Fara í efni

Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd

49. fundur 04. júní 2025 kl. 14:00 - 15:30 í stjórnsýsluhúsinu Innrimel 3
Nefndarmenn
  • Sæmundur Víglundsson formaður
  • Ása Hólmarsdóttir varaformaður
  • Þorsteinn Már Ólafsson ritari
  • Svenja Neele Verena Auhage aðalmaður
  • Elín Ósk Gunnarsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Jökull Helgason embættismaður
Fundargerð ritaði: Jökull Helgason Deildarstjóri Umhverfis- og skipulagsdeildar
Dagskrá

1.Tillaga að breytingu á starfsleyfi Elkem Ísland og Norðuráls Grundartanga.

2505007

Erindi dags. 7. maí 2025 frá Umhverfis- og orkustofnun.

Með erindinu tilkynnir stofnunin að hún hafi auglýst tillögu að breytingu á starfsleyfi Elkem Ísland ehf. og Norðuráls Grundartanga ehf., og að frestur til að skila skriflegum athugasemdum við starfsleyfistillöguna sé til 4. júní 2025.

Fram kemur í erindinu að stofnunin hafi undanfarin misseri unnið að endurskoðun gildandi starfsleyfa sem hafa að geyma ákvæði um þynningarsvæði loftmengunar. Tilefni endurskoðunar séu breytingar á lögum um málefnið.

Tillagan felur í sér að afnema ákvæði um þynningarsvæði í starfsleyfi með því að gera breytingar á starfsleyfum Elkem og Norðuráls á Grundartanga.

Sveitarfélagið sótti um frest til að svara erindinu 13. júní n.k.
Þar sem tillögur að breytingum þessum eru af sömu rótum runnar og málin samkynja þykir rétt að umsögn þessi sé sameiginleg fyrir báðar tillögur að breytingum á starfsleyfum.
Umrædd stóriðjuver eru starfrækt á Grundartanga, Hvalfjarðarsveit. Í allnokkurn tíma hefur staðið til af hálfu stofnunarinnar að breyta starfsleyfum stóriðjuvera og afnema ákvæði um þynningarsvæði úr þeim, vegna innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/75/ESB frá 24.11.2010 um losun frá iðnaði, sem var innleidd með lögum nr. 66/2017, þar sem ekki er gert ráð fyrir þynningarsvæðum. Sú stefna sem var mörkuð af yfirföldum um afnám þynningarsvæða helgast m.a. af sjónarmiðum náttúruverndar, vernd íbúa og annarra sem hagsmuna eiga að gæta í nágrenni við stóriðju. Ýmsar takmarkanir á landnotkun hafa lengi verið fyrir hendi innan þynningarsvæðis af öryggis- og varúðarsjónarmiðum, enda má mengun innan þess vera yfir umhverfis- og gæðamörkum.

Vegna tillagna um breytingu á starfsleyfi Elkem
Samkvæmt tillögu um breytingar fellur ákvæði 1.7 í starfsleyfi brott, sem felur í sér að þynningarsvæði, sem er tilgreint á uppdrætti í viðauka starfsleyfis fellur brott. Gert er ráð fyrir að viðauki við starfsleyfið, fyrrnefndur uppdráttur, falli brott. Þá er tillaga um breytingu að felldar verði brott vísanir í þynningarsvæði í 1. og 2. mgr. ákvæðis 2.4. varðandi kröfur til loftgæða vegna útblásturs. Þá er lagt til vegna sömu ákvæða að í stað orðasambandsins „utan lóðar“ komi orðasambandið „utan marka iðnaðarsvæðis samkvæmt aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar“.

Vegna tillagna um breytingu á starfsleyfi Norðuráls
Samkvæmt tillögu um breytingar er gert ráð fyrir að þar greind umhverfismörk flúoríð og heildarflúoríð verði utan marka iðnaðarsvæðis samkvæmt aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar, í stað utan marka þynningarsvæðis. Þessu samfara er gert ráð fyrir að viðauki 2, við starfsleyfið falli brott, sem er uppdráttur að þynningarsvæði. Þá er gerð tillaga að breytingu fylgiskjali 4 að breyttu breytanda og vísað til Umhverfismarka fyrir flúoríð utan marka iðnaðarsvæðis samkvæmt aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar, í stað utan þynningarsvæðis.

Í auglýstum tillögum að breytingu á starfsleyfum felst afnám þynningarsvæða á Grundartanga, Hvalfjarðarsveit, sem hefur verið við lýði í marga áratugi, annars vegar vegna brennisteinsdíoxíð og hins vegar vegna flúóríð. Þynningarsvæði brennisteinsdíoxíð er stærra og innan þess er afmarkað þynningarsvæði flúóríð.

Til þessa hefur ákvörðun um stærð og afmörkun þynningarsvæðis verið hjá stofnuninni í starfsleyfum stóriðjuvera á grundvelli laga og reglugerða og hefur sveitarfélagið tekið mið af því við skipulagsgerð. Nú gera hins vegar tillögur að breytingum á starfsleyfum ráð fyrir að afmörkun þynningarsvæðis miðist við iðnaðarsvæði eins og það er ákvarðað og afmarkað í aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar.
Miðað við afmörkun iðnaðarsvæðis í gildandi aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar, er svæði þar sem mengun má fara umfram viðmiðunarmörk, að minnka verulega, miðað við auglýsa tillögu.

Fulltrúar sveitarfélagsins og sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar funduðu með fulltrúum Umhverfisstofnunar í október 2022, þar sem til kynningar var endurskoðun þynningarsvæða í starfsleyfum stóriðjuvera á Grundartanga, Hvalfjarðarsveit. Frá þeim tíma hefur stofnunin ekki átt samskipti eða samráð við sveitarfélagið vegna málsins og það kom því sveitarfélaginu á óvart þegar skyndilega barst tilkynning 7. maí sl. frá stofnuninni um auglýsingu á tillögu að breyttum starfsleyfum stóriðjuvera. Hvalfjarðarsveit gekk út frá því að samráð yrði haft vegna þessara vinnu til að sveitarfélagið væri undirbúið og í stakk búið að bregðast við með skipulagslegum ákvörðunum um líkt leyti þynningarsvæði yrðu afnumin úr starfsleyfum. Viðhorf stofnunarinnar var enda þannig að vinna þyrfti málið í samstarfi við sveitarfélög í þeim tilvikum þar sem breytingar á ákvæði í starfsleyfum um þynningarsvæði kölluðu á breytingar á skipulagi þeirra.

