Fara í efni

Sveitarstjórn

348. fundur 22. mars 2022 kl. 15:11 - 15:45 í stjórnsýsluhúsinu Innrimel 3
Nefndarmenn
  • Björgvin Helgason oddviti
  • Daníel A. Ottesen varaoddviti
  • Brynja Þorbjörnsdóttir ritari
  • Guðjón Jónasson vararitari
  • Helga Harðardóttir aðalmaður
  • Elín Ósk Gunnarsdóttir aðalmaður
  • Ragna Ívarsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Linda Björk Pálsdóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Linda Björk Pálsdóttir sveitarstjóri
Dagskrá
Björgvin Helgason, oddviti, bauð fundarmenn velkomna og setti fund skv. fyrirliggjandi dagskrá.

1.Sveitarstjórn - 347

2203002F

Fundargerðin framlögð.

2.Menningar- og markaðsnefnd - 29

2203003F

Fundargerðin framlögð.
BÞ fór yfir helstu atriði fundarins.
  • Menningar- og markaðsnefnd - 29 Þar sem ekki verður hægt að halda upp á þjóðhátíðardaginn 17. júní í Heiðarskóla vegna viðgerða á skólanum, óskar Menningar- og markaðsnefnd eftir því við sveitarstjórn að fá frí afnot af Miðgarði þennan dag.
    Kirkjukór Saurbæjarprestakalls og Tónlistarfélag Hvalfjarðarsveitar hafa tekið að sjá um hátíðarhöldin.
    Bókun fundar Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
    "Sveitarstjórn samþykkir beiðni nefndarinnar að fá endurgjaldslaus afnot af félagsheimilinu Miðgarði undir hátíðarhöld á 17. júní. Afnotin verða færð sem tekjur á félagsheimilið og sem gjöld á styrki til menningarmála."
    Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

3.Ársreikningur 2021.

2203012

Seinni umræða.
Ársreikningur, síðari umræða ásamt endurskoðunarskýrslu.
Ársreikningur 2021 lagður fram til seinni umræðu.

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu 2021 námu rúmum 1.121mkr. samkvæmt rekstrarreikningi fyrir A og B hluta en þar af námu rekstrartekjur A hluta 1.110,3mkr.
Rekstrargjöld sveitarfélagsins á árinu 2021 voru 978,5mkr. fyrir A og B hluta en 969mkr. fyrir A hluta. Aðrar tekjur og gjöld árið 2021 námu 51,3mkr.

Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt ársreikningi A og B hluta var jákvæð um 216,1mkr. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2021 nam 3.570,8mkr. samkvæmt efnahagsreikningi. Veltufé frá rekstri var 18,58%, veltufjárhlutfall 13,93% og eiginfjárhlutfall 97%.

Samanburður á fjárhagslegum viðmiðum sveitarstjórnarlaga milli áranna 2020 og 2021 eru að skuldaviðmið sveitarfélagsins er áfram jákvætt, fer úr 116,72% í 124,39% árið 2021 og rekstrarjöfnuður síðustu þriggja ára hækkar um 141,4mkr.

Rekstrarniðurstaða einstakra málaflokka og deilda er almennt innan áætlunar ársins 2021 og er það vel.

Forstöðumönnum stofnana og starfsfólki Hvalfjarðarsveitar eru færðar þakkir fyrir þeirra aðkomu og vinnu við gerð ársreiknings.

Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir ársreikning vegna ársins 2021 og staðfestir hann með undirritun sinni."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Til máls tók LBP.

4.Starf skipulags- og umhverfisfulltrúa.

2112001

Ráðning skipulags- og umhverfisfulltrúa Hvalfjarðarsveitar.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Með vísan til tillögu og framlagðra gagna frá Björgvini Helgasyni, oddvita, Daníel Ottesen, formanni umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefndar, Rögnu Ívarsdóttur, sveitarstjórnarfulltrúa og Lindu Björk Pálsdóttur, sveitarstjóra, samþykkir sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar að ráða Jökul Helgason í 60% starf skipulagsfulltrúa hjá Hvalfjarðarsveit og Arnheiði Hjörleifsdóttur í 50% starf umhverfisfulltrúa hjá Hvalfjarðarsveit. Sveitarstjórn samþykkir jafnframt að fela sveitarstjóra að ganga frá og undirrita ráðningarsamninga við Jökul og Arnheiði."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

5.Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar - tækjabúnaður.

