Fara í efni

Unnið að viðhaldi gönguleiðarinnar að Glym

Undanfarna viku hafa þeir Unnsteinn Elíasson og Grétar Jónsson unnið að lagfæringum á gönguleiðinni að fossinum Glym í Botnsdal. Eins og flestir vita, þá er Glymur í Botnsá hæsti foss landsins um 198 metra hár og vegna stórbrotinnar náttúru eru vinsældir hans miklar. Á síðasta ári kom Ferðamálastofa fyrir teljara sem sýnir að í júnímánuði gengu tæplega 6000 manns að fossinum. Það er því mikið álag á þessari gönguleið, sem er bæði nokkuð löng og krefjandi.

Í apríl sl. úthlutaði Framkvæmdasjóður ferðamannastaða 550 milljónum til 28 verkefna víðs vegar um landið. Glymur í botni Hvalfjarðar fékk úthlutað 5,9 milljónum til stígagerðar, náttúruverndar og öryggismála. Unnin hefur verið öryggisáætlun fyrir svæðið og í sumar er áherslan lögð á viðhald og endurbætur á gönguleiðinni, með það að markmiði að vernda viðkvæma náttúru og auka öryggi þeirra sem á svæðið koma.

Í vikunni hafa þeir Grétar og Unnsteinn annars vegar lagt áherslu á stíginn niður úr Þvottahelli, útbúið þar steinþrep og hreinsaði til í stígnum að drumbinum sem liggur yfir ána að sumarlagi. Hins vegar hafa þeir unnið að drenlögn og þrepagerð austan við Botnsá, upp svokallaða Mjóutungu en þar eru afar erfiðar aðstæður m.t.t. aðfanga, þrengsla, mývargs og umferðar gangandi vegfarenda.

Síðar í sumar er von á vöskum hópi frá Umhverfisstofnun sem tekur að sér önnur verkefni á svæðinu en gönguleiðin er í heild sinni um 8 km sé farinn hinn vinsæli hringur, upp gljúfrið að austanverðu og niður svokallaðan Svartahrygg.

Myndir má sjá hér: