Fara í efni

Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd

56. fundur 03. desember 2025 kl. 15:30 - 17:45 í stjórnsýsluhúsinu Innrimel 3
Nefndarmenn
  • Sæmundur Víglundsson formaður
  • Ása Hólmarsdóttir varaformaður
  • Þorsteinn Már Ólafsson ritari
  • Svenja Neele Verena Auhage aðalmaður
  • Elín Ósk Gunnarsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Jökull Helgason embættismaður
  • Helga Harðardóttir embættismaður
Fundargerð ritaði: Jökull Helgason Deildarstjóri Umhverfis- og skipulagsdeildar
Dagskrá

1.Landeldi í Hvalfirði - Umsagnarbeiðni

2407026

Skipulagsstofnun hefur óskað eftir umsögn Hvalfjarðarsveitar við mál nr. 0075/2025 í Skipulagsgátt er varðar landeldi í Hvalfirði, en um er að ræða kynningu á umhverfismatsskýrslu (mati á umhverfisáhrifum) og er kynningartími frá 20.11.2025 til 2.1.2026. Fyrir liggur umhverfismatsskýrsla sem Efla verkfræðistofa hefur unnið fyrir Aurora fiskeldi ehf. vegna umhverfismats landeldis á Grundartanga, þar sem fyrirhugað er að framleiða 28.000 tonn af laxi á ári.



Í umsögn Hvalfjarðarsveitar, dags. 27.2.2025, um matsáætlun vegna framkvæmdarinnar var lögð áhersla á að í umhverfismatsskýrslu þyrfti að koma skýrt fram hver væri heildarferskvatnsþörf framleiðslunnar og hversu margir sekúndulítrar þar af þyrftu að koma frá vatnsveitu (eða úr sjó), ásamt nákvæmri lýsingu á því hvernig þess vatns yrði aflað. Einnig væri ástæða til að skýra hvernig komið yrði í veg fyrir slysasleppingar við flutning sláturfisks, svo sem frá kerjum til skips. Þá var bent á að eins og fram kæmi í matsáætlun væri framkvæmdasvæðið í jaðri svæða á Náttúruminjaskrá og hverfisverndarsvæðis samkvæmt aðalskipulagi. Gera þyrfti skýra grein fyrir áhrifum framkvæmdarinnar á þessi svæði og hvernig reynt yrði að lágmarka þau. Um öll þessi atriði er fjallað í umhverfismatsskýrslunni. Þar kemur m.a. fram að horfið hafi verið frá því að fá ferskvatn úr grunnvatnsgeymi og að í þess stað verði vatnið unnið úr sjó.



Eins og ráða má af umhverfismatsskýrslunni er um allstóra framkvæmd að ræða, sem óhjákvæmilega hefur áhrif á umhverfið. Áhrif á flesta þætti eru þó talin óveruleg, nema hvað áhrif á vistgerðir og gróðurfar annars vegar og landslag og ásýnd hins vegar eru metin nokkuð neikvæð. Sama á við um áhrif á fuglalíf á meðan á framkvæmdum stendur.



Hvað vistgerðir og gróðurfar varðar kemur fram í skýrslunni að framkvæmdin muni valda varanlegu raski á vistgerðum svæðisins. Að einhverju leyti er þar þó um að ræða svæði sem þegar hefur verið raskað og auk þess eru áhrifin talin staðbundin.



Fuglalíf á svæðinu verður fyrir beinu varanlegu raski skv. umhverfismatsskýrslunni. Truflun verður þó mest á framkvæmdatíma. Á rekstrartíma eru áhrifin fyrst og fremst sögð felast í búsvæðatapi þar sem að land fer undir mannvirki. Erfitt sé að segja til um hvort fuglar muni alfarið hörfa af framkvæmdarsvæðinu en líklegt sé að þeir færi sig um set yfir á nærliggjandi landssvæði. Þarna virðist því nokkur óvissa til staðar.



Í umhverfismatsskýrslunni er rakið hvernig lágmarka eigi hættu á slysasleppingum, m.a. út frá þeirri reynslu sem fengist hefur eftir óhöpp í landeldi á síðustu árum. Stuðst verður við tvöfalda eða þrefalda vörn við slysasleppingum frá stöðinni með ristum, síum, fiskigildrum, skynjurum, myndavélum o.fl. Varnaraðgerðum við flutning seiða er lýst og fjallað um vöktun, eftirlit og viðbragð. Framkvæmdaraðili kveðst meðvitaður um hættu á erfðablöndun vegna slysasleppinga, en telur að með þeim mótvægisaðgerðum sem kynntar eru í skýrslunni séu „áhrif framkvæmdarinnar á umhverfisþáttinn óveruleg“, eða með öðrum orðum að líkur á slysasleppingum verði mjög litlar.