Í gildandi aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar er varúðarsvæði (þynningarsvæði) sýnt á uppdrætti og innan þess hafa lengi verið takmarkanir á landnotkun. Í aðalskipulagi er gert ráð fyrir að þynningarsvæði verði felld brott samhliða endurnýjun starfsleyfa stóriðjuvera og takmarkanir innan svæðisins verði endurskoðaðar. Við niðurfellingu þynningarsvæðis er gert ráð fyrir að sýna skuli fram á að mengun frá Grundartangasvæðinu sé undir viðmiðunarmörkum vegna þungmálma, lífrænna efnasambanda og sjúkdómsvalda í jarðvegi í samræmi við viðauka I í reglugerð nr. 1400/2000. Í gildandi aðalskipulagi segir að á meðan þynningarsvæði sé ekki heimil skipulögð byggð eða ástundun hefðbundins búskapar, heynytja, akuryrkja eða beit á túnum, nema sýnt sé fram á að mengun í jarðvegi og grunnvatni sé undir viðmiðunarmörkum.

Sveitarfélagið hefur ekki fengið nægar upplýsingar hvaða áhrif þessar breytingar á starfsleyfi koma til með að hafa á starfsemi og mengun frá stóriðjuverum og hvort og þá hverjar breytingar verða á umhverfis- og loftgæðaeftirliti stofnunarinnar, þ. m. t. varðandi loftgæðamæla, fjölda þeirra og staðsetningu í ljósi afnáms þynningarsvæðis. Sveitarfélagið hefur auk þess ekki upplýsingar hvort eða þá hvenær vænta megi þess að hreinsibúnaður vegna útblásturs viðkomandi stóriðjuvera sé í stakk búinn að fullnægja auknum kröfum, m.t.t. umhverfis- og gæðamarka, sem felst í breytingum í starfsleyfi um afnám þynningarsvæðis. Óljóst er hvort og þá að hvaða marki gera eigi ráð fyrir að styrkur mengandi lofttegunda fari yfir almenn loftgæðamörk, í næsta nágrenni við iðnaðarsvæði á Grundartanga. Sveitarfélagið telur sig þurfa upplýsingar af þessu tagi og aðrar sem máli skipta, til að leggja mat á og taka skipulagslegar ákvarðanir innan þess svæðis, sem nú telst vera þynningarsvæði í aðalskipulagi sveitarfélagsins, nú þegar til stendur að afnema þynningarsvæði úr starfsleyfum, svo sem auglýst tillaga gerir ráð fyrir.

Vísast í þessum sambandi m.a. til skipulagsreglugerðar nr. 90/2013, skv. 45. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, í 2.7. gr. segir að í skipulagsáætlunum skuli m.a. lýsa umhverfi og aðstæðum á skipulagssvæðinu, sbr. nánar b-lið, gr. 4.2.3, að lýsa skuli takmarkandi þáttum, þ. m. t. þáttum er tengjast varúð. Þá kemur fram í 6.3. gr. að skylt sé að tilgreina í aðalskipulagi svæði þar sem sérstakar aðstæður kalla á takmarkanir á landnotkun og mannvirkjagerð, sbr. b-liðar 3. mgr. vegna mengunar, sbr. 6. mgr. 45. gr. laga nr. 123/2010. Þá skal skv. l-lið 4.3.1. gr. gera grein fyrir og setja fram ákvörðun um varúðarsvæði, þar sem er hætta fyrir heilsu og öryggi almennings vegna mengandi atvinnustarfsemi og skal afmarka svæði þetta í skipulagsuppdrætti, skv. 4. lið, 4.5.3. gr. reglugerðarinnar.

Að óbreyttu má vænta þess að breytt starfsleyfi stóriðjuvera og breytingar á aðalskipulagi koma ekki til með að eiga sér stað á sama tíma miðað við hvar málið virðist langt á veg komið hjá stofnuninni. Til þess er að líta að breytingar á aðalskipulagi sveitarfélags er lögákveðið og tímafrekt ferli sem krefst mikillar og ígrundaðrar vinnu.

Með vísan til framanritaðs óskar Hvalfjarðarsveit eftir frekari upplýsingum og frekara samráði og samvinnu vegna tillagna um breytingu á starfsleyfum stóriðju á Grundartanga um afnám þynningarsvæðis úr starfsleyfum stóriðjuvera.

Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

2.Stjórnsýslukæra nr. 106-2024 - synjun framkvæmdaleyfis vegna virkjunar í landi Þórisstaða.

2411006

Erindi dags. 22. maí 2025 frá Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Með erindinu fylgdi beiðni Axels Helgasonar f.h. landeigenda Þórisstaða um endurupptöku í máli nefndarinnar nr. 106/2024, þar sem synjun sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar á umsókn landeigenda um framkvæmdaleyfi vegna virkjunar

Kúhallarár í landi Þórisstaða var staðfest af úrskurðarnefndinni.

Með erindinu voru fylgiskjöl kæranda og veittur frestur til 6. júní 2025 til að koma með athugasemdir við beiðninni.

Sveitarfélagið hefur óskað eftir fresti til að svara erindinu til 13. júní 2025.

Lögð fram tillaga að svari til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem m.a. kemur fram að sveitarfélagið telji að beiðandi hafi ekki sýnt fram á að skilyrðum 24. gr. stjórnsýslulaga sé fullnægt til að endurupptaka málið.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

3.Glymur 2025

2503025

Styrkveiting fyrir 2025 - Ákvörðun tilkynnt 2. maí 2025 og styrkur veittur að upphæð kr. 16.800.000.

Styrkurinn er veittur í að stýra umferð ferðafólks m.a. með gerð stíga, þrepa og merkinga, sem og viðhalda og lagfæra gönguleiðina eftir ágang og veðrun eins og segir í tilkynningu Ferðamálastofu til sveitarfélagsins. Stefnt sé að því að nýta náttúruleg efni og að innviðir falli sem best að svæðinu.



Sveitarfélagið vinnur nú að fyrirkomulagi verkefnisins í samstarfi við framkvæmdaraðila og landeigendur.

Þann 2. júní 2025 fór fulltrúi sveitarfélagsins, ásamt landeigendum og Unnsteini Elíassyni í vettvangsferð að fossinum Glymi til að fara yfir ástand göngustíga eftir veturinn og ákveða næstu skref í verkefninu.

