tilgreint á uppdrætti í viðauka starfsleyfis fellur brott. Gert er ráð fyrir að viðauki við starfsleyfið, fyrrnefndur uppdráttur, falli brott. Þá er tillaga um breytingu að felldar verði brott vísanir í þynningarsvæði í 1. og 2. mgr. ákvæðis 2.4. varðandi kröfur til loftgæða vegna útblásturs. Þá er lagt til vegna sömu ákvæða að í stað orðasambandsins „utan lóðar“ komi orðasambandið „utan marka iðnaðarsvæðis samkvæmt aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar“.

    Vegna tillagna um breytingu á starfsleyfi Norðuráls
    Samkvæmt tillögu um breytingar er gert ráð fyrir að þar greind umhverfismörk flúoríð og heildarflúoríð verði utan marka iðnaðarsvæðis samkvæmt aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar, í stað utan marka þynningarsvæðis. Þessu samfara er gert ráð fyrir að viðauki 2, við starfsleyfið falli brott, sem er uppdráttur að þynningarsvæði. Þá er gerð tillaga að breytingu fylgiskjali 4 að breyttu breytanda og vísað til Umhverfismarka fyrir flúoríð utan marka iðnaðarsvæðis samkvæmt aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar, í stað utan þynningarsvæðis.

    Í auglýstum tillögum að breytingu á starfsleyfum felst afnám þynningarsvæða á Grundartanga, Hvalfjarðarsveit, sem hefur verið við lýði í marga áratugi, annars vegar vegna brennisteinsdíoxíð og hins vegar vegna flúóríð. Þynningarsvæði brennisteinsdíoxíð er stærra og innan þess er afmarkað þynningarsvæði flúóríð.

    Til þessa hefur ákvörðun um stærð og afmörkun þynningarsvæðis verið hjá stofnuninni í starfsleyfum stóriðjuvera á grundvelli laga og reglugerða og hefur sveitarfélagið tekið mið af því við skipulagsgerð. Nú gera hins vegar tillögur að breytingum á starfsleyfum ráð fyrir að afmörkun þynningarsvæðis miðist við iðnaðarsvæði eins og það er ákvarðað og afmarkað í aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar.
    Miðað við afmörkun iðnaðarsvæðis í gildandi aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar, er svæði þar sem mengun má fara umfram viðmiðunarmörk, að minnka verulega, miðað við auglýsa tillögu.

    Fulltrúar sveitarfélagsins og sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar funduðu með fulltrúum Umhverfisstofnunar í október 2022, þar sem til kynningar var endurskoðun þynningarsvæða í starfsleyfum stóriðjuvera á Grundartanga, Hvalfjarðarsveit. Frá þeim tíma hefur stofnunin ekki átt samskipti eða samráð við sveitarfélagið vegna málsins og það kom því sveitarfélaginu á óvart þegar skyndilega barst tilkynning 7. maí sl. frá stofnuninni um auglýsingu á tillögu að breyttum starfsleyfum stóriðjuvera. Hvalfjarðarsveit gekk út frá því að samráð yrði haft vegna þessara vinnu til að sveitarfélagið væri undirbúið og í stakk búið að bregðast við með skipulagslegum ákvörðunum um líkt leyti þynningarsvæði yrðu afnumin úr starfsleyfum. Viðhorf stofnunarinnar var enda þannig að vinna þyrfti málið í samstarfi við sveitarfélög í þeim tilvikum þar sem breytingar á ákvæði í starfsleyfum um þynningarsvæði kölluðu á breytingar á skipulagi þeirra.

    Í gildandi aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar er varúðarsvæði (þynningarsvæði) sýnt á uppdrætti og innan þess hafa lengi verið takmarkanir á landnotkun. Í aðalskipulagi er gert ráð fyrir að þynningarsvæði verði felld brott samhliða endurnýjun starfsleyfa stóriðjuvera og takmarkanir innan svæðisins verði endurskoðaðar. Við niðurfellingu þynningarsvæðis er gert ráð fyrir að sýna skuli fram á að mengun frá Grundartangasvæðinu sé undir viðmiðunarmörkum vegna þungmálma, lífrænna efnasambanda og sjúkdómsvalda í jarðvegi í samræmi við viðauka I í reglugerð nr. 1400/2000. Í gildandi aðalskipulagi segir að á meðan þynningarsvæði sé ekki heimil skipulögð byggð eða ástundun hefðbundins búskapar, heynytja, akuryrkja eða beit á túnum, nema sýnt sé fram á að mengun í jarðvegi og grunnvatni sé undir viðmiðunarmörkum.

    Sveitarfélagið hefur ekki fengið nægar upplýsingar hvaða áhrif þessar breytingar á starfsleyfi koma til með að hafa á starfsemi og mengun frá stóriðjuverum og hvort og þá hverjar breytingar verða á umhverfis- og loftgæðaeftirliti stofnunarinnar, þ. m. t. varðandi loftgæðamæla, fjölda þeirra og staðsetningu í ljósi afnáms þynningarsvæðis. Sveitarfélagið hefur auk þess ekki upplýsingar hvort eða þá hvenær vænta megi þess að hreinsibúnaður vegna útblásturs viðkomandi stóriðjuvera sé í stakk búinn að fullnægja auknum kröfum, m.t.t. umhverfis- og gæðamarka, sem felst í breytingum í starfsleyfi um afnám þynningarsvæðis. Óljóst er hvort og þá að hvaða marki gera eigi ráð fyrir að styrkur mengandi lofttegunda fari yfir almenn loftgæðamörk, í næsta nágrenni við iðnaðarsvæði á Grundartanga. Sveitarfélagið telur sig þurfa upplýsingar af þessu tagi og aðrar sem máli skipta, til að leggja mat á og taka skipulagslegar ákvarðanir innan þess svæðis, sem nú telst vera þynningarsvæði í aðalskipulagi sveitarfélagsins, nú þegar til stendur að afnema þynningarsvæði úr starfsleyfum, svo sem auglýst tillaga gerir ráð fyrir.

    Vísast í þessum sambandi m.a. til skipulagsreglugerðar nr. 90/2013, skv. 45. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, í 2.7. gr. segir að í skipulagsáætlunum skuli m.a. lýsa umhverfi og aðstæðum á skipulagssvæðinu, sbr. nánar b-lið, gr. 4.2.3, að lýsa skuli takmarkandi þáttum, þ. m. t. þáttum er tengjast varúð. Þá kemur fram í 6.3. gr. að skylt sé að tilgreina í aðalskipulagi svæði þar sem sérstakar aðstæður kalla á takmarkanir á landnotkun og mannvirkjagerð, sbr. b-liðar 3. mgr. vegna mengunar, sbr. 6. mgr. 45. gr. laga nr. 123/2010. Þá skal skv. l-lið 4.3.1. gr. gera grein fyrir og setja fram ákvörðun um varúðarsvæði, þar sem er hætta fyrir heilsu og öryggi almennings vegna mengandi atvinnustarfsemi og skal afmarka svæði þetta í skipulagsuppdrætti, skv. 4. lið, 4.5.3. gr. reglugerðarinnar.

    Að óbreyttu má vænta þess að breytt starfsleyfi stóriðjuvera og breytingar á aðalskipulagi koma ekki til með að eiga sér stað á sama tíma miðað við hvar málið virðist langt á veg komið hjá stofnuninni. Til þess er að líta að breytingar á aðalskipulagi sveitarfélags er lögákveðið og tímafrekt ferli sem krefst mikillar og ígrundaðrar vinnu.

    Með vísan til framanritaðs óskar Hvalfjarðarsveit eftir frekari upplýsingum og frekara samráði og samvinnu vegna tillagna um breytingu á starfsleyfum stóriðju á Grundartanga um afnám þynningarsvæðis úr starfsleyfum stóriðjuvera.

    Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.
    Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
    "Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir og staðfestir bókun nefndarinnar. Umhverfis- og skipulagsdeild er falið að svara erindinu."
    Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd - 49 Lögð fram tillaga að svari til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem m.a. kemur fram að sveitarfélagið telji að beiðandi hafi ekki sýnt fram á að skilyrðum 24. gr. stjórnsýslulaga sé fullnægt til að endurupptaka málið.
    Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.
    Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
    "Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir og staðfestir bókun nefndarinnar. Umhverfis- og skipulagsdeild er falið að svara erindinu."
    Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd - 49 Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd vill vekja athygli á að skv. grein 2.6.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 skal sækja um stöðuleyfi til leyfisveitanda til að láta lausafjármuni eins og gáma standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega eru skipulögð og ætluð til geymslu slíkra lausafjármuna.
    Stöðuleyfi skulu mest veitt til 12 mánaða nema ákvæði skipulags mæli fyrir um annað.
    Ekki er í byggingarreglugerð gert ráð fyrir heimild til að sækja um stöðuleyfi fyrir aðra lausafjármuni en hjólhýsi, gáma, báta, torgsöluhús, stór samkomutjöld og frístundahús í smíðum og sem ætlað er til flutnings.

    Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd vill því vekja athygli umsækjanda á að hluti þess sem sótt er um stöðuleyfi fyrir, er háð byggingarleyfi í stað stöðuleyfis.

    Skv. skipulagi svæðisins eru umræddar lóðir skilgreindar sem byggingarlóðir og því telur nefndin að varanleg nýting lóðanna sem geymslusvæði, samrýmist ekki gildandi deiliskipulagi.
    Erindinu hafnað.
    Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

    Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
    "Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir og staðfestir bókun nefndarinnar."
    Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd - 49 Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd leggur til við sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar að heimila útgáfu framkvæmdaleyfis vegna skógræktar í landi Leirár skv. því fyrirkomulagi sem lýst er í umsóknargögnum og tilheyrandi fylgiskjölum og á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012, sbr. einnig umsókn fyrirtækisins, dags. 10. nóvember 2023.
    Gerð verði úttekt af hálfu sveitarfélagsins, þar sem þess verði gætt að framkvæmd sé í samræmi við umsókn framkvæmdaleyfis og hjálagðra gagna hennar.
    Kostnaður við framkvæmdaleyfi og áfangaúttektir sveitarfélagsins eru skv. gjaldskrá sveitarfélagsins.
    Endanlegri afgreiðslu vegna framkvæmdaleyfis vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.
    Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
    "Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir og staðfestir bókun nefndarinnar."
    Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd - 49 Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd leggur til við sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar að heimila útgáfu framkvæmdaleyfis vegna aukinnar efnistökku í Hólabrú, skv. því fyrirkomulagi sem lýst er í umsóknargögnum og tilheyrandi fylgiskjölum og á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012, sbr. einnig umsókn fyrirtækisins, dags. 10. nóvember 2023, sbr. einnig ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar.
    Gerð verði úttekt af hálfu sveitarfélagsins, þar sem þess verði gætt að framkvæmd sé í samræmi við umsókn framkvæmdaleyfis og hjálagðra gagna hennar.
    Kostnaður við framkvæmdaleyfi og áfangaúttektir sveitarfélagsins eru skv. gjaldskrá sveitarfélagsins.
    Endanlegri afgreiðslu vegna framkvæmdaleyfis vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.
    Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
    "Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir og staðfestir bókun nefndarinnar."
    Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd - 49 Að mati Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefndar víkur tillagan ekki verulega frá meginstefnu aðalskipulagsins en landið var áður landbúnaðarland áður en því var breytt í frístundabyggð og allt aðliggjandi land er landbúnaðarland.
    Flokkun sem landbúnaðarland fellur mun betur að svæðinu heldur en að skilgreina það sem frístundabyggð.
    Tillagan hefur ekki áhrif á stórt svæði, ekki er verið að auka við landnotkun heldur breyta henni.
    Ekki er um að ræða að verið sé að auka byggingarmagn á svæðinu og talið að umhverfisáhrif minnki, enda verið að fækka lóðum.

    Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir fyrir sitt leyti að auglýsa tillögu að breyttu aðalskipulagi fyrir Skorholtsnes/Akurey skv. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.
    Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
    "Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar staðfestir bókun nefndarinnar og samþykkir að auglýsa tillögu að breyttu aðalskipulagi fyrir Skorholtsnes/Akurey skv. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010."
    Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd - 49 Í stefnu aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 segir m.a.:
    "Efnistaka verður takmörkuð við núverandi staði til að vernda sem mest lítt raskað land í sveitarfélaginu."
    "Forðast skal efnistöku á svæðum sem hafa sérstakt verndargildi, s.s. friðlýstum svæðum, svæðum á náttúruminjaskrá og hverfisverndarsvæðum."
    "Afmörkuð eru rúmlega 30 efnistökusvæði og gert er ráð fyrir áframhaldandi efnistöku á þeim svæðum sem þegar eru nýtt."

    Skv. aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 hefur tillagan ennfremur áhrif á vatnsvernd á svæðinu, grafin verður allt að 16 m djúp hola á svæðinu sem að mati nefndarinnar mun líklega hafa áhrif á vatnsspegil svæðisins og þar með á vatnsborðsstöðu á aðliggjandi svæði þar sem m.a. er vatnsöflun fyrir aðliggjandi jarðir. Í almennum skilmálum um Vatnsvernd 2.8.5., segir í aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar að “Engar framkvæmdir eða starfsemi sem ógnað geta brunnsvæðum verða leyfðar í nágrenni þeirra.“
    Í október á sl. ári 2024 var hafist handa við dælingu vatns úr botni Skorholtsnámu, og var þá talið af landeigendum á svæðinu að það hafði áhrif á vatnsborðsstöðu á aðliggjandi svæði.
    Ekki liggur ljóst fyrir hvaða áhrif allt að 16 m djúp hola í landi Gandheima og lækkun á vatnsspegli svæðisins, mun hafa á vatnsból aðliggjandi jarða og vatnsverndarsvæðið í heild, en skv. ofanrituðu hafði dæling í Skorholtsnámu áhrif að mati landeigenda á svæðinu.

    Í nágrenni svæðisins eru Jökulgarðar sunnan Blákolls, sem eru hverfisverndaðir nr. HV1 skv. aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032. Stærð svæðisins er sögð vera 424 hektarar að stærð. Í lýsingu og skilmálum aðalskipulagsins segir: Jökulgarðarnir eru umfangsmiklir og bera vitni um jarðfræðisögu svæðisins. Þeir skulu varðveittir í sem heillegastri mynd. Mannvirkjagerð á svæðinu er leyfði svo fremi að framkvæmdin raski ekki landformi. Efnistaka óheimil.

    Skv. Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar eru nú um 38 skilgreind efnistökusvæði og er stærð efnistökusvæða alls um 200 hektarar.
    Efnismagn sem tekið verður í fyrirhuguðu námusvæði í Geldingaá/Gandheimum, er áætlað 4.800.000 m3 eða 4,8 milljónir rúmmetra.
    Fyrirhugað námusvæði í Geldingaá/Gandheimum verður 52 hektarar sem er um fjórðungs aukning á svæði undir námur í sveitarfélaginu.

    Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd hafnar erindi landeigenda um breytta landnotkun í aðalskipulagi vegna efnistökusvæðis þar sem erindið samræmist ekki stefnumörkun sveitarfélagsins sbr. aðalskipulag Hvalfjarðarsveitar 2020-2032, auk þess sem svæðið er viðkvæmt m.t.t. vatnsverndar.
    Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

    Þorsteinn Már Ólafsson sat hjá við afgreiðslu málsins.

    Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
    "Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir og staðfestir bókun nefndarinnar."
    Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd - 49 Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir fyrir sitt leyti stækkun lóðanna og merkjalýsingar vegna þeirra.
    Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.
    Sæmundur Víglundsson vék af fundi við afgreiðslu málsins.
    Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
    "Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir og staðfestir bókun nefndarinnar."
    Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd - 49 Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir fyrir sitt leyti breytingu á stærðum lóðanna og merkjalýsingar vegna þeirra.
    Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.
    Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
    "Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir og staðfestir bókun nefndarinnar."
    Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd - 49 Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir fyrir sitt leyti afmörkun jarðarinnar og merkjalýsingu vegna hennar.
    Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.
    Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
    "Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir og staðfestir bókun nefndarinnar."
    Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

4.Ósk um endurgjaldslaus afnot af Miðgarði.

2506002

Erindi frá Ungmenna- og íþróttafélagi Hvalfjarðarsveitar.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir að veita Ungmenna- og íþróttafélagi Hvalfjarðarsveitar endurgjaldslaus afnot af félagsheimilinu Miðgarði frá þriðjudegi 5. ágúst til og með laugardags 9. ágúst 2025 vegna söng- og leiklistarnámskeiðs ætlað börnum í Hvalfjarðarsveit fæddum 2012 til 2015. Afnotin verði bókuð til tekna á félagsheimilið og til gjalda á styrkveitingu til íþrótta- og æskulýðsmála."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

5.Kjör í fastanefndir, aðrar nefndir, stjórnir og ráð sem sveitarfélagið á aðild að skv. 39. gr samþykkta um stjórn Hvalfjarðarsveitar nr. 692-2022.

2206020

Breyting á fulltrúum í Heilbrigðisnefnd Vesturlands.
Birkir Snær Guðlaugsson hefur beðist lausnar sem fulltrúi í Heilbrigðisnefnd Vesturlands.

Einn fulltrúi og annar til vara í sameiginlega Heilbrigðisnefnd Vesturlands skv. lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir að fulltrúi Hvalfjarðarsveitar í Heilbrigðsnefnd Vesturlands, í stað Birkis Snæs Guðlaugssonar, verði Inga María Sigurðardóttir og varafulltrúi verði Andrea Ýr Arnarsdóttir."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

6.Fundargerðir 2025 ásamt fylgigögnum - Heilbrigðisnefnd Vesturlands.

2503018

Fundargerð 195. fundar.
Fundargerðin framlögð.

7.Fundargerðir 2025 ásamt fylgigögnum - Faxaflóahafnir sf.

2504040

Fundargerðir 256. og 257. funda.
Fundargerðirnar eru framlagðar.

8.Fundargerðir 2025 ásamt fylgigögnum - Samband íslenskra sveitarfélaga.

2502003

Fundargerð 980. fundar.
Fundargerðin framlögð.

Fundi slitið - kl. 15:39.

Efni síðunnar