Með tölvupósti dags. 20. nóvember 2025 óskaði Skipulagsstofnun eftir umsögn Hvalfjarðarsveitar við mál nr. 75/2025 í Skipulagsgátt, sem varðar umhverfismatsskýrslu vegna fyrirhugaðs landeldis Aurora fiskeldis ehf. á Grundartanga, þar sem ætlunin er að framleiða 28.000 tonn af laxi árlega.
Það er mat umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefndar Hvalfjarðarsveitar að umhverfismatsskýrslan sé byggð á traustum gögnum, að úrvinnsla gagna hafi verið vönduð og að mat á vægi og eðli umhverfisáhrifa sé nægilega rökstutt og skipulega fram sett. Í skýrslunni er m.a. fjallað með skýrum hætti um þau atriði sem sérstaklega voru tilgreind í umsögn Hvalfjarðarsveitar um matsáætlun vegna framkvæmdarinnar, dags. 27.2.2025. Í skýrslunni kemur m.a. fram að horfið hafi verið frá því að fá ferskvatn úr grunnvatnsgeymi og að í þess stað verði vatnið unnið úr sjó. Einnig er rakið hvernig lágmarka eigi hættu á slysasleppingum, þannig að líkur á slíkum atburðum verði hverfandi.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefndar Hvalfjarðarsveitar minnir á að framkvæmdin sem um ræðir er háð framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar, mannvirki á framkvæmdasvæðinu eru háð byggingarleyfi og framkvæmdin kallar á breytingar á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar og deiliskipulagi hafnar-, iðnaðar-, og athafnasvæðis á Grundartanga, austursvæði. Vinna við breytingar á þessum skipulagsáætlunum eru eftir atvikum þegar í gangi. Nefndin gerir ekki athugasemdir við umhverfismatsskýrsluna.

2.Endurvinnsla Als álvinnslu á saltgjalli og gjallsandi, Grundartanga. Umsagnarbeiðni vegna máls nr 1565 frá 2025 í Skipulagsgátt

2511037

Skipulagsstofnun hefur óskað eftir umsögn Hvalfjarðarsveitar við mál nr. 1565/2025 í Skipulagsgátt sem varðar endurvinnslu Als álvinnslu, á saltgjalli og gjallsandi á Grundartanga, en um er að ræða tilkynningu um framkvæmd (tilkynningu til ákvörðunar um matsskyldu) og er kynningartími frá 24.11.2025 til 23.12.2025. Með erindinu fylgdi matsskyldufyrirspurn sem VSÓ ráðgjöf hefur unnið fyrir Al Álvinnslu ehf. vegna fyrirhugaðrar endurvinnslu á allt að 5.000 tonnum á ári af saltgjalli og gjallsandi í verksmiðju Als á Grundartanga. Endurvinnslan mun fara fram í því húsnæði sem fyrir er, en saltgjallið og gjallsandurinn myndast sem úrgangur úr þeirri endurvinnslu áls úr álgjalli sem þar fer nú fram. Fyrirhuguð endurvinnsla er því viðbót við starfsemina sem fyrir er og til þess fallin að vinna seljanlegar afurðir úr úrgangi sem nú fellur til. Framkvæmdin kallar ekki á breytingar á skipulagsáætlunum.



Eins og fram kemur í matsskyldufyrirspurninni flokkast saltgjall og gjallsandur sem hættuleg efni. Hingað til hefur saltgjall verið sent til endurvinnslu erlendis, en gjallsandur urðaður í flæðigryfju á Grundartanga. Með fyrirhugaðri framkvæmd verður því bæði komið í veg fyrir flutning á hættulegu efni milli landa og urðun úrgangs frá Al í flæðigryfju.



Í fyrirspurninni kemur fram að helstu áhrifaþættir umræddrar breytingar á framleiðslu Als séu losun í loft og í frárennsli. Því er fjallað um áhrif á vatnshlot og loftgæði í matsskyldufyrirspurninni.



Fyrirhuguð starfsemi hefur í för með sér losun á flúor og klór í frárennsli, en magnið er minna en svo að líklegt geti talist að það hafi áhrif á strandsjó (vatnshlot 104-1330-C). Auk þess er þarna um að ræða losun sem væntanlega á sér nú þegar stað að einhverju leyti vegna leka frá flæðigryfju. Starfsemin ætti ekki að geta haft áhrif á grunnvatnshlot (104-193-G).



Gert er ráð fyrir að fyrirhuguð starfsemi hafi í för með sér litla sem enga losun í andrúmsloft. Þá er líklegt að ferlið komi í veg fyrir ammoníaklykt sem fram kemur að hafi verið til óþæginda í verksmiðjunni og í nágrenni hennar.



