Fara í efni

Sveitarstjórn

326. fundur 23. mars 2021 kl. 15:00 - 15:26 í stjórnsýsluhúsinu Innrimel 3
Nefndarmenn
  • Björgvin Helgason oddviti
  • Daníel A. Ottesen varaoddviti
  • Brynja Þorbjörnsdóttir ritari
  • Guðjón Jónasson vararitari
  • Ragna Ívarsdóttir aðalmaður
  • Helga Harðardóttir aðalmaður
  • Elín Ósk Gunnarsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Linda Björk Pálsdóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Linda Björk Pálsdóttir sveitarstjóri
Dagskrá
Björgvin Helgason, oddviti, bauð fundarmenn velkomna og setti fund skv. fyrirliggjandi dagskrá.

Til máls tók RÍ.
Með leyfi oddvita óska ég eftir að fá að ræða undir þessum lið í dagskrá fundarins póst þann er barst sveitarstjórnarfulltrúum frá oddvita í gærkvöldi, degi fyrir sveitarstjórnarfund.
Þar sem ekki er gert ráð fyrir því í dagskrá fundarins að hægt sé að ræða mál önnur en þau sem eru á dagskrá óska ég eftir leyfi oddvita til að halda áfram.
Póstur þessi innihélt bókanir frá oddvita vegna þeirra mála sem eru á dagskrá þess sveitarstjórnarfundar sem við sitjum í dag.
Í pósti þessum var ekki að finna bókun frá oddvita um mál númer 7. 2103111.
Fyrirspurn vegna Hitaveitu Hvalfjarðar sf.
Fyrirspurn þessi er frá fulltrúum Íbúalistans.

Í pósti þeim sem fylgdi þessum bókunum frá oddvita kom þetta fram:
"Hér koma drög að bókunum vegna 326 fundar sveitarstjórnar, séu athugasemdir/ábendingar eða gagnbókanir óskast þær sendar fyrir hádegi á morgun."
Þegar þessi frestur til að skila inn bókunum var liðinn hafði bókun vegna þessa máls ekki borist, hvorki í pósti né inn á fundargáttina. Það sama var klukkan 13:30 í dag, einum og hálfum tíma fyrir sveitarstjórnarfund.

Því er spurning mín til oddvita þessi.
Er það virkilega svo að ekki verði tekið á móti bókunum sem berast inn á þennan fund á meðan á honum stendur?
Sé það svo, hvaða lagaheimild hefur oddviti til að beita slíkum þvingunum?

Ragna Ívarsdóttir

1.Sveitarstjórn - 325

2103002F

Fundargerðin framlögð.

2.Menningar- og markaðsnefnd - 22

2103005F

Fundargerðin framlögð.
BÞ fór yfir helstu atriði fundarins.

3.Fræðslunefnd - 27

2103004F

Fundargerðin framlögð.
EÓG fór yfir helstu atriði fundarins.

4.Ársreikningur Hvalfjarðarsveitar 2020.

2103043

Seinni umræða.
Ársreikningur, síðari umræða ásamt endurskoðunarskýrslu.
Ársreikningur 2020 lagður fram til seinni umræðu.

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu 2020 námu tæpum 994,2mkr. samkvæmt rekstrarreikningi fyrir A og B hluta en þar af námu rekstrartekjur A hluta 985,4mkr.
Rekstrargjöld sveitarfélagsins á árinu 2020 voru 865,6mkr. fyrir A og B hluta en 857,1mkr. fyrir A hluta. Aðrar tekjur og gjöld árið 2020 námu 10,8mkr.

Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt ársreikningi A og B hluta var jákvæð um tæpar 190,5mkr. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2020 nam 3.326mkr. samkvæmt efnahagsreikningi. Veltufé frá rekstri var 22,65%, veltufjárhlutfall 11,51% og eiginfjárhlutfall 97%.

Samanburður á fjárhagslegum viðmiðum sveitarstjórnarlaga milli áranna 2019 og 2020 eru að skuldaviðmið sveitarfélagsins er áfram jákvætt, fer úr 79,0% í 102,3% árið 2020 og rekstrarjöfnuður síðustu þriggja ára hækkar um 122,9mkr. Þess má að auki geta að langtímaskuldir sveitarfélagsins við lánastofnanir voru að fullu uppgreiddar árið 2020.

Rekstrarniðurstaða einstakra málaflokka og deilda er almennt innan áætlunar ársins 2020 og er það vel.

Forstöðumönnum stofnana og starfsfólki Hvalfjarðarsveitar eru færðar þakkir fyrir þeirra aðkomu og vinnu við gerð ársreiknings.

Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir ársreikning vegna ársins 2020 og staðfestir hann með undirritun sinni."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Til máls tók LBP, DO.

5.Breytingar á Samþykkt um stjórn Hvalfjarðarsveitar nr. 554-2013 með síðari breytingum.

2005007

Samþykkt Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis ásamt auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.
Samþykkt Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis ásamt auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.
Ráðuneytið hefur staðfest breytingu á samþykkt um stjórn Hvalfjarðarsveitar nr. 554/2013, með síðari breytingum nr. 495/2018 og hefur breytingin nr. 232/2021 verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.

Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn staðfestir og samþykkir, í kjölfar áður framlagðra erindisbréfa eftirtalinna fastanefnda Hvalfjarðarsveitar, sbr. breytingu á samþykkt um stjórn Hvalfjarðarsveitar nr. 232/2021:
Mannvirkja- og framkvæmdanefnd
Menningar- og markaðsnefnd
Fjölskyldu- og frístundanefnd
Fræðslunefnd
Umhverfis-, skipulags- og byggingarnefnd
Landbúnaðarnefnd

Nefndarskipan í Menningar- og markaðsnefnd:
Aðalmenn: Anna Kristín Ólafsdóttir og Sigrún Vigdís Gylfadóttir.
Til vara: Margrét Bóasdóttir og Sævar Ingi Jónsson.

Mannvirkja- og framkvæmdanefnd:
Aðalmenn: Helga Harðardóttir og Helgi Magnússon
Til vara: Brynjólfur Sæmundsson, Daníel Ottesen og Brynja Þorbjörnsdóttir."

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 5 atkvæðum, RÍ og EÓG sátu hjá.

6.Íþróttahús - undirbúningur framkvæmda.

2001042

Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn samþykkir að fara í forhönnun á íþróttahúsi við Heiðarskóla og felur mannvirkja- og framkvæmdanefnd að vinna málið áfram með verkefnastjóra framkvæmda og eigna."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.


Hvalfjarðarsveit hyggur á byggingu nýs íþróttahúss í sveitarfélaginu. Lagt hefur verið í vinnu við greiningu á þörf og staðsetningu slíkrar byggingar.
Stefnt er að því að byggja hagkvæmt og vel útfært mannvirki sem nýtist vel og uppfyllir fyrirsjáanlegar þarfir sveitarfélagsins og íbúa þess til næstu áratuga fyrir skóla-, Íþrótta-, tómstunda-, félags- og samkomustarf. Unnið verður að því að mannvirkið verði hagkvæmt í rekstri en einnig að líftími þess verði sem lengstur og hagkvæmastur.

Gerð hefur verið úttekt á núverandi íþróttamannvirkjum í Heiðarborg og var gert yfirlit yfir stöðu viðhaldsmála og listuð upp helstu vandamál er snúa að viðhaldi. Þar kemur fram að Heiðarborgar bíða töluvert umfangsmiklar viðhaldsframkvæmdir hvort sem þar verður byggt íþróttahús eður ei. Þá er ekki einungis horft til íþróttasalarins heldur miðstöðvarinnar í heild sinni. Er það mat ráðgjafa að með þeim viðhaldsframkvæmdum sem lagt er til að farið verði í muni íþróttamiðstöðin nýtast vel undir núverandi starfsemi. Stefnt yrði að því að nýta þau rými sem fyrir eru óbreytt eða þeim breytt til hagræðis við þá nýbyggingu sem byggð yrði við Heiðarborg.

