Fara í efni

Útskrift SES skilnaðarráðgjafa

Mánudaginn 28. júní 2021 var hópur SES (Samvinna eftir skilnað) skilnaðarráðgjafa útskrifaður við hátíðlega athöfn. Fulltrúar félagsmálaráðuneytisins, þar á meðal Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra, voru viðstaddir og afhentu útskriftarskírteini. Sólveig Sigurðardóttir félagsmálastjóri Hvalfjarðarsveitar hlaut starfsleyfi sem SES skilnaðarráðgjafi, en Hvalfjarðarsveit hefur tekið þátt í tilraunaverkefni SES frá áramótum ásamt sjö öðrum sveitarfélögum. Samvinna hefur verið á milli Hvalfjarðarsveitar og Akraneskaupstaðar í þessu verkefni.

SES er annars vegar rafrænn fræðsluvettvangur fyrir foreldra í skilnaðarferli og hins vegar sérhæfð skilnaðarráðgjöf á vegum félagsþjónustu sveitarfélaga. Verkefninu hefur verið vel tekið af foreldrum og samstarfsaðilum og talið nýtast vel til að draga úr ágreiningi milli foreldra og auka vellíðan og öryggi barna. Næsta árið er stefnt að því að SES verði aðgengilegt fyrir alla foreldra í skilnaðarferli á Íslandi.

Foreldrar barna sem standa í skilnaðarferli eða hafa áður slitið samvistum eru hvattir til að nýta sér þetta úrræði. Einnig nýtist úrræðið vel fyrir þá foreldra sem búa ekki saman en hafa það að markmiði að draga úr ágreiningi sín á milli við uppeldi barns síns.

 Nánari upplýsingar um SES : https://www.hvalfjardarsveit.is/is/thjonusta/felags-og-velferdarmal/samvinna-eftir-skilnad-1