Meginniðurstaða matskyldufyrirspurnarinnar er að fyrirhuguð framkvæmd muni hafa óveruleg áhrif á vatnshlot og óveruleg og þó frekar jákvæð áhrif á loftgæði.
Með tölvupósti dags. 24. nóvember 2025 óskaði Skipulagsstofnun eftir umsögn Hvalfjarðarsveitar við mál nr. 1565/2025 í Skipulagsgátt, sem varðar tilkynningu til ákvörðunar um matsskyldu vegna endurvinnslu á saltgjalli og gjallsandi í verksmiðju Als Álvinnslu á Grundartanga. Það er mat umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefndar Hvalfjarðarsveitar að matstilkynningin gefi glögga mynd af fyrirhugaðri framkvæmd og áhrifum hennar á umhverfið, að öðru leyti en því að draga þarf betur fram hvar á lóðinni og nánar tiltekið í hvaða húsnæði, fyrirhuguð starfsemi eigi að fara fram. Í tilkynningunni kemur m.a. fram að fyrirhuguð vinnsla muni fara fram í núverandi húsnæði Als, að framkvæmdin kalli ekki á breytingar á skipulagsáætlunum og að framkvæmdin muni hafa óveruleg eða óverulega jákvæð áhrif á þá þætti í umhverfinu sem ástæða þótti til að taka til skoðunar. Auk þess er framkvæmdin til þess fallin að draga úr flutningi á hættulegum úrgangi milli landa, minnka urðun í flæðigryfju og framleiða söluvöru, m.a. ál, úr efni sem nú fer að miklu leyti til spillis. Nefndin telur meginniðurstöður matsskyldutilkynningarinnar nægilega rökstuddar, að undanskyldu því atriði sem viðkemur að skilgreina betur í hvaða húsnæði fyrirhuguð starfsemi eigi að fara fram, og bendir einnig á að framkvæmdin stuðlar að bættri nýtingu auðlinda í anda hringrásarhagkerfisins.
Nefndin telur að ekki sé um matsskylda framkvæmd að ræða, að teknu tilliti til 1. og 2. Viðauka við lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021.

3.Aðalskipulag Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 - fyrirspurn - Skólastígur 5 og Leirárland.

2510015

Erindi dags. 07.10.2025 frá Vilhelm Patrick Bernhöft f.h. landeiganda.

Ósk um heimild til að breyta aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032.

Í breytingunni felst að fá að vinna skipulag fyrir lóð Leirárlands L221405 og hluta lóðar Skólastígs 5, L221409.

Nánar tiltekið mun aðalskipulagsbreytingin felast í því að breyta landbúnaðarlandi L2 yfir í L3 hvað varðar Leirárland, til samræmis við aðliggjandi lóð, Skólastíg 5, sem er landbúnaðarland L3 skv. aðalskipulagi.

Einnig að vinna deiliskipulag fyrir báðar lóðir með íbúðaruppbyggingu í huga.

Skráð stærð Leirárlands L221405 eru tæpir 7,06 hektarar en skráð stærð Skólastígs 5, L221409 eru rúmir 2,69 hektarar. Skráð heildarstærð svæðisins er því um 9,75 hektarar.



Málið var áður á dagskrá 54. fundar Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefndar þann 15.10.2025 og frestaði nefndin málinu og fól Umhverfis- og skipulagsdeild að óska frekari upplýsinga frá landeiganda.
Nefndin samþykkir að óska eftir fundi með landeiganda til að ræða uppbyggingaráform svæðisins.

4.Hafnarland Ölver L238859 - Aðalskipulagsbreyting

2510027

Landmótun f.h. landeiganda leggur fram tillögu að breytingu á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 fyrir Hafnarland Ölver L238859.



Breytingin fjallar um afmörkun nýs landnotkunarreits VÞ21 fyrir verslun og þjónustu í landi Hafnar. Innan reits VÞ21 er fyrirhugað að vera með veitinga- og gistiþjónustu fyrir allt að 30 manns, auk fastrar búsetu.

Í gildandi aðalskipulagi er landið skilgreint sem landbúnaðarland í flokki L2, annað landbúnaðarland. Skipulagssvæðið er 5 ha að stærð. Hámark byggingarmagns er 600 m2.



Sveitarstjórn samþykkti þann 22.10.2025 að auglýsa skipulagslýsingu að breytingu á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032, skv. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga og nr. 123/2010.

Lýsingin var auglýst í Skipulagsgátt og bárust 5 umsagnir á auglýsingatímanum, frá Náttúruverndarstofnun, Minjastofnun Íslands, Náttúrufræðistofnun, Landsneti og Narfastöðum ehf. Frestur til að gera athugasemdir við lýsingu var til 30.11.2025.



Lögð fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi, greinargerð og uppdráttur, þar sem eftir atvikum hefur verið tekið tillit til þeirra ábendinga sem komu við skipulagslýsingu.

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir fyrir sitt leyti að auglýsa tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 fyrir Hafnarland Ölver L238859 skv. 3. málsgrein 30. greinar skipulagslaga nr. 123/2010.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

5.Endurskoðun aðalskipulags - Skilmálabreytingar

2206043

Sveitarstjórn samþykkti 24. september 2025 að auglýsa skipulagslýsingu fyrir skilmálabreytingar á Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 skv. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Breytingin tekur til breytinga á almennum skilmálum fyrir frístundabyggð (F), landbúnaðarsvæði (L3), skógræktar- og landgræðslusvæði (SL) og varúðar- og þynningarsvæði. Gerð var sameiginleg skipulagslýsing fyrir breytingar á landnotkunarflokkunum en eftir atvikum verða unnar aðskildar aðalskipulagsbreytingar. Gerð verður breyting á skipulagsskilmálum í greinargerð aðalskipulags ásamt númerum landnotkunarflokka landbúnaðarsvæða.



Skipulagslýsingin var auglýst í Skipulagsgátt 2. - 23. október s.l. og bárust ábendingar frá 15 aðilum á auglýsingatímanum.



Á 55. fundi Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefndar, voru lögð fram dög að breyttum skilmálum og fól nefndin Umhverfis- og skipulagsdeild að vinna áfram að málinu til samræmis við umræður á fundinum.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir fyrir sitt leyti að auglýsa vinnslutillögu að breytingu á Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 fyrir umræddar skilmálabreytingar skv. 2. málsgrein 30. greinar skipulagslaga nr. 123/2010. Verða tillögurnar og forsendur þeirra kynntar íbúum sveitarfélagsins, aðliggjandi sveitarfélögum og öðrum hagsmunaaðilum.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

6.Katanesvegur, Grundartanga- aðalskipulagsbreyting.

2504025

Sveitarstjórn samþykkti 2. júlí 2025 að auglýsa skipulagslýsingu fyrir breytingu á Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 í samræmi við 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Með breytingunni verður athafnasvæði (AT5) austan til á Grundartangasvæðinu breytt í iðnaðarsvæði. Svæðið er 49 ha að stærð og heyrir undir Faxaflóahafnir sem annast rekstur hafnar og tengdrar starfsemi á Grundartanga. Skipulagslýsingin var auglýst frá 16. júlí - 20. september 2025 og bárust 14 umsagnir á auglýsingatímanum.

Fyrir liggur tillaga á vinnslustigi þar sem eftir atvikum hefur verið tekið tillit til þeirra umsagna sem bárust á auglýsingatíma skipulagslýsingar í Skipulagsgátt.



Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd fjallaði um málið á 55. fundi sínum þann 19.11.2025 og fól Umhverfis- og skipulagsdeild að vinna áfram að málinu í samræmi við umræður á fundinum.
Fyrir liggur vinnslutillaga að breytingu á Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 þar sem eftir atvikum hefur verið tekið tillit til ábendinga sem bárust á kynningartíma skipulagslýsingar.

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd vill í ljósi framkominna athugasemda sem bárust á auglýsingatíma skipulagslýsingar benda á að í tillögunni hefur verið reynt að gera grein fyrir því hvaða áhrif breytingarnar hafa á umhverfið og hvernig dregið verði úr umhverfisáhrifum vegna breytinganna, má þar nefna að skv. breyttu aðalskipulagi verður heimilt að vera með hreinlegan iðnað eins og matvælaiðnað og aðra iðnaðarstarfsemi sem hefur ekki mengun í för með sér. Öll mengun skal vera undir viðmiðunarmörkum sem skilgreind eru í lögum og kveðið á um það í aðalskipulaginu að í deiliskipulagi skuli útfærðar aðgerðir til að tryggja hreinleika starfseminnar og draga úr ásýndaráhrifum s.s. með jarðvegsmönum, skógrækt og vandaðri uppbyggingu, þ.m.t. góðum mengunarvörnum. Í aðalskipulaginu eru ákvæði um að ekki sé heimilt að hefja nýja starfsemi á iðnaðarsvæðinu sem hefur í för með sér losun mengandi efna s.s. flúors eða brennisteinstvíoxíðs, og varðandi mengunarvarnir skuli notast við bestu fáanlegu tækni sem uppfyllir BAT staðal og besta hreinsibúnað sem völ er á hverju sinni. Í gildi er samkomulag milli Hvalfjarðarsveitar og Faxaflóahafna um grænar áherslur í starfsemi, uppbyggingu, gatnagerð og frágangi lóða á Grundartanga dags. 06.05.2015 sem ber að horfa til við skipulag og uppbyggingu svæðisins.

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir að auglýsa tillögu að breytingu á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 á vinnslustigi sbr. 2. mgr. 30. greinar skipulagslaga nr. 123/2010. Verður tillagan og forsendur hennar kynnt íbúum sveitarfélagsins, aðliggjandi sveitarfélögum og öðrum hagsmunaaðilum.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.



