Fara í efni

Tónleikar í Innra-Hólmskirkju.

Sunnudaginn 16. september nk., á Degi íslenskrar náttúru, verða haldnir tónleikar í Innra-Hólmskirkju.

 

Það eru þau Laufey Sigurðardóttir fiðluleikari og Páll Eyjólfsson gítarleikari sem flytja tónverk frá barokk tímanum og til okkar daga.

 

Það er listafélagið Kalman sem stendur fyrir tónleikunum. Á næstu misserum munu fara fram tónleikar í kirkjunni þar sem allur aðgangseyrir mun renna í viðahaldssjóð kirkjunnar. Viðhaldi kirkjunnar hefur verið verulega ábótavant svo áratugum skiptir og eru komandi tónleikar liður í því að safna í sjóðinn.

 

Innri-Hólmur í Hvalfjarðarsveit er einn elsti kirkjustaður á landinu. Segir í Landnámu að þar hafi verið reist kirkja nokkuð fyrir kristnitöku árið 1000. Vitað er að þar var kirkja þegar tíundarlög voru sett árið 1096. Kirkjan sem nú stendur í Innra-Hólmi var vígð árið 1892. Henni hefur verið valinn staður á fallegum stað og hefur kirkjan og umhverfi hennar verið afar vinsælt myndefni í gegnum tíðina. Inni í kirkjunni er afar góður hljómburður og má segja að hún sé afar heppileg undir tónleikahald. 

 

Tónlistarfólkið, Laufey og Páll, hafa starfað saman frá árinu 1986. Þau hafa haldið tónleika víðs vegar um landið sem og erlendis og gert upptökur fyrir útvarp og sjónvarp. Samspil þeirra er rómað fyrir fágun og glæsileika og það er ekki vafi, að efnisskrá þeirra mun hljóma vel í Innra-Hólmskirkju.

 

Tónleikarnir hefjast kl. 16 og verða um klukkustundar langir. Aðgangseyrir kr. 2.500 og rennur óskiptur í viðhaldsjóð Innra-Hólmskirkju eins og áður sagði. 

Heitt verður á könnunni og nýbakaðar kleinur í boði, eftir tónleika.

 

Það er því tilvalið að njóta íslenskrar náttúru og sækja tónleika á sögufrægum og fallegum stað.