Fara í efni

Menningar- og markaðsnefnd

60. fundur 16. september 2025 kl. 16:30 - 18:30 í stjórnsýsluhúsinu Innrimel 3
Nefndarmenn
  • Birkir Snær Guðlaugsson formaður
  • Ásdís Björg Björgvinsdóttir ritari
  • Guðjón Þór Grétarsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Andrea Ýr Arnarsdóttir embættismaður
Fundargerð ritaði: Andrea Ýr Arnarsdóttir oddviti
Dagskrá

1.Markaðs- og kynningarátak í Hvalfjarðarsveit

1905042

Hafsteinn Sv. Hafsteinsson og Kamila Antonina Tarnowska frá auglýsingastofunni ENNEMM koma inn á fundinn undir þessum lið til að fara yfir árangursskýrslu Meta samfélagsmiðlaherferðar.
Hafsteinn og Kamila sátu fundinn undir þessum dagskrárlið í gegnum fjarfundarbúnað og þakkar nefndin þeim fyrir góða yfirferð á árangursskýrslunni.

Góðar umræður fóru fram um næstu samfélagsmiðlaherferð sem stefnt er að setja í loftið samhliða úthlutun lóða í Melahverfi III. Vonir standa til að unnt verði að úthluta lóðum öðru hvoru megin við áramótin 2025/2026. Deiliskipulag svæðisins gerir ráð fyrir fjölbreyttum búsetukostum hvað varðar stærð og gerð íbúðarhúsnæðis.

2.Hvalfjarðardagar 2025

2411038

Hvalfjarðardagar fóru fram dagana 14. til 17. ágúst sl. með fjölbreyttri dagskrá sem spannaði fjóra daga.



Hátíðin hófst á fimmtudagskvöld með litahlaupi Ungmenna- og íþróttafélags Hvalfjarðarsveitar á Vinavelli þar sem þátttakendur böðuðu sig í litum. Um kvöldið tók svo við Pubquiz með Hjálmari Erni á Hámel 8.



Á föstudeginum var boðið upp á fjölskylduvæna dagskrá, meðal annars útileiki fyrir börn á Vinavelli, dj og fatasund í sundlauginni að Hlöðum og síðar um kvöldið var boðið upp á kjötsúpu og brekkusöng á Vinavelli.



Laugardagurinn var þéttskipaður með skemmtilegum viðburðum fyrir alla aldurshópa. Deginum var ýtt úr vör með skemmtiskokki fyrir alla fjölskylduna. Markaður og veglegt kökuhlaðborð var á vegum Kvenfélagsins Lilju í stjórnsýsluhúsi sveitarfélagsins þar sem einnig var sett upp listasýning Skýjaborgar. Á Vinavelli fór fram fjölskyldudagskrá með hoppuköstulum, töfrabrögðum, dansatriði, ásamt því að boðið var upp á pylsur og Benedikt búálfur kíkti í heimsókn. Þar fór einnig fram afhending umhverfisviðurkenninga sveitarfélagsins.

Um kvöldið fóru svo fram vel sóttir tónleikar í Álfholtsskógi með hljómsveitinni GÓSS.



Á sunnudeginum var enn nóg um að vera. Íbúar og gestir gátu tekið þátt í keramikmálun á Leirá, notið fjölskyldudags í sundlauginni að Hlöðum, farið í göngu með Útiverum og sótt opið hús í Vatnaskógi. Hátíðinni lauk svo með gusutíma í sundlauginni að Hlöðum.
Hvalfjarðardagar 2025 voru vel heppnaðir og þakkar Menningar- og markaðsnefnd öllum sem mættu kærlega fyrir komuna.
Nefndin vill einnig færa öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum til skipulagningar og framkvæmdar hátíðarinnar hjartans þakkir, sem og þeim fjölmörgu styrktaraðilum sem gerðu Hvalfjarðardaga 2025 að veruleika.

Sérstakar þakkir fá verkefnastjórar Hvalfjarðardaga 2025, þeir Valdimar Ingi Brynjarsson og Hjörvar Gunnarsson, fyrir að skipuleggja og halda utan um hátíðarhöldin með glæsibrag.

3.Viðburðir í Hvalfjarðarsveit 2025.

2501033

Jólagleði á Vinavelli 2025.
Formanni og oddvita falið að vinna málið áfram útfrá umræðum á fundinum.

4.Sólmyrkvi á Vesturlandi 12.08.2026.

2508029

Þann 12. ágúst 2026 mun sjást sólmyrkvi með almyrkva víða af Vesturlandi.
Málið rætt og lagt fram til kynningar.

5.Fjárhagsáætlun Menningar- og markaðsnefndar 2026

2509029

Skiladagur fjárhagsáætlunar fyrir árið 2026 er 3. október n.k.
Farið var yfir málefni Menningar- og markaðsnefndar tengd fjárhagsáætlunargerð 2026.

6.Ósk um styrk vegna jólatónleika 2025.

2509019

Erindi frá Freyjukórnum.
Nefndin þakkar Freyjukórnum fyrir erindið en getur ekki orðið við styrkveitingu að þessu sinni. Úthlutun úr Menningarsjóð Hvalfjarðarsveitar er lokið fyrir árið 2025. Úthlutað er úr sjóðnum einu sinni á ári og er umsóknarfrestur til 1. apríl ár hvert. Nefndin hvetur Freyjukórinn til að sækja um á næsta ári vegna framtíðarverkefna eða viðburða.

Fundi slitið - kl. 18:30.

Efni síðunnar