Fara í efni

Fræðslu- og skólanefnd 2009-2014

82. fundur 12. apríl 2012 kl. 17:45 - 19:45

Arna Arnórsdóttir, Birna María Antonsdóttir, Bjarni Jónsson, Hlynur Sigurbjörnsson og Valgerður Jóna Oddsdóttir sem ritar fundargerð.

Auk þeirra Ingibjörg Hannesdóttir skólastjóri, Kartín Rós Sigvaldadóttir fulltrúi kennara grunnskólasviðs, Þórdís Þórisdóttir fulltrúi kennara leikskólasviðs,

Guðný Kristín Guðnadóttir fulltrúi foreldra leikskólabarna og Dagný Hauksdóttir fulltrúi foreldra grunnskólabarna.

1.Setning fundar.


Formaður setur fundinn og býður fólk velkomið.


2.Fundargerð 81. fundar fræðslu- og skólanefndar dags. 2. febrúar 2012.


Formaður fer yfir fundargerð 81. fundar.


3.Mánaðarskýrsla skólastjóra fyrir febrúar 2012.


Febrúar byrjaði á kynningu og kennslu í brunavörnum á starfsmannafundi á grunnskólasviði sem fylgt var eftir tveimur vikum síðar með æfðri rýmingaræfingu í samstarfi við slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar.

Í lok janúar var samráðsfundur kennara sem koma að samstarfinu milli sviða skólans og þróun þess. Farið var yfir samstarfið fram til þessa og lagðar línur fyrir febrúar – apríl.


Fimmtudaginn 2. febrúar var haldið þorrablót á grunnskólasviði. Elstu nemendur leikskólasviðs tóku þátt. Þorrablót var líka haldið á leikskólasviðinu í febrúar.


Skólinn tók þátt í Lífshlaupinu og gekk vel, sérstaklega nemendum grunnskólasviðsins sem lentu í 2. sæti á landsvísu. Nemendur og starfsmenn fóru nokkrum sinnum í sameiginlegar gönguferðir.

Umhverfisnefnd leikskólans hélt fund í febrúar. Í nefndinni eiga sæti börn í elsta árgangi, hópstjórinn þeirra, Daniela, fulltrúi foreldra og Gugga matráður. Á fundunum er farið yfir hlutverk nefndarinnar og grænfánaverkefnið. Börnin hjálpa síðan til við að finna lausnir á ýmsum umhverfismálum í leikskólanum.

Fimmtudagsheimsóknir elstu árganga leikskólabarna í grunnskólann hófust aftur eftir hlé í desember og janúar. Börnin hafa verið að vinna að fjölbreyttum verkefnum í tímunum, þau hafa smíðað báta sem þau hafa siglt niður lækinn, verið í hreyfileikjum hjá Samma, farið í heimilisfræði með Rögnu og prufað stöðvavinnu skv. aðferðafræði byrjendalæsis hjá Siggu Láru. Imba hefur tekið á móti börnunum í íþróttahúsinu og var ákveðið að bjóða upp á sundtíma líka í mars. Í apríl lýkur heimsóknum leikskólabarnanna í skólann en við taka heimsóknir kennara í leikskólann.


Vinnustaðasálfræðingur frá Þekkingarmiðlun kom og hitti starfsfólk grunnskólasviðs í byrjun febrúar. Árangursríkur og gagnlegur fundur.

Í tilefni af konudeginum buðu börn og starfsfólk öllum konum, mæðrum, ömmum, systrum, frænkum og vinkonum í konukaffi í leikskólann. Boðið var upp á skonsur, muffins og kakó. Margar konur komu í kaffi og áttu notalega stund saman með börnum og starfsfólki.


Þann 6. febrúar var dagur leikskólans en þá tóku starfsmenn og börn leikskólasviðs sig til og fóru í göngutúr um Melahverfið sem endaði í tónleikum leikskólakórsins í stjórnsýsluhúsinu og krítarlistaverkum barnanna á stéttina fyrir framan húsið.


