Vinsamleg ábending og tilmæli
Starfsfólk í stjórnsýsluhúsi Hvalfjarðarsveitar var með árlega vortiltekt sl. föstudag þar sem hreinsað var rusl í nánasta umhverfi hússins og undirbúningur sumarsins hafinn. Árangur tiltektarinnar var m.a. sex fullir ruslapokar en þ.m.t. voru ótal nikótínpúðar sem tíndir voru í kringum körfuboltavöllinn og ærslabelginn á Vinavelli.
Íbúar og gestir eru minntir á að það eru börn á öllum aldri auk ungmenna sem hafa gleði af leik á svæðinu og því er miður að einstaklingar skuli henda nikótínpúðum, sem og öðru rusli, á svæðinu.
Það eru vinsamleg tilmæli að fólk hendi hvorki nikótínpúðum eða öðru rusli á víðavangi eða við leiktæki og leiksvæði barna og ungmenna. Á Vinavelli má finna sorptunnu við grillskála svæðisins og á næstunni mun bætast við sorpílát nær körfuboltavelli og ærslabelg.
Biðlað er til íbúa og gesta að nýta sorpílát og halda svæðinu hreinu, öllum til sóma.
Ábendingin á jafnt við almennt um önnur svæði, göngum vel um landið okkar, sýnum gott fordæmi og verum umhverfisvæn og græn.
Gleðilegt sumar.