Auk viðhalds og áframhaldandi vinnu við stígagerð, verður einnig unnið við merkingar, afmörkun stíga, öryggismál s.s. uppsetningu handleiðara, skilti með upplýsingum um hættuleg svæði s.s. m.t.t. fallhættu ofl.

Verður verkið unnið undir faglegri stjórn Unnsteins Elíassonar sem mun stýra vinnu við verkið en starfsfólk Umhverfis- og skipulagsdeildar, ásamt landeigendum, munu sjá um eftirfylgni með verkefninu.

Reiknað er með að vinna við verkefnið hefjist í júní.
Lagt fram til kynningar.

4.Ágangsbúfé.

2306024

Erindi dags. 26. maí 2025 vegna beiðni um smölun ágangsfjár í landi Þórisstaða frá Félagi lóðarhafa að Þórisstöðum II.

Með erindinu er þess óskað fyrir hönd eigenda og félags lóðarhafa, að sveitarfélagið sjái til þess að því sauðfé sem nú er í landinu verði smalað tafarlaust.

Skv. erindinu kemur fram að féð sé á beit innan girðingar, þar með talið á svæði sem skilgreint er sem vatnsverndarsvæði samkvæmt reglugerð um neysluvatn nr. 536/2001 og tengist vatnsbólum sem þjóna bæði sumarhúsabyggð og heimilum að Þórisstöðum.

Fram kemur í erindinu að skv. 8. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir beri að tryggja aðgang að öruggu neysluvatni og koma í veg fyrir alla mögulega mengun á vatnsverndarsvæðum. Því liggi mikið við að fénu sé tafarlaust komið burt.

Þá kemur fram í erindinu að féð hafi valdið skemmdum á gróðri á frístundahúsalóðum og að ábúandi á svæðinu hafi verið upplýstur að hann hafi ekki kannað ástand girðinga áður en fé var sleppt út, sem teljist að mati þeirra sem að erindinu standa vera vanræksla á þeirri skyldu sem hvíli á eiganda búfjár samkvæmt lögum nr. 6/1986. Fram kemur að umræddum landeiganda hafi einnig verið tilkynnt um féð.

Er í erindinu skorað á sveitarfélagið að bregðast skjótt við beiðninni, í ljósi bæði lagaumhverfis og almannahagsmuna.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar-, og landbúnaðarnefnd felur Umhverfis- og skipulagsdeild að vera í sambandi við aðila málsins, afla upplýsinga um hver sé eigandi þess búfjár sem talið er að sé innan lands Þórisstaða II og hvort viðkomandi eigandi eða eigendur vilji sækja fé sitt sjálfir áður en ákvörðun um smölun verður tekin. Að auki verði upplýsinga aflað um ástand girðinga. Áréttað er að ýmis álitaefni getur þurft að skoða í þessu sambandi, m.a. um viðbrögð, s.s. mat á tjónsáhættu af völdum ágangsfjárs og hversu brýnt sé að bregðast við til að forða tjóni, hversu mikill ágangurinn sé og hvort hann gefi tilefni til smölunar. Hvað varðar ákvörðun um smölun, hvort sem hún verður jákvæð eða neikvæð, þarf að gæta tilkynninga, leiðbeininga, fresta, tilmæla og andmælaréttar. Lausaganga búfjár er ekki bönnuð í sveitarfélaginu og eru dómafordæmi um að heimild til lausagöngu búfjár feli í sér almenna takmörkun eignaréttar sem eigi sér skýra stoð í lögum og að fasteignaeigendur verði sjálfir að hlutast til um að verja fasteign sína ágangi búfjár.

5.Klafastaðavegur 5, 7 og 9 - stöðuleyfi.

2504039

VSÓ Ráðgjöf sækir um stöðuleyfi f.h. Eimskips fyrir gámagirðingu, rennihliði, netgirðingu, starfsmannaaðstöðu, dreifistöð Rarik, ljósmöstrum á samliggjandi lóðum við Klafastaðaveg nr. 5, 7 og 9.

Umræddar lóðir eru byggingarlóðir skv. deiliskipulagi Vestursvæðis Iðnaðar- og hafnarsvæðis á Grundartanga.

Með erindinu fylgir nánari lýsing s.s. á fyrirhugaðri notkun lóðanna og afmörkun þeirra, ásamt jákvæðri afstöðu skipulagsfulltrúa Faxaflóahafna til fyrirhugaðra framkvæmda. Auk þess yfirlitsmynd með fyrirhuguðu innra skipulagi lóðanna.

Þá fylgir umsókninni minnisblað brunahönnuðar.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd vill vekja athygli á að skv. grein 2.6.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 skal sækja um stöðuleyfi til leyfisveitanda til að láta lausafjármuni eins og gáma standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega eru skipulögð og ætluð til geymslu slíkra lausafjármuna.
Stöðuleyfi skulu mest veitt til 12 mánaða nema ákvæði skipulags mæli fyrir um annað.
Ekki er í byggingarreglugerð gert ráð fyrir heimild til að sækja um stöðuleyfi fyrir aðra lausafjármuni en hjólhýsi, gáma, báta, torgsöluhús, stór samkomutjöld og frístundahús í smíðum og sem ætlað er til flutnings.

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd vill því vekja athygli umsækjanda á að hluti þess sem sótt er um stöðuleyfi fyrir, er háð byggingarleyfi í stað stöðuleyfis.

Skv. skipulagi svæðisins eru umræddar lóðir skilgreindar sem byggingarlóðir og því telur nefndin að varanleg nýting lóðanna sem geymslusvæði, samrýmist ekki gildandi deiliskipulagi.
Erindinu hafnað.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

6.Leirá, L 133774 - framkvæmdaleyfi til skógræktar.

2311011

Umsókn um framkvæmdaleyfi til skógræktar í landi Leirár.

Umsók dags. 10.11.2023, en farið var í vinnu við aðalskipulagsbreytingu sem nú er lokið og hefur verið mörkuð stefna um nýtt 38,8 ha skógræktar- og landgræðslusvæði á jörðinni.