Afurð orkuþemavinnu beggja sviða í janúar fékk farsæla lendingu í glæsilegri sýningu sem opnuð var 13. febrúar í stjórnsýsluhúsinu við Innrimel.


Erfitt ástand myndaðist við lækinn á skólalóð grunnskólans í leysingum. Brugðist var skjótt við og framkvæmdir voru settar af stað í febrúar á skólalóðinni til að bæta öryggismál.


Öskudagur á leikskólasviði var haldinn með hefðbundnu sniði. Margir komu í búningi eða náttfötum og kötturinn var sleginn úr tunnunni og haldið öskudagsball. Síðan var borðað popp og horft á mynd. Mikið fjör.

Nemendur í 8. – 10. bekk tóku þátt í rannsókninni Ungt fólk. Nemendur svöruðu alls kyns spurningum sem taka á atferli, líðan og högum nemenda. Niðurstöður verða kynntar þegar þær liggja fyrir.


Stærðfræðidagurinn var í febrúar og unnu elstu börnin á leikskólasviði stærðfræðiverkefni úti.
Vetrarfrí var 22. – 24. febrúar á grunnskólasviði.


Fablab kynning var haldin 16. febrúar fyrir grunnskólana á Akranesi og grunnskólann í Hvalfjarðarsveit. Einn fulltrúi frá grunnskólasviði fór á kynningarfund. Spennandi möguleikar í samstarfi við Fablab á Akranesi fyrir áhugasama kennara


4.Mánaðarskýrsla skólastjóra fyrir mars 2012


Undankeppni Stóru Upplestrarkeppni 7. bekkinga var haldin fimmtudaginn 1. mars. Allir nemendur 7. bekkjar grunnskólasviðsins tóku þátt og stóðu sig með mikilli prýði.


Fyrstu helgina í mars fóru nemendur, foreldrar og starfsfólk frá báðum sviðum skólans saman í leikhúsferð í Þjóðleikhúsið. Foreldrafélögin unnu vel saman og eiga hrós skilið fyrir framtakið.


Nemendur frá grunnskólasviði tóku þátt í Skólahreysti og voru skólanum til sóma. Eftir keppnina fóru allir saman, keppendur og klapplið og fengu sér pizzu saman á veitingarstað áður en haldið var heim. Mikil og góð stemning.

Hálfur starfsdagur var á leikskólasviði í mars og var hann notaður til að fara yfir umhverfisverkefni leikskólans og dagana framundan en skólinn er búinn að sækja um sinn annan Grænfána og verður úttekt á umhverfisstarfi skólans í júní. Slökkviliðið kom einnig í heimsókn og hélt stuttan fyrirlestur og æfðu starfsmenn sig síðan í notkun slökkvitækja.


Starfsmannasamtöl fyrir skipulag næsta árs kláruðust í mars.


14. mars fengum við tónlistarmenn frá verkefninu Tónlist fyrir alla í grunnskólann. Þeir höfðu á orði að þeir hafi sjaldan hitt nemendur sem hafi kunnað jafn mikið í söngtexta lags sem þau spiluðu, og því augljóst að morgunsöngurinn er að skila sér vel inn í skólamenninguna.


Lítils háttar breyting varð í þessum mánuði á byrjun dagsins hjá nemendum á grunnskólasviði, þannig að nú er á mánudögum farið yfir þá þætti í Uppbyggingarstefnunni sem verið er að vinna með hverju sinni í skólastarfinu. Frá þriðjudegi fram á föstudag er eftir sem áður sungið í byrjun dags. Þetta fyrirkomulag virðist hafa mjög jákvæð áhrif á skólabraginn.


Nemendur 10. bekkjar tók þátt í alþjóðlegru PISA könnuninni og 10. bekkur fór einnig í kynnisferð í FVA. Námsráðgjafi frá FVA kom einnig í heimsókn og hitti nemendur í 9. og 10. bekk.


