Fara í efni

Fræðslu- og skólanefnd 2009-2014

52. fundur 06. maí 2010 kl. 17:45 - 19:45

Hlynur M. Sigurbjörnsson, Bjarni Jónsson, Valgerður Jóna Oddsdóttir, Arna Arnórsdóttir og Lára Ottesen sem ritar fundargerð.

Auk þeirra Helga Stefanía skólastjóri Heiðarskóla, Helga Harðardóttir fulltrúi kennara Heiðarskóla, Sigurður Sigurjónsson skólastjóri Skýjaborgar,

Sara Margrét Ólafsdóttir fulltrúi kennara Skýjaborgar og María Hlín Eggertsdóttir fulltrúi foreldra Heiðarskóla, Guðný Kristín Guðnadóttir fulltrúi foreldra Skýjaborgar.

Dagskrá:

 

1. Setning fundar.

2. Formaður fer yfir fundargerð 51. fundar fræðslu- og skólanefndar dags. 4. mars. 2010.

3. Mánaðarskýrsla skólastjóra Heiðarskóla fyrir mars og apríl 2010.

4. Mánaðarskýrsla skólastjóra Skýjaborgar fyrir mars og apríl 2010.

5. Bréf frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, dags. 29. mars 2010 er varðar skýrslu um samræmd könnunarpróf í 4., 7. og 10. bekk haustið 2009. Lagt fram til kynningar.

6. Vímefnanotkun, foreldraeftirlit og frístundir 14-15 ára unglinga 1997 2009. Mat á árangri forvarnarvinnu sveitarfélaga á Íslandi. Lagt fram til kynningar.

7. Könnun á starfsemi og stjórnun lengdrar viðveru. Skýrsla lögð fram.

8. Skóladagatal Heiðarskóla 2010-2011.

9. Málefni grunnskólanema, í Hvalfjarðarsveit, sem stunda fjarnám í framhaldsskóla.

10. Önnur mál.

 

 

Fundargerð:

 

1. Setning fundar.

 

• Formaður setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

 

2. Formaður fer yfir fundargerð 51. fundar fræðslu- og skólanefndar dags. 4. mars. 2010.

 

• Formaður fer yfir fundargerð 51.fundar.

 

3. Mánaðarskýrsla skólastjóra Heiðarskóla fyrir mars og apríl 2010.

 

• 8. bekkur fór í fermingafræðslu í Reykholt með jafnöldrum sínum úr prófastdæminu þann 9 mars.

• Stærðfræðikeppni FVA var haldinn þann 10. febr. og voru einungis tveir þátttakendur úr Heiðarskóla sem fóru að þessu sinni.

• Hæfileika og spurningakeppni skólans fór fram á fimmtudagskvöldi þann 11. febrúar en undanúrslit úr spurningakeppninni höfðu verðið nokkru áður. Það voru lið 9. og 10. bekkja sem kepptu til úrslita og vann 10 bekkur nauman sigur. Mörg og fjölbreytt atriði voru í hæfileikakeppninni og í þriðja sæti lenti Halldór Logi Sigurðarson úr 9. bekk með uppistandsatriði. Í öðru sæti voru þær Agnes Helga og Íris úr 9. bekk en þær spiluðu og sungu. Í fyrsta sæti lenti svo hljómsveit skipuð þeim, Jóni Rúnari, Jökli, Kristni, Sigurbirni og Guðjóni sem flutti gamalt rokklag. Að þessu sinni var keppnin að kvöldi til og var selt inn. Þó nokkrir gestir komu og áttu með okkur indæla kvöldstund.

• Stóra upplestrarkeppnin á Vesturlandi var að þessu sinni haldin í Laugargerðisskóla og áttum við fríða fulltrúa þar. Ekki komust þau í verðlaunasæti en stóðu sig engu að síður með mikilli prýði.

• Þriðjudagurinn 16. mars var merkilegur í sögu skólans en þá var tekin skóflustunga að nýrri skólabyggingu og voru það yngstu börnin sem það gerðu. Á eftir var kaffisamsæti í skólanum.