Umsókn fylgir greinargerð dags. 2. nóvember 2023 og ræktunaráætlun dags. 1. nóvember 2023.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd leggur til við sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar að heimila útgáfu framkvæmdaleyfis vegna skógræktar í landi Leirár skv. því fyrirkomulagi sem lýst er í umsóknargögnum og tilheyrandi fylgiskjölum og á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012, sbr. einnig umsókn fyrirtækisins, dags. 10. nóvember 2023.
Gerð verði úttekt af hálfu sveitarfélagsins, þar sem þess verði gætt að framkvæmd sé í samræmi við umsókn framkvæmdaleyfis og hjálagðra gagna hennar.
Kostnaður við framkvæmdaleyfi og áfangaúttektir sveitarfélagsins eru skv. gjaldskrá sveitarfélagsins.
Endanlegri afgreiðslu vegna framkvæmdaleyfis vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

7.Umsókn um framkvæmdaleyfi - Hólabrú

2505016

Umsókn dags. 14 maí 2025 frá Steypustöðinni-námum ehf, um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku í Hólabrúarnámu (E13-Innri Hólmur).

Gerð hefur verið breyting á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 vegna fyrirhugaðrar stækkunar námunnar, ásamt tilheyrandi umhverfismati.

Efnistökusvæðið E13 stækkar nú um 2 ha, úr 26 ha í 28 ha og heimiluð efnistaka aukin um 1.050.000 m3 miðað við það sem áður var í gildandi aðalskipulagi.

Með breyttu aðalskipulagi er heimilað heildarmagn nú orðið allt að 2.250.000 m3 og er árleg vinnsla áætluð um 60.000 m3.

Í tengslum við stækkun efnistökusvæðisins þarf að færa bæði reiðstíg og rafstreng.

Tilgangur framkvæmdar er að halda áfram núverandi efnistöku á svæðinu til að mæta efnisþörf til vegagerðar, malbikunarframkvæmda og mannvirkjagerðar.



Matsfyrirspurn Hólabrúarnámu var send Skipulagsstofnun vegna þeirrar stækkunar sem hér um ræðir og var ákvörðun stofnunarinnar sú að framkvæmdin sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind eru í 2. viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, og því skuli framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.



Hólabrú er í landi Innra-Hólms en fyrirhuguð stækkun er í landi Kirkjubóls. Náman er við rætur Akrafjalls að suðaustanverðu, undir svokölluðum Rauðagarði. Til norðurs fer efnistökusvæðið yfir gamlan akveg og við norðausturmörk svæðisins er lítill skógræktarlundur. Til vesturs afmarkast námusvæðið af túngirðingu landeiganda. Aðkoma að námunni er að sunnanverðu af hringveginum.



Engar fornminjar eru skráðar innan fyrirhugaðs framkvæmdarsvæðis samkvæmt Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032.

Framkvæmdaraðili mun vinna áætlun um frágang námunnar að efnistöku lokinni, auk þess áhrifamat sem frárennsli vegna skolunar efnis og frá starfsmannaaðstöðu, sem leitt er í vatnshlotið Hvalfjörð, kann að hafa á vatnshlotið.



Í afgreiðslu sveitarfélagsins á aðalskipulagsbreytingu, með vísan til afgreiðslu Skipulagsstofnunar, segir:



Framkvæmdaraðili skal láta vinna áhrifamat vegna þessa áður en til leyfisveitinga kemur.







Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd leggur til við sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar að heimila útgáfu framkvæmdaleyfis vegna aukinnar efnistökku í Hólabrú, skv. því fyrirkomulagi sem lýst er í umsóknargögnum og tilheyrandi fylgiskjölum og á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012, sbr. einnig umsókn fyrirtækisins, dags. 10. nóvember 2023, sbr. einnig ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar.
Gerð verði úttekt af hálfu sveitarfélagsins, þar sem þess verði gætt að framkvæmd sé í samræmi við umsókn framkvæmdaleyfis og hjálagðra gagna hennar.
Kostnaður við framkvæmdaleyfi og áfangaúttektir sveitarfélagsins eru skv. gjaldskrá sveitarfélagsins.
Endanlegri afgreiðslu vegna framkvæmdaleyfis vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

8.Skógrækt að Þórisstöðum.

2409023

Erindi dags. 21.05.2025 frá Axel Helgasyni og Sunnu Rós Svansdóttur er varðar skógræktarsvæði að Þórisstöðum í aðalskipulagi sveitarfélagsins.

Er þess óskað að sveitarfélagið breyti gildandi aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 hvað varðar stærð skógræktarsvæðis fyrir Þórisstaði, en við gildistöku aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 breyttist stærð skógræktarsvæðisins frá því sem áður hafði verið í fyrra aðalskipulagi sem hafði gildistímann 2008-2020.

Á fyrri stigum eða í apríl árið 2023, leituðu landeigendur skýringa hjá sveitarfélaginu á þessum breytingum, og fengu þau svör m.a. að ástæðu breytinganna megi rekja til þess að nýr landnotkunarflokkur hafi orðið til, Skógræktar- og landgræðslusvæði (SL), og hafi þessi landnotkunarflokkur ekki verið til við gerð þágildandi aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar 2008-2020.

Með erindinu fylgdi bréf til Skipulagsstofnunar dags. 16. september 2024 þar sem landeigendur leituðu álits stofnunarinnar á málinu.

Einnig fylgdi með svarbréf Skipulagsstofnunar til landeigenda dags. 20. september 2024, en þar kom m.a. fram að nýr landnotkunarflokkur fyrir skógræktar- og landgræðslusvæði hafi komið inn í skipulagsreglugerð árið 2013 og því megi ætla að við endurskoðun aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar 2020-2032, hafi sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar tekið afstöðu til og mótað sér stefnu um umfang og takmarkanir varðandi skógrækt.

Í fylgigögnum með erindinu er einnig að finna tölvupóst landeiganda dags. 28. febrúar 2025 til þáverandi formanns skipulagsnefndar hjá Hvalfjarðarsveit og svar þáverandi formanns til landeiganda dags. 1. mars 2025.

Í erindi landeigenda dags. 21.05.2025 til sveitarfélagsins er talið að umrædd breyting hafi verið brot á meðalhófsreglu og upplýsingaskyldu gagnvart landeigendum.





Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd telur að umrædd breyting aðalskipulagsins þ.e. að skilgreina þurfi sérstaklega skógræktar- og landgræðslusvæði í aðalskipulagi, sé um að ræða samfellda ræktun á 10 ha svæði eða stærra, hafi verið vel ígrunduð og unnin á faglegan hátt í samráði þeirra aðila sem unnu að gerð aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 á sínum tíma svo sem sveitarstjórnar, skipulagsnefndar, starfsmanna sveitarfélagsins og ráðgjafans Eflu, og að tilefni breytinganna hafi verið að ná betur utanum skógrækt í sveitarfélaginu, auk þess sem nýr landnotkunarflokkur sem komið hafi til sögunnar árið 2013 með breytingu á skipulagsreglugerð þess tíma, eins og kemur fram í svari Skipulagsstofnunar til landeigenda vegna málsins, hafi gefið tilefni til endurskoðunar á stefnu sveitarfélagsins varðandi skógrækt. Einnig telur nefndin að gildandi aðalskipulag hafi á sínum tíma verið vel kynnt fyrir íbúum sveitarfélagsins, landeigendum og öðrum hagsmunaaðilum m.a. á íbúafundum, auk hefðbundins auglýsingaferlis skv. ákvæðum skipulagslaga.
Hvað varðar ósk landeigenda um að sveitarfélagið breyti gildandi aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 er varðar stærð skógræktarsvæðis fyrir Þórisstaði, samhliða þeim breytingum á aðalskipulagi sem sveitarfélagið vinnur nú að, vill nefndin árétta að almennt tíðkast að bjóða landeigendum að koma að sínum breytingum á aðalskipulagi, í tengslum við heildarendurskoðun aðalskipulags, sbr. gerð aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 á sínum tíma, en þær breytingar sem sveitarfélagið vinnur nú að, teljast eki til heildarendurskoðunar og því er landeigendum ekki boðið að koma að sínum breytingum að þessu sinni. Því hafnar nefndin beiðni landeigenda um að sveitarfélagið standi að þessum breytingum, samhliða þeim breytingum sem unnið er að hjá sveitarfélaginu.
Vill nefndin beina því til landeigenda að hægt er t.d. með fyrirspurnarerindi að kanna afstöðu sveitarfélagsins til tiltekinna breytinga á aðalskipulagi sveitarfélagsins, og sé afstaða nefndarinnar jákvæð, getur landeigandi, á eigin kostnað, látið vinna breytingar á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032.

9.Akurey L133729 - Aðalskipulagsbreyting Óveruleg

2505015

Erindi frá Jóni Sveinssyni, landeiganda Akureyjar L133729.

Óskað er óverulegrar breytingar á Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032, skv. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Um er að ræða að breyta svæði fyrir frístundabyggð F45 í landbúnaðarsvæði L2.

Svæðið sem nú er frístundabyggð mun falla út og sameinast landbúnaðarlandi jarðarinnar, sem stækkar sem því nemur.

Sýndur er vegur að lögbýli, sem og aðrir vegir til skýringar.

Í töflu 3 í greinargerð aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 er svæðið F45, Skorholt, fellt út úr skilmálum fyrir frístundabyggð.

Ekkert deiliskipulag er í gildi á svæðinu.
Að mati Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefndar víkur tillagan ekki verulega frá meginstefnu aðalskipulagsins en landið var áður landbúnaðarland áður en því var breytt í frístundabyggð og allt aðliggjandi land er landbúnaðarland.
Flokkun sem landbúnaðarland fellur mun betur að svæðinu heldur en að skilgreina það sem frístundabyggð.
Tillagan hefur ekki áhrif á stórt svæði, ekki er verið að auka við landnotkun heldur breyta henni.
Ekki er um að ræða að verið sé að auka byggingarmagn á svæðinu og talið að umhverfisáhrif minnki, enda verið að fækka lóðum.

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir fyrir sitt leyti að auglýsa tillögu að breyttu aðalskipulagi fyrir Skorholtsnes/Akurey skv. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

10.Gandheimar, L 133740 og Geldingaá, L 133739 - aðalskipulagsbreyting.

2504027

Erindi dags. 11. apríl 2025 frá VSÓ ráðgjöf fh. landeiganda.

Fyrir hönd Námufjélagsins ehf., Hafsteins Hrafns Daníelssonar og Hafsteins Daníelssonar ehf. er óskað eftir heimild til að vinna breytingu á Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 og heimild til að vinna deiliskipulag fyrir efnistöku- og efnislosunarsvæði ásamt athafnasvæði á landi Gandheima Geldingsárlandi (L133740) í eigu Hafsteins Daníelssonar ehf og landi Geldingaár (L133739) í eigu Hafsteins Hrafns Daníelssonar.

Svæðið er staðsett norðan við Leirárvoga, austan við Vesturlandsveg.

Tillaga að athafnasvæði er 20 ha (Geldingaá), tillaga að efnistöku- og efnislosunarsvæði er 52 ha (Gandheimar).

Svæðið er skilgreint sem landbúnaðarsvæði í flokki 2 í Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032.

Efnistaka skv. fyrirliggjandi matsáætlun er um 4.800.000 m3 og árleg efnistaka gæti því verið um 200.000 m3 til að byrja með.

Því má ætla að efnisvinnsla gæti verið í allt að 24 ár á svæðinu miðað við þær forsendur.

Í umhverfismatsskýrslu, sem er í vinnslu, verður lagt frekara mat á þessar forsendur. Matsáætlun og álit Skipulagsstofnunar liggur fyrir ásamt skýrslu frá Náttúrustofu Vesturlands um fuglalíf á svæðinu.

Aðalskipulagsbreytingin felur í sér eftirfarandi:

1. Bæta við efnistöku- og efnislosunarsvæði.

2. Fella út reiðleið/gönguleið í Gandheimum.

3. Bæta við athafnasvæði.

4. Skilgreining vatnsbóla. a. Fella út vatnsból 30, skilgreina nýtt vatnsból (fyrir Geldingaá) og vatnsverndarsvæði. i. Fjarsvæði ii. Grannsvæði iii. Brunnsvæði

5. Skilgreining á vegtengingu að námusvæði.

Ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir svæðið.

Óskað er eftir að veitt verði heimild til að hefja vinnu við deiliskipulagsgerð skv. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og einnig heimilað að leggja upp helstu skipulagsgögn vegna aðalskipulagsbreytingar.
Í stefnu aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 segir m.a.:
"Efnistaka verður takmörkuð við núverandi staði til að vernda sem mest lítt raskað land í sveitarfélaginu."
"Forðast skal efnistöku á svæðum sem hafa sérstakt verndargildi, s.s. friðlýstum svæðum, svæðum á náttúruminjaskrá og hverfisverndarsvæðum."
"Afmörkuð eru rúmlega 30 efnistökusvæði og gert er ráð fyrir áframhaldandi efnistöku á þeim svæðum sem þegar eru nýtt."