7.Framkvæmdaleyfi fyrir losun í flæðigryfjur Norðuráls.

2511022

Umsókn frá Norðuráli Grundartanga ehf. um framkvæmdaleyfi fyrir nýrri flæðigryfju á Grundartanga.



Ósk um framkvæmdaleyfi fyrir nýrri flæðigryfju á Grundartanga. Sótt er um leyfi í samræmi við 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 4. gr. reglugerðar nr. 772/2012, um framkvæmdaleyfi. Losun framleiðsluúrgangs í flæðigryfjur er aðferð sem notuð hefur verið hér á landi í meira en 50 ár eða allt frá því að álverið í Straumsvík hóf starfsemi. Á Grundartanga hefur framleiðsluúrgangur verið losaður í flæðigryfjur frá árinu 1998 og er reynsla af notkun þessarar aðferðar skv. erindinu talin góð. Þar sem rými er á þrotum í þeim flæðigryfjum sem Norðurál losar nú framleiðsluúrgang í er ljóst að útbúa þarf nýja flæðigryfju. Faxflóahafnir, sem eru landeigendur á fyrirhuguðu flæðigryfjusvæði, hyggjast áfram stækka hafnarsvæðið á Grundartanga, en með því að fylla í áformaða flæðigryfju nýtist það efni sem burðarhæft fyllingarefni, sem Faxaflóahafnir þyrftu annars að afla annars staðar frá. Flæðigryfjunni er skipt upp í þrjú hólf, samtals 4,2 ha að stærð, eftir því um hvers konar efni og afurðir er að ræða og frá hvoru fyrirtæki, en ásamt Norðuráli losar Elkem framleiðsluúrgang í flæðigryfjur.



Þannig er vestasta hólfið sem er 1,6 ha að stærð og rúmar 96.500 m3, ætlað undir kerbrot frá Norðuráli og er gert ráð fyrir að Norðurál losi árlega um 6.000 til 8.500 tonn eða 4.000 til 5.700 m3 í flæðigryfjuna.

Og miðhólfið sem er rúmlega 1 ha að stærð og rúmar 86.500 m3, er ætlað undir annað en kerbrot frá Norðuráli og er gert ráð fyrir að Norðurál losi árlega um 3.500 til 6.000 tonn eða 2.700 til 4.600 m3 í flæðigryfjuna.

Endingartími flæðigryfjunnar skv. umsóknargögnum er í kringum 20 ár en í umhverfismati réðu varúðarsjónarmið því að einungis var gert ráð fyrir 13 ára endingu.



Gert er ráð fyrir að nýja flæðigryfjan endist í a.m.k. 13 ár. Samkvæmt skipulagi og náttúruminjaskrá eru engin friðlýst eða vernduð svæði á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði. Flæðigryfja á svæði 1 er utan marka mikilvægs fuglasvæðis (IBA skrá) sem nær yfir stóran hluta af Hvalfirði. Í Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 er fyrirhugað svæði undir nýja flæðigryfju í landnotkunarflokknum Hafnir og er Grundartangahöfn skilgreind sem H1. Í greinargerð með skipulagsuppdrætti kemur fram í lýsingu og skilmálum fyrir Grundartangahöfn að á svæðinu sé heimilt að vera með athafnastarfsemi, afmarka þar flæðigryfjur fyrir úrgang, sem heimilt sé að urða í samræmi við starfsleyfi. Staðsetning og ákvæði um flæðigryfjur skuli sett fram í deiliskipulagi. Samkvæmt framangreindu er því urðun í flæðigryfjur heimiluð skv. aðalskipulagi. Flæðigryfjan eru á vestursvæði Grundartanga þar sem til staðar er deiliskipulag iðnaðar- og hafnarsvæðis, upphaflega samþykkt árið 2007. Síðari breytingar á deiliskipulaginu gerðu ráð fyrir flæðigryfjum og stækkun þeirra innan landfyllinga Grundartangahafnar. Í samræmi við ákvæði í aðalskipulagi hefur deiliskipulaginu verið breytt (dagsett 22/07/2024) þar sem staðsetning nýrrar flæðigryfju er afmörkuð innan fyrirhugaðrar landfyllingar Grundartangahafnar. Flæðigryfjan fellur undir töluliði 11.02 og 13.01 í 1. viðauka við lög nr. 111/2021, um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Þessir töluliðir hljóða svo: Töluliður 11.02: „Förgunarstöðvar þar sem spilliefni eru brennd, meðhöndluð með efnum eða urðuð. Aðrar förgunarstöðvar úrgangs sem meðhöndla meira en 500 tonn af úrgangi á ári.“ Töluliður 13.01: „Allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki A þegar breytingin eða viðbótin sjálf fer yfir þau viðmið sem flokkur A setur.“ Þar sem um er að ræða meira en 500 tonn sem verða meðhöndluð ár hvert í flæðigryfjunni, er framkvæmdin í flokki A og því matsskyld. Í ljósi þess að um matsskylda framkvæmd er að ræða var unnin umhverfismatsskýrsla þar sem gerð var grein fyrir framkvæmdinni og mögulegum umhverfisáhrifum. Í janúar 2023 fór umhverfismatsskýrslan í kynningu og lauk ferlinu með áliti Skipulagsstofnunar 17. ágúst 2023. Undirbúningur að því að sækja um framkvæmdaleyfi fyrir flæðigryfjuna ásamt endurskoðun á starfsleyfum fyrirtækjanna hófst árið 2024 með gerð áhrifamats fyrir strandsjávarhlotið Hvalfjörð, en flæðigryfjan liggur út í það vatnshlot. Niðurstaða áhrifamatsins sýndi að eldri stækkanir virðast ekki hafa haft sérstök greinanleg áhrif og því ætti stækkun flæðigryfjunnar til suðvesturs ekki að hafa áhrif á umhverfismarkmið strandsjávarvatnshlotsins Hvalfjörð skv. Vatnaáætlun Íslands 2022-2027. Framangreint áhrifamat var unnið áður en Umhverfisstofnun (nú Umhverfis- og orkustofnun) gaf út leiðbeiningar um gerð áhrifamats fyrir vatnshlot. Sérstakt stuðningsskjal sem stofnunin hefur bent á að unnt sé að nota við gerð skriflegs áhrifamats, fylgir með þessari umsókn, þrátt fyrir að það hafi ekki legið fyrir þegar áhrifamatið var unnið á sínum tíma.