Lagt var mat á kosti þess að byggja íþróttahús sem viðbyggingu við núverandi mannvirki að Heiðarborg eða byggja nýtt mannvirki í Melahverfi.
Það er mat sveitarstjórnar að mannvirkið skuli rísa sem viðbygging við núverandi mannvirki að Heiðarborg og eru mörg rök fyrir því. Nálægðin við Heiðarskóla þar sem mesta notkunin á húsinu verður íþróttakennsla grunnskólabarna. Rísi mannvirkið í Melahverfi þyrfti að keyra öllum grunnskólabörnum í íþróttakennslu. Það er kostnaður sem myndi bætast á sveitarfélagið auk þess er það umhverfismál að fækka ferðum skólabíla um sveitarfélagið. Nálægðin við Heiðarskóla einfaldar notkun á íþróttamannvirkjum sveitarfélagsins bæði fyrir tómstundarstarf skólabarna og mögulegra íþróttaæfinga í beinu framhaldi af lokum skóladegi.

Rekstrarkostnaður við það að halda úti íþróttamannvirkjum á tveimur stöðum væri mikill þar sem halda þyrfti úti tvöföldum fjölda starfsfólks til þjónustu á opnunartímum. Líklegt verður að teljast að byggingarkostnaður verði lægri við það að byggja við Heiðarborg þar sem þau rými sem nú þegar eru til staðar nýtast áfram ýmist óbreytt eða aðlöguð að þeirri starfsemi sem hönnuð verður. Samneyti við sundlaugina í Heiðarborg er að sjálfsögðu stór kostur bæði fyrir skólastarf og íbúa sem koma til með að nota mannvirkin hvort sem er til íþróttastarfs, félagsstarfs eða heilsubótar. Nýbygging í Melahverfi yrði að sjálfsögðu að innihalda öll rými sem þörf og reglugerðir gera ráð fyrir og ekki nýtast með öðru húsnæði.

Samkvæmt deiliskipulagi Heiðarskóla- og Heiðarborgarsvæðisins er gert ráð fyrir frekari byggingarreitum við Heiðarborg og kallar svona framkvæmd því ekki á endurskoðun á skipulagi svæðisins.

7.Fyrirspurn vegna Hitaveitu Hvalfjarðar sf.

2103111

Erindi frá Íbúalistanum.
Erindi íbúalistans framlagt og sveitarstjóra falið að framsenda erindið á stjórn Hitaveitufélagsins þar sem hvorki oddviti né sveitarstjóri hafa svör við öllum þeim spurningum sem fram koma í erindinu. Afgreiðslu erindisins er frestað.

Fyrirspurn vegna Hitaveitu Hvalfjarðar sf
Við undirrituð óskum eftir að fá svör frá oddvita, Björgvini Helgasyni, sveitarstjóra, Lindu Björk Pálsdóttur og í þeim tilfellum sem oddviti og eða sveitarstjóri hafa ekki svör óski sveitastjórn eftir svörum frá Hitaveitufélagi Hvalfjarðar við þeim spurningum sem hér er lagðar fram.

1.
Hvenær var síðast mælt hver afkastageta borholunnar að Hrafnabjörgum er?
2.
Er fyrirhugað að stækka dreifikerfi Hitaveitufélags Hvalfjarðar?
3.
Hvað borgar Hvalfjarðarsveit fyrir heitt vatn sem það er nú þegar að kaupa af Hitaveitufélagi Hvalfjarðar sf?
4.
Er það rétt að ,,almennir? notendur séu að greiða 73% hærra gjald fyrir heitt vatn frá Hitaveitufélagi Hvalfjarðar sf en eigendur?
Við undirrituð óskum eftir að Hvalfjarðarsveit láti gera almenna úttekt, af óháðum aðila á starfsemi Hitaveitufélags Hvalfjarðar sf. Þar sem skoðað verði meðal annars:
Afkastagetu borholunnar að Hrafnabjörgum
Flutningsgeta miðað við afkastagetu
Meðferð og sala vatns frá Hitaveitufélaginu