2103114

Minnisblað frá Slökkiviliðstjóra slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar.
Lagt fram minnisblað frá slökkviliðsstjóra vegna útboðs sem fór fram á nýjum dælubíl fyrir slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar. Fram kemur í minnisblaðinu að aðeins eitt tilboð barst í smíði nýs dælubíls, frá Ólafi Gíslasyni & Co. hf. Eldvarnarmiðstöðinni. Tilboðið var um 30% yfir kostnaðaráætlun og er því ekki bindandi.

Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn samþykkir að taka tilboði frá Ólafi Gíslasyni & co. hf. Eldvarnarmiðstöðinni í smíði nýs dælubíls. Sveitarstjórn samþykkir jafnframt að unnið verði út frá fyrsta valkosti sem slökkviliðsstjóri leggur fram, þ.e. að bifreiðin komi til greiðslu í janúar 2024. Það er mat sveitarstjórnar að ólíklegt sé að hægt verði að ná hagstæðari kaupum með endurteknu útboði."
Tillagan borin upp og samþykkt með 7 atkvæðum.

6.Varmadælur í Hvalfjarðarsveit.

2202005

Drög að verksamningi við Hagvarma.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn samþykkir framlögð drög að verksamningi við Hagvarma ehf. við að meta hagkvæmni þess að setja upp varmadælukerfi til hitunar á rafkynntu húsnæði í Hvalfjarðarsveit. Verkið felur í sér að kanna aðstæður á þeim íbúðarhúsum/lögheimilum þar sem vilji er til uppsetningar varmadælu, velja hagkvæmasta varmadælukerfi (vatn-vatn, loft-vatn eða loft-loft fyrir sérhvern stað og veita ráðgjöf varðandi mögulegar endurbætur á hitakerfi húsnæðis til að hámarka orkunýtingu á hverjum stað. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að rita undir verksamning við Hagvarma ehf. en verkefnisstjóri framkvæmda og eigna verður tengiliður sveitarfélagsins við verksala. Vegna þessa verkefnis samþykkir sveitarstjórn viðauka nr. 2 við fjárhagsáætlun ársins 2022 þar sem kr. 3.050.000 verða færðar til gjalda á deild 51003, lykil 4980 en auknum útgjöldum verður mætt með lækkun óvæntra útgjalda, deild 21085, lykli 5971.
Sveitarstjórn samþykkir jafnframt að fela mannvirkja- og framkvæmdanefnd að gera drög að reglum um stuðning vegna uppsetninga varmadæla í Hvalfjarðarsveit."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 5 atkvæðum, EÓG og RÍ sátu hjá.

7.Erindi frá Veiðifélaginu Leirá

2104052

Aðkoma að veiðistöðum.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn samþykkir að vísa erindinu til umfjöllunar í USN nefnd."
Tillagan borin upp og samþykkt með 7 atkvæðum.

8.Málefni flóttafólks.

2203028

Erindi frá Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn tekur jákvætt í erindið og lýsir yfir áhuga á þátttöku í verkefninu en ráðuneytið mun boða til upplýsingafundar með áhugasömum sveitarfélögum og er félagsmálastjóra falið að sitja þann fund. Sveitarstjórn samþykkir einnig að skipa verkefnahóp, fari verkefnið af stað, en í honum skulu sitja formaður fjölskyldu- og frístundanefndar, formaður fræðslunefndar auk starfsmanna beggja nefnda."
Tillagan borin upp og samþykkt með 7 atkvæðum.


9.Vegasamgöngur í Hvalfjarðarsveit.

2202017

Erindi frá Ólafi Óskarssyni.
Erindi frá 17 landeigendum, íbúum og bændum við Vesturlandsveg.
Framlagt afrit af erindi frá 17 landeigendum, íbúum og fasteignaeigendum við Vesturlandsveg, til Vegargerðarinnar og VSÓ ráðgjafar vegna frumhönnunarvinnu sem er í gangi vegna Vesturlandsvegar frá Hvalfjarðargöngum að Borgarnesi.

Jafnframt lögð fram grein Ólafs Óskarssonar vegna sama máls.

Svar við grein Ólafs Óskarssonar.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar vísar til fyrra svars frá 22. febrúar sl. vegna fjölmargra þeirra hugleiðinga sem fram koma í grein bréfritara. Til að mynda kemur þar nokkuð skýrt fram að framtíðarsýn á legu þjóðvegar 1 í gegnum sveitarfélagið er á forræði Vegagerðarinnar sem hefur ráðið verkfræðistofuna VSÓ til ráðgjafar við verkefnið. Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hefur í þeirri vinnu ekki lagt fram tillögur um hvaða kostir séu skoðaðir og hverjir ekki, svo það sé ítrekað, en greinarhöfundur ýjar að því í skrifum sínum að svo sé. Líkt og áður hefur komið fram hefur, á þessu stigi málsins, ekki verið óskað eftir tillögum né umsögnum frá sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar um frumtillögur að legu þjóðvegar 1 um sveitarfélagið. Sveitarstjórn gerir ráð fyrir að við valkostagreiningu sína sé Vegagerðin með til hliðsjónar öll þau gögn sem hún hefur látið vinna fyrir sig í gegnum tíðina. Þar á meðal matsskýrslu VSÓ ráðgjafar um veg um Grunnafjörð frá árinu 2009 og skýrslu Mannvits frá apríl 2018 um samanburð gangnaleiða nýrra Hvalfjarðarganga. Í skýrslu Mannvits kemur m.a. fram að stytting þjóðvegar 1 er um 2,8 km. verði hagkvæmasti kostur við legu nýrra Hvalfjarðarganga valinn. Þá er gert ráð fyrir að gangnamunni að norðanverðu komi upp á mörkum jarðanna Kúludalsár og Grafar. Hins vegar getur stytting þjóðvegar 1 mest orðið um 1 km. með vegi um mynni Grunnafjarðar. Ólafur veltir fyrir sér hvers vegna sveitarstjórnarfulltrúar nágrannasveitarfélaga séu ekki að vinna að framgangi leiðar yfir Grunnafjörð, sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar getur ekki svarað fyrir það. Ólafur vísar jafnframt í svar samgönguráðherra, núverandi innviðaráðherra, við fyrirspurn þingmannsins Guðjóns Brjánssonar árið 2020. Fyrirspurn Guðjóns er nokkuð ýtarleg og svar ráðherra sömuleiðis. Rétt er það sem fram kemur í svari ráðherra að sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar tók á þeim tíma ekki efnislega afstöðu til veglínu um mynni Grunnafjarðar og vildi ekki tefja gildistöku aðalskipulagsins líkt og fram kemur í greinargerð skipulagsins, enda lá fyrir að Umhverfisstofnun legðist gegn veglagningunni. Að lokum vill sveitarstjórn árétta fyrri afstöðu sína að það er hlutverk og verkefni Vegagerðarinnar að leggja til valkosti og finna bestu lausnir í samgöngumálum og hafa samráð við sveitarstjórn og íbúa sveitarfélagsins. Það er á síðari stigum sem sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar tekur afstöðu til þeirra valkosta sem lagðir verða fram. Vonandi setur Vegagerðin kraft í þessa greiningarvinnu svo hægt sé að vinna málið áfram og ljúka því.

Það er ekki ætlun sveitarstjórnar að standa í frekari skrifum við greinarhöfund, enda er verkefnið ennþá á vinnslustigi hjá Vegagerðinni og ráðgjafa hennar. Málið mun síðar í ferlinu koma til umfjöllunar og ákvarðanatöku hjá sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar líkt og áður er getið.

Með vinsemd og virðingu, sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 5 atkvæðum, EÓG og RÍ sátu hjá.