Í gildi er starfsleyfi fyrir Norðurál þar sem fram kemur að heimilt sé að losa efni og afurðir í flæðigryfjur, sem ekki fara í sölu, endurvinnslu eða endurnýtingu.

Fyrir liggur óundirritað leyfi landeiganda vegna fyrirhugaðs framkvæmdaleyfis.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd leggur til að framkvæmdaleyfi verði veitt til framkvæmdaraðila Norðuráls Grundartanga ehf, vegna losunar framleiðsluúrgangs í nýjar flæðigryfjur á Grundartanga, á svæði Faxaflóahafna, Grundartanga Klafastöðum, L133674, skv. því fyrirkomulagi sem lýst er í umsóknargögnum, skv. gildandi deiliskipulagi svæðisins og á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012. Gerð verði úttekt af hálfu sveitarfélagsins, þar sem þess verði gætt að framkvæmd sé í samræmi við umsókn framkvæmdaleyfis og hjálagðra gagna hennar.

Skv. Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 kemur fram í lýsingu og skilmálum í greinargerð með skipulagsuppdrætti fyrir Grundartangahöfn að urðun í flæðigryfjur sé heimil í samræmi við starfsleyfi. Framkvæmdaleyfið er því bundið því skilyrði að ekki hafi aðrir aðilar en Norðurál Grundartanga ehf, heimild til losunar í umrædda flæðigryfju sbr. ákvæði aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar um að urðun sé í samræmi við starfsleyfi.

Framkvæmdaleyfið er með þeim áskilnaði að fyrir liggi skriflegt samþykki landeiganda / Faxaflóahafna fyrir losun í flæðigryfjurnar og að lokaúttekt á framkvæmdum við uppbyggingu flæðigryfjanna sé lokið af hálfu Hvalfjarðarsveitar sbr. ákvæði framkvæmdaleyfis þar um.

Kostnaður við framkvæmdaleyfi og áfangaúttektir sveitarfélagsins eru skv. gjaldskrá sveitarfélagsins.

Gildistími framkvæmdaleyfis verði til 13 ára frá afgreiðslu sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar eða til 26.11.2039.

Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar.

8.Framkvæmdaleyfi fyrir losun í flæðigryfjur Elkem.

2511023

Umsókn frá Elkem Íslandi ehf um framkvæmdaleyfi fyrir nýrri flæðigryfju á Grundartanga.



Sótt er um leyfi í samræmi við 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 4. gr. reglugerðar nr. 772/2012, um framkvæmdaleyfi. Losun framleiðsluúrgangs í flæðigryfjur er aðferð sem notuð hefur verið hér á landi í meira en 50 ár eða allt frá því að álverið í Straumsvík hóf starfsemi. Á Grundartanga hefur framleiðsluúrgangur verið losaður í flæðigryfjur frá árinu 1998 og er reynsla af notkun þessarar aðferðar skv. erindinu talin góð. Þar sem rými er á þrotum í þeim flæðigryfjum sem Elkem losar nú framleiðsluúrgang í er ljóst að útbúa þarf nýja flæðigryfju. Faxflóahafnir, sem eru landeigendur á fyrirhuguðu flæðigryfjusvæði, hyggjast áfram stækka hafnarsvæðið á Grundartanga, en með því að fylla í áformaða flæðigryfju nýtist það efni sem burðarhæft fyllingarefni, sem Faxaflóahafnir þyrftu annars að afla annars staðar frá. Flæðigryfjunni er skipt upp í þrjú hólf, samtals 4,2 ha að stærð, eftir því um hvers konar efni og afurðir er að ræða og frá hvoru fyrirtæki, en ásamt Elkem losar Norðurál framleiðsluúrgang í flæðigryfjur.