• Fimmtudaginn 18. mars fórum við með fulla rútu af gulu klappliði til að styðja okkar fólk í skólahreystikeppninni sem haldin var í Kópavogi. Heiðarskóli lenti þar í 6 sæti af skólum á Vesturlandi. Í keppnisliðinu voru þau Benjamín Jónsson og Sigrún Bára Gautadóttir í hraðaþrautinni, Kristinn Samúel Guðmundsson og Sara Eir Árnadóttir í kraftaþrautum.

• Við höfum sinnt útikennslu alltaf jafnt og reglulega höfum tekið hluta úr degi c .a. tvisvar í mánuði og hefur það verið mjög skemmtileg tilbreyting frá hinni hefðbundnu kennslu.

• Árshátíð skólans var svo haldin fimmtudaginn 25. mars og voru tvær sýningar. Það voru nemendur úr 1., 3., 5.,7, og 9. bekkjum sem sáu um skemmtiatriðin að þessu sinni. Kaffihlaðborð og línuhappadrætti var á sínum stað.

• Páskaleyfi hófst síðan mánudaginn 29. mars og kennsla hófst aftur eftir páskaleyfi þriðjudaginn 6. apríl.

• Við héldum nemendaverndarráðsfund þriðjudaginn 6. apríl þar sem skólastjórnendnur og sérfræðingar fóru yfir málefni nemenda.

• Miðvikudaginn 7. apríl voru verðandi 1. bekkingar og foreldrar þeirra boðaðir á fund í skólanum þar sem skólinn var skoðaður, vorskólaplanið kynnt og farið yfir ýmis praktísk atriði.

• Mánudaginn 12. apríl tóku kennarar skólans þátt í útikennslunámskeiði á vegum umhverfisnefndar sveitarfélagsins. Þennan dag var líka fyrsta heimsókn verðandi 1. bekkinga.

• Við fengum til okkar lettneskan túlk þann 13. apríl til að ljúka foreldraviðtölum með lettunum okkar.

• Unglingarnir fóru á árlegt Lyngbrekkuball þann 15. apríl.

• Þann 16. apríl fór 10. bekkur í heimsókn í FVA

• 20. apríl var annar dagur vorskólans. Þá komu einnig til okkar fulltrúar frá UMSB með kynningu fyrir 11 ára og uppúr.

• Þennan þriðjudag var einnig fundur í skólaráði þar sem m.a. var farið yfir skóladagatal og málefni barna og ungmenna rædd sérstaklega. Mikil umræða var um nauðsyn þess að einhver einn aðili hefði umsjón með félagsmálum í sveitarfélaginu útleigu á Heiðarborg til ýmissa nota og félagsstarfi unglinga með tengingu við ungmennafélagið.

• Föstudagurinn 23. apríl var vetrarfrísdagur svo að allir bæði nemendur og starfsfólk fengu 4 daga helgi.

• Menntaskóli Borgarfjarðar kom fimmtudaginn 29. apríl með kynningu á skólastarfinu og félagslífinu í skólanum. Nemendur 9. og 10. bekkja hlýddu á þá kynningu.

• Skipulögð útikennsla var dagana 29. apríl, 30. apríl og 3. maí. Allt hefðbundið skólastarf var lagt til hliðar þessa daga og verið úti samfellt frá morgni til klukkan 13:00. Þar sem engar eiginlegar frímínútur eða matartímar voru styttum við skóladaginn sem því nam og keyrðum heim klukkan 13:00. Vorum við einstaklega heppin með veðrið þessa daga og var unnið að mörgum mjög skemmtilegum verkefnum.

• Tveir nýjir nemendur komu í skólann þann 3. maí. Þeir fara í 2. og 4. bekki og búa í Stóra Lambhaga. Þeir koma úr Akurskóla í Reykjanesbæ.

• Töluverðar breytingar hafa verið á stöðum almennra starfsmanna frá því í byrjun mars. Helga Hauksdóttir minnkaði stöðu sína skv. læknisráði niður í 50% og fengum við Kolbrúnu Sigurðardóttur til að taka 50% á móti Helgu. Helga hefur sagt upp stöðu sinni frá n.k. vori.

• Elísabet Benediktsdóttir fór síðan í veikindaleyfi þann 13. apríl og tók þá Kolbrún hluta af hennar stöðu á móti hinni.

• Nýr nemandi í 4. bekk þarf vegna raskana sinna manninn með sér og frá því að hann hóf skólagöngu hér hefur Kolbrún fylgt honum eftir daglega sem stuðningsfulltrúi með yfirsýn á aðra nemendur bekkjarins og höfum við fengið Maríu Lúísu Kristjánsdóttur til að leysa af 50% stöðu skólaliða fram á vorið.