Jafnframt óskum við undirrituð eftir því að sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar kalli eftir svörum frá stjórn Hitaveitufélags Hvalfjarðar sf hvað þetta mikilvæga atriði varðar.
Er ætlunin að láta Hvalfjarðarsveit borga meira fyrir kaup á heitu vatni frá Hitaveitufélagi Hvalfjarðar sf fyrir Heiðarskóla en það borgar fyrir vatn sem fer í sundlaugina á Hlöðum?

Elín Ósk Gunnarsdóttir
Ragna Ívarsdóttir
Marteinn Njálsson


Til máls tók EÓG.

8.Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar - tækjabúnaður.

2103114

Erindi frá slökkviliðsstjóra Slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn hefur fullan skilning á stöðu slökkviliðsins hvað málið varðar og felur sveitarstjóra að vinna málið áfram í samstarfi og samtali við slökkviliðsstjóra og Akraneskaupstað."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

9.Fráveitumál.

2103115

Erindi frá Faxaflóahöfnum sf.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn samþykkir að fela sveitarstjóra og oddvita að funda með bréfritara og fara yfir málið."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

10.Reglugerð um starfsemi Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

2103113

Erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Fasteignasjóðurinn hefur það hlutverk að jafna aðstöðu sveitarfélaga við uppbyggingu eða breytingar á fasteignum sem nýttar eru í þjónustu við fatlað fólk með miklar og/eða sértækar stuðningsþarfir. Fasteignasjóði er jafnframt ætlað að stuðla að úrbótum í ferlimálum fatlaðs fólks, einkum er varðar aðgengi að fasteignum, mannvirkjum og útisvæðum sem eru á vegum sveitarfélaga.

Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn samþykkir að fela félagsmálastjóra og verkefnastjóra framkvæmda og eigna að meta stöðu sveitarfélagsins og eftir atvikum að senda inn umsókn í sjóðinn."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

11.Aðalfundur Lánasjóðs sveitarfélaga 2021.

2103091

Aðalfundarboð.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn samþykkir að sveitarstjóri fari með umboð Hvalfjarðarsveitar á aðalfundinum sem haldinn verður 26. mars nk., til vara verði oddviti."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

12.Aðalfundur Símenntunarmiðstöðvarinnar á Vesturlandi 2021.

2103112

Aðalfundarboð.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Sveitarstjórn samþykkir að sveitarstjóri sitji fundinn fyrir hönd Hvalfjarðarsveitar."
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

13.Aðalfundur HeV 2021.

2103095

Aðalfundarboð.
Lagt fram en málið var tekið til afgreiðslu á síðasta fundi sveitarstjórnar.

14.Umsögn um frumvarp til laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablaðið og aukatekjur ríkissjóðs (gjaldfrjáls rafræn útgáfa), 273, mál.

15.Umsögn um frumvarp til laga um greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins (samþætting þjónustu, hlutverk o.fl.), 561. mál.

16.Umsögn um frumvarp til laga um brottfall laga um Kristnisjóð o.fl., nr. 35-1970, með síðari breytingum, 470. mál.

2103087

Erindi frá Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis.
Framlagt.

17.Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74-1997 (beiting nauðungar), 563. mál.

2103096

Erindi frá Velferðarnefnd Alþingis.
Framlagt.

18.Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90-2018, 585. mál.

19.Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna stuðnings til smærri innlendra áfengisframleiðenda og heimildar til sölu áfengis á framleiðslustað, 495. mál.

20.Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24-2000 (fjölgun jöfnunarsæta), 496. mál.

2103101

Erindi frá Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis.
Framlagt.

21.Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum (borgarafundir, íbúakosningar um einstök mál), 491. mál.

22.Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga (alþjóðleg vernd, brottvísanir, dvalar- og atvinnuleyfi), 602. mál.

Fundi slitið - kl. 15:26.

Efni síðunnar