Fræðslu- og skólanefnd 2009-2014
Birna María Antonsdóttir, Bjarni Jónsson, Hlynur Máni Sigurbjörnsson, Valgerður Jóna Oddsdóttir og Arna Arnórsdóttir sem ritar fundargerð.
Auk þeirra Samúel Þorsteinsson fulltrúi kennara grunnskólasviðs, Þórdís Þórisdóttir fulltrúi kennara leikskólasviðs og Dagný Hauksdóttir fulltrúi foreldra grunnskólabarna.
Ingibjörg Hannesdóttir skólastjóri og Guðný Kristín Guðnadóttir fulltrúi foreldra leikskólasviðs boðuðu forföll
1. Setning fundar.
Formaður setur fundinn og býður fólk velkomið.
2. Fundargerð 75. fundar fræðslu- og skólanefndar dags. 6. október 2011.
Formaður fer yfir fundargerð 75. fundar og hún undirrituð.
3. Fundargerð 1. fundur ungmennaráðs Hvalfjarðarsveitar dags. 13.10.2011.
Formaður fer yfir fundagerðina.
4. Fundargerð 1. fundur vinnunefndar um forvarnarstefnu Hvalfjarðarsveitar dags. 10.10.2011.
Formaður fer yfir fundargerðina.
5. Fundargerð 2. fundur vinnunefndar um forvarnarstefnu Hvalfjarðarsveitar dags. 17.10.2011.
Formaður fer yfir fundargerðina.
6. Mánaðarskýrsla skólastjóra fyrir október 2011.
Október fór vel af stað, skólastarfið allt komið á fullt skrið. Föstudaginn 7. október var starfsdagur í grunnskólanum, sem nýttist vel í undirbúningsvinnu við skólanámskrárgerð, auk þess sem kennarar fóru á kennararáðstefnu og skólastjóri á skólastjóraráðstefnu á Akranesi e.h. Viku síðar, eða 14. október, var hálfur starfsdagur í leikskólanum sem fór í undirbúning foreldraviðtala sem svo fóru fram dagana 17. – 19. október. Foreldraviðtölin og gengu mjög vel. Í stuttu máli þá eru foreldrar mjög ánægðir með leikskólann og leikskólastarfið og börnunum líður vel og þá er stærstu markmiðum okkar náð.
9. bekkingar í grunnskólanum fóru í skólabúðir á Laugum vikuna 17. – 21. október. Ferðin var í alla staði mjög vel heppnuð.
Annar sameiginlegur starfsmannafundur sameinaðs leik- og grunnskóla fór fram 18. október. Hann byrjaði á kynningu Þórdísar Þórisdóttur á leikskólasviði skólans í stjórnsýsluhúsinu. Síðan var farið yfir í leikskólann og þar fundu starfsmenn barnið í sjálfum sér og léku sér um stund við opinn efnivið. Fundurinn endaði svo á ljúffengri súpu. Eftir fundinn var blásið til aðalfundar starfsmannafélaganna, þar sem ákveðið var að sameina starfsmannafélög leik- og grunnskóla og annarra fastra starfsmanna sveitarfélagsins í eitt starfsmannafélag, starfsmannafélag Hvalfjarðarsveitar. Fyrsti sameiginlegi viðburður starfsmanna Hvalfjarðarsveitar var svo haldin í Fannahlíð 21. október við mikinn fögnuð viðstaddra.
Vinna við nafnasamkeppnina var í fullum gangi allan mánuðinn, og sjá mátti umræður barnanna um sveitina sína og ýmis verkefni henni tengd í hverju horni.
Í leikskólanum hafa hópar verið að vinna í markvissu hópastarfi að hinum ýmsu verkefnum. Einn hópur er að rannsaka kisur, annar að rannsaka vatn og sá þriðji vinnur verkefnið ,,fjölskyldan mín“. Á yngri deild hefur verið farið í gönguferðir og safnað náttúruefnum til að föndra með.
Í lok mánaðarins byrjaði nýr starfsmaður hjá okkur á leikskólasviði, Björg Reehaug Jensdóttir. Björg er menntuð í uppeldis- og menntunarfræðum og er einnig með mikla menntun og reynslu varðandi vinnu með ADHD börnum.
Tvö ný börn byrjuðu á leikskólasviði og eitt á grunnskólasviði.
Starfsmenn skólans hafa nær allir nýtt sér tilboð um skyndihjálparnámskeið sem sveitarfélagið bauð upp á í október og haldið var í nýja grunnskólahúsnæðinu, enda brýnt að þeir sem starfa svo mikið með börnum hafi fyrstu hjálp á valdi sínu.
Tveir starfsmenn á leikskólasviði fóru á tveggja daga námskeið um atferlismótun hjá greiningarstöðinni. Tveir starfsmenn fóru einnig á kynningu á atferlismótun sem haldin var í leikskólanum Teigarseli á Akranesi.
Foreldrum 1. bekkja hefur verið boðið að koma í heimsókn til okkar og fylgja 1. bekknum einn dag hvert, til kynningar á skólastarfinu. Margir foreldrar hafa undanfarið nýtt sér það og er gaman að sjá foreldra sem hluta af daglegu starfi skólans á þennan hátt.
Nemendur 10. Bekkja fengu afhendar einkunnir úr samræmdum prófum, en 4. og 7. bekkjar einkunnir eru nýkomnar og voru sendar foreldrum í pósti nú fyrir stuttu.