Sameiginlegur vinnufundur umhverfisráða leik- og grunnskólasviðs var haldinn um miðjan mánuðinn. Börnin fengu að planta fræjum og hugsuðu síðan um þau þar til þau voru farin að koma upp.

Í febrúar og mars vann Sara Margrét, leikskólakennari, verkefni tengt námi sínu í leikskólanum. Unnið var með aðferðarfræði könnunaraðferðarinnar um Hestinn. Tveir elstu árgangarnir tóku þátt í verkefninu sem tókst í alla staði mjög vel. Verkefninu lauk með heimsókn á Kúludalsá þar sem börn og foreldrar lærðu að sinna hestum og fengu að fara á bak.


Í mars barst ábending frá foreldri um góðan tóbaks forvarnarfyrirlestur frá Landlæknisembættinu. Við fengum út frá því frábæran fyrirlestur á grunnskólasviðið um reykinga- og tóbaksvarnir, bæði fyrir nemendur 6. – 10. bekkja sem og símenntunarfyrirlestur í þessum fræðum fyrir kennara í leiðinni.


Foreldraviðtöl voru á leikskólasviði í mars og er áberandi mjög jákvætt viðhorf foreldra til leikskólans. Mikil ánægja er almennt með starfið og börnunum líður vel í leikskólanum hjá okkur.


Töluverð forföll hafa verið hjá starfsfólki vegna veikinda og veikinda barna í mars.


Fimmtudaginn 22. mars var haldin glæsileg árshátíð á grunnskólasviði. Frumsamið leikrit með söng og hljóðfæraleik var flutt af nemendum við mikinn fögnuð áheyrenda, en rétt um 200 manns mættu á viðburðinn.

Mánudaginn 26. mars var svo úrslitakeppni samstarfsskólanna á Vesturlandi haldin í Stóru Upplestrarkeppninni í sal grunnskólans. Forsvarsmenn keppninnar töluðu sérstaklega um góða aðstöðu og undirbúning af hendi starfsmanna og nemenda. Það er ánægjulegt að sjá að hægt er að halda slíka viðburði í skólanum okkar.

Á sameiginlegum starfsmannafundi leik- og grunnskóla í mars kynnti fulltrúi frá starfshópi sveitarfélagsins og fór yfir með fundarmönnum siðareglur skólafólks, sem verið er að vinna fyrir sveitarfélagið. Mikil og góð umræða varð um ýmsa þætti og orðalag siðareglnanna.


Í lok mánaðarins bauð 10. bekkur eldri borgurum sveitarfélagsins í skoðunarferð um nýju skólabyggingu grunnskólasviðsins og girnilegar kaffiveitingar að því loknu. Fyrr í mánuðinum höfðu sömu nemendur haldið veglegt Bingó fyrir íbúa sveitarfélagsins. Þessir viðburðir eru liður í fjáröflun 10. bekkinga fyrir námsferð til Danmerkur í apríl, en fjáröflun þeirra og undirbúningur hefur sannarlega sett jákvæðan svip á skólastarfið í vetur.


5.Skóladagatal grunnskólasviðs 2012-2013.


Fræðslu- og skólanefnd samþykkir fram lagt skóladagatal. Nefndin tekur undir með skólaráði grunnskólasviðs og foreldraráði leikskólasviðs að það sé í lagi
að hafa óhefðbundna daga og keyra heim fyrr ef það er kynnt vel og með góðum fyrirvara.

6.Drög að skólastefnu.


Lagt til kynningar og umræður.


7.Drög að siðareglum starfsfólks sameinaðs leik- og grunnskóla Hvalfjarðarsveitar.


Fræðslu- og skólanefnd fagnar tilkomu þessara reglna og samþykkir drögin.
Umræður.


8. 2. Fundur skólaráðs grunnskólasviðs og foreldraráðs leikskólasviðs. Dags. 10.4.2012.


Formaður fór yfir fundargerðina.


Við 1. lið þriðja máls er skipulags- og byggingafulltrúa falið að finna viðeigandi ráðstafanir varðandi umferð og öyggismál í nágrenni grunnskólasviðs í samráði við skólastjóri.