Skv. aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 hefur tillagan ennfremur áhrif á vatnsvernd á svæðinu, grafin verður allt að 16 m djúp hola á svæðinu sem að mati nefndarinnar mun líklega hafa áhrif á vatnsspegil svæðisins og þar með á vatnsborðsstöðu á aðliggjandi svæði þar sem m.a. er vatnsöflun fyrir aðliggjandi jarðir. Í almennum skilmálum um Vatnsvernd 2.8.5., segir í aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar að “Engar framkvæmdir eða starfsemi sem ógnað geta brunnsvæðum verða leyfðar í nágrenni þeirra.“
Í október á sl. ári 2024 var hafist handa við dælingu vatns úr botni Skorholtsnámu, og var þá talið af landeigendum á svæðinu að það hafði áhrif á vatnsborðsstöðu á aðliggjandi svæði.
Ekki liggur ljóst fyrir hvaða áhrif allt að 16 m djúp hola í landi Gandheima og lækkun á vatnsspegli svæðisins, mun hafa á vatnsból aðliggjandi jarða og vatnsverndarsvæðið í heild, en skv. ofanrituðu hafði dæling í Skorholtsnámu áhrif að mati landeigenda á svæðinu.

Í nágrenni svæðisins eru Jökulgarðar sunnan Blákolls, sem eru hverfisverndaðir nr. HV1 skv. aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032. Stærð svæðisins er sögð vera 424 hektarar að stærð. Í lýsingu og skilmálum aðalskipulagsins segir: Jökulgarðarnir eru umfangsmiklir og bera vitni um jarðfræðisögu svæðisins. Þeir skulu varðveittir í sem heillegastri mynd. Mannvirkjagerð á svæðinu er leyfði svo fremi að framkvæmdin raski ekki landformi. Efnistaka óheimil.

Skv. Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar eru nú um 38 skilgreind efnistökusvæði og er stærð efnistökusvæða alls um 200 hektarar.
Efnismagn sem tekið verður í fyrirhuguðu námusvæði í Geldingaá/Gandheimum, er áætlað 4.800.000 m3 eða 4,8 milljónir rúmmetra.
Fyrirhugað námusvæði í Geldingaá/Gandheimum verður 52 hektarar sem er um fjórðungs aukning á svæði undir námur í sveitarfélaginu.

Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd hafnar erindi landeigenda um breytta landnotkun í aðalskipulagi vegna efnistökusvæðis þar sem erindið samræmist ekki stefnumörkun sveitarfélagsins sbr. aðalskipulag Hvalfjarðarsveitar 2020-2032, auk þess sem svæðið er viðkvæmt m.t.t. vatnsverndar.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

Þorsteinn Már Ólafsson sat hjá við afgreiðslu málsins.

11.Merkjalýsing - Ferstikla 1 - Gróðurstikla - Ferstikla 3

2504037

Sótt er um stækkun á lóðunum Ferstiklu 3 og Gróðurstiklu, við stækkunina minnkar Ferstikla 1.

Fyrir breytingu eru lóðirnar:

Ferstikla 1 L133168 - 252,7 ha

Gróðurstikla L223756 - 0,26 ha

Fersikla 3 L222416 - 0,8 ha



Eftir breytingu verða lóðirnar:

Ferstikla 1 L133168 - 250,76 ha

Gróðurstikla L223756 - 0,5 ha

Fersikla 3 L222416 - 2,5 ha

Með erindinu fylgdu undirrituð gögn skv. lögum um skráningu, merki og mat fasteigna nr. 6/2001 og reglugerð um merki fasteigna 160/2024.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir fyrir sitt leyti stækkun lóðanna og merkjalýsingar vegna þeirra.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.
Sæmundur Víglundsson vék af fundi við afgreiðslu málsins.

12.Merkjalýsing - Kúhalli 14 L133546 og Kúhalli 16 L133548

2504042

Sótt er um tilfærslu lóðamarka milli landeignanna Kúhalli 14 og Kúhalli 16.

Stofnuð verður millispilda sem svo gengur inn í Kúhalla 14.

Fyrir breytingu er Kúhalli 14, 9.294 m2 og Kúhalli 16, 10.300 m2 að stærð.

Eftir breytingu verða Kúhalli 14, 10.103 m2 og Kúhalli 16, 9.495 m2.

Ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir svæðið, en skv. Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 er svæðið skilgreint sem frístundabyggð.

Meðfylgjandi eru undirrituð gögn skv. lögum um skráningu, merki og mat fasteigna nr. 6/2001 og reglugerð um merki fasteigna 160/2024.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir fyrir sitt leyti breytingu á stærðum lóðanna og merkjalýsingar vegna þeirra.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

13.Merkjalýsing - Fellsendi L133625

2505017

Sótt er um að jörðin Fellsendi (L133625) sé afmörkuð.

Jörðin er ekki með skráða stærð í fasteignaskrá HMS en verður 256,3 ha.

Á jörðinni eru eftirfarandi matshlutar:

01 Ræktað land



02 Lax-/silungsveiði



03 Vélaskemma

Aðkoma er frá hringvegi nr. 1 um aðkomuveg að Fellsenda.

Meðfylgjandi eru undirrituð gögn skv. lögum um skráningu, merki og mat fasteigna nr. 6/2001 og reglugerð um merki fasteigna 160/2024.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir fyrir sitt leyti afmörkun jarðarinnar og merkjalýsingu vegna hennar.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

14.Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Galtarlækur 133627 - Flokkur 2

2504017

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti þann 22. apríl 2025 að byggingarleyfi fyrir Galtarlæk, L133627, skildi grenndarkynnt fyrir aðliggjandi lóðarhöfum, þ.e. Glóra L202120, Hlésey L198312, Galtarvík L133628, Grundartangi-Klafastaðir L133674 og Klafastaðir L133635, skv. 44. grein skipulagslaga nr. 123/2010.



Sótt var um byggingarleyfi fyrir einnar hæðar límtréshúsi sem verður geymsluhús á jörðinni Galtalæk L133627. Stærð 24 m x 100,35 m = 2.408,4 m2, 17.693,5 m3. Vegghæð 5,65 m, Mænishæð 8,64 m. Skv. gildandi aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 er gert ráð fyrir athafnasvæði AT-15 í landi Galtalækjar. Um er að ræða heimild til uppbygginga á skemmu/geymslu fyrir léttan iðnað, birgðahald ofl.

Unnið er að gerð deiliskipulags fyrir svæðið.



Kynningartími var frá 25. apríl - 23. maí 2025 og engar athugasemdir bárust.

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir erindið.

15.Soglús í ref - Tilkynning frá Náttúruverndarstofnun

2504033

Erindi dags. 23. apríl 2025 frá Náttúruverndarstofnun er varðar lúsugan ref sem var skotinn í Skagafirði í febrúar síðastliðnum.

Talið er að um sé að ræða soglús sem hefur ekki fundist í refum á Íslandi áður, en tilfelli hafa aukist á síðustu árum í refastofnum í Kanada og á Svalbarða.

Tilkynningin var send refaveiðimönnum Hvalfjarðarsveitar og þeir upplýstir um málið.
Lagt fram til kynningar.

16.Skipulagsdagurinn 2025.

2504044

Erindi dags. 30. apríl 2025 frá Skipulagsstofnun.

Skipulagsdagurinn 2025 fer fram þann 23. október í Háteig á Grandhótel og í beinu streymi, en dagurinn er árleg ráðstefna um skipulagsmál þar sem fjallað er um það sem er efst á baugi í málaflokknum hverju sinni. Sem fyrr verður dagskráin fjölbreytt með erindum framsögufólks úr ólíkum áttum, umræðum og spjalli þar sem tækifæri gefst til að skiptast á hugmyndum.

Áhugasöm, almenningur og öll þau sem með einum eða öðrum hætti koma að skipulagi eru hvött til að koma og vera með, hlýða á erindi og eiga samtal um skipulagsmál.
Lagt fram til kynningar.

17.Samgönguáætlun 2026-2030, hafnargarðar og sjóvarnir.

2505009

Erindi dags. 6. maí 2025 frá Hafnardeild Vegagerðarinnar, vísað til nefndar frá sveitarstjórn.

Vegagerðin skal samkvæmt hafnalögum nr. 61/2003 og lögum um sjóvarnir nr.28/1997 vinna tillögu að áætlun um hafnarframkvæmdir og sjóvarnir með kostnaðarþátttöku ríkissjóðs sbr. lög nr. 33/2008 um samgönguáætlun. Nú er komið að því að hefja undirbúning að næstu fimm ára áætlun, þ.e.samgönguáætlun 2026 2030.

Við gerð áætlunar verður endurskoðuð ósamþykkt samgönguáætlun fyrir árin 2024-2028 og bætt við hana áætlun um það sem framkvæma skal á árunum 2029-2030. Ef einhverjar breytingar eru áætlaðar m.v. fyrri samgönguáætlun, þarf að skilgreina það á umsóknarblaði, annars er nóg að senda inn tillögur fyrir árið 2029-2030. Tillaga að nýrri samgönguáætlun verður væntanlega lögð fram á Alþingi næsta haust.

Umsókn um ríkisframlög til verkefna á næsta áætlunartímabili skal senda til Vegagerðarinnar fyrir 20. júní 2025.



Gefinn er kostur á að sækja um framlag til sjóvarna vegna flóðahættu eða landbrots af völdum ágangs sjávar. Byggð svæði og svæði þar sem til staðar eru mannvirki eða menningarminjar njóta forgangs við gerð sjóvarna. Vakin er

athygli á að í 5. gr. sjóvarnalaga nr. 28/1997 er kveðið á um að landsvæði sem verja á, svo og varnarmannvirkin sjálf, hafi fengið meðferð samkvæmt skipulagslögum. Allar ábendingar og óskir sem berast frá sveitarfélögum um staði þar sem mannvirki eða önnur verðmæti eru í hættu af völdum sjávarflóða og landbrots verða skoðaðar, mat lagt á framkvæmdir og kostnað og verkefnum síðan forgangsraðað.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd felur Umhverfis- og skipulagsdeild að auglýsa á heimasíðu sveitarfélagsins eftir tillögum landeigenda í Hvalfjarðarsveit sem uppfylla skilyrði Vegagerðarinnar um framlag til sjóvarna úr ríkissjóði og skila inn umsóknum f.h. sveitarfélagsins fyrir tilsettan tíma, þ.e. 20. júní nk.

18.Barnaþing 2025.

2503015

Barnaþing 2025.

Þingið var haldið 23. apríl í Heiðarskóla, en alls tóku um 50 börn þátt.

Þingið er liður í því ferli að gera sveitarfélagið að barnvænu samfélagi samkvæmt viðmiðum UNICEF.

Með erindinu fylgdi verk- og kostnaðaráætlun og samantekt af barnaþinginu.

Á 420. fundi sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar sem haldinn var 14.5.2025 var fjallað um málefni barnaþingsins og vísaði sveitarstjórn samantekt frá barnaþinginu til kynningar í USNL-nefnd.
Málið rætt og lagt fram til kynningar.

19.Holtavörðuheiðarlína 1 - umhverfismatsskýrsla.

2410020

Álit Skipulagsstofnunar.

Erindi frá Skipulagsstofnun frá 13. maí 2025, þar sem stofnunin upplýsti að nú liggi fyrir álit Skipulagsstofnunar um umhverfismatsskýrslu í máli Holtavörðuheiðarlínu 1, nr. 1187/2024.

Einnig kom fram að niðurstöðu Skipulagsstofnunar, umsagnir og viðbrögð framkvæmdaraðila við þeim, megi finna í Skipulagsgátt.

Lagt fram til kynningar.

20.Gátlistar vegna ASK og DSK.

2505033

Erindi dags. 4. apríl 2025 frá Skipulagsstofnun.

Fram kom að stofnunin hafi unnið að gerð nýrra gátlista sem er m.a. ætlað að nýtast skipulagsfulltrúum við yfirferð skipulags áður en gögn eru lögð fram í Skipulagsgátt til afgreiðslu hjá Skipulagsstofnun. Einnig geta þeir nýst skipulagsrágjöfum við undirbúning skipulagsáætlana. Drög að gátlistunum voru meðfylgjandi erindinu. Skipulagssstofnun hvetur sveitarfélagið til að nýta gátlistana við lokayfirferð mála fyrir afgreiðslu í nefndum og hvetur einnig til þess að þeir verði sendir til ráðgjafa með óskum um gerð skipulags og/eða að þeir fylgi skipulagsgögnum þegar þau eru send ykkur. Gátlistunum er ekki ætlað að vera tæmandi gátlisti á efnistökum og framsetningu en til að nýtast til að yfirfara mikilvægustu þætti er varða form og efni.



Í erindi Skipulagsstofnunar bentu þeir einnig á ákvæði skipulagsreglugerðar í gr. 5.7.2 um athugun Skipulagsstofnunar á deiliskipulagi. Þar segir: „Skipulagsstofnun skal koma athugasemdum sínum á framfæri við sveitarstjórn innan þriggja vikna frá því að deiliskipulagið var móttekið. Þar skal koma fram hvaða athugasemdir stofnunin gerir við deiliskipulagið. Sveitarstjórn skal taka athugasemdirnar til umræðu og gera nauðsynlegar breytingar hvað varðar athugasemdir um form deiliskipulags. Fallist sveitarstjórn ekki á athugasemdir Skipulagsstofnunar um efni deiliskipulags skal hún gera rökstudda grein fyrir ástæðum þess.“



Með öðrum orðum, sé um formgalla að ræða getur sveitarstjórn ákveðið að láta gera nauðsynlegar lagfæringar á gögnum og birt málið í B-deild Stjórnartíðinda að því loknu. Ef athugasemd stofnunarinnar snýr að efni deiliskipulags þá tekur sveitarstjórn afstöðu til þess hvort hún fallist á athugasemd stofnunarinnar. Ef svo er ekki þá getur sveitarstjórn rökstutt afgreiðslu sína og lagt rökstuðning fram undir málið í Skipulagsgátt. Að því loknu er unnt að birta málið í B-deild.



Þetta þýðir að þrátt fyrir að stofnunin hafi gert athugasemd við form eða efni deiliskipulags þá er ekki skylt að senda stofnuninni deiliskipulag til yfirferðar á nýjan leik og telur Skipulagssstofnun að það ætti að vera meginreglan. Hins vegar telur stofnunin mikilvægt að hún hafi svigrúm til þess að geta óskað eftir því að fá deiliskipulag til yfirferðar á nýjan leik ef talið er tilefni til og í þeim tilvikum mun það koma fram í afgreiðslum stofnunarinnar.
Lagt fram til kynningar.

21.Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 97

2504002F

  • 21.1 2503051 Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Leynisvegur 6 - Flokkur 1
    Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 97 Umsóknin samræmist lögum um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum og samræmist skipulagsáætlunum. Byggingaráform eru samþykkt. Byggingarheimild verður gefin út að uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.3.8. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum og uppfylltum skilyrðum/athugasemdum byggingarfulltrúa.
  • 21.2 2504016 Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Lambhagi 2 192687 - Flokkur 2
    Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 97 Málinu er vísað til USNL nefndar vegna skipulags.
  • 21.3 2503038 Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Hléskógar 1 - Flokkur 1
    Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 97 Umsóknin samræmist lögum um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum og samræmist skipulagsáætlunum. Byggingaráform eru samþykkt. Byggingarheimild verður gefin út að uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.3.8. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum og uppfylltum skilyrðum/athugasemdum byggingarfulltrúa.

22.Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 98

2504005F

  • 22.1 2412015 Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Bjarkarás 11 - Flokkur 1
    Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 98 Umsóknin samræmist lögum um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum og samræmist skipulagsáætlunum.
    Byggingaráform eru samþykkt.
    Byggingarheimild verður gefin út að uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.3.8. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum og uppfylltum skilyrðum/athugasemdum byggingarfulltrúa.
  • 22.2 2504032 Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Efra-Skarð 3 - Flokkur 2
    Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 98 Umsóknin samræmist lögum um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum og samræmist skipulagsáætlunum.
    Byggingaráform eru samþykkt.
    Byggingarheimild verður gefin út að uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.3.8. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum og uppfylltum skilyrðum/athugasemdum byggingarfulltrúa.
  • 22.3 2504034 Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Bjartakinn 1 - Flokkur 2
    Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 98 Umsóknin samræmist lögum um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum og samræmist skipulagsáætlunum.
    Byggingaráform eru samþykkt.
    Byggingarheimild verður gefin út að uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.3.8. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum og uppfylltum skilyrðum/athugasemdum byggingarfulltrúa.
  • 22.4 2504043 Umsókn um stöðuleyfi
    Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 98 Samþykkt er að veita stöðuleyfi samkvæmt byggingarreglugerð nr. 112/2012 með
    síðari breytingum.

23.Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 99

2505002F

  • 23.1 2504041 Merkjalýsing - Hjallholt 1 L133558
    Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 99 Stofnun lóðar er samþykkt.

24.Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 100

2505006F

  • 24.1 2301002 Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Skólastígur 3 - Flokkur 2,
    Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 100 Aðkoma að húsi er teiknuð í gegnum aðra lóð.
    Erindinu er hafnað vegna skipulags.
  • 24.2 2505001 Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Skálatangi 133711 - Flokkur 1
    Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 100 Byggingin samræmist ekki kröfum um íbúðarhús. Erindinu er hafnað.
  • 24.3 2505002 Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Skálavík 133712 - Flokkur 1
    Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 100 Byggingin samræmist kröfum um íbúðarhús og er samþykkt.
  • 24.4 2505010 Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Litli-Melur 133643 - Flokkur 2
    Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 100 Samrýmist skipulagi og er samþykkt.
  • 24.5 2503030 Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Ós 5 - Flokkur 2
    Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 100 Umsóknin samræmist lögum um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum og samræmist skipulagsáætlunum. Byggingaráform eru samþykkt. Byggingarheimild verður gefin út að uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.3.8. í byggingarreglugerð. nr 112/2012 með síðari breytingum og uppfylltum skilyrðum/athugasemdum byggingarfulltrúa.
  • 24.6 2502026 Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Sjávartröð 7 - Flokkur 1
    Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 100 Umsóknin samræmist lögum um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum og samræmist skipulagsáætlunum. Byggingaráform eru samþykkt. Byggingarheimild verður gefin út að uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.3.8. í byggingarreglugerð. nr 112/2012 með síðari breytingum og uppfylltum skilyrðum/athugasemdum byggingarfulltrúa.

25.Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 101

2505008F

  • 25.1 2501004 Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Vallarás - Flokkur 2
    Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 101 Umsóknin samræmist lögum um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum og samræmist skipulagsáætlunum. Byggingaráform eru samþykkt. Byggingarheimild verður gefin út að uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.3.8. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum og uppfylltum skilyrðum/athugasemdum byggingarfulltrúa.

Fundi slitið - kl. 15:30.

Efni síðunnar