Þannig er austasta hólfið, sem er 12.000 m2 eða 1,2 hektari að stærð, ætlað undir kerbrot frá Elkem, en svæðið á að rúma 110.500 m3 efnis. Að fráskildum kvartssandi er gert ráð fyrir að Elkem losi árlega um 3.000 til 6.000 tonn í flæðigryfjuna.



Gert er ráð fyrir að nýja flæðigryfjan endist í a.m.k. 13 ár. Samkvæmt skipulagi og náttúruminjaskrá eru engin friðlýst eða vernduð svæði á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði. Flæðigryfja á svæði 1 er utan marka mikilvægs fuglasvæðis (IBA skrá) sem nær yfir stóran hluta af Hvalfirði. Í Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 er fyrirhugað svæði undir nýja flæðigryfju í landnotkunarflokknum Hafnir og er Grundartangahöfn skilgreind sem H1. Í greinargerð með skipulagsuppdrætti kemur fram í lýsingu og skilmálum fyrir Grundartangahöfn að á svæðinu sé heimilt að vera með athafnastarfsemi, afmarka þar flæðigryfjur fyrir úrgang, sem heimilt sé að urða í samræmi við starfsleyfi. Staðsetning og ákvæði um flæðigryfjur skuli sett fram í deiliskipulagi. Samkvæmt framangreindu er því urðun í flæðigryfjur heimiluð skv. aðalskipulagi. Flæðigryfjan eru á vestursvæði Grundartanga þar sem til staðar er deiliskipulag iðnaðar- og hafnarsvæðis, upphaflega samþykkt árið 2007. Síðari breytingar á deiliskipulaginu gerðu ráð fyrir flæðigryfjum og stækkun þeirra innan landfyllinga Grundartangahafnar. Í samræmi við ákvæði í aðalskipulagi hefur deiliskipulaginu verið breytt (dagsett 22/07/2024) þar sem staðsetning nýrrar flæðigryfju er afmörkuð innan fyrirhugaðrar landfyllingar Grundartangahafnar. Flæðigryfjan fellur undir töluliði 11.02 og 13.01 í 1. viðauka við lög nr. 111/2021, um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Þessir töluliðir hljóða svo: Töluliður 11.02: „Förgunarstöðvar þar sem spilliefni eru brennd, meðhöndluð með efnum eða urðuð. Aðrar förgunarstöðvar úrgangs sem meðhöndla meira en 500 tonn af úrgangi á ári.“ Töluliður 13.01: „Allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki A þegar breytingin eða viðbótin sjálf fer yfir þau viðmið sem flokkur A setur.“ Þar sem um er að ræða meira en 500 tonn sem verða meðhöndluð ár hvert í flæðigryfjunni, er framkvæmdin í flokki A og því matsskyld. Í ljósi þess að um matsskylda framkvæmd er að ræða var unnin umhverfismatsskýrsla þar sem gerð var grein fyrir framkvæmdinni og mögulegum umhverfisáhrifum. Í janúar 2023 fór umhverfismatsskýrslan í kynningu og lauk ferlinu með áliti Skipulagsstofnunar 17. ágúst 2023. Undirbúningur að því að sækja um framkvæmdaleyfi fyrir flæðigryfjuna ásamt endurskoðun á starfsleyfum fyrirtækjanna hófst árið 2024 með gerð áhrifamats fyrir strandsjávarhlotið Hvalfjörð, en flæðigryfjan liggur út í það vatnshlot. Niðurstaða áhrifamatsins sýndi að eldri stækkanir virðast ekki hafa haft sérstök greinanleg áhrif og því ætti stækkun flæðigryfjunnar til suðvesturs ekki að hafa áhrif á umhverfismarkmið strandsjávarvatnshlotsins Hvalfjörð skv. Vatnaáætlun Íslands 2022-2027. Framangreint áhrifamat var unnið áður en Umhverfisstofnun (nú Umhverfis- og orkustofnun) gaf út leiðbeiningar um gerð áhrifamats fyrir vatnshlot. Sérstakt stuðningsskjal sem stofnunin hefur bent á að unnt sé að nota við gerð skriflegs áhrifamats, fylgir með þessari umsókn, þrátt fyrir að það hafi ekki legið fyrir þegar áhrifamatið var unnið á sínum tíma. Í gildi er starfsleyfi fyrir Elkem þar sem fram kemur að heimilt sé að losa efni og afurðir í flæðigryfjur, sem ekki fara í sölu, endurvinnslu eða endurnýtingu.



