Viljayfirlýsing undirrituð um skammtímavistun á Vesturlandi
Miðvikudaginn 3. desember sl. var undirrituð viljayfirlýsing um uppbyggingu skammtímavistunar á Vesturlandi. Verkefnið er samstarf sveitarfélaga á svæðinu og Þroskahjálpar á Vesturlandi. Að viljayfirlýsingunni standa Hvalfjarðarsveit, Borgarbyggð, Dalabyggð, Stykkishólmur, Snæfellsbær og Grundarfjarðarbær.
Markmið viljayfirlýsingar er að sameina krafta sveitarfélaganna við þróun og stofnun skammtímavistunarúrræðis á Vesturlandi.
Með því er stefnt að öruggu og aðgengilegu úrræði sem mætir þörfum fatlaðra barna og fjölskyldna þeirra á svæðinu.
Með undirritun lýsa sveitarfélögin yfir sameiginlegum vilja til áframhaldandi vinnu við að greina þörf, skipuleggja þjónustu og útfæra úrræðið í nánu samstarfi við Þroskahjálp og aðra hagsmunaaðila.
Viljayfirlýsingin markar mikilvægan áfanga í eflingu þjónustu við fatlað fólk á Vesturlandi og sýnir skýran vilja sveitarfélaganna til að vinna saman að sterkari og aðgengilegri velferðarþjónustu.