• Við erum farnar að skipuleggja næsta skólaár og erum með meira en nóg af fólki sem vill vinna hjá okkur.

• Helstu breytingar á kennarahópnum eru:

Samúel Þorsteinsson hefur sótt um launalaust leyfi næsta skólaár vegna náms í hljóðupptöku og hljóðfræðum í Skotlandi.

Vigdís Guðjónsdóttir hefur sótt um tímabundna breytingu á stöðuhlutfalli sínu úr 100% í 50%

Inn koma úr fæðingarorlofi Ingibjörg Harpa (maí) Íris (okt) Örn (okt) og Helena úr launalausu leyfi.

• Okkar skipulag er að 1.bekkur verður sér (7 nemendur) 2.,3.,4.,bekkir samtals 32 nemendur verði skipt með 2 kennara. 5 bekkur (9 nemendur) þar sem mörg erfið mál eru innanborðs verði sér 6 og 7 bekkir (15 nemendur) verði í samkennslu.  Unglingadeildarbekkir verði sér.

• Við sóttum um styrk til menntamála og heilbrigðisráðuneytisins í nýjan sjóð sem veitir styrki til aðstoðar börnum með ADHD. Þar vorum við aðallega með námsverið í huga sem aðstoð fyrir unglingana okkar sem hafa þessa röskun. Við fengum úthlutað 1.000.000 krónum úr sjóðnum og munum við nýta þann pening í námsaðstoð og næði fyrir þessa krakka í námsveri.

 

4. Skýrsla skólastjóra Skýjaborgar fyrir mars og apríl 2010.

 

• Foreldraviðtöl fóru fram í mars.

• Viðhorfskönnun meðal foreldra var gerð í mars og sýndi hún mikla ánægju foreldra með starf leikskólans þetta skólaárið.

• 31. mars var starfsdagur kennara og var m.a. farið yfir niðurstöður

foreldraviðtala og foreldrakönnun. • Sumardaginn fyrsta opnaði listasýning í stjórnsýsluhúsinu en nemendur leikskólans eiga þar nokkur verk.

• Í byrjun apríl skilaði leikskólinn af sér skýrslu til Landverndar og er nú formlega búinn að sækja um Grænfánan.

• Síðustu 4 vikur hafa elstu börnin okkar verið einn dag í viku í Heiðarskóla (vorskóla). Börnin fara með skólabílnum að heiman og aftur heim eftir að grunnskóladegi líkur.

• Þann 12. apríl fóru 3 starfsmenn leikskólans á námskeið í útikennslu í Fannahlíð. Námskeiðið var í boði umhverfisnefndar Hvalfjarðarsveitar og var almenn ánægja með það.

• Á starfsdegi 23. apríl heimsóttum við leikskólann Rauðhól í Norðlingaholti og kynntum okkur sérstaklega vinnu þeirra við útikennslu. Þar fékk starfsfólk margar hugmyndir sem nýta má í starfi leikskólans sem fer fram að hluta til í Furuhlíð í maí.

• 30. apríl fóru elstu nemendur leikskólans í Vatnaskóg. Þar áttu þau góðan dag í dásamlegu veðri.

• Dagur umhverfisins var 25. apríl. Í tilefni hans var farið og tínt rusl í nánasta umhverfi leikskólans og kringum Melahverfið. Það safnaðist í þó nokkuð marga ruslapoka og hvetjum við íbúa Hvalfjarðarsveitar til að gera slíkt hið sama.

• 4.maí var hjá okkur útileikfangadagur. Börnin komu með leikfang að heiman sem þau léku svo með á útisvæði leikskólans.

• Leikskólinn er búinn að koma sér upp útikubbum, gerðir úr niðursöguðum trábolum og greinum. Einnig var sagað niður í smærri samskonar kubba sem notaðir verða inni.

• Í þessari viku er kubbaþema á Regnboganum. Þá er einungis í boði hinir ýmsu kubbar í leik barnanna má þar nefna; einingakubbar, kaplakubbar, skógarkubbar, holukubbar.

Framundan:

• Leikbrúðusýning föstudaginn 7. maí í boði foreldrafélags Skýjaborgar.

• 10.-12. maí ætlum við að færa starfsemi Regnbogans í Furuhlíð, skógræktina. Börnin mæta í Furuhlíð og eru sótt þangað. Við ætlum að leika okkur, elda úti og vinna hin ýmsu verkefni í skóginum.

• 2 starfsmenn leikskólans fara á námskeið í útieldun þann 13 maí.

• Opið hús/vorhátíð verður 19. maí og mun foreldrafélagið aðstoða okkur við að gera daginn skemmtilegan. Hoppukastalar, andlitsmálning, grillaðar pylsur, söngur og gleði.

• Útskrift elstu barna verður 27. maí. Foreldrar elstu barnanna bjóða hvert öðru í kaffi og kökur og nemendur verða svo útskrifaður úr leikskólanum með smá athöfn.

• Árlega vorferð okkar á Bjarteyjarsand verður farin 31. maí.

• Hjóladagurinn verður verður í júní og þá koma allir með hjólin sín í leikskólann.

 

5. Bréf frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, dags. 29. mars 2010 er varðar skýrslu um samræmd könnunarpróf í 4., 7. og 10. bekk haustið 2009. Lagt fram til kynningar.

 

• Lagt fram til kynningar. Umræður urðu um málið.

 

6. Vímefnanotkun, foreldraeftirlit og frístundir 14-15 ára unglinga 1997-2009. Mat á árangri forvarnarvinnu sveitarfélaga á Íslandi. Lagt fram til kynningar.

 

• Lagt fram til kyningar. Umræður urðu um að sveitafélagið þyfti að móta sér stefnu í forvarnarmálum.

 

7. Könnun á starfsemi og stjórnun lengdrar viðveru. Skýrsla lögð fram.

 

• Lagt fram til kynningar.

 

8. Skóladagatal Heiðarskóla 2010-2011.

 

• Fræðslu og skólanefnd samþykkir skóladagatal einróma, með fyrirvara um að útikennsludagar verði settir inn, þar sem þá daga er börnum keyrt fyrr heim.

 

9. Málefni grunnskólanema, í Hvalfjarðarsveit, sem stunda fjarnám í framhaldsskóla.

 

• Umræður um málefnið voru miklar.

 

Bókun: Fræðslu og skólanefnd vill stuðla að hvatningu til grunnskólanema sem hafa staðið sig vel í hinum ýmsu námsgreinum. Í mörgum grunnskólum er algengt að u.þ.b. 40% nemenda í 10.bekk og einstaka nemandi í 9.bekk stundi fjarnám í framhaldsskóla í fögum sem þeir hafa lokið námsefni grunnskólans með ágætum árangri að mati skólans. Ekki eru margir framhaldsskólar að taka inn fjarnámsnemendur úr grunnskólum þessi misserin þar sem ríkisvaldið gerir ekki ráð fyrir þeim á fjárlögum þessa árs.  Þó er vitað að FG tekur inn nemendur og liggur gjaldskrá þar fyrir. Til að koma til móts við nemendur í Heiðarskóla gerir fræðslu og skólanefnd eftirfarandi tillögu, enda liggur fyrir að skólinn mun gefa þessum nemendum tækifæri til að sinna fjarnáminu í viðkomandi námsgreinatímum. Einnig munu kennarar skólans vera til aðstoðar, eftir föngum, þó hin eiginlega kennsla sé á hendi framhaldsskólans.

 

Tillaga til sveitastjónar:

Nemendur í 9. og 10.bekk Heiðarskóla sem lokið hafa námsefni grunnskóla í einni eða fleiri greinum með ágætum árangri, að mati skólans, fá styrk til framhaldsnáms í einni námsgrein hvora önn. Skal styrkurinn nema 100% af innritunargjaldi og 50% af kennslugjaldi. Gjaldskrá FG skal höfð til viðmiðunar.

 

 

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

10. Önnur mál.

• Umræður urðu um stöðu mála varðandi ráðningu fulltrúa æskulýðsmála og almennt um íþrótta- og æskulýðsmál.

 

Fundi slitið kl: 19.15

 

Hlynur Sigurbjörnsson

Lára Ottesen

Bjarni Jónsson

Arna Arnórsdóttir

Valgerður Jóna Oddsdóttir

Efni síðunnar