Íbúalistinn lagði fram eftirfarandi bókun:
"Undirritaðar tóku undir og samþykktu svarbréf sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar við bréfi Ólafs Óskarssonar nú í lok febrúar mánaðar. Þetta var ágætis bréf sem fór yfir hinar ýmsu staðreyndir málsins eins og það kemur fyrir augum sveitarstjórnar. Í okkar huga vorum við og erum ekki að segja að Grunnafjarðar leiðin sé ekki í boði.

Það er hægt að taka undir margt sem fram kemur í bréfaskriftum Ólafs.
Við erum á því að bæta verður Grunnafjarðar leiðinni inn í tillögur VSÓ fyrir Vegagerðina svo hægt sé að meta alla þá kosti sem komnir eru fram. Við erum þó ekki með þessu að segja að það sé leiðin sem eigi að verða fyrir valinu, það er ekki hægt að segja til um það fyrr en sú tillaga er komin inn og allir þættir taldir með, umhverfisþættir, vegalengdir, öryggi o.fl.
Það er hvorki þessarar sveitarstjórnar né næstu að segja til um eða útiloka mögulegar legur Vesturlandsvegar í gegnum sveitarfélagið, það er með öllu rangt að útiloka eina leið án þess að hún sé metin eins og hinar fjórar leiðirnar sem komnar eru fram.

Fulltrúar Íbúalistans í sveitarstjórn vilja þakka Vilhjálmi Ólafssyni og þeim 17 íbúum, landeigendum, og bændum sem undirrita erindið fyrir frumkvæðið og standa fast á að koma sínum hagsmunum og skoðunum á framfæri. Einnig viljum við taka undir það með Vilhjálmi, þar sem kemur fram í tölvupóstsamskiptum eigi þetta efni fullt erindi til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar þó ekki sé verið að taka það til efnislegrar afgreiðslu. Gott er að fá inn erindi frá fólki sem lætur sig málin varða og fullkomlega eðlilegt er að sveitarstjórn sé upplýst um gang mála og þau erindi sem berast inn.

Fulltrúar Íbúalistans í sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar
Elín Ósk Gunnarsdóttir og Ragna Ívarsdóttir"


Til máls tók EÓG.

10.Erindi er varðar tillögur VSÓ um tvöföldun Vesturlandsvegar-Grunnafjarðarleiðin.

2203033

Erindi frá Íbúalistanum.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu fulltrúa Í lista:
Undirritaðar, fulltrúar Íbúalistans í sveitarstjórn óskum eftir því að sveitarstjórn sendi formlegt erindi til Vegagerðarinnar og VSÓ þess efnis að bætt verði inn í tillögur VSÓ leið yfir Grunnafjörð.
Það er með öllu ólíðandi að útiloka þessa leið án frekari skoðunar. Mikilvægt er að meta leiðina eins og hinar fjórar sem fram eru komnar með tilliti til umhverfisþátta, öryggis o.fl."

Tillagan er felld með 5 atkvæðum.

Meirihluti sveitarstjórnar lagði fram eftirfarandi bókun vegna tillögu fulltrúa Í-lista:
"Meirihluti sveitarstjórnar getur ekki tekið undir tillögu fulltrúa Í-lista. Sveitarstjórn hefur ekki hlutast til um hvaða valkosti Vegagerðin hefur valið að vinna með í verkefninu og hefur ekki beitt sér fyrir útilokun neinna valkosta. Það er því að mati meirihluta sveitarstjórnar óeðlilegt að sveitarstjórn fari á þessu stigi að leggja til einstaka valkosti. Meirihluti sveitarstjórnar treystir því að áfram verði unnið faglega að greiningu valkosta á legu og uppbyggingu þjóðvegar 1 í sveitarfélaginu og að verkefninu verði lokið sem fyrst.

Björgvin Helgason
Daníel Ottesen
Guðjón Jónasson
Helga Harðardóttir
Brynja Þorbjörnsdóttir"


Til máls tóku RÍ, DO, EÓG.

11.Farsímasamband á Vesturlandi.