Fyrir liggur óundirritað leyfi landeiganda vegna fyrirhugaðs framkvæmdaleyfis.



Málið var áður á dagskrá 55. fundar Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd þann 19.11.2025 og samþykkti nefndin að fresta afgreiðslu málsins og fela Umhverfis- og skipulagsdeild að afla frekari upplýsinga.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd leggur til að framkvæmdaleyfi verði veitt til framkvæmdaraðila Elkem Íslands ehf, vegna losunar framleiðsluúrgangs í nýjar flæðigryfjur á Grundartanga, á svæði Faxaflóahafna, Grundartanga Klafastöðum, L133674, skv. því fyrirkomulagi sem lýst er í umsóknargögnum, skv. gildandi deiliskipulagi svæðisins og á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012. Gerð verði úttekt af hálfu sveitarfélagsins, þar sem þess verði gætt að framkvæmd sé í samræmi við umsókn framkvæmdaleyfis og hjálagðra gagna hennar.

Skv. Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 kemur fram í lýsingu og skilmálum í greinargerð með skipulagsuppdrætti fyrir Grundartangahöfn að urðun í flæðigryfjur sé heimil í samræmi við starfsleyfi. Framkvæmdaleyfið er því bundið því skilyrði að ekki hafi aðrir aðilar en Elkem Ísland ehf, heimild til losunar í umrædda flæðigryfju sbr. ákvæði aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar um að urðun sé í samræmi við starfsleyfi.

Framkvæmdaleyfið er með þeim áskilnaði að fyrir liggi skriflegt samþykki landeiganda / Faxaflóahafna fyrir losun í flæðigryfjurnar og að lokaúttekt á framkvæmdum við uppbyggingu flæðigryfjanna sé lokið af hálfu Hvalfjarðarsveitar sbr. ákvæði framkvæmdaleyfis þar um.

Kostnaður við framkvæmdaleyfi og áfangaúttektir sveitarfélagsins eru skv. gjaldskrá sveitarfélagsins.

Gildistími framkvæmdaleyfis verði til 13 ára frá afgreiðslu sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar eða til 26.11.2039.

Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar.

9.Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Hjallholt 27 - Flokkur 1

2509034

Erindi frá byggingarfulltrúa. Hönnuður f.h. lóðarhafa sækir um 9.10.2025 um byggingarleyfi fyrir frístundahúsi á lóðinni Hjallholti 27. Ekkert deiliskipulag er í gildi á svæðinu.



Tekið fyrir í USNL-nefnd 15.10.2025.



Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti á fundi sínum 22.10.2025 að grenndarkynna byggingarleyfið meðal aðliggjandi lóðarhafa og landeiganda, þ.e. Hjallholt 25, L133582, Hjallholt 4, L133561, Hjallholt 2, L133559, Hjallholt 30, L133587, Hjallholt 29, L133586, Hjallholt 26, L133583, Hjallholt 24, L133581 og Þórisstaðir 2, L233003.



Grenndarkynnt var í Skipulagsgátt frá 28. október til 25. nóvember 2025 og bárust engar athugasemdir á kynningartímanum.

Umhverfis-, skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd gerir ekki athugasemd við að byggingarfulltrúi veiti byggingarleyfi á grundvelli niðurstöðu grenndarkynningar sem framkvæmd var sbr. 44. grein skipulagslaga nr. 123/2010.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

10.Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Hjallholt 34 - Flokkur 1

2509033

Erindi frá byggingarfulltrúa.

Umsókn dags. 23. september 2025 frá Jóni Magnúsi Halldórssyni hönnuði f.h. lóðarhafa lóðarinnar Hjallholt 34, L133591. Sótt er um byggingarleyfi fyrir 15,6 m2 frístundahúsi.

Ekkert deiliskipulag er í gildi á svæðinu.



Tekið fyrir í USNL-nefnd 15.10.2025.



Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti á fundi sínum 22.10.2025 að grenndarkynna byggingarleyfið meðal aðliggjandi lóðarhafa og landeiganda, þ.e. Hjallholt 37, L133594, Hjallholt 33, L133590, Hjallholt 28, L133585 og Þórisstaðir 2, L233003.



Grenndarkynnt var frá 28. október til 25. nóvember 2025 og bárust engar athugasemdir á kynningartímanum.
Umhverfis-, skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd gerir ekki athugasemd við að byggingarfulltrúi veiti byggingarleyfi á grundvelli niðurstöðu grenndarkynningar sem framkvæmd var sbr. 44. grein skipulagslaga nr. 123/2010.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

Fundi slitið - kl. 17:45.

Efni síðunnar