Árleg fjögurra ára skoðun fór svo fram í leikskólanum mánudaginn 31. október.
Á yngri stigum skólans var haldið var upp á alþjóðlega bangsadaginn sem var 27. október. Margir bangsar fengu að koma með í skólann þann daginn.
Enn eru mikilar fjarvistir starfsmanna á leikskólasviði vegna veikinda starfsfólks og barna starfsfólks. Inga Bryndís, Elín Guðrún og Sigríður Vilhjálms hafa komið inn til okkar á miklum álagsdögum og hjálpað til. Það fyrirkomulag hefur gengið vel enda þaulvanar konur þar á ferð. Helga frá Skorholti hefur þá leyst af á grunnskólasviðinu. Þannig hefur sameiningin komið vel út varðandi möguleika á hreyfanleika starfsfólks milli sviða. Starfsfólk sem hefur verið mjög jákvætt og verið tilbúið í að vera sveigjanlegt hvað þetta á mikið hrós skilið.
Fimmtudagsheimsóknir leikskólabarna í grunnskólann hafa gengið framar vonum. Allir glaðir með það fyrirkomulag, bæði starfsmenn og börn. Einn fimmtudaginn fóru svo 1. bekkingar í heimsókn í leikskólann með kennurunum úr grunnskólanum, sem ekki var síður gaman fyrir alla. Starfsfólk leikskólasviðs hafði á orði að það væri frábært að sjá hversu mikið börnin hefðu þroskast á þeim stutta tíma sem þau hafa verið í grunnskóla.
Skólastjóri
7. Umsókn um undanþágu á reglu um lágmarksaldur við inntöku barns á leikskólasvið. Dags. 24.10.2001.
Bókun: Fræðslu- og skólanefnd samþykkir fyrir sitt leiti þessa beiðni þar sem ekkert dagforeldri er starfandi í sveitarfélaginu. Vistun getur hafist í samráði við skólastjórnendur.
8. Tónlistarkennsla í Hvalfjarðarsveit. Tillaga frá 114. fundi sveitarstjórnar.
Við, undirrituð, leggjum til við sveitarstjórn og fræðslu- og skólanefnd að hefja undirbúning að útfærslu á markvissri tónlistarkennslu í Hvalfjarðarsveit, með áherslu á leikskóla og yngsta stig grunnskóla. Unnið verði að greiningu, mögulegum útfærslum, kostnaði og öðrum þáttum sem lúta að markvissu tónlistarnámi í samstarfi við foreldra, Tónlistarskólann á Akranesi og aðra aðila eftir atvikum. Skoðaður verði möguleikinn á því að koma markmiðum í tónlistarkennslu í skólastefnu Hvalfjarðarsveitar, sem nú er í endurskoðun.
Hallfreður, Arnheiður og Stefán.
Bókun BMA: Eins og ég greindi frá á 112. fundi sveitarstjórnar er þessi vinna núþegar hafin því furða ég mig á tímasetningu þessarar tillögu.
Bókun: Fræðslu- og skólanefnd leggur á það áherslu að þegar er hafin vinna við að finna leiðir til að auka tónlistarkennslu í sveitarfélaginu. Formaður fræðslu- og skólanefndar, fulltrúi sveitarfélagsins í stjórn tónlistarskólans, skólastjóri og sveitarstjóri fylgja vinnuferlinu eftir.
9. Erindisbréf fræðslu- og skólanefndar.
Fræðslu- og skólanefnd samþykkir framlögð drög með áorðnum breytingum.
10. Íþróttastyrkjareglur Hvalfjarðarsveitar.
Fræðslu- og skólanefnd endurstaðfestir íþróttastyrkjareglurnar frá því í nóvember í fyrra með áorðnum breytingum.
11. Mannauðsstefna Hvalfjarðarsveitar.
Lagt fram til umræðu.
Bókun: Fræðslu- og skólanefnd vill skoða mannauðsstefnuna betur.
12. Skólavogin.
Til umræðu.
Bókun: Fræðslu- og skólanefnd telur ekki tímabært að vera aðili að Skólavoginni að svo stöddu þar sem margar breytingar eru í skólamálum hjá okkur þessi misserin.
13. Ungt fólk 2011 5.-7. bekkur.
Lagt fram.
14. Stefnumótun mennta- og menningarmálaráðuneytis í íþróttamálum.
Lagt fram.
15. Önnur mál.
Umræða um fjárhagsáætlunargerð.
Þ.Þ sagði frá fundi fulltrúaráðs FVA.
Bókun: B.M.A vill að fram komi að láðst hefur að boða hana á fundi fulltrúaráðsins en bæði hún og Þórdís eiga sæti fyrir hönd sveitarfélagsins í fulltrúaráðinu.
Öryggismál á skólalóð
Bókun: Fræðslu-og skólanefnd vill að öryggi nemenda sé tryggt vegna hættu sem getur skapast í rigningu/leysingum þegar mikið vatnsmagn safnast í
tjörn á skólalóð og hvetur sveitarstjóra til að sjá til þess að svo verði.
D.H greindi frá fundi foreldrafélags grunnskólasviðs.
16. Nafnasamkeppni um nýtt nafn á skóla Hvalfjarðarsveitar.
TRÚNAÐARMÁL.
Fundi slitið kl. 20:00
Birna María Antonsdóttir
Bjarni Jónsson
Hlynur Máni Sigurbjörnsson
Valgerður Jóna Oddsdóttir
Arna Arnórsdóttir sem ritar fundargerð