2203035

Vinnan framundan.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar tekur undir ályktun frá haustþingi SSV og þá umræðu sem fram hefur farið hjá Almannavarnarnefnd Vesturlands um nauðsyn þess að gera átak í að bæta farsímasamband. All víða er ófullnægjandi farsímasamband í Hvalfjarðarsveit. Sveitarstjórn lýsir ánægju með að Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi ætli, í samræmi við nýja samgöngu- og innviðaáætlun Vesturlands, að kortleggja svæðið og þrýsta á úrbætur um uppbyggingu farsímakerfisins."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

12.Fornleifaathugun í Akurey í Grunnafirði.

2203039

Erindi frá Jóni Sveinssyni.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn samþykkir að verða við erindinu og felur skipulagsfulltrúa að vinna málið áfram. Sveitarstjórn samþykkir vegna þessa viðauka nr. 3 við fjárhagsáætlun ársins 2022 þar sem kr. 406.000 verða færðar til gjalda á deild 09021, lykil 4980 en auknum útgjöldum verður mætt með lækkun óvæntra útgjalda, deild 21085, lykli 5971."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

13.Þátttaka í stofnun sjálfseignarstofnunar um nýsköpunarnet Vesturlands.

2203029

Erindi frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar lýsir yfir ánægju sinni með stofnun NýVest ses., sjálfseignarstofnunar um nýsköpunarnet Vesturlands. Sveitarstjórn samþykkir að vera þátttakandi í verkefninu og felur sveitarstjóra að skrá sveitarfélagið í verkefnið."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.





14.Aðalfundur Lánasjóðs sveitarfélaga 2022.

2203024

Aðalfundarboð.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn samþykkir að Linda Björk Pálsdóttir, sveitarstjóri, fari með umboð sveitarfélagsins á aðalfundi Lánasjóðs sveitarfélaga sem haldinn verður 1. apríl næstkomandi."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

15.Reynsla og viðhorf kjörinna fulltrúa í bæjar- og sveitarstjórnum á Íslandi.

2203022

Skýrsla frá Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála.
Erindið er framlagt.

16.Upplýsingapóstur frá Innviðaráðuneyti til kjörinna fulltrúa.

2203036

Erindi frá Skrifstofu sveitarfélaga og byggðamála.
Vegna verkefnisins "Römpum upp Ísland" þá hafa verkefnisstjóri framkvæmda og eigna og félagsmálastjóri undanfarna mánuði unnið að samantekt og kortlagninu um aðgengismál í sveitarfélaginu en í kjölfar þeirrar vinnu mun verða sótt um fjárstuðning til fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem hefur það hlutverk að styðja við uppbyggingu innviða í þágu fatlaðs fólks.

Oddviti lagði fram eftirfarandi bókun:
"Sveitarstjórn samþykkir að fela sveitarstjóra að gera drög að umsögn sem send verði á sveitarstjórn og síðan skilað inn í samráðsgátt stjórnvalda vegna draga að leiðbeiningum og ramma að áliti sveitarfélaga með undir 250 íbúa um stöðu og getu þeirra til að sinna lögbundnum verkefnum."
Tillagan borin upp og samþykkt með 7 atkvæðum.

17.Breytt skipulag barnaverndar.

2112003

Frestun gildistöku breytinga á barnaverndarlögum.
Erindið er framlagt.
Vísað til kynningar hjá fjölskyldu- og frístundanefnd.

18.Umsögn um frumvarp til laga um tekjustofna sveitarfélaga (gjaldastofn fasteignaskatts), 78. mál.

2203013

Erindi frá Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.
Erindið framlagt.

19.Umsögn um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2022-2025, 415. mál.

2203025

Erindi frá Allsherjar- og menntamálanefnd.
Erindið framlagt.

20.Umsögn um frumvarp til laga um eignarráð og nýtingu fasteigna (óskipt sameign, landamerki ofl.), 16. mál.

2203026

Erindi frá Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis.
Erindið framlagt.

21.Umsögn um frumvarp til laga um fjöleignarhús, 597.mál.

2105040

Erindi frá Velferðarnefnd Alþingis.
Erindið framlagt.

22.175. fundur Heilbrigðisnefndar Vesturlands.

2203021

Fundargerð ásamt fylgigögnum.
Fundargerðin framlögð.

Fundi slitið - kl. 15:45.

Efni síðunnar