Í 2. lið fundargerðar er svo hljóðandi tillaga að sameiningu skólaráðs grunnskólasviðs og foreldraráðs leikskólasviðs.

Í skólaráði sitji 12 fulltrúar, skipt á eftirfarandi hátt:
Skólastjóri
1 fulltrúi foreldra leikskólasviðs
2 fulltrúar foreldra grunnskólasviðs – annar þeirra úr stjórn foreldrafélags
1 fulltrúi kennara á leikskólasviði
2 fulltrúar kennara á grunnskólasviði
1 fulltrúi alm. starfsmanna á leikskólasviði
1 fulltrúi alm. starfsmanna á grunnskólasviði
2 fulltrúar nemenda
1 fulltrúi grenndarsamfélags


Allir fulltrúar finni sér varamann og eru ábyrgir fyrir því að kalla hann til komist þeir ekki á fund ráðsins. Fundir séu áætlaðir tvisvar á önn og fundargerðir sendar til fræðslu- og skólanefndar og á vef skólans. Leitast verði eftir því að fá fólk í ráðið á vorin, þannig að hún verði starfhæf fljótlega á haustönninni.


Fræðslu- og skólanefnd samþykkir ofangreinda tillögu.


9. 24.fundur foreldrafélags Heiðarskóla. Dags. 8.febrúar 2012


Formaður fór yfir fundargerðina.


10.Opnunartími Heiðarborgar. Erindi frá foreldrafélagi Heiðarskóla

Fræðslu- og skólanefnd samþykkir tillögu foreldrafélags um að hafa Heiðarborg opna frá kl. 14:30 einn dag í viku út maímánuð með fyrirvara um að fjármagn fáist.


11.Ungmennaþing 2012. Skýrsla frá ungmennaráði Hvalfjarðarsveitar.


Formaður greindi frá fundi sveitarstjórnar og ungmennaráðsins 10.apríl s.l.
Fræðslu- og skólanefnd biður um að skýrslunni verði vísað til kynningar í öðrum nefndum sveitarfélagsins.
Fræðslu- og skólanefnd vísar því til skipulags- og byggingafulltrúa að fara yfir hvort eitthvað af atriðum skýrslunnar rúmist innan fjárheimilda þessa árs. Nefndin leggur áherslu á að fótboltamörk sveitarfélagsins verði yfirfarin.


12.Sögusetur íslenskrar skólamenningar. Innsent erindi.


Fræðslu- og skólanefnd líst vel á hugmyndina og leggur til að erindinu verði vísað í hugmyndabanka um nýtingu gamla skólahúsnæðisins.


13.Velferðarvaktin félagsvísar. Skýrsla lögð fram.

14.Önnur mál.


Umsókn um námsleyfi. Katrín Rós Sigvaldadóttir.
Umsókn um námsleyfi. Íris Dröfn Kristjánsdóttir.


Fræðslu- og skólanefnd samþykkir námsleyfin fyrir sitt leiti. Nefndin telur jákvætt að kennarar afli sér viðbótar menntunar.


Mánaðarskýrsla skóla


Rætt var um að sleppa því að birta mánaðarskýrslu skóla í fundargerð fræðslu- og skólanefndar. Mánaðarskýrslan verður birt á heimasíðu skólans og send til foreldra í gegnum Mentor. Nefndin var sammála þessu þar sem áhersla er lögð á að mánaðarskýrslan sé sýnileg.

Fyrirspurn var um hvort samráðsnefnd um sameinungu skólanna ætti að hittast eins og rætt var um í sl. vor. Fræðslu- og skólanefnd mun athuga það.

 

Fundi slitið kl. 20:00

Arna Arnósdóttir
Birna María Antonsdóttir
Bjarni Jónsson
Hlynur Sigurbjörnsson
Valgerður Jóna Oddsdóttir sem ritar fundargerð.

Efni síðunnar