Umhverfisdagur 2025
Skýjaborg hélt upp á Dag umhverfisins þann 23. apríl sl. Börn og starfsfólk fóru út og hreinsuðu til í nærumhverfinu með því að tína rusl. Öll voru áhugasöm og dugleg. Var ruslið síðan flokkað og hent í viðeigandi ruslatunnur. Ánægja var að hverfið okkar er frekar hreint en nokkuð mikið var um nikótínpúða. Okkur þykir miður að fólk skuli henda slíkum púðum út í náttúruna sem geta verið stórhættulegir ungum börnum og dýrum.
Heiðarskóli hélt upp á Dag umhverfisins 25. apríl sl. og af því tilefni fór skólastarfið í Heiðarskóla alfarið fram undir berum himni. Skólabílarnir óku að þessu sinni nemendum í Krossland í Hvalfjarðarsveit þar sem boðið var upp á morgunverð. Eftir morgunverð hófu nemendur og starfsmenn fjöruhreinsun á Innnesinu. Töluvert mikið magn af rusli fannst og það var tínt saman og skilið eftir í þremur hrúgum. Landeigandi ætlar síðan að vera okkur innan handar við að koma ruslinu á móttökustöð og Hvalfjarðarsveit sér um að greiða kostnað varðandi það. Heiðarskóli þakkar bæði landeiganda og Hvalfjarðarsveit fyrir samstarfið í þessu mikilvæga verkefni. Eftir fjöruhreinsun fór hópurinn í Miðgarð og fékk grillaða hamborgara fyrir heimkeyrslu. Nemendur stóðu sig ótrúlega vel í hreinsuninni og göngunni þrátt fyrir smá vætu af og til.
Hér má sjá myndir